Mál nr. 4/2013
A
gegn
Landspítala háskólasjúkrahúsi
Ráðning í starf. Hæfnismat.
Landspítalinn auglýsti þann 25. júní 2012 laust starf yfirlæknis æðaskurðlækninga. Kærandi, sem er karl, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að ráða konu í starfið en hann taldi sig vera hæfari en konan sem ráðin var. Kærunefndin taldi að stöðunefnd, er starfar samkvæmt 35. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, hefði talið kæranda standa framar að hæfni en sú er ráðin var og að kærði hefði ekki borið umsækjendur saman með tilliti til huglægra þátta er greindir voru í auglýsingu. Taldi nefndin því að kærði hefði við ráðningu í starfið brotið gegn lögum nr. 10/2008.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 26. september 2013 er tekið fyrir mál nr. 4/2013 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru, dagsettri 11. apríl 2013, kærði A ákvörðun Landspítala háskólasjúkrahúss um að ráða konu í stöðu yfirlæknis æðaskurðlæknadeildar. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
- Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 15. maí 2013. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 5. júní 2013, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 11. júní 2013.
- Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 27. júní 2013, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 1. júlí 2013. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 15. júlí 2013.
- Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
MÁLAVEXTIR - Kærði auglýsti laust starf yfirlæknis æðaskurðlækninga á Landspítala, háskólasjúkrahúsi þann 25. júní 2012. Í auglýsingu kom fram að um fullt starf væri að ræða sem veitt yrði frá 1. september 2012 eða eftir samkomulagi, til fimm ára, sbr. 2. málsl. 5. mgr. 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Helstu verkefni voru talin: Fagleg ábyrgð, fjárhagsleg ábyrgð og starfsmannaábyrgð. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar hæfniskröfur: Sérfræðiviðurkenning í æðaskurðlækningum, sértæk reynsla og þekking í æðaskurðlækningum, stjórnunarreynsla og leiðtogahæfileikar voru taldir æskilegir, reynsla af kennslu og vísindastörfum var talin æskileg, góðir samskiptahæfileikar og ákveðni, frumkvæði og metnaður til að ná árangri.
- Alls bárust þrjár umsóknir. Umsóknirnar voru sendar stöðunefnd lækna sem starfar samkvæmt 35. gr. laga nr. 40/2007 og með bréfi, dagsettu 21. ágúst 2012, sendi nefndin kærða umsögn sína. Í niðurstöðu umsagnarinnar kom fram að umsækjendur væru allir hæfir til að gegna hinu auglýsta starfi og taldi stöðunefnd ekki ástæðu til innbyrðis röðunar umsækjenda. Kærði kallaði alla þrjá umsækjendur í starfsviðtöl, eina konu og tvo karla, 5. og 19. september 2012. Að því loknu var ákveðið að bjóða konunni starfið sem hún þáði. Kærði upplýsti kæranda um ráðningu í starfið með símtali þann 28. september 2012 og óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni með bréfi, dagsettu sama dag. Rökstuðningurinn barst kæranda með bréfi kærða, dagsettu 12. október 2012. Kærandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis með bréfi, dagsettu 14. mars 2013. Þar sem kærandi hafði ekki borið málið undir kærunefnd jafnréttismála lauk umboðsmaður athugun sinni. Kærandi kærði ákvörðun um ráðningu til kærunefndar jafnréttismála með tölvupósti þann 11. apríl 2013.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA - Kærandi gerir kröfu um að kærunefnd jafnréttismála úrskurði um að með ráðningu í stöðu yfirlæknis æðaskurðlækningadeildar hafi kærði brotið 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Fallist kærunefndin á kröfu kæranda krefst hann þess að nefndin beiti ákvæðum 5. mgr. 5. gr. laganna.
- Kærandi vísar til þess að kæra hans styðjist við heimild 1. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 og byggir á því að við ráðningu í framangreint starf hafi 26. gr. laganna verið brotin og kynferði verið látið ráða við ákvörðunina fremur en hæfni til starfans. Fram komi í bréfi kærða fyrir ráðningunni að litið hafi verið til skyldna kærða samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðninguna. Kærandi telji þó að jafnréttissjónarmið komi ekki til skoðunar nema tveir umsækjendur séu jafnhæfir og svo hafi ekki verið í málinu. Jafnvel þótt stöðunefnd samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, hafi metið alla þrjá umsækjendur um stöðuna hæfa felist ekki í því mati að stöðunefndin telji alla umsækjendur jafnhæfa. Kærandi telji augljóst af samantekt stöðunefndar að hann beri höfuð og herðar yfir aðra umsækjendur hvað varði alla þá þætti sem vísað sé til í samantektinni.
- Kærandi telur stöðunefndina hafa brugðist hlutverki sínu með því að forgangsraða ekki umsækjendum en ljóst sé að mikill munur hafi verið á hæfni umsækjenda. Stöðunefndin hafi af einhverjum ástæðum viljað tóna niður hæfni kæranda með orðfæri í umsögn sinni og verði því að skoða umsagnir nefndarinnar í því ljósi. Í samantekt um hæfni kæranda sé orðfærið „talsvert“ og „talsverð“ notað í tvígang. Hefði stöðunefndin viljað láta reynslu hans á þessu sviði njóta sannmælis hefði kærandi talið eðlilegra að nota orð eins og „umtalsverð“ eða „veruleg“. Þá virðist kæranda horft fram hjá stjórnunarreynslu hans af því að gegna starfi stjórnarformanns í nokkrum fyrirtækjum, reka skurðstofu með mannaforráð, vera í forsvari nokkurra félaga og samtaka auk þess að vera í forsvari fyrir þá rannsóknarhópa sem tíundaðir séu í ferilskrá. Kærandi gerir athugasemd við samanburð stöðunefndar á sérfræðireynslu hans og þeirrar er starfið hlaut en nefndin vísi til þess að sérfræðireynsla hennar sé styttri en kæranda. Kærandi bendir á að hann hafi rúmlega tveggja áratuga sérfræðireynslu en sú er starfið hlaut tæplega fimm ára reynslu. Hafa beri í huga að starfstími æðaskurðlækna til 65‒70 ára aldurs sé 30‒35 ár.
- Kærandi telur að hæfni þeirrar er starfið hlaut hafi verið fegruð með einkennilegu orðavali. Í samantekt um hæfni hennar sé vísað til þess að vísinda- og kennslureynsla hennar sé fremur lítil. Miðað við framlögð gögn umsækjenda virðist kæranda vísinda- og kennslureynsla hennar vera lítil sem engin. Kærandi vísar í umsögn stöðunefndar þar sem fram komi að í auglýsingunni hafi verið gerð krafa um sérstaka reynslu og þekkingu innan æðaskurðlækninga og sú er starfið hlaut hafi lagt fram vottorð þar að lútandi. Þá segi að með umsókn hennar hafi fylgt listar yfir þær aðgerðir sem hún hafi komið að eða framkvæmt í Bandaríkjunum. Kærandi telur að af þessu megi ráða að hann hafi ekki lagt fram sambærilega lista sem sé rétt. Það sé hins vegar ekki venja að leggja fram aðgerðalista sem þessa við slíkar aðstæður og eftir því hafi ekki verið falast. Hafi nefndin talið það skipta máli hefði henni borið að kalla eftir þeim. Það sé þó ámælisverðast að stöðunefndin hafi látið það gott og gilt að sú er starfið hlaut hafi lagt fram lista yfir aðgerðir sem hún hafi gert, aðstoðað við eða komið að með öðrum hætti meðan á framhaldsnámi hennar stóð. Hafa beri í huga að allir þrír umsækjendurnir hafi þegar haft sérfræðileyfi í æðaskurðlækningum og uppfyllt þau skilyrði sem slík leyfisveiting sé háð, enda forsenda fyrir umsókn um starfið. Umsögn nefndarinnar og tenging framlagðra aðgerðalista við kröfur um sérstaka reynslu og þekkingu innan æðaskurðlækninga sé fáheyrð þegar um stöðu yfirlæknis í faginu sé að ræða við einu æðaskurðlækningadeild landsins.
- Kærandi bendir á að ekki hafi verið minnst á að hann hafi gegnt starfinu um fjögurra ára skeið frá 1. júlí 2002 til 1. mars 2006 þangað til honum hafi verið sagt upp störfum með ólögmætum hætti á grundvelli áminningar sem hvorki hafi átt sér efnislega stoð né lagastoð. Áminningin hafi verið dæmd ólögmæt með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur en kærði hafi ekki dregið uppsögnina til baka. Kærandi hafi óskað eftir skaðabótum frá kærða vegna ólögmætrar uppsagnar en því hafi verið synjað. Kærandi hafi þá farið í skaðabótamál við kærða vegna uppsagnarinnar. Dómur hafi fallið í Hæstarétti þar sem kæranda hafi verið dæmdar skaðabætur.
- Kærandi gerir athugasemd við að í rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni hafi með engum hætti verið reynt að draga fram í hvaða atriðum sú er starfið hlaut væri hæfari en hann. Kærandi telji augljóst að kynferði hafi ráðið því að sú er starfið hlaut hafi verið ráðin. Í öllum faglegum þáttum standi hún kæranda talsvert að baki. Kærandi hafi hlotið sérfræðileyfi í skurðlækningum árið 1991 og æðaskurðlækningum sem undirsérgrein árið 1993. Sú sem starfið hlaut hafi fengið sérfræðileyfi í skurðlækningum árið 2005 og í æðaskurðlækningum árið 2007. Kærandi hafi því um 14 ára lengri starfstíma á sérfræðisviðinu og sértæk reynsla og þekking hans í æðaskurðlækningum því mun meiri. Stjórnunarreynsla hans sé margfalt meiri auk þess sem hann hafi tekið viðbótarnám í stjórnun. Sú sem starfið hlaut hafi enga stjórnunarreynslu aðra en í hinu umrædda starfi í eitt ár og níu mánuði. Reynsla kæranda af kennslu sé margföld miðað við reynslu þeirrar er starfið hlaut og þá hafi hann einnig lokið doktorsnámi. Í auglýsingu sé góðrar samskiptahæfni krafist, ákveðni, frumkvæði og metnaðar til að ná árangri. Kærandi telji ekkert af þessum atriðum vera með þeim hætti hvað hann varði að þau réttlæti að kærði skuli við ráðninguna hafa litið framhjá miklu meiri reynslu kæranda á öllum sviðum sem hæfni hafi verið krafist á.
- Kærandi bendir enn fremur á að einn meðmælenda þeirrar er starfið hlaut hafi tekið þátt í ráðningarviðtölum vegna stöðunnar og hafi verið þátttakandi í ákvörðunartöku varðandi starfið. Vandséð sé hvernig það geti staðist góða stjórnsýsluhætti. Kærandi telji að með framangreindu hafi hann leitt líkur að því að við ráðningu stöðu yfirlæknis æðaskurðlækningadeildar kærða hafi honum verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 26. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 10/2008.
- Kærandi telur ráðningarferilinn ekki standast grunnkröfur stjórnsýslulaga um jafnræði meðal umsækjenda. Þá telur hann rökstuðning kærða fyrir ráðningunni endurspegla hin huglægu og kynbundnu sjónarmið sem kærandi telur að ákvörðunin hafi byggst á. Kærandi og sú er starfið hlaut hafi ekki verið jafnhæf og því óheimilt að líta til slíkra sjónarmiða.
- Kærandi rekur að frá því honum hafi verið vikið úr starfi hafi hann sótt um stöður sérfræðinga við deildina og stöðu yfirlæknis. Fyrst 80% starf sérfræðings árið 2006 og þá 60% starf sérfræðings árið 2009 en hvorugt starfið hafi hann fengið. Þá nefnir kærandi að hann hafi gegnt stöðu dósents við Læknadeild Háskóla Íslands frá 1. júlí 2003 með starfsaðstöðu á æðaskurðlækningadeild. Þegar kæranda hafi verið vikið úr starfi yfirlæknis þann 1. desember 2005 hafi honum verið meinaður aðgangur að framangreindri starfsaðstöðu. Að skipunartíma í dósentsstöðuna liðnum hafi kærandi sótt um á ný en þá hafi verið gerð krafa um að umsækjendur störfuðu hjá kærða. Kærandi upplýsir að hann hafi ekki kvartað vegna framangreindra mála til kærunefndarinnar þar sem hann hafi vonað að óréttlæti því sem hann telji sig hafa verið beittan myndi linna.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA - Í greinargerð kærða kemur fram að vegna athugasemda kæranda við störf stöðunefndar lækna skuli tekið fram að nefndin starfi á grundvelli 35. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Nefndarmenn séu skipaðir af ráðherra heilbrigðismála, landlækni og Læknafélagi Íslands. Kærði hafi því ekkert með skipun í nefndina að gera og hún starfi ekki á hans vegum. Verði því ekki vikið sérstaklega að ákúrum er varði stöðunefnd lækna að öðru leyti en því að kærði geri ekki athugasemdir við vinnubrögð og niðurstöðu nefndarinnar.
- Kærði bendir á að stöðunefnd lækna hafi metið alla umsækjendur um stöðu yfirlæknis æðaskurðlækninga hæfa og hafi kærði verið sammála því mati. Því hafi orðið að meta hver umsækjenda væri hæfastur til að gegna starfinu og þeir því kallaðir til viðtals dagana 5. og 19. september 2012. Líkt og auglýsing um starfið beri með sér hafi áhersla verið lögð á persónubundna eiginleika umsækjenda og ráðningarviðtöl hafi því haft mikið vægi við ákvörðun um ráðningu í starfið. Allir umsækjendur hafi uppfyllt grunnskilyrði auglýsingar um sérfræðiviðurkenningu í æðaskurðlækningum og sértæka reynslu og þekkingu í faginu. Sú er starfið hlaut hafi starfað sem æðaskurðlæknir hjá kærða frá ágúst 2008 með sérfræðileyfi í skurðlækningum og æðaskurðlækningum og jafnframt lokið tveimur BOARD-prófum frá Bandaríkjunum. Þekking þeirrar er starfið hlaut á nútímainnæðaaðgerðum sé umtalsverð og skipti það miklu máli þegar horft sé til framtíðar í sérgreininni. Samskiptahæfni, metnaður og framtíðarsýn hennar hafi komið skýrt fram í starfsviðtali. Hún hafi lagt áherslu á samvinnu þvert á sérgreinar en aðrir umsækjendur hafi ekki haft þá sýn að sama marki. Hugmyndir hennar um starfsemina og aukningu innæðaaðgerða hafi einnig verið í takt við þróun æðaskurðlækninga í heiminum en sé til framtíðar litið muni sá þáttur sérgreinarinnar aukast verulega. Þá hafi hún sem starfandi yfirlæknir haft frumkvæði að áherslubreytingum og úrbótum í sérgreininni. Einnig hafi hún haft frumkvæði að því að efla og styðja göngudeildarþjónustu spítalans sem samræmist stefnu hans. Hún hafi því þótt bera af við mat á ofangreindum þáttum.
- Rétt sé að nefna að þrátt fyrir að ekki hafi verið kveðið á um framtíðarsýn í auglýsingu um starfið sé um að ræða atriði sem hafi vægi við mat á umsækjendum. Staðfest hafi verið í áliti umboðsmanns Alþingis frá 4. febrúar 2013 í máli nr. 6614/2011 að heimilt sé að ljá því sjónarmiði vægi við ákvörðun um ráðningu í opinbert starf, sérstaklega á sviði stjórnunar, þrátt fyrir að þess hafi ekki verið getið sérstaklega í auglýsingu. Allir umsækjendur hafi fengið tækifæri til að greina frá framtíðarsýn sinni á starfið og fyrir sérgreinina og hafi niðurstaðan verið sú að sýn þeirrar er starfið hlaut hafi samræmst best viðhorfum og stefnu spítalans.
- Fyrir liggi að stjórnunarreynsla kæranda nái yfir lengra tímabil en þeirrar er starfið hlaut. Í auglýsingu hafi þó komið fram að stjórnunarreynsla væri æskileg en ekki nauðsynleg. Þá verði stjórnunarreynsla ekki einungis metin í árafjölda heldur jafnframt í þeim verkefnum, árangri og umfangi sem í henni felast. Sú er starfið hlaut hafi verið starfandi yfirlæknir æðaskurðlækninga um tæplega tveggja ára skeið. Stjórnunarhættir hennar hafi einkennst af marksækni, nákvæmni og skipulagi og hafi verið almenn ánægja með störf hennar innan spítalans. Reynsla kæranda sé umtalsverð en gera verði greinarmun á því hvaðan sú reynsla sé fengin. Stór hluti af stjórnunarreynslu kæranda sé sem stjórnarformaður félaganna B og C en í því felist ekki dagleg stjórnun líkt og í starfi yfirlæknis hjá kærða og verkefnin séu önnur. Kærandi hafi þó einnig stjórnunarreynslu úr starfi yfirlæknis hjá kærða. Í því sambandi sé rétt að benda á að starf yfirlæknis hafi tekið nokkrum breytingum frá þeim tíma. Niðurstaða kærða hafi því verið sú að vissulega væri stjórnunarreynsla kæranda lengri en frammistaða, hugmyndir og stjórnunarleiðir þeirrar er starfið hlaut væru á þann veg að umsækjendur hafi staðið jafnt hvað þennan þátt varðaði. Þátttaka umsækjenda í kennslu- og vísindastörfum hafi ekki verið sambærileg og reynsla kæranda mun meiri en þeirrar er starfið hlaut. Af hálfu kærða sé lögð áhersla á að reynsla af kennslu- og vísindastörfum hafi aðeins verið talin æskileg en ekki nauðsynleg. Vegna athugasemda kæranda varðandi ráðningu í starf yfirlæknis taki kærði fram að sú er starfið hlaut eigi ekki að líða fyrir það að hún hafi verið valin til þess að gegna starfinu. Reynsla hennar eða hæfni verði ekki minni fyrir þær sakir.
- Kærði tekur fram að í íslenskum rétti hafi ekki verið lögfestar almennar reglur um á hvaða sjónarmiðum stjórnvöld eigi að byggja við ráðningu í opinbert starf þegar almennum hæfisskilyrðum, svokölluðum lágmarksskilyrðum, sleppi. Meginreglan sé sú að viðkomandi stjórnvald ákveði hvaða sjónarmið það leggi til grundvallar ákvörðun sinni sé ekki mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Slík sjónarmið verði að vera málefnaleg og hafi persónubundnir þættir verið taldir til þeirra, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 18. júní 2012 í máli nr. 5864/2009. Í sama áliti sé einnig staðfest að stjórnvaldi sé heimilt að ákveða á hvaða sjónarmið það leggi áherslu við ráðningar sé ekki mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
- Orðalag auglýsinga sé mikilvægt með það að markmiði að vekja ekki væntingar hjá umsækjendum um að mat á þeim verði annað en leiði af eðlilegum skilningi á orðalagi auglýsingar um starfið. Í því samhengi skuli á það bent að í auglýsingu hafi komið fram að leiðtogahæfileikar og reynsla af stjórnun, kennslu og vísindum væri æskileg, ekki nauðsynleg. Af því megi ráða að hér hafi ekki verið um að ræða ráðandi þætti við mat á umsækjendum. Ekkert í auglýsingunni hafi gefið tilefni til að ætla að svo væri. Vægi persónubundinna eiginleika hafi stóraukist síðustu ár við ráðningar og almennt viðurkennt hversu miklu máli þessir eiginleikar skipti við val á stjórnendum. Stjórnendahæfni verði aldrei metin eingöngu út frá menntun eða starfsreynslu, jafnframt verði að líta til viðhorfs, framtíðarsýnar, samskiptahæfni og fleiri persónubundinna þátta við matið. Að öðrum kosti sé hætt við að litið verði framhjá þeim umsækjanda sem sé best til þess fallinn að gegna stöðunni.
- Kærði rekur að eftir heildstætt mat hafi niðurstaðan orðið sú að kærandi og sú er starfið hlaut hafi verið að minnsta kosti jafnhæf til að gegna starfinu. Á þeim grundvelli hafi verið litið til skyldna kærða samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Í tilvitnuðu ákvæði felist að atvinnurekanda beri að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og innan fyrirtækis eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki sem karla- eða kvennastörf. Þá beri að leggja sérstaka áherslu á að jafna stöðu kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Hjá kærða sé yfirgnæfandi hluti yfirlækna karlar, eða 70 en konur séu 13. Á skurðlækningasviði kærða, sem æðaskurðlækningar tilheyri, sé sömu sögu að segja en þar séu karlar í starfi yfirlækna 19 talsins og ein kona. Ákvæði laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, hafi verið skýrð á þann hátt að einstaklingi, þess kyns sem sé í minnihluta í starfi, skuli veitt starf sé hann að minnsta kosti jafnt að því kominn og einstaklingur af hinu kyninu sem keppi við hann, að því er varði menntun og annað sem máli skipti. Jafnréttissjónarmið hafi því jafnframt verið veigamikill þáttur við töku ákvörðunar kærða um ráðningu.
- Kærði tekur fram að kærandi hafi vísað til fyrri ráðninga hjá kærða þar sem kærandi hafi verið meðal umsækjenda. Kærandi hafi farið fram á rökstuðning vegna ráðninganna en hafi ekki aðhafst frekar í framhaldi þess. Einhliða túlkun kæranda á ráðningarferlinu og þeim sjónarmiðum sem legið hafi til grundvallar ráðningum kærða hafi því ekkert gildi. Hafi kærandi talið svo illa á sér brotið hefði honum verið í lófa lagið að leita réttar síns hvað það varðaði. Það hafi hann ekki gert og nú mörgum árum síðar geti hann því ekki byggt á þeirri túlkun sinni varðandi háttsemi kærða í hans garð. Ekki hafi verið sýnt fram á að óeðlilega hafi verið staðið að ráðningum hjá kærða í umræddar stöður og umræða um þær alls óskyld því máli sem hér sé til umfjöllunar.
- Að lokum fjallar kærði um athugasemdir kæranda við að umsagnaraðili þeirrar er starfið hlaut hafi tekið þátt í ráðningarviðtölum. Til að sitja ráðningarviðtöl um starf yfirlæknis hafi verið valdir þeir aðilar sem taldir hafi verið hæfastir til að meta umsækjendur. Framangreindur umsagnaraðili hafi reynslu hvað þetta varði en hann hafi áður setið viðtöl um störf yfirlækna hjá kærða með góðum árangri. Sú er starfið hlaut hafi í umsókn sinni nefnt átta umsagnaraðila. Umsagnaraðilar séu þeir sem gefið geti umsögn um fyrri störf viðkomandi. Sú er starfið hlaut og framangreindur umsagnaraðili hafi starfað saman meðan hún hafi gegnt stöðu yfirlæknis og hafi hún óskað eftir því að nefna hann sem umsagnaraðila en umræða um hvers eðlis umsögnin yrði hafi ekki farið fram þeirra á milli. Eðlilegt verði að teljast að umsækjendur um störf leiti til samstarfsmanna eftir umsögn. Að sama skapi útiloki það eitt ekki viðkomandi frá því að sitja ráðningarviðtöl enda myndi slíkt leiða til þess að allir þeir sem umsækjandinn hafi áður starfað með væru taldir vanhæfir til að sitja ráðningarviðtöl. Framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs taki endanlega ákvörðun um ráðningu en aðrir sitji viðtölin til ráðgjafar. Með vísan til framanritaðs sé það afstaða kærða að ekki hafi verið sýnt fram á að brotið hafi verið gegn ákvæðum jafnréttislaga við ráðningu í starf yfirlæknis æðaskurðlækninga.
ATHUGASEMDIR KÆRANDA - Kærði bendir á að jafnvel þótt stöðunefnd hafi metið alla umsækjendur hæfa telji hann að samanburður hans í kæru sýni afdráttarlaust fram á að stöðunefndin hafi litið svo á að hann væri hæfastur. Kærandi telur að í ljósi tíðra tilvísana í greinargerð kærða til auglýsingar um starfið verði ekki annað ráðið en að auglýsingin hafi verið klæðskerasniðin með það fyrir augum að hæfasta einstaklinginn þyrfti ekki að ráða heldur einstakling sem best væri þóknanlegur yfirstjórn kærða. Endurtekin tilvitnun í auglýsinguna og hversu vel sú er starfið hlaut fullnægi skilyrðum hennar staðfesti að aldrei hafi annað staðið til en að ráða hana, hvað sem liði hæfni annarra umsækjenda.
- Kærandi gerir athugasemd við að í greinargerð kærða segi að allir umsækjendur hafi uppfyllt grunnskilyrði auglýsingar um sérfræðiviðurkenningu í æðaskurðlækningum og sértæka reynslu og þekkingu í faginu. Af þessu verði ekki annað ráðið en að grunnskilyrði kærða hafi verið sérfræðileyfi í æðaskurðlækningum og önnur reynsla hafi ekki skipt máli. Í því felist önnur vísbending um að ekki hafi annað staðið til en að ráða þá sem starfið hlaut enda hafi hún fengið að sitja í starfinu vel á annað ár, meðal annars til að fá reynslu við stjórnun, sem síðan sé óspart notuð í röksemdafærslunni. Ekki hafi verið tekið tillit til þess að kærandi hafi langa stjórnunarreynslu og auk þess menntað sig sérstaklega til þess með sértæku stjórnunarnámi. Lítið hafi verið gert úr nauðsyn stjórnunarreynslu í greinargerð kærða en telja verði að stjórnunarreynsla sé nauðsynleg í starfi yfirlæknis. Kærandi bendir á að ekki felist minni stjórnunarreynsla í því að reka eigin stofnun, stofu og skurðstofu, en að reka deild á sjúkrahúsi. Þá sé stjórnunarreynsla kæranda af rekstri deildar á sjúkrahúsi talsvert lengri en reynsla þeirrar er starfið hlaut. Hefði hún ekki verið sett til að gegna yfirlæknisstöðunni vel á annað ár áður en staðan hafi verið auglýst væri stjórnunarreynsla hennar engin. Það sæti einnig furðu að kærði haldi því fram að yfirlæknisstarfið hafi tekið breytingum frá þeim tíma sem hann hafi gegnt því og þannig reynt að gera enn minna úr stjórnunarreynslu hans.
- Vegna tilvísunar kærða til þess að kærandi hafi ekki haft framtíðarsýn að sama marki og sú er starfið hlaut taki kærandi fram að hann hafi haft forystu í því að umbylta æðaskurðlækningum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og síðar kærða til nútímahorfs. Hann hafi innleitt fjöldann allan af nýjum aðgerðarformum á sviðinu og hafi aukið hlutfall innæðaaðgerða svo um hafi munað. Síðan þá hafi engar nýjar tegundir innæðaaðgerða verið teknar upp hjá kærða og hlutfall þeirra minnkað ef eitthvað sé. Kærandi telji rökstuðning kærða fyrir því heildstæða mati sem leitt hafi til niðurstöðu um að sú sem starfið hlaut hafi verið að minnsta kosti jafnhæf og hann, ekki nægjanlega ítarlegan. Þá telur kærandi að hann hafi hlutlægt séð staðið framar þeirri er starfið hlaut.
ATHUGASEMDIR KÆRÐA - Kærði bendir á að við ráðningar í stöður á vegum hins opinbera sé sérstaklega mikilvægt að orða auglýsingar á þann veg að umsækjendur geti gert sér grein fyrir hvaða skilyrði þeir þurfi að uppfylla sem og hvaða kostum þeir skuli gæddir svo þeir eigi möguleika á að hljóta ráðningu. Fyrir vinnuveitanda sé að sama skapi mikilvægt að skýrt komi fram á hvaða forsendum ákvörðun um ráðningu verði byggð. Af athugasemdum kæranda megi ráða að honum þyki óeðlilegt að kærði hafi fyrirfram myndað sér skoðun á því hvernig starfsmanni leitað væri eftir. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5864/2011 sé minnt á mikilvægi þessara atriða. Kærði hafi uppfyllt skyldur sínar að öllu leyti í þessum efnum enda í auglýsingu getið allra þeirra hæfnis- og hæfisskilyrða sem nauðsynleg hafi þótt og jafnframt tilgreind önnur sjónarmið sem mat á ráðningu skyldi byggjast á. Athugasemd kæranda um að auglýsingin hafi verið klæðskerasniðin að einum umsækjanda eigi sér enga stoð. Í auglýsingu hafi komið skýrt fram á hvaða hæfis- og hæfniskilyrðum ákvörðun um ráðningu yrði tekin og hvaða sjónarmið yrðu lögð til grundvallar við val á milli umsækjenda þegar beinum hæfisskilyrðum sleppti. Eins og þar hafi komið fram hafi sértæk reynsla og þekking í faginu verið eitt af þeim skilyrðum sem umsækjendur hafi þurft að uppfylla til að koma til greina í starfið og hafi allir umsækjendur uppfyllt það.
- Kærði kveður að fullyrðing kæranda um að öll önnur reynsla en sérfræðiviðurkenning í æðaskurðlækningum hafi engu mál skipt við ákvörðun um ráðningu sé röng. Allir umsækjendur hafi verið taldir uppfylla skilyrði auglýsingarinnar um sértæka reynslu og þekkingu í faginu og hafi á þeim grundvelli verið metnir hæfir til að gegna starfinu. Í auglýsingu hafi komið fram að stjórnunarreynsla væri kostur en ekki nauðsynleg en kærði hafi aldrei haldið því fram að stjórnun væri ekki hluti af starfi yfirlæknis. Kærði fellst ekki á að skylt hafi verið að gera kröfu um stjórnunarreynslu í auglýsingu. Allir umsækjendur hafi þó haft stjórnunarreynslu og hafi hún verið metin og athugasemdir kæranda þar að lútandi falli því um sjálfar sig. Þá mótmælir kærði því að gert hafi verið lítið úr stjórnunarreynslu kæranda. Í greinargerð kærða hafi einungis verið bent á að stjórnunarreynsla kæranda hafi á síðustu árum verið af allt öðrum toga en sú stjórnun sem felist í starfi yfirlæknis hjá kærða.
- Kærði sé enn fremur ósammála fullyrðingu kæranda um að mat á persónubundnum eiginleikum umsækjenda hafi ekkert vægi fyrr en fyrir liggi að umsækjendur séu jafnhæfir. Persónubundnir eiginleikar skipti vissulega ekki máli uppfylli umsækjendur ekki almenn hæfni- og hæfisskilyrði auglýsingar. Geri þeir það hins vegar fari fram mat á öllum eiginleikum. Leiði mat á öllum þeim atriðum sem til skoðunar komi ekki til sömu niðurstöðu þurfi að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat á innbyrðis vægi sjónarmiða gildi sú regla að stjórnvald ákveði hvaða sjónarmið lögð verði áhersla á sé ekki mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5864/2009.
- Framtíðarsýn umsækjenda hafi verið eitt af mörgum atriðum sem til skoðunar hafi komið við ráðningu en hafi ekki verið ráðandi þáttur. Með framtíðarsýn sé meðal annars átt við hvaða hugmyndir viðkomandi umsækjandi hafi um þróun sérgreinarinnar hjá kærða á næstu árum en ekki hvað hann hafi þegar gert í þágu greinarinnar. Kærði tekur fram að tilvísun í álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6614/2011 hafi verið sett fram í þeim tilgangi að benda á að heimilt sé að ljá sjónarmiði eins og framtíðarsýn vægi við ákvörðun um ráðningu þrátt fyrir að þess hafi ekki verið getið sérstaklega í auglýsingu um starf. Ráðningarferlið sem hafi verið til umræðu í álitinu hafi þó verið með allt öðrum hætti en í þessu tilfelli og því hafi efnisleg niðurstaða þess ekki fordæmisgildi í málinu. Þar hafi umboðsmaður talið að þrátt fyrir að heimilt væri að taka tillit til sjónarmiða sem ekki hafi komið fram í auglýsingu, við val á umsækjanda, væri ekki heimilt að ljá því svo mikið vægi að ákvörðun byggðist nær eingöngu á því. Kærði bendir á að framtíðarsýn hafi vissulega verið sjónarmið sem kærði hafi litið til við mat á umsækjendum. Það hafi þó aðeins verið eitt af mörgum atriðum sem litið hafi verið til. Þá hafi allir umsækjendur haft sömu tækifæri í starfsviðtali til að tjá sig persónulega og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Umsækjendum hafi því ekki verið mismunað á neinn hátt.
NIÐURSTAÐA - Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
- Með auglýsingu nr. 207/2004 staðfesti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra starfsreglur nefndar sem starfar samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu. Í 1. gr. starfsreglnanna er kveðið á um að stöðunefnd, sem skipuð er af ráðherra, meti hæfni umsækjenda um stöðu yfirlækna. Samkvæmt 6. gr. starfsreglnanna skal nefndin skila skriflegri umsögn um umsækjendur til þess er veitir stöðuna og skal í henni vera samantekt um hvern umsækjanda og rökstutt álit á því hvort umsækjandi sé hæfur eða ekki hæfur til að gegna þeirri stöðu er sótt er um. Nefndinni er heimilt að raða umsækjendum í hæfnisröð.
- Í samræmi við framangreint fjallaði stöðunefndin um þrjár umsóknir um stöðu yfirlæknis æðaskurðlækninga hjá kærða sem var auglýst laus til umsóknar hinn 25. júní 2012. Nefndin mat alla umsækjendur hæfa til að gegna hinu auglýsta starfi en taldi ekki ástæðu til innbyrðis röðunar umsækjenda. Það kom því í hlut kærða að meta hver umsækjendanna þriggja væri hæfastur til að gegna starfinu.
- Í auglýsingu um starf yfirlæknis kom fram að hæfniskröfur vegna starfsins væru sérfræðiviðurkenning í æðaskurðlækningum og sértæk reynsla og þekking í þeirri grein. Þá var þess getið að stjórnunarreynsla, leiðtogahæfileikar og reynsla af kennslu og vísindastörfum væri æskileg. Loks voru áskildir góðir samskiptahæfileikar, ákveðni, frumkvæði og metnaður til að ná árangri.
- Í rökstuðningi til kæranda gerði kærði grein fyrir því að mat á hæfni umsækjenda hefði byggst á innsendum gögnum, umsögn stöðunefndar og viðtölum við umsækjendur. Kærandi fékk sérfræðingsleyfi í almennum skurðlækningum árið 1991 og í æðaskurðlækningum árið 1993. Sú sem ráðin var öðlaðist sérfræðileyfi í almennum skurðlækningum árið 2005 og í æðaskurðlækningum árið 2007. Stöðunefnd mat sérfræðireynslu kæranda rúmlega 18 og hálft ár og sérfræðireynslu þeirrar er starfið hlaut tæplega fimm ár. Samkvæmt mati stöðunefndar var kærandi sá umsækjendanna þriggja er hafði til að bera mesta stjórnunarreynslu en tekið var fram að hann hefði einn umsækjenda gegnt föstu stjórnunarstarfi og hefði að auki nokkurt stjórnunarnám á háskólastigi að baki. Um vísindareynslu segir í mati stöðunefndar að kærandi hafi mesta vísindareynslu umsækjenda, hann hafi lokið doktorsprófi og hafi einn umsækjenda gegnt föstu kennslustarfi sem dósent. Stöðunefnd fjallaði ekki um samskiptahæfileika, ákveðni, frumkvæði og metnað umsækjenda.
- Óumdeilt er að kærandi hafði meira en 18 ára starfsreynslu í sérgreininni en sú er starfið hlaut hafði tæplega fimm ára starfsreynslu. Stóð kærandi því framar að þessu leyti en slík þekking og reynsla var áskilin. Þátttaka kæranda í kennslu- og vísindastörfum var jafnframt meiri en þeirrar er ráðin var. Kærði hefur á hinn bóginn rökstutt ráðninguna með vísun til persónulegra eiginleika þeirrar er starfið hlaut, einkum hvað varðar stjórnunaraðferðir, og með vísun til 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008.
- Kærandi hafði gegnt starfi yfirlæknis æðaskurðlækningadeildar kærða í nærfellt þrjú ár áður en honum var vikið úr því starfi árið 2006. Hann hefur einnig lokið 15 eininga námi í rekstri og stjórnun í heilbrigðisþjónustu frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Sú er starfið hlaut hafði verið sett yfirlæknir æðaskurðlækningadeildar kærða í eitt ár og níu mánuði er hún var ráðin í starfið. Á grundvelli þessa var það mat stöðunefndar að kærandi hefði lengsta stjórnunarreynslu umsækjendanna þriggja. Kærði taldi stjórnunarreynslu kæranda vissulega meiri en reynslu þeirrar er ráðin var en að persónubundnir eiginleikar, þ.e. frammistaða hennar, hugmyndir og stjórnunarleiðir, væru á þann veg að umsækjendur stæðu jafnt hvað þennan þátt varðaði. Ekki verður þó séð að kærði hafi framkvæmt heildstæðan samanburð á stjórnunarhæfni kæranda og þeirrar er ráðin var og engin gögn liggja fyrir um úrvinnslu á þeim atriðum sem komu fram í viðtölum og lúta að stjórnunarhæfni eða framtíðarsýn.
- Í auglýsingu er sérstaklega áskilið að umsækjendur skuli hafa góða samskiptahæfileika, ákveðni, frumkvæði og metnað til árangurs. Verður ekki séð að umsækjendur hafi verið bornir saman með tilliti til þessara þátta. Þar sem kærandi stendur þeirri er ráðin var ótvírætt framar varðandi þá hlutlægu þætti er raktir eru að framan verður að gera ríkar kröfu til þess að gögn beri það með sér að raunverulegt mat og samanburður hafi farið fram á þeim þáttum sem kærði lagði áherslu á í rökstuðningi sínum fyrir ráðningunni. Þar sem gögn um samanburð og mat á persónulegum eiginleikum umsækjenda eru eins og fyrr greinir afar takmörkuð verður ráðningin ekki byggð á þessum þáttum.
- Samkvæmt framangreindu er það mat nefndarinnar að kærandi hafi verið hæfari til að gegna starfinu en sú sem ráðin var og því verður ráðningin ekki byggð á sjónarmiðum er fram koma í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Telur kærunefnd jafnréttismála að kærði hafi við ráðninguna brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.
- Ekki verður séð að kærandi hafi haft kostnað af rekstri máls þessa og eru því ekki efni til að úrskurða um málskostnað honum til handa.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Landspítali háskólasjúkrahús braut gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, við ráðningu í starf yfirlæknis æðaskurðlæknadeildar í september 2012.
Erla S. Árnadóttir
Björn L. Bergsson
Þórey S. Þórðardóttir