Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2020
Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2020 liggur fyrir. Uppgjörið í heild sinni er aðgengilegt á vefsíðu Fjársýslu ríkisins.
Rekstrarafkoman án afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 168 ma.kr. sem er í samræmi við væntingar að teknu tilliti til áhrifa heimsfaraldurs Covid-19.
Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á útgjöld og tekjur ríkisins og afkomu ríkissjóðs á árinu. Brugðist hefur verið við áhrifunum með ýmsum aðgerðum og leitað eftir heimildum vegna þess með afgreiðslu Alþingis á fernum fjáraukalögum og er frumvarp að þeim fimmtu til meðferðar. Viðbótarkostnaður vegna Covid-19 er að miklu leyti kominn fram og áætlanir ríkisaðila hafa verið uppfærðar.
Helstu niðurstöður uppgjörsins eru í samanburði við árið 2019:
Allar tölur eru í millj. kr.
Raun 2020 | Raun 2019 | Frávik | |
---|---|---|---|
Tekjur samtals | 536.222 | 589.672 | -53.449 |
Gjöld samtals | 667.274 | 575.817 | -91.458 |
Tekjur umfram gjöld | -131.052 | 13.855 | -144.907 |
Tekjur voru 536 ma.kr. og lækkuðu um 53 ma.kr. eða 9% á milli ára. Þar af skýrist 11 ma.kr. lækkun af frestuðum skatttekjum vegna heimsfaraldurs. Tekjuskattur einstaklinga lækkaði um 10 ma.kr., virðisaukaskattur um 35 ma.kr. og tryggingagjald um 8 ma.kr. á milli ára. Breytingar á tekjuflokkum á milli ára koma fram í meðfylgjandi töflu:
Gjöld tímabilsins voru 667 ma.kr. sem er hækkun um 91 ma.kr. eða 16% frá árinu 2019. Hækkunin skýrist af áhrifum af og viðbrögðum við Covid-19. Mestu hækkun málaflokka án fjármagnsgjalda má sjá í meðfylgjandi töflu:
Málaflokkar Jan Sep 2020 mesta breyting frá fyrra ári | Breyting (m.kr.) | Br. % |
---|---|---|
3010 - Vinnumál og atvinnuleysi | 49.685 | 247% |
3330 - Lífeyrisskuldbindingar | 9.782 | 57% |
2310 - Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta | 5.200 | 9% |
2910 - Barnabætur | 3.331 | 38% |
3110 - Húsnæðisstuðningur | 2.975 | 36% |
2510 - Hjúkrunar- og dvalarrými | 2.548 | 8% |
2610 - Lyf | 2.543 | 17% |
2720 - Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, örorka | 2.278 | 16% |
1110 - Samgöngur | 2.074 | 11% |
Aðrir helstu þættir sem fram koma í uppgjörinu eru:
- Fjármagnsjöfnuður tímabilsins var neikvæður um tæpa 37 ma.kr. sem er 8 ma.kr. neikvæð breyting frá 2019. Fjármagnstekjur voru 46 ma.kr. og lækka um 38 ma.kr milli ára. Fjármagnsgjöld voru 82 ma.kr. og lækkuðu um 46 ma.kr. Hvorutveggja skýrst að stærstum hluta af gengismun.
- Eignir ríkissjóðs námu í lok september samtals 2.309 ma.kr, skuldir samtals námu 2.029 ma.kr. og eigið fé nam 280 ma.kr.
- Handbært fé í lok september var 275 ma.kr., sem er hækkun um 34 ma.kr. Rekstrarhreyfingar voru neikvæðar um 105 ma.kr., fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 30 ma.kr og fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 168 ma.kr.
- Staða langtímalána nam alls 867 ma.kr. í lok september 2020 og hækkaði um 117 ma.kr. frá ársbyrjun. Breytinguna má að mestu leyti rekja til útgáfu innlendra ríkisbréfa sem gefin voru út til að fjármagna fyrirséðan halla ríkissjóðs á næstu misserum
- Fjárfestingar tímabilsins námu 30 ma.kr. sem er hækkun um 23 ma.kr. frá sama tímabili árið 2019 eða 28% hækkun milli ára. Fyrr á árinu var veitt 18 ma.kr. framlag á fjáraukalögum í sérstakt fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar. Stærsti málaflokkurinn í fjárfestingum er málefnasviðið Samgöngur, með fjárfestinguum 21 ma.kr. á tímabilinu sem er hækkun um 6 ma.kr. frá fyrra ári.
Sundurliðun á tekjum ríkis og gjöldum niður á málefnasvið, málaflokka og ríkisaðila kemur fram í mánaðaruppgjöri sem Fjársýsla ríkisins birtir.