Hoppa yfir valmynd
7. desember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 518/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 518/2023

Fimmtudaginn 7. desember 2023

A

gegn

Sveitarfélaginu Árborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. október 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 6. september 2023, um að synja umsókn hennar um aukna stuðningsþjónustu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið stuðningsþjónustu frá Sveitarfélaginu Árborg í formi heimilisþrifa frá árinu 2018. Í júní 2023 fór kærandi fram á aukna stuðningsþjónustu, meðal annars þrif á salerni og gólfi í aukaherbergi. Beiðni kæranda var synjað að því leyti með bréfi velferðarþjónustu Árborgar, dags. 19. júní 2023, með vísan til 5. gr. reglna félagslegrar heimaþjónustu í Árborg. Kærandi áfrýjaði þeirri ákvörðun til velferðarnefndar Árborgar sem tók málið fyrir á fundi 31. ágúst 2023 og staðfesti synjun stuðningsþjónustunnar. Sú ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi, dags. 6. september 2023. Kærandi fór fram á rökstuðing fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur 9. október 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. október 2023. Með bréfi, dags. 31.október 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sveitarfélagsins Árborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð sveitarfélagsins barst 16. nóvember 2023, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. nóvember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að brotið hafi verið á henni vegna synjunar á heimaþjónustu. Kærandi telji það vera vegna persónulegra fordóma í stað lagalegrar ástæðu. Kærandi hafi mætt andúð og fordómum frá ráðamönnum í Árborg. Kærandi hafi þörf fyrir þjónustu vegna læknisfræðilegra ástæðna en vottorð og 20 ára saga hennar um þörf á þjónustu sé ekki tekið gilt. Þess í stað vilji sveitarfélagið að hún kaupi ryksuguvélmenni og segist vita betur um heilsu kæranda en læknar hennar. Það séu mörg ár síðan kærandi hafi verið dæmd óstarfhæf og engar líkur séu á endurhæfingu. Kærandi hafi gert allt sem henni hafi verið sett fyrir en hafi fyrir vikið uppskorið enn meiri niðurskurð. Kærandi hafi ásamt réttindagæslumanni fundað með starfsmönnum Árborgar en þeim hafi víst fundist það svo ómerkilegt að ekki hafi verið rituð nein fundagerð um málefnið.

Heimaþjónusta Árborgar hafi ekkert að gera með hvað kærandi geri í sínum frítíma en hún hafi verið fús til samvinnu. Kærandi þurfi bara vissa þjónustu sem séu þrif á öllum gólfum, þrif á baðherbergi ásamt hjálp við rúmfataskipti. Kærandi þurfi ekki að fá iðjuþjálfa til þess að skipuleggja heimilið eða til að segja við hana að hún geti bara látið vini sína þrífa. Það hafi iðjuþjálfi sagt við hana ásamt því að hún geti hent skrauti og þess háttar. Einnig að hún gæti látið gæludýr sín annað en starfsmenn hafi þó ekki þurft að þrífa eftir dýrin. Niðurskurður sveitafélags eigi ekki að bitna á þeim sem séu í mestri þörf.

III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Árborgar

Í greinargerð Sveitarfélagsins Árborgar er farið fram á að öllum kröfum kæranda verði hafnað, enda hafi hin kærða ákvörðun verið lögmæt og tekin að undangenginni fullnægjandi málsmeðferð.

Kæran snúi að því að kæranda hafi ekki verið veitt undanþága frá reglum sveitarfélagsins um að fá aðstoð við þrif á rýmum sem séu ekki í daglegri notkun ásamt auknum þrifum á salerni. Beiðni hafi borist munnlega frá kæranda á óformlegum fundi með kæranda, félagslegri stuðningsþjónustu og réttindagæslumanni fatlaðs fólks 7. júní 2023. Fundurinn hafi verið að beiðni kæranda í kjölfar breytinga á veittri aðstoð og hafi einungis verið til að svara spurningum hennar og réttindagæslumanns og því hafi ekki verið rituð fundargerð. Engar ákvarðanir hafi verið teknar á fundinum en beiðni kæranda um þrif á auka herbergjum hafi verið móttekin. Málið hafi verið tekið fyrir á fundi fullorðinsteymis Árborgar þann 14. júní 2023. Beiðninni hafi verið hafnað með vísan til þess að heimilisþrif næðu aðeins til rýma sem væru í daglegri notkun og ekki væru forsendur fyrir undanþágu frá þeim reglum. Í beiðni kæranda hafi hún farið fram á að fá þrif á tveimur svefnherbergjum hússins og baðherbergi en einungis hafi verið fallist á að veita þjónustuna vegna eins svefnherbergis, þ.e. svefnherbergis kæranda, og þrif á baðherbergi að hluta til í samræmi við mat á getu kæranda. Kæranda hafi verið tilkynnt um niðurstöðuna bréfleiðis. Með ákvörðuninni hafi verið fallist á beiðni kæranda að hluta, þ.e. fallist hafi verið á aðstoð við gólfþrif rýma í daglegri notkun, þ.e. vegna eins svefnherbergis, rúmfataskipti og þrif á sturtu. Í kjölfarið hafi kærandi áfrýjað niðurstöðunni til velferðarnefndar Sveitarfélagsins Árborgar og mál hennar hafi verið tekið fyrir á fundi nefndarinnar þann 31. ágúst 2023. Synjunin hafi verið staðfest og kærandi hafi verið upplýst um þá ákvörðun með bréfi, dags. 6. septemeber 2023. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og rökstuðningur hafi verið sendur henni í tölvupósti þann 9. október 2023.

Kærandi hafi skilað inn tveimur læknisvottorðum til velferðarþjónustu Árborgar á meðan á veitingu þjónustu til hennar hafi staðið. Í vottorði sem hafi fylgt kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála, sem hafi borist árið 2018, komi fram að kærandi sé á ónæmisbælandi lyfjum, sé með bólgugigt og vefjagigt. Annað vottorð hafi borist velferðarþjónustunni árið 2022, sem hafi einnig fylgt með kæru, þar sem fram komi að kærandi sé með stoðkerfissjúkdóma og sé ráðið frá erfiðum húsverkum, svo sem gólfþrifum. Tekið sé tillit til læknisvottorða og litið sé til þeirra við mat á þjónustuþörf. Heildrænt mat á þjónustuþörf og eðli þjónustu fari þó fram á vegum velferðarþjónustu Árborgar út frá sérþekkingu með matstækjum og öðrum gögnum sem umsækjandi skili.

Upphaflega hafi verið lagt mat á þjónustuþörf kæranda árið 2018 og í framhaldi hafi hafist þjónusta inn á heimili hennar. Við upphaflegt mat hafi tvær dætur kæranda búið á heimili hennar og markmið þjónustunnar hafi í byrjun verið að hæfa hana og styrkja í þeim verkefnum sem hún hafi fengið aðstoð við. Kærandi hafi lítt eða ekki tileinkað sér orkusparandi aðferðir eða bætta líkamsbeitingu, til þess að auka hæfni hennar. Við matið hafi jafnframt verið stuðst við matstækið COPM, Canadian Occupational Therapy Measure sem meti frammistöðu, mikilvægi og ánægju skjólstæðinga við athafnir daglegs lífs. Niðurstaðan hafi verið að iðjuvandar væru til staðar, svo sem að ryksuga, skúra, að takmarka skjánotkun barnanna, að fara út að ganga og að koma sér í að fara í búð en ekki hafi fengist samstarfsvilji til að vinna með vanda. Einnig hafi verið notað RAI home-care matstækið, alþjóðlegt matskerfi sem meti hvort umsækjendur séu í þörf fyrir heimaþjónustu til að geta búið heima, sem hafi ekki sýnt fram á þörf kæranda fyrir þjónustu.

Kærandi tilgreini liðagigt (iktsýki) og vefjagigt sem forsendur þess að hún sé ekki fær um að sinna þrifum á heimili sínu. Fólki með liðagigt sé ráðlagt að viðhalda daglegri hreyfingu og virkni í bland við hvíld þar sem langflestar rannsóknir um gigt séu sammála um að hreyfing og virkni við hæfi bæti líðan einstaklinga með gigt en ekki einungis hvíld. Iðjuhjólið, matstæki iðjuþjálfa, sem sýni hvernig einstaklingur eyði degi sínum hafi verið lagt fyrir kæranda þegar hún hafi flutt í sveitarfélagið árið 2018. Niðurstöðu þess hafi sýnt að kærandi geri lítið á meðaldegi og eyði miklum tíma í slökun og skjátíma. Þó ekki sé hægt að yfirfæra þessar niðurstöður yfir á daginn í dag sýni það ákveðið vanamynstur en þá hafi kærandi verið með börn á heimilinu en í dag búi hún ein. Það hafi því ekki verið talið í hag kæranda að taka yfir aðkallandi verkefni og því sú vegferð farin að efla kæranda og gefa henni þau verkfæri sem hún gæti nýtt sér til að sinna þeim.

Með framangreindum matstækjum hafi rækilega verið metnir allir þættir sem geti skipt máli varðandi það hvort kærandi hefði þörf fyrir þjónustu og þá hvaða þjónustu. Endurmat hafi verið gert á þjónustu 25. janúar 2023 af iðjuþjálfa og teymisstjóra velferðarþjónustu með hliðsjón af því að sveitarfélög eigi að meta stuðningsþörf reglulega samkvæmt 27. gr. félagsþjónustulaga. Í endurmati komi fram að kærandi geti ekki þrifið gólf vegna verkja í baki en geti þrifið baðherbergi, þurrkað af og tekið þátt í að skipta á rúmfötum. Aðstoðinni hafi í kjölfar endurmats verið breytt í þrif á gólfum, skipt á rúmum á tveggja vikna fresti og sturtuþrif í samræmi við 10. gr. reglna um félagslega heimaþjónustu í Árborg. Að auki komi fram að kærandi verði skráð á biðlista eftir iðjuþjálfun sem hefjist í síðasta lagi vorið 2024 þar sem endurhæfing sé ekki talin fullreynd. Með endurhæfingu eða hæfingu iðjuþjálfa sé leitast við að auka hæfni þjónustuþega til sjálfsbjargar og aukinnar færni inn á heimili sínu en ekki við að bæta úr heilsufari þjónustuþega. Með þessum hætti sem hér hafi verið lýst hafi verið framkvæmt fullnægjandi mat á þjónustuþörf kæranda og aðstæðum hennar, sbr. 10. gr. reglna Sveitarfélagsins Árborgar um félagslega heimaþjónustu.

Velferðarþjónusta Árborgar vinni samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og þar komi skýrt fram í 12. gr. að sveitarfélag skuli aðstoða og þjónusta einstaklinga og fjölskyldur til að bæta úr sínum vanda og koma í veg fyrir að viðkomandi geti ekki ráðið úr málum sínum sjálfur. Nánar sé fjallað um veitingu stuðningsþjónustu í VII. kafla laganna. Markmið stuðningsþjónustu samkvæmt þeim kafla sé að aðstoða og hæfa notendur sem þurfi aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir dagslegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningþjónsta skuli stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi, sbr. 25. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna sé sveitarfélagi skylt að sjá til um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búi á eigin heimilum og þurfi aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningsþjónustu skuli veita svæðisbundið með þeim hætti sem best henti á hverjum stað. Aðstoð skuli veitt inann og utan heimils samkvæmt þeim reglum sem sveitarfélagið sjálft setji. Í 3. mgr. 26. gr. laganna komi fram að ráðherra skuli gefa út leiðbeiningar um framkvæmd stuðningsþjónustu, tímafjölda og mat á þörf fyrir þjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga veiti þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm innan marka laga og leiðbeininga til þess að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilji og geti veitt. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrár um sjálfstjórn sveitarfélaga sé mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur viðkomandi sveitarstjórnar. Sveitarfélagið Árborg byggi á því að við því mati verði ekki hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggi reglur sveitarfélagsins á þessu sviði á lögmætum sjónarmiðum og séu í samræmi við lög að öðru leyti.

Sveitarfélagið bendi á að með kæru hafi fylgt nýjar reglur Sveitarfélagsins Árborgar sem hafi tekið gildi 1. september 2023. Þágildandi reglur sveitarfélagsins, sem hafi verið í gildi þegar ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda, kveði á um að í öllum tilvikum takmarkist aðstoð við þau herbergi sem séu í daglegri notkun, svo sem eldhús, baðherbergi, ganga, svefnherbergi, stofu og borðstofu, sbr. 5. gr. reglnanna. Með þessari afmörkun tryggi sveitarfélagið nauðsynlega þjónustu við þjónustuþega til að tryggja þeim aðstoð við athafnir daglegs lífs en sinni ekki þjónustu við umframrými sem þjónustuþegi kunni að hafa aðgang að. Þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi kærandi búið ein á heimili með fjórum svefnherbergjum og hún hafi farið fram á að tvö þeirra væru þrifin í tengslum við félagslega heimaþjónustu með vísan til þess að þau tvö væru í mikilli notkun. Ekki hafi verið fallist á að meira en eitt svefnherbergi gæti talist til rýma sem væru í daglegri notkun á heimili einstaklings. Ljóst sé að aðstæður kæranda hafi ekki uppfyllt þessi silyrði reglna sveitarfélagsins og hin kærða ákvörðun hafi því verið lögmæt og í fullu samræmi við gildandi reglur sveitarfélagsins.

Eins og reglurnar greini til um sé mikilvægt að taka ekki verkefni af fólki sem stuðli að velferð þeirra og markmiðið sé alltaf að efla notendur til sjálfshjálpar og aukins sjálfstæðis. Í þessu tilfelli hafi niðurstaðan verið að samþykkja ekki þá þjónustuþætti sem ekki falli að reglunum og sem kærandi hafi sagst sinna milli vitjana félagslegrar stuðningsþjónustu án vandræða (salerni, vaskur og spegill). Það síðara hafi verið gert til að auka hreyfingu einstaklings með gigt sem lifi mjög kyrrlátum lífsstíl. Þess megi þó geta að kærandi fái aðstoð við líkamlega krefjandi þrif.

Varðandi athugasemdir kæranda um ryksuguvélmenni þá sé það staðlaður hluti bæði matstækjanna sem notast sé við og ráðgjafar til skjólstæðinga að upplýsa þá um hugsanleg hjálpartæki sem geti gagnast fólki við að halda í horfi á milli viðhaldsþrifa eða sem geti stuðlað að góðri líkamsbeitingu. Í tengslum við slíka umræðu hafi verið rætt um hjálpartæki eins og afþurrkunarkústa og ryksuguvélmenni. Ekki hafi verið lagt til við kæranda að slík tæki kæmu í stað þjónustu heldur aðeins að þau væru nýtt samhliða þjónustu við hana. Sveitarfélagið vísi alfarið á bug ásökunum um andúð og fordóma. Ekkert í kæru bendi til þess að kærandi hafi mátt þola andúð eða fordóma í samskiptum sínum við velferðarþjónustu sveitarfélagsins og ekkert í gögnum málanna bendi til nokkurs annars en að ákvarðanir um veitingu þjónustu til kæranda hafi allar byggt á málefnalegum rökum.

Með vísan til alls framangreinds og fyrirliggjandi gagna fari sveitarfélagið fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála hafni kröfu kæranda.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Sveitarfélagsins Árborgar á beiðni kæranda um aukna stuðningsþjónustu.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við stuðningsþjónustu, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Sveitarfélög skuli tryggja að stuðningur við íbúa sem hafi barn á framfæri sé í samræmi við það sem sé barninu fyrir bestu. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VII. kafla laga nr. 40/1991 er fjallað um stuðningsþjónustu. Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningsþjónusta skal stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi, sbr. 25. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er sveitarfélagi skylt að sjá um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningsþjónustu skal veita svæðisbundið með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Aðstoð skal veitt fjölskyldum barna sem metin eru í þörf fyrir stuðning. Aðstoð skal veitt innan og utan heimilis samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur.

Í 3. mgr. 26. gr. laganna kemur fram að ráðherra skuli gefa út leiðbeiningar um framkvæmd stuðningsþjónustu, tímafjölda og mat á þörf fyrir þjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þá segir að sveitarstjórn skuli setja nánari reglur um stuðningsþjónustu á grundvelli leiðbeininga ráðherra. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur viðkomandi sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Gildandi reglur Sveitarfélagsins Árborgar um framkvæmd stuðningsþjónustu eru reglur um stuðnings- og stoðþjónustu fullorðinna einstaklinga frá 1. september 2023 en þegar beiðni kæranda barst voru í gildi eldri reglur frá árinu 2012. Samkvæmt 1. gr. þeirra reglna er markmið heimaþjónustu, en þar undir fellur aðstoð við heimilishald, að efla notandann til sjálfsbjargar og sjálfstæðis og gera honum kleift að búa sem lengst á eigin heimili við sem eðlilegastar aðstæður. Við framkvæmd þjónustunnar skuli þess gætt að hvetja notandann til virkrar þátttöku eins og hægt sé. Í 5. gr. reglnanna kemur fram að aðstoð við heimilishald geti meðal annars falið í sér aðstoð við almenn heimilisþrif. Aðstoð við heimilisþrif takmarkist við þau herbergi sem séu í daglegri notkun, svo sem eldhús, baðherbergi, ganga, svefnherbergi, stofu og borðstofu. 

Í 10. gr. framangreindra reglna er kveðið á um mat á þjónustuþörf. Þar segir í 1. mgr. að starfsmaður heimaþjónustu meti þjónustuþörf og slíkt mat skuli fara fram eins fljótt og auðið er eftir að umsókn berst. Matið fari alla jafna fram á heimili umsækjanda og aðstæður séu kannaðar og metnar. Við matið sé tekið sérstakt tillit til sjónarmiða umsækjanda, færni hans til að sinna athöfnum daglegs lífs, félagslegrar stöðu og fjölskylduaðstæðna. Leitast sé við að veita þá þjónustu sem umsækjandi eða aðrir heimilismenn séu ekki færir um að annast sjálfir.

Í endurmati frá 25. janúar 2023 kemur fram að kærandi geti ekki þrifið gólf vegna verkja í baki en geti þrifið baðherbergi, þurrkað af og tekið þátt í að skipta á rúmfötum. Í kjölfarið fékk kærandi samþykkta aðstoð við þrif á gólfum, rúmfataskipti á tveggja vikna fresti og þrif á sturtu á fjögurra vikna fresti. Kærandi óskaði síðar eftir aukinni þjónustu, nánar tiltekið þrif á salerni og gólfi í auka herbergi.

Sveitarfélagið Árborg hefur vísað til þess að þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi kærandi búið ein á heimili með fjórum svefnherbergjum. Hún hafi farið fram á að tvö þeirra væru þrifin í tengslum við félagslega heimaþjónustu með vísan til þess að þau tvö væru í mikilli notkun. Ekki hafi verið fallist á að meira en eitt svefnherbergi gæti talist til rýma sem væru í daglegri notkun á heimili einstaklings. Þá hafi ekki verið fallist á þrif á salerni þar sem kærandi hafi sagst sinna því á milli vitjana félagslegrar stuðningsþjónustu án vandræða. Einnig til að auka hreyfingu einstaklings með gigt sem lifi mjög kyrrlátum lífsstíl. Þá hefur sveitarfélagið vísað til þess að kærandi fái aðstoð við líkamlega krefjandi þrif.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið gögn málsins og telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreint mat Sveitarfélagsins Árborgar. Ekki verður annað ráðið en að sveitarfélagið hafi lagt fullnægjandi mat á aðstæður kæranda og er niðurstaða þess mats í samræmi við reglur sveitarfélagsins.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 6. september 2023, um að synja umsókn A, um aukna stuðningsþjónustu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta