Hoppa yfir valmynd
30. mars 2005 Forsætisráðuneytið

A-198/2005 Úrskurður frá 30. mars 2005

ÚRSKURÐUR

Hinn 30. mars 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-198/2005:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 18. janúar sl., kærði […] synjun landbúnaðarráðuneytisins, dagsetta 12. s.m., um að veita umbjóðendum hans aðgang að öllum gögnum um síðustu löggildingu sláturhúss [A] [í sveitarfélaginu X], þ. á m. að umsögn embættis yfirdýralæknis um málið og gögnum henni tengdri.

Með bréfi, dagsettu 21. janúar sl., var kæran kynnt landbúnaðarráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 4. febrúar sl. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrði í trúnaði látin í té afrit af þeim gögnum, er kæran lýtur að, innan sama frests. Umsögn ráðuneytisins, dagsett. 25. janúar sl., barst innan tilskilins frests. Hennig fylgdu m.a. umsókn [A] til landbúnaðarráðuneytisins um sláturleyfi, dagsett 18. júní 1990 og erindi landbúnaðarráðuneytisins til [A], dagsett 1. september 1990, um sláturleyfi/löggildingu fyrir sláturhús félagsins í [X].

Af umsókn sláturfélagsins um sláturleyfi, dagsettri 18. júní 1990, og leyfi til slátrunar, dagsettu 1. september 1990, má ráða að átt sé við löggildingu skv. 2. gr. þágildandi laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar var heimild ráðuneytisins til að gefa út slíkt leyfi eða löggildingu undir því komin, að viðkomandi hús uppfyllti skilyrði til að yfirdýralæknir eða hlutaðeigandi héraðsdýralæknir gæti mælt með því. Með skírskotun til beiðni kæranda var því beint til landbúnaðarráðuneytisins með bréfi, dagsettu 1. febrúar sl., að láta nefndinni í té afrit af þeim meðmælum, sem lögum samkvæmt voru nauðsynlegur undanfari að útgáfu löggildingarinnar, sem og að öðrum þeim gögnum, er kynnu að hafa legið henni til grundvallar. Með bréfi, dagsettu sama dag, sendi landbúnaðarráðuneytið nefndinni meðmæli yfirdýralæknis til landbúnaðar-ráðuneytisins, dagsett 3. ágúst 1989, með því að tiltekin sláturhús fengju undanþágu til slátrunar samkvæmt lista er þeim fylgdu. Jafnframt hefur ráðuneytið staðfest að önnur viðeigandi gögn finnist ekki.

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að umboðsmaður kærenda fór með bréfi til landbúnaðarráðuneytisins, dagsettu 4. janúar sl., fram á að ráðuneytið veitti umbjóðendum hans aðgang að öllum gögnum um síðustu löggildingu sláturhúss [A] í [X], þ. á m. að umsögn embættis yfirdýralæknis um málið og gögnum henni tengdri.

Með bréfi, dagsettu 12. janúar sl., synjaði landbúnaðarráðuneytið beiðni kærenda með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 á þeim grundvelli að umbeðin gögn vörðuðu mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni félagsins.

Í kæru til nefndarinnar er dregið í efa að 5. gr. upplýsingalaga eigi við. Þó svo væri telja kærendur að hagsmunir almennings af að fá aðgang að gögnum er tengjast opinberu eftirliti vegi almennt þyngra en einkahagsmunir þeirra er þær snerta. Verði takmörkun samt sem áður talin eiga við, fara kærendur einnig fram á að afstaða verði tekin til aðgangs að öðru leyti á grundvelli 7. gr. upplýsingalaga.

Í umsögn landbúnaðarráðuneytisins til úrskurðarnefndar er áréttað að ákvörðun þess hafi byggst á 5. gr. upplýsingalaga, enda varði umbeðin gögn viðkvæmar rekstrarupplýsingar, sem geti haft áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Þar kemur jafnframt fram að löggilding sláturhússins hafi verið gefin út árið 1990 á grundvelli laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Með lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat, lögum nr. 93/1995, um matvæli og síðar með reglugerð nr. 461/2003, um slátrun og meðferð sláturafurða, hafi útgáfa sláturleyfis verið skilin frá löggildingu og á þann hátt að yfirdýrlæknir fari með útgáfu þess.

Í máli nr. 196/2005 var fjallað um önnur gögn er varða sama sláturhús. Við rekstur málsins kom fram að sláturhúsið hefði verið úrelt eftir slátrun síðastliðið haust og að ekki verði slátrað þar oftar.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

Fyrir liggur að síðasta löggilding sem sláturhúsi [A] í [X] var veitt var með erindi landbúnaðarráðuneytisins til [A], dagsettu 1. september 1990. Þessi löggilding byggðist á 2. gr. laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, en samkvæmt því ákvæði var það skilyrði fyrir að flytja mætti sláturafurðir á erlendan markað eða til dreifingar og neyslu innanlands að slátrað væri í löggiltu sláturhúsi. Hélst þetta skilyrði óbreytt þegar gildandi lög nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, leystu lög nr. 30/1966 af hólmi hvað sem líður viðbótarskilyrðum um sérstök sláturleyfi yfirdýralæknis.

Jafnframt liggur fyrir að eina gagnið sem fundist hefur tengt útgáfu þessarar löggildingar er umsókn [A] til landbúnaðarráðuneytisins, dagsett 18. júní 1990, um sláturleyfi fyrir sláturhúsið í [X] og fjögur önnur sláturhús félagsins. Skýra verður beiðni kæranda svo að hún taki einvörðungu til þeirra upplýsinga í þessari umsókn sem varða sláturhúsið í [X].

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. laganna. Samkvæmt síðari málsl. 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskipta-hagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki, er í hlut á. Í lögskýringargögnum við upplýsingalögin segir m.a. svo um þetta ákvæði: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni."

Af lögskýringargögnum við upplýsingalögin verður jafnframt ráðið að ráð sé fyrir því gert að metið sé í hverju og einu tilviki hvort þeir hagsmunir séu fyrir hendi sem þessum takmörkunum er ætlað að vernda. Í athugasemdum við II. kafla frumvarps þess er varð að upplýsingalögum segir svo: „Aðgangur almennings að upplýsingum verður almennt ekki takmarkaður á grundvelli ákvæða 5.-6. gr. nema að undangengnu mati stjórnvalds á því hvort hætta sé á að þeir hagsmunir, sem þar eru tilgreindir, skaðist ef upplýsingar eru veittar."

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni þeirra gagna sem beiðni kærenda tekur samkvæmt framansögðu til. Í skjali því, sem nefnt er „Leyfi til slátrunar" og veitti sláturhúsinu í [X] löggildingu, dagsett 1. september 1990, eru engar upplýsingar, sem varða sláturhúsið sérstaklega, aðrar en hámark þess fjölda kinda sem þar mátti slátra daglega. Að mati nefndarinnar eru það ekki upplýsingar sem eru til þess fallnar að valda fjárhags- eða viðskiptahagsmunum [A] tjóni, sér í lagi þegar haft er í huga að ekki verður framar slátrað í húsinu. Sama á við um skjalið, sem nefnt er „Umsókn um sláturleyfi", dagsett 18. júní 1990. Þó skal þess getið að úrskurður nefndarinnar þar að lútandi tekur í samræmi við beiðni kæranda einvörðungu til þeirra upplýsinga í því skjali er varða sláturhúsið í [X].

Úrskurðarorð:

Landbúnaðarráðuneytið skal veita kærendum, […], aðgang að umsókn [A] til landbúnaðarráðuneytisins um sláturleyfi, dagsett 18. júní 1990, að því er varðar sláturhúsið í [X] og bréfi landbúnaðarráðuneytisins til [A], dagsett 1. september 1990, um leyfi til slátrunar í sláturhúsinu í [X].

 

Páll Hreinsson, formaður

Friðgeir Björnsson

Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta