Embætti forstjóra Samgöngustofu auglýst laust til umsóknar
Innanríkisráðuneytið auglýsir embætti forstjóra Samgöngustofu laust til umsóknar. Umsóknarfrestur er til 22. júní og skal skila umsóknum skal skila á netfangið [email protected].
Samgöngustofa tók til starfa þann 1. júlí 2013 við flutning á stjórnsýslu- og eftirlitsverkefnum Flugmálastjórnar, Siglingastofnunar, Umferðarstofu og Vegagerðar í nýja stofnun sem fer með stjórnsýslu samgöngumála og annast eftirlit með samgöngugreinum.
Í auglýsingu um embættið segir að forstjóri Samgöngustofu stýri stofnuninni og beri ábyrgð á rekstri hennar, þjónustu og árangri. Forstjóri skal hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi og búa yfir góðri reynslu af stjórnun og rekstri og hafa góða samskiptafærni. Reynsla af alþjóðasamstarfi er kostur, sem og reynsla af sameiningum fyrirtækja eða stofnana. Leitað er eftir einstaklingi sem hefur leiðtogahæfileika, er framsýnn í hugsun, hefur góða þekkingu eða reynslu af stefnumótun, hefur sýnt hæfni í samskiptum og samvinnu og hefur metnað til að ná árangri í þágu almennings og atvinnulífs. Konur jafnt sem karlar eru hvött til að sækja um embættið.
- Sjá auglýsingu á starfatorg.is