Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2005 Forsætisráðuneytið

A-203/2005 Úrskurður frá 11. apríl 2005

ÚRSKURÐUR

Hinn 11. apríl 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-203/2005:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 12. október sl., kærði […] synjun yfirdýralæknis, dagsetta 4. s.m., um að veita umbjóðendum hans aðgang að öllum gögnum, skjölum, erindum, bréfum, skýrslum og úttektum, er fyrir lægju hjá embættinu vegna umsagna þess til landbúnaðarráðuneytisins um löggildingu sláturhúsanna í [sveitarfélögunum A, B, C, D, E, F, G, H og I], sbr. reglugerð nr. 461/2003

Í bréfinu fóru kærendur einnig á grundvelli 5. gr. sömu reglugerðar fram á aðgang að skýrslum vegna árlegs eftirlits með þessum sláturhúsum á yfirstandandi ári. Með bréfi, dagsettu 22. nóvember sl., tilkynnti umboðsmaður kærenda að kæran tæki eingöngu til eftirlitsskýrslna vegna sláturhúsanna [A], [F] og [H]. Úrskurðarnefndin ákvað að kljúfa þessa beiðni í þrjú mál, þar sem fjallað væri sjálfstætt um aðgang að eftirlitsskýrslum um sérhvert þessara sláturhúsa. Í úrskurði þessum er fjallað um aðgang að eftirlitsskýrslum varðandi sláturhús [A]. Um sláturhúsið á [H] var fjallað í úrskurði A-196/2005.

Með bréfi, dagsettu 15. nóvember sl., var upphaflega kæran kynnt yfirdýralækni og honum veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 26. nóvember s.l. Jafnframt var þess óskað að í umsögn hans kæmi fram hvert væri umfang þeirra gagna sem kærendur höfðu leitað eftir. Með bréfi, dagsettu 28. nóvember sl., var yfirdýralækni kynnt síðari kæran frá 22. nóvember 2004 og honum gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir til kl. 16.00 hinn 13. desember s.l.

Með bréfi dags. 27. janúar s.l. var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrðu látin í té í trúnaði afrit af eftirlitsskýrslum héraðsdýralæknis vegna eftirlits með sláturhúsi [A] og sláturhúsinu [F] á árinu 2004. Var gefinn frestur til 2. febrúar s.l.

Umsögn yfirdýralæknis um upphaflegu kæruna, dagsett 24. nóvember s.l., barst hinn 29. s.m. Umsögn hans um síðari útgáfu hennar, dagsett 13. desember s.l., barst innan tilskilins frests. Loks bárust gögn vegna umræddra tveggja sláturhúsa einnig innan tilskilins frests. Kom þar fram að sláturhúsin [A] og [F] væru enn starfandi og bréfritara ekki kunnugt um að fyrirhugað væri að úrelda þau.

Með bréfi dags. 10. febrúar sl. var [A] gefinn kostur á að tjá sig um hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að þeirra mati að eftirlitsskýrslan yrði afhent. Í svari [A] dags. 31. mars s.l. er því mótmælt að upplýsingar um sláturhús félagsins séu afhentar samkeppnisaðila.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að umboðsmaður kærenda fór með bréfi til yfirdýralæknis, dagsettu 27. september s.l., fram á að fá aðgang að öllum gögnum, skjölum, erindum, bréfum, skýrslum og úttektum, er fyrir lægju hjá embættinu vegna umsagna þess til landbúnaðarráðuneytisins um löggildingu sláturhúsanna [sveitarfélögunum A, B, C, D, E, F, G, H og I], sbr. reglugerð nr. 461/2003, og skýrslur vegna eftirlits með þeim á grundvelli 5. gr. sömu reglugerðar á yfirstandandi ári.

Með bréfi til umboðsmanns kærenda, dagsettu 4. október sl., synjaði yfirdýralæknir beiðni kærenda með vísan til þess að umbeðin gögn vörðuðu mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni viðkomandi sláturhúsa. Því væri óheimilt að veita að þeim aðgang á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í kæru til nefndarinnar er dregið í efa að umbeðin gögn hafi að geyma upplýsingar er varði hagsmuni sem varðir séu af 5. gr. upplýsingalaga. Jafnvel þótt svo væri, er ennfremur talið að mikilvægir almannahagsmunir m.t.t. fæðuöryggis og heilnæmra lífsskilyrða ættu að vega þyngra og víkja þeim til hliðar.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Kærendur hafa óskað eftir aðgangi að skoðunarskýrslum yfirdýralæknis vegna sláturhúss [A] árið 2004.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. laganna. Samkvæmt síðari málsl. 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskipta-hagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki er í hlut á. Í athugasemdum við 5. grein frumvarps til upplýsingalaga segir m.a. svo um þetta ákvæði:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni."

Samkvæmt 2. og 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 461/2003 um slátrun og meðferð sláturafurða, skulu héraðsdýralæknar árlega skoða ítarlega húsnæði og búnað sláturhúsa, kjötpökkunarstöðva, kjötfrystihúsa, kjötvinnslustöðva og dreifistöðva, meðferð á afurðunum, innra eftirlit og annað sem yfirdýralæknir gefur fyrirmæli um og skila ítarlegri skýrslu um skoðun sína til eiganda fyrirtækisins og yfirdýralæknis. Af 4. mgr. sömu greinar má ráða að eftirlit þetta fer fram til að ganga úr skugga um að starfsemin á viðkomandi stað uppfylli enn skilyrði löggildingar.

Jafnvel þótt upplýsingar sem aflað er um ástand slíkra húsa í þessu skyni geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli, gera upplýsingalögin ráð fyrir að það sé metið í hverju og einu tilviki. Í athugasemdum við II. kafla frumvarps þess er varð að upplýsingalögum segir svo:

„Aðgangur almennings að upplýsingum verður almennt ekki takmarkaður á grundvelli ákvæða 5.-6. gr. nema að undangengnu mati stjórnvalds á því hvort hætta sé á að þeir hagsmunir, sem þar eru tilgreindir, skaðist ef upplýsingar eru veittar."

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni þeirra skýrslna sem kærendur hafa óskað eftir aðgangi að. Að áliti hennar er þar ekki að finna neinar þær upplýsingar um fjárhags- eða viðskiptahagsmuni er réttlæti samkvæmt framansögðu að synja kærendum um aðgang að þeim. Að þessu athuguðu eru ekki að lögum skilyrði til að takmarka aðgang að framangreindum skýrslum. 

Úrskurðarorð:

Yfirdýralæknir skal veita kærendum, […], aðgang að skýrslu um sláturhús [A] dagsettri 6. október 2004.

 

 

Páll Hreinsson, formaður

Friðgeir Björnsson

Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta