Heimur þar sem allir búa að sömu tækifærum er takmarkið
Fundarstjóri, góðir gestir.
Ár jafnra tækifæra. Hljómar vel. Hljómar sjálfsagt. Þegar rætt er um að allir skuli njóta jafnréttis, hafa sömu tækifæri, dettur engum – eða ætti ég að segja fáum – í hug að mótmæla. Engu að síður fer því fjarri að á okkar dögum hafi allir jöfn tækifæri til að njóta sín að verðleikum. Fordómar og mismunun eru daglegt brauð og birtingarmyndirnar eru með ýmsum hætti. Fólk er drepið vegna þess að það tilheyrir ekki réttum trúflokki. Fólk sætir ofsóknum vegna kynhneigðar sinnar. Fólki er mismunað vegna fötlunar og sjúkdóma. Fólk er dregið í dilka eftir því hvernig það er á litinn. Hvergi í heiminum sitja konur við sama borð og karlar. Frá náttúrunnar hendi er sáralítill munur á fólki. Ef litið er á erfðamengi mannsins er hann vart merkjanlegur – mun minni en útlitsmunur gefur til kynna. En tilhneiging mannsins til að óttast það óþekkta, ofsækja það sem er framandi, hefur leitt til einhverra ógeðfelldustu glæpa mannkynsögunnar. Fordómar og mismunun heyra ekki fortíðinni til, hvort tveggja er hluti af okkar samtíma – veruleiki sem enginn getur horft fram hjá.
Skuld samfélagsins
Í íslensku samfélagi blasa vandamálin víða við. Í orði búa allir við jöfn tækifæri, en er það svo í raun? Tæplega. Upp á síðkastið hafa komið fram dæmi um það hvernig mannréttindi hafa verið brotin á hinum ýmsu hópum, ekki vegna þess að illur hugur bjó að baki, heldur í góðri trú. Dæmi um þetta eru málefni heyrnleysingja, sem vegna rangra áherslna í skóla á sjöunda og áttunda áratugnum fóru á mis við þá menntun, sem sjálfsagt var að jafnaldrar þeirra fengju og fengu því ekki sama undirbúning og sömu tækifæri og þeir. Skilaboðin til þeirra voru að þau gætu ekki lært. Samfélagið getur ekki yppt öxlum yfir hlutskipti þessa fólks. Samfélagið stendur í skuld við það. Og sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort enn eigi sér stað svipuð réttindabrot, sem eftir þrjátíu til fjörtíu ár muni vekja svipað umtal og hneykslan og hlutskipti heyrnarlausu barnanna fyrir þrjátíu árum gerir nú. Hvar eru brotalamir samtímans?
Í dag er í fréttum að félagslega einangruðum börnum í skólum á Íslandi fari fjölgandi og skólarnir hafi ekki bolmagn til að sinna þeim nægilega vel. Félagsleg einangrun á æskuárum getur fylgt einstaklingum alla ævina. Beint liggur við að spyrja hvort börn innflytjenda búi við jöfn tækifæri í skólum og jafnaldrar þeirra. Er það eðlilegt að miklu lægra hlutfall þeirra haldi áfram námi eftir grunnskóla, en annarra barna?
Full þörf á ári jafnra tækifæra
Það hefur vakið athygli að í kosningabaráttunni í Frakklandi kallaði Ségolène Royal, forsetaframbjóðandi Sósíalista, útivinnandi konur öreiga samtímans. Er orðin til ný undirstétt kvenna, sem stritar bæði á heimilinu og í vinnunni. Woman is The Nigger of The World, sungu John Lennon og Yoko Ono fyrir þrjátíu árum. Hefur ekkert breyst? Hefur ástandið kannski versnað?
Það er full þörf á því að helga þetta ár jöfnum tækifærum. Reyndar er hér um að ræða mjög víðtækan málaflokk þar sem margt getur rúmast, allt frá börnum til aldraðra, skólum til velferðarmála og búsetu til innflytjendamála.
Það að allir njóti sömu tækifæra er grundvallaratriði í vestrænu samfélagi og spurning um það í hvernig þjóðfélagi við viljum búa. Þjóðfélag þar sem borgararnir sitja ekki allir við sama borð er á villigötum. Það er misheppnað. Í slíku þjóðfélagi er ekki aðeins gert upp á milli samfélagshópa, þar er tækifærum kastað á glæ – tækifærum einstaklinga til að sýna hvað í þeim býr og tækifærum þjóðfélagsins til að njóta krafta þeirra að fullu. Jöfn tækifæri snúast ekki aðeins um velferð þeirra, sem brotið er á – hér er um að ræða hagsmunamál samfélagsins alls. Þegar upp er staðið rýrir mismunun lífskjör allra vegna þess að krafturinn og orkan, sem í samfélaginu býr er ekki nýtt til fullnustu.
Fjölmiðlar hafa áhrif
Í samfélagi fordóma og mismununar geta fjölmiðlar haft mikið að segja. Þeir geta alið á fordómum eða unnið gegn þeim. Fjölmiðlar geta eitrað andrúmsloftið eða reynt að afeitra það. Það getur til dæmis skipt miklu máli hvaða mynd er dregin upp í fjölmiðlum af samfélagi innflytjenda. Ég átti þess fyrir skömmu kost að kynna mér samfélag múslíma á Bretlandi. Þar hefur ríkt mikil spenna í kjölfar hryðjuverkanna í London 7. júlí 2005 þar sem múslímar fæddir í Bretlandi létu til skarar skríða. Eftirlit hefur verið snaraukið í landinu og fréttir af handtökum og húsleitum eru algengar í fjölmiðlum. Nánast allir viðmælendur mínir, hvort sem þeir töluðu fyrir hönd hagsmunasamtaka múslíma, lögreglunnar eða velferðarstofnana voru á einu máli um það að hin mikla spenna sem væri í þjóðfélaginu væri að miklu leyti vegna einhliða fréttaflutnings. Margir voru verulega reiðir fjölmiðlum fyrir þeirra þátt í að kynda undir tortryggni og andúð. Sérstaklega beindu þeir spjótum sínum að götublöðum á borð við The Sun og Daily Mirror, en vildu þó ekki undanskilja hin virðulegri blöð. Til dæmis væri horft fram hjá því að mun minna væri um að múslímar fremdu glæpi en aðrir þjóðfélagshópar. Því var haldið fram að það væri til marks um áhrif fjölmiðla að skoðanakannanir gæfu til kynna að andúð og tortryggni í garð innflytjenda væri meiri meðal fólks, sem aldrei þyrfti að umgangast þá, heldur en þeirra, sem væru í nábýli við þá. Af því var dregin sú ályktun að þeir, sem aðeins hefðu upplýsingar sínar og vitneskju úr fjölmiðlum væru mun fordómafyllri, en þeir, sem þekktu til málanna af eigin raun.
Hvort sem þetta er marktækt eða ekki, er engum blöðum um það að fletta að fjölmiðlar hafa áhrif. Hvort breskir fjölmiðlar hafa almennt gerst sekir um að draga upp dökka mynd af innflytjendum er annað mál. Þau mál, sem hafa verið til umfjöllunar á Bretlandi, hafa átt heima í fjölmiðlum, en vitaskuld er framsetningin alltaf spurning. En það er engin spurning að málefni innflytjenda séu fjölmiðlamatur rétt eins og aðrir þættir þjóðfélagsins.
Innflytjendur í fjölmiðlum
Hér á Íslandi hefur innflytjendum fjölgað mikið á undanförnum árum og má segja að án þeirra hefði sennilega orðið verulega vandasamt að reka ýmsar grundvallarstofnanir þjóðfélagsins. Nægir þar að nefna heilbrigðiskerfið. Það fólk, sem hingað hefur komið, hefur verið íslensku atvinnulífi lyftistöng. En hvernig á fjölmiðill að taka á þeim breytingum, sem verða þegar fólk streymir til landsins í því skyni að setjast hér að, hvort sem það er til lengri eða skemmri tíma? Það er hægt að gera með ýmsum hætti. Það er hægt að tala við stofnanir og fá tölur um fjöldann, en það gefur ákaflega takmarkaða mynd af því sem er í raun og veru á seyði. En það er líka hægt að leita uppi einstaklinga og veita almenningi mynd af því úr hvaða umhverfi þeir, sem sækja hingað, komi, eftir hverju þeir sækist á Íslandi, hvaða raunveruleiki hafi mætt þeim og hvernig þeim hafi gengið að uppfylla vonir sínar og þrár. Með slíku efni er hægt að draga fram að þegar öllu er á botninn hvolft er fleira, sem sameinar okkur en sundrar, án þess að predika eða messa.
En það þarf einnig að segja neikvæðar fréttir. Hvernig á að gera það? Hvenær á til dæmis að tilgreina uppruna manns í tiltekinni frétt? Á að tilgreina uppruna íslensks ríkisborgara, sem er af erlendu bergi brotinn, frekar en að viðkomandi sé frá Seyðisfirði? Af hverju eru gerðar athugasemdir þegar tiltekið er að Pólverji hafi verið handtekinn fyrir stuld, en ekki þegar sagt er frá handtöku bresks smyglara?
Þetta er bara eitt af þeim sviðum, sem fjölmiðill hefur áhrif á. Inni á fjölmiðli þarf að vera vitund um takmörk hans og veikleika. Fjölmiðlar geta alið á fordómum í stóru og smáu. Ábyrgð þeirra er mikil og umfjöllun þeirra er undir smásjá. Og hvernig fer fjölmiðill að því að standa undir þeirri ábyrgð? Grundvallaratriði er að reyna að nálgast viðfangsefnið fordómalaust, gæta sanngirni og vanda fréttamat. Það þarf einnig að gæta þess við hverja er talað. Oft er einfaldlega ekki hægt að komast hjá því að tala við hvíta miðaldra karlmenn, en blaðamenn eiga að reyna að forðast það eftir megni að leita til einsleits hóps viðmælenda. Þá er einnig mikilvægt að ekki sé bara leitað til kvenna til að tala um jafnréttismál heldur hvaða málefni sem er. Það sama á við um innflytjendur. Slíkt jafnræði hefur óbeint áhrif á ímynd fólks og gildismat. Gildrurnar leynast hins vegar víða og það getur verið vandræðalega auðvelt að falla í gildrur á borð við úrelta hlutverkaskiptingu kynjanna. Nýlega heyrði ég til dæmis gagnrýnt að í Morgunblaðinu hefði staðið um viðmælanda að hún hefði brosað feimnislega og var því bætt við að slíkt yrði aldrei sagt um karlmann.
Jafnræði að leiðarljósi
En hlutverk fjölmiðils er ekki aðeins að forðast að ýta undir staðlaðar ímyndir. Hann getur einnig beitt sér í tilteknum málum. Þar með er ekki sagt að hann eigi aðeins að láta þá hlið máls koma fram, sem hentar, en hann getur ákveðið að brjóta tiltekin mál til mergjar, ýtt þannig undir umræðu og ef til vill komið af stað hreyfingu í viðkomandi málaflokki. Sem dæmi má nefna stöðu barna í íslensku samfélagi, málefni fatlaðra og öryrkja, réttarstöðu samkynhneigðra og hvernig tekið er á móti innflytjendum. Skoðanir fjölmiðilsins koma síðan fram í leiðurum og ritstjórnargreinum. Fjölmiðlar endurspegla samfélag sitt, en það er ekki sama hvernig speglinum er haldið á loft.
Hvernig helst þetta í hendur við það að tryggja jöfn tækifæri? Með því að hafa jafnræði að leiðarljósi í umfjöllun og draga fram það, sem betur má fara, vaknar aukin vitund um misrétti og ójafnræði í samfélaginu. Það hefur áhrif þegar atvinnurekandinn ræður til sín starfskraft. Þannig er hægt að leggja grunninn að því að næstu kynslóðir búi við meiri jöfnuð í tækifærum, en okkar kynslóðir. Umfjöllun og viðhorf fjölmiðla hafa áhrif á gildismat þeirrar kynslóðar, sem nú eru að vaxa úr grasi, þá mynd, sem hún gerir sér af umhverfi sínu, og hvernig hún kemur til með að taka á málum. Oft er sagt að það læri börnin, sem fyrir þeim er haft, og svo mikið er víst að ekkert barn fæðist með fordóma, hvaða nafni sem þeir kunna að nefnast.
Ég held að á því leiki enginn vafi að þar sem ríkir fjölbreytni og umburðarlyndi, þar sem hver og einn fær að dafna og blómstra og njóta hæfileika sinna óháð kyni, kynþætti, kynhneigð eða litarrafti, sé hægt að leysa úr læðingi gríðarlega krafta, sem annars yrðu óvirkjaðir. Hugmyndin um heim þar sem allir búa að sömu tækifærum kann að vera útópísk draumsýn, en hún er engu að síður takmarkið.
Takk fyrir.