Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2005 Forsætisráðuneytið

A-197/2005 Úrskurður frá 26. janúar 2005

ÚRSKURÐUR

Hinn 26. janúar 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-197/2005:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 14. desember sl., kærðu […] synjun Hafnarfjarðarbæjar, dagsetta 1. s.m., um að veita þeim aðgang að yfirliti yfir allar samþykktar íbúðir norðan Reykjanesbrautar, hvenær þær voru samþykktar, hversu stórar þær væru í fermetrum og hversu stór þau hús væru í fermetrum, sem þær tilheyrðu.

Með bréfi, dagsettu 6. janúar sl., var kæran kynnt Hafnarfjarðarbæ og bænum veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 18. janúar sl. Umsögn Hafnarfjarðarbæjar, dagsett 17. janúar sl., barst innan tilskilins frests.

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að kærendur fóru með bréfi til Hafnarfjarðarbæjar, dagsettu 24. nóvember sl., fram á að fá yfirlit yfir allar samþykktar íbúðir norðan Reykjanesbrautar, hvenær þær voru samþykktar, hversu stórar þær væru í fermetrum og hversu stór þau hús væru í fermetrum, sem þær tilheyrðu.

Hafnarfjarðarbær synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 1. desember sl., á þeim grundvelli að hún varðaði ekki tiltekið mál, sbr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, og væri a.ö.l. of almenn og víðtæk til að við henni mætti verða.

Af beiðni kærenda má ráða að hún miði að því að kanna hvort jafnræðis hafi verið gætt við afgreiðslu sambærilegra mála.

Í umsögn bæjarins til úrskurðarnefndar er áréttað að beiðni kærenda beinist ekki að tilteknu máli heldur að ákveðnum tegundum húsnæðis á stóru iðnaðarsvæði. Þessara upplýsinga verði ekki aflað með öðru móti en að fletta því upp í Fasteignaskrá ríkisins.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er áskilið að beiðni um aðgang að upplýsingum varði tiltekið mál. Þessi áskilnaður er nánar útfærður í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga á þann hátt að beiðni skuli annaðhvort tiltaka það mál eða þau gögn í máli sem leitað er eftir, en það kemur um leið í veg fyrir að unnt sé að óska aðgangs að ótilteknum fjölda mála eða gögnum í ótilteknum málum af ákveðinni tegund.

Þegar til þess er litið að beiðni kærenda varðar ekki tiltekin mál, tilteknar fasteignir eða íbúðir, heldur ákveðnar upplýsingar um ótiltekinn fjölda íbúða, verður hún ekki talin uppfylla þennan áskilnað um afmörkun beiðni. Með því að beiðnin er ekki afmörkuð á þann hátt sem 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga gerir kröfu til ber að staðfesta ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að vísa henni frá.

Tekið skal fram að ekkert stendur því í vegi að kærandi beri á ný fram erindi við Hafnarfjarðarbæ um aðgang að gögnum þar sem tiltekið er það mál sem óskað er eftir aðgangi að.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar frá 1. desember 2004 um að vísa frá erindi […], dags. 24. nóvember 2004, um aðgang að upplýsingum um ótiltekinn fjölda íbúða.

 

 

Páll Hreinsson, formaður

Friðgeir Björnsson

Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta