Hoppa yfir valmynd
1. desember 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Spennandi tímar í menntamálum - Morgunblaðið, 1. desember 2017

Lilja AlfreðsdóttirÍ upphafi síðustu aldar lögðu íslensk stjórnvöld mikla áherslu á menntamál í aðdraganda fullveldisins, þrátt fyrir að vera eitt fátækasta ríki Evrópu. Árið 1907 samþykkti Alþingi ný fræðslulög en fram að þeim tíma var fræðsla á ábyrgð heimilanna. Kennaraskólinn var svo í framhaldinu stofnaður árið 1908 til að tryggja að börn fengju leiðsögn menntaðra kennara og 1911 var Háskóli Íslands stofnaður. Ljóst er að þessi framfaraskref í menntamálum þjóðarinnar lögðu grunninn að þeim framförum sem íslenskt samfélag og hagkerfi tók næstu áratugina. Enda er það svo að fá ríki hafa aukið lífsgæði og lífskjör á jafn skömmum tíma og Ísland. Þessi þróun er þó ekki sjálfgefin og framsýni þeirra sem lögðu grunninn að menntun þjóðarinnar skiptir hér miklu máli. Þegar menntastefnan er mótuð, þarf að huga sérstaklega að framtíðinni og ákveða hvernig við sem þjóð ætlum að tryggja velsæld í krafti framfara.

Nýja ríkisstjórnin boðar stórsókn í menntamálum með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Meginmarkmiðið í þeirri vinnu er að tryggja að allir geti stundað nám við hæfi, óháð efnahag eða búsetu. Ætlunin er að efla iðnnám, verk- og starfsnám í þágu fjölbreyttara og öflugra samfélags. Við viljum auka tækniþekkingu til að gera íslenskt samfélag samkeppnishæfara á alþjóðavísu. Lögð verður áherslu á að efla nýsköpun og þróun á öllum skólastigum. Skapandi greinum verður gert hátt undir höfði. Liður í því er að tryggja framhaldsskólunum frelsi og fjármagn til eigin stefnumótunar. Annað mikilvægt markmið þessarar ríkisstjórnar varðar auknar fjárveitingar til háskólastigsins. Í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs ætlar ríkisstjórnin að tryggja að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 er varðar fjárframlög á hvern nemanda. Þetta mun skipta sköpum fyrir kennslu og rannsóknir í íslenskum háskólum. Farið verður í stefnumótun sem miðar að því að bæta samkeppnishæfni há- skólastigsins.

Á 100 ára fullveldisafmælinu er kjörið tækifæri til að horfa yfir farinn veg. Meta þarf hvar vel hefur tekist hjá þjóðinni og hvað megi gera betur. Þrátt fyrir að íslenskt menntakerfi sé öflugt hefur þróun síðustu ár því miður verið sú að frammistaða íslenska skólakerfisins í hinni alþjóðlegu PISA-könnun hefur versnað. Ég er þó sannfærð um það að í framsækinni stefnumótun munum við skipa okkur aftur í fremstu röð. Við lifum í heimi örra breytinga og tæknibyltingin mun breyta vinnumarkaði mikið. Þau störf sem verða til í framtíðinni munu í æ ríkari mæli byggjast á hugviti og sköpun. Þess vegna er brýnt að skólakerfið taki mið af þessari þróun og að við sem þjóð búum okkur undir þá spennandi tíma sem framundan eru. Til að vel takist í þróun menntamála þarf allt samfélagið að taka þátt í þeirri vegferð.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta