Hoppa yfir valmynd
6. september 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna kæru þrotabús

Lögfræðistofa Suðurnesja ehf.
Ásbjörn Jónsson, hrl.
Hafnargötu 51-55
230 Keflavík

Reykjavík 6. september 2013
Tilv.: FJR13050089/16.2.2


Efni: Úrskurður vegna kæru Þrotabús [X].

Ráðuneytið vísar til kæru, dags. 21. maí 2013, þar sem kærð er ákvörðun tollstjóra, dags. 4. apríl 2013, um að skuldajafna inneign kæranda í staðgreiðslu kr. 1.766.416. Í kærunni er þess krafist að ákvörðun tollstjóra verði felld úr gildi og að tollstjóra verði gert að standa kæranda skil á kr. 1.776.416. Skuldajöfnunin var staðfest með ákvörðun tollstjóra, dags. 7. maí 2013, þar sem hafnað var að endurgreiða kæranda framangreinda upphæð.

Málavextir og málsástæður

Skuldajöfnuninni var mótmælt með bréfi, dags. 16. apríl 2013, til tollstjóra þar sem fram kom að kærandi taldi að krafan ætti að vera fallin niður vegna vanlýsingar. Tollstjóri svaraði með bréfi, dags. 23. apríl 2013, þar sem fram kom að hann teldi að 3. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., ætti við og krafan væri því ekki fallin niður fyrir vanlýsingu. Tollstjóri taldi að skilyrði 100. gr. laganna væru uppfyllt eins og 3. tl. 118. gr. gerði áskilnað um. Að öðru leyti styddist skuldajöfnuðurinn við 36. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Með bréfi, dags. 24. apríl 2013, mótmælti kærandi skuldajöfnunni og óskaði þess að tollstjóri bakfærði hana og greiddi kr. 1.766.416 til þrotabúsins. Með ákvörðun tollstjóra, dags. 7. maí 2013, var því hafnað að bakfæra skuldajöfnuðinn.

Kæra, dags. 21. maí 2013
Í kærunni kemur fram að þann 4. apríl 2013 hafi myndast inneign hjá kæranda í staðgreiðslu upp á kr. 4.908.204. Af þeirri upphæð hafi tollstjóri greitt kæranda kr. 3.141.788 en skuldajafnað kr. 1.766.416 á móti ógreiddu tryggingagjaldi [X] frá tekjuárinu 2009. Tryggingagjaldið hafi verið ógreitt og hafi sýslumaður ekki lýst kröfu í bú kæranda vegna þess.

Kærandi telur að tollstjóri hafi ekki haft heimild til skuldajöfnuðar á grundvelli 3. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og 36. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Það hafi verið yfirlýst löggjafarstefna síðustu áratugi að afnema forgang hins opinbera við gjaldþrotaskipti. Það komi skýrlega fram í lögum nr. 32/1974 sem breyttu skiptalögum nr. 3/1878 sem hafi verið forveri laga nr. 6/1978 og 21/1991. Skuldajöfnun tollstjóra sé í mikilli mótsögn við löggjafarstefnu síðari ára og valdi ójafnræði meðal kröfuhafa [X]. Kærandi telur ekki vera heimild í 36. gr. laga nr. 45/1987 til að skuldajafna sköttum og gjöldum við inneignir þrotabús. Þá bendir kærandi á að skilyrðin sem þurfi að vera uppfyllt séu almenn skilyrði skuldajafnaðar samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991. Eitt af þeim skilyrðum sé að krafa þrotabús hafi orðið til á hendur kröfuhafa fyrir frestsdag en það hafi krafa þrotabús [X] ekki verið. Hún hafi ekki orðið til fyrr en við breytingu á staðgreiðslunni þann 4. apríl 2013. Kærandi telur því ekki hægt að byggja skuldajöfnun tollstjóra á 100. gr. laga nr. 21/1991.

Kærandi telur rökstuðning tollstjóra skorta innra samræmi og að dómar Hæstaréttar sem tollstjóri vísi til eigi ekki við um þetta tilvik ásamt því að dómarnir hafi takmarkað fordæmisgildi eftir að yngri dómar hafi verið kveðnir upp þar sem fjallað hafi verið beint um skuldajöfnun vörsluskatta við gjaldþrot. Vísað er til dóma Hæstaréttar nr. 102/1998 og 151/1998 þar sem niðurstaðan var sú að skuldajöfnunarákvæði 3. mgr. 25. gr. virðisaukaskattslaga voru talin eiga að víkja fyrir ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga. Kærandi telur því að 36. gr. laga nr. 45/1987 víki ekki ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga og því þurfi skilyrði 100. gr. laganna að vera uppfyllt. Það sé hins vegar ekki í þessu máli þar sem krafa [X] á hendur tollstjóra hafi ekki orðið til fyrr en við útreikning inneignar félagsins í staðgreiðslu þann 4. apríl 2013. Af þessum sökum telur kærandi að tollstjóri geti ekki byggt á 3. tl. 118. gr. gjaldþrotaskiptalaga þar sem þeirri grein verði ekki beitt nema uppfyllt séu skilyrði 100. gr. sömu laga.

Þá kemur fram í kærunni að 118. gr. gjaldþrotaskiptalaga sé ekki ætlað að veita opinberum aðilum rýmri rétt til kröfulýsinga en öðrum kröfuhöfum og Hæstiréttur hafi margítrekað að skýra eigi töluliði 118. gr. þröngt. Einnig kemur fram að í kærunni að vanlýsing kröfu við innköllun sé eitt þeirra tilvika sem bundið geti enda á tilvist kröfuréttinda. Niðurfall slíkra réttinda sé endanlegt nema ákvæði í lögum standi til annars og sé 3. tl. 118. gr. gjaldþrotaskiptalaga slíkt ákvæði. Með vísan til framangreinds telur kærandi að skilyrði 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga séu ekki uppfyllt.

Ákvörðun tollstjóra, dags. 7. maí 2013
Í ákvörðun tollstjóra, dags. 7. maí 2013, kemur fram að kröfulýsing vegna tryggingagjalds [X] virðist ekki hafa verið send skiptastjóra. Tollstjóri telur að umræddur skuldajöfnuður hafi verið lögmætur og vísar til 36. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ákvæðið boði skyldu til skuldajöfnuðar áður en af endurgreiðslu inneignar geti orðið. Vilji löggjafans hafi staðið til þess að auka heimildir til skuldajafnaðar, sbr. 4. gr. laga nr. 135/2002, um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Með breytingunni hafi skuldajafnaðarheimildin verið rýmkuð á þá leið að undir hana falli allir skattar og gjöld en ekki ákveðnar skatttegundir eins og áður hafi verið. Skýr dómafordæmi séu um að skuldajafnaðarákvæði skattalaga gangi framar ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga.

Þá telur tollstjóri að 3. tl. 118. gr. gjaldþrotaskiptalaga gildi um tilvikið þar sem það veiti kröfuhöfum almennt rétt til skuldajafnaðar við kröfur sínar enda þótt þeim hafi ekki verið lýst í þrotabúið. Umrædd inneign hafi myndast vegna staðgreiðslu launagreiðanda tímabilið 2009-12 og hafi því verið orðin til fyrir frestdag í skilningi skattalaga. Skilyrði 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga séu því upfyllt. Tollstjóri telur því að skuldajöfnuðurinn hafi verið gerður í samræmi við lög og því sé ekki unnt að verða við kröfu um endurgreiðslu umþrættar upphæðar.

Umsögn tollstjóra, dags. 3. júlí 2013
Með bréfi, dags. 3. júní 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn tollstjóra um málið. Í umsögn tollstjóra, dags. 3. júlí 2013, kemur fram að ákvæði 36. gr. staðgreiðslulaga geti ekki verið skýrara og fortakslausara um skyldu innheimtumanna ríkissjóðs til skuldajöfnunar inneignar í staðgreiðslu á móti gjaldföllnum sköttum til ríkis og sveitarfélaga. Því er mótmælt að ákvæðið nái ekki yfir inneignir þrotabúa. Þrotabú sé eins og hver annar gjaldandi í skilningi skattalaga og innheimtumanni beri skýlaus skylda til að skuldajafna inneign sem myndast vegna tímabila fyrir töku bús til gjaldþrotaskipta.

Þá vísar tollstjóri til niðurstöðu í dómum Hæstaréttar nr. 101/1998 og nr. 151/1998 þar sem fram kemur að óheimilt hafi verið að skuldajafna inneign sem myndaðist á tímabilum eftir töku bús til gjaldþrotaskipta við kröfur sem stofnuðust fyrir töku bús til gjaldþrotaskipta. Tollstjóri telur að af niðurstöðunni megi draga þá ályktun að heimilt sé að skuldajafna inneignum á tímabilum fyrir töku bús til gjaldþrotaskipta á móti kröfum sem einnig hafa stofnast fyrir töku bús til gjaldþrotaskipta eins og hátti til í þessu máli.

Tollstjóri telur umfjöllun kæranda um löggjafarstefnu síðustu áratuga ekki skipta máli enda snúi sú umfjöllun að því þegar lagt var af að skattkröfur væru forgangskröfur við gjaldþrotaskipti. Það snerti á engan hátt skuldajafnaðarheimildir skattalaga. Þvert á móti sé til þess að líta að vilji löggjafans hafi staðið til þess að rýmka skyldu til skuldajafnaðar skv. 36. gr. staðgreiðslulaga með því að ákvæðið næði til allra skatta, ekki afmarkaðra skatta eins og áður var, sbr. 4. gr. laga nr. 135/2002, um lög um breytingu á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

Þá telur tollstjóri að ákvæði 36. gr. staðgreiðslulaga hafi forgang gagnvart ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga og telur ekki að skilyrði 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga þurfi að vera uppfyllt svo skuldajöfnuður nái fram að ganga á grundvelli ákvæðisins. Þó beri svo við í máli þessu að skilyrði greinarinnar séu uppfyllt þar sem báðar kröfur hafi myndast fyrir frestdag og hafi því verið hæfar til að mætast. Skattbreyting ríkisskattstjóra á staðgreiðslu sé ávallt færð á þau tímabil sem hún sé sprottin af enda sé breytingin á áður álögðum gjöldum. Fullyrðing annars efnis í kæru eigi því ekki við rök að styðjast.

Í umsögninni kemur einnig fram að í 3. tl. 118. gr. gjaldþrotaskiptalaga komi ekki fram við hvaða skilyrði heimilt sé að beita ákvæðinu og ekki sé að finna neina vísbendingu um þá fullyrðingu kæranda í lögskýringargögnum að ákvæðið eigi aðallalega við þá aðstöðu þegar aðili hafi uppi kröfu um skuldajöfnun í dómsmáli gegn þrotabúi á grundvelli 29. gr. laga nr. 21/1991, um meðferð einkamála. Tollstjóri telur því að hafna verði þeirri fullyrðingu kæranda. Að lokum bendir tollstjóri á að ákvæðið eigi við um alla kröfuhafa, jafnt innheimtumenn ríkissjóðs sem og aðra og því sé ekki um brot á jafnræði að ræða.

Með vísan til framangreinds telur tollstjóri ljóst að umdeildur skuldajöfnuður hafi verið lögmætur. Öll skilyrði laga sem embættið byggði ákvörðun sína á séu uppfyllt og því eigi að staðfesta synjun á erindi kæranda.

Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt 36. gr. staðgreiðslulaga nr. 45/1987 skal ríkisskattstjóri gera endurgreiðsluskrá yfir þá gjaldendur sem reynast eiga inni eftirstöðvar af staðgreiðslu að lokinni álagningu og skuldajöfnun milli hjóna samkvæmt ákvæðum 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. enn fremur 32. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Endurgreiðsluskrá skal send Fjársýslu ríkisins sem sér um endurgreiðslu fyrir hönd ríkissjóðs og sveitarfélaga eftir að skuldajöfnun á móti gjaldföllnum sköttum til ríkis og sveitarfélaga hefur farið fram.

Ráðuneytið gaf út reglur 19. september 1995 um forgang greiðslna og skuldajöfnuð sem birtar hafa verið á vef ráðuneytisins. Reglur um skuldajöfnuð inneigna í staðgreiðslu eru í kafla C. 1 á bls. 5. Þar kemur fram hvernig framkvæmd skuldajafnaðar skuli vera og er tiltekið að inneign í staðgreiðslu skuli skuldajafnað á móti tryggingagjaldi.

Þá kemur til skoðunar hvort það skipti máli að inneignin hafi orðið til eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta og að kröfu vegna tryggingagjaldsins hafi ekki verið lýst.

[X] var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 14. apríl 2010. Í gögnum málsins kemur fram að krafa á hendur [X] vegna tryggingagjaldsins hafi orðið til á árinu 2009. Fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta eftir þann tíma en kröfu vegna tryggingagjaldsins var ekki lýst í þrotabúið. Þann 4. apríl 2013 myndaðist umrædd inneign í staðgreiðslu launagreiðanda hjá þrotabúinu sem var skuldajafnað á móti tryggingagjaldinu eða kr. 1.776.416.

Ef kröfu á hendur þrotabúi er ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur skv. 2. mgr. 85. gr. og ekki er unnt að fylgja henni fram gagnvart því skv. 116. gr., þá fellur hún niður gagnvart búinu nema krafan sé höfð uppi til skuldajafnaðar við kröfu þrotabúsins að fullnægðum skilyrðum 100. gr., sbr. 3. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.Krafa vegna tryggingagjaldsins átti því ekki að falla niður ef unnt var að skuldajafna henni við kröfu á hendur þrotabúi [X].

Í 100. gr. laga nr. 21/1991 segir að hver sá, sem skuldar þrotabúinu, geti dregið það frá sem hann á hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið ef lánardrottinn hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag.

[X] var tekið til gjaldþrotaskipta 14. apríl 2010 og frestdagur var 13. apríl 2010. Krafa vegna tryggingagjaldsins varð til á árinu 2009 og var krafan því til fyrir frestdag. Inneignin í staðgreiðslu sem til var komin vegna skattbreytingar 4. apríl 2013 varð til vegna tímabilsins 2009-12. Það tímabil var fyrir frestdag. Samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 er unnt að skuldajafna ef krafa á hendur þrotabúi hefur orðið til áður en þrír mánuðir voru til frestdags og ef krafa þrotabúsins hefur orðið til fyrir frestdag. Sú er raunin í þessu máli og telur ráðuneytið því skilyrði til skuldajöfnunar vera fyrir hendi.

Í forsendum héraðsdóms Reykjavíkur í dómi Hæstaréttar nr. 151/1998 og í dómi Hæstaréttar nr. 102/1998 kemur fram að skilyrði 100 gr. laga nr. 21/1991 voru ekki uppfyllt og var því óheimilt að skuldajafna í þeim málum. Í þessu máli eru skilyrði skuldajöfnunar fyrir hendi skv. 100. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. og telur ráðuneytið það því ekki hafa þýðingu í málinu að kröfu vegna tryggingagjaldsins var ekki lýst í þrotabú [X].

Með vísan til framangreinds staðfestir ráðuneytið ákvörðun tollstjóra um skuldajöfnunin hafi verið lögmæt.

Úrskurðarorð
Ákvörðun tollstjóra, dags. 7. maí 2013, um að umræddur skuldajöfnuður hafi verið gerður í samræmi við lög og ekki sé unnt að verða við kröfu um endurgreiðslu að fjárhæð kr. 1.766.416 er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta