Hoppa yfir valmynd
11. mars 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 115/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. mars 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 115/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 21. október 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 8. október 2009 hafnað umsókn hans um atvinnuleysisbætur frá 10. ágúst 2009 á grundvelli 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem látið var hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan sjö virkra daga frá því að tímabili lauk skv. 43. gr. laganna. Kærandi óskar þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð og felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 1. febrúar 2009. Hann sótti um leyfi til að fara til útlanda í atvinnuleit, sbr. VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar, og fór til Danmerkur þann 16. mars 2009. Samkvæmt E-303 vottorði sem Vinnumálastofnun gaf út var kæranda heimilt að vera erlendis í atvinnuleit til 13. júní 2009. Eftir að kærandi kom heim lét hann hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan lögmæltra tímamarka og kom fyrst til Vinnumálastofnunar þann 10. ágúst 2009 eða um tveimur mánuðum eftir að tímabilinu lauk skv. 1. mgr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi kveðst hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar þegar hann fékk E-303 vottorðið í tengslum við ferð sína til Danmerkur. Hann kveðst eiga rétt á að halda réttindum sínum til atvinnuleysisbóta í tvö ár.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 25. febrúar 2010, kemur fram að E-303 vottorðið feli í sér staðfestingu Vinnumálastofnunar á bótarétti atvinnuleitanda í íslenska atvinnuleysistryggingakerfinu og gefi umsækjendum kost á því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan þeir eru í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sbr. 1. og 4. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi farið til útlanda þann 14. mars 2009 og hafi tímabilinu skv. 1. mgr. 43. gr. laganna lokið þann 13. júní 2009. Sú dagsetning sé skráð á vottorð kæranda. Tími til að tilkynna heimkomu séu sjö virkir dagar skv. 1. mgr. 46. gr. laganna. Kærandi hafi tilkynnt um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi þann 10. ágúst 2009 eða 34 virkum dögum seinna en kveðið sé á um í lögunum. Þar af leiðandi hafi greiðslur atvinnuleysisbóta fallið niður frá og með þeim degi er tímabili hafi lokið skv. 43. gr. laganna.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er enn fremur vitnað til þess að í 23. gr. laganna sé veitt heimild til þess að geyma áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum. Í 5. mgr. lagagreinarinnar komi skýrt fram að ákvæðið eigi ekki við um þá sem fái greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laganna fyrir sama tímabil. Það sé því ljóst að ekki sé gert ráð fyrir því að heimilt sé að geyma áunnar atvinnuleysistryggingar í þeim tilvikum þar sem umsækjandinn hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða farið til annarra aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðið og fengið greiddar atvinnuleysisbætur á meðan.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar segir að kærandi haldi því fram í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar að hann hafi ekki fengið nægar upplýsingar þegar hann hafi sótt um E-303 vottorð í desember 2008. Vinnumálastofnun hafnar þessari fullyrðingu kæranda með öllu og telur sig hafa veitt honum nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. febrúar 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og frekari gögnum og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum fyrir 5. mars 2010. Kærandi nýtti sér það ekki.

 

2.

Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er heimilt að greiða atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. samfellt í þrjá mánuði frá brottfarardegi hins tryggða. Óumdeilt er að kærandi fékk E-303 vottorð og fór til útlanda þann 16. mars 2009. Einnig er óumdeilt að kærandi tilkynnti um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi þann 10. ágúst 2009.

Kærandi sinnti ekki þeirri skyldu sinni að tilkynna Vinnumálastofnun um áframhaldandi atvinnuleit innan sjö virkra daga frá komudegi til landsins eins og skylt er skv. 1. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekkert í gögnum málsins staðfestir fullyrðingar kæranda um að hann hafi fengið ófullnægjandi upplýsingar frá Vinnumálastofnun. Vinnumálastofnun var því rétt og skylt að fella niður bætur til kæranda samkvæmt ákvæði 2. mgr. 46.gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja A um atvinnuleysisbætur er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta