Umsóknarferli stuðningslána endurbætt
Breytingar hafa verið gerðar á umsóknarkerfi stuðningslána á Ísland.is til að tryggja að ferlið verði enn aðgengilegra og auðskiljanlegra. Opnað var fyrir umsóknir um lánin í júlí sl. og hefur nú verið sótt um 815 stuðningslán að andvirði tæplega 7 milljarða íslenskra króna.
Um 90% þeirra sem sótt hafa um stuðningslán eru ánægð með umsóknarferlið samkvæmt könnun sem Ísland.is gerði. Ráðuneytinu hafa engu að síður borist nokkrar athugasemdir við ferlið. Með tilliti til þeirra, og til að tryggja betur að ferlið samræmist regluverki um lánin, hafa eftirfarandi breytingar verið gerðar:
- Umsóknarkerfið tekur nú tillit til launatengdra gjalda á borð við greiðslur í sjóði stéttarfélaga, tryggingagjalds og mótframlags í lífeyrissjóði við mat á því hvort rekstraraðili uppfylli skilyrði um að launakostnaður hafi verið minnst 10% af rekstrarkostnaði hans.
- Reglugerð um stuðningslán hefur verið breytt þannig að nú getur rekstraraðili óskað eftir því að umsókn um stuðningslán verði send annarri lánastofnun en aðallánastofnun með samþykki þeirrar lánastofnunar sem hann tilgreinir.
- Einstaklingar með rekstur á eigin kennitölu og lögaðilar sem ekki ber að skila ársreikningi gátu í sumum tilvikum ekki skilað inn umsókn. Það hefur verið lagfært og geta þeir aðilar nú skilað inn umsókn, að öðrum skilyrðum uppfylltum.
Rekstraraðilar geta ávallt farið aftur í gegnum umsókn um stuðningslán á Ísland.is og þannig metið stöðu sína.
Nánari upplýsingar um stuðningslán má nálgast á vidspyrna.island.is.