Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2024

Kolefnishlutlaus tækniiðnaður, kolefnisföngun, sjálfbærnikröfur til fyrirtækja, peningaþvætti, fjármálareglur, Schengen o.fl. o.fl.

Að þessu sinni er fjallað um:

  • einföldun regluverks og stuðning við kolefnishlutlausan tækniiðnað
  • kolefnisföngun og -geymslu
  • áreiðanleikakannanir á sjálfbærni fyrirtækja
  • nýja reglugerð um för yfir landamæri
  • endurskoðun reglna um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
  • endurskoðun fjármálareglna ESB
  • ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi
  • neyðarregluverk fyrir innri markaðinn
  • samevrópsk öryrkjaskírteini og bílastæðakort
  • aksturs- og hvíldartímareglur fyrir ökumenn hópferðabíla
  • reglur um rannsóknir sjóslysa
  • notkun kvikasilfurs
  • umbætur á reglum um stöðustofnun
  • aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni í ESB
  • uppfærslu regluverks um evrópska hagskýrslugerð
  • óformlegan fund ráðherraráðs ESB um samkeppnishæfni og framtíð innri markaðarins
  • uppfærðan lista yfir forgangsmál í hagsmunagæslu gagnvart ESB

 

Einföldun regluverks og stuðningur við kolefnishlutlausan tækniiðnað

Þann 6. febrúar sl. síðastliðinn náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu framkvæmdastjórnar ESB að reglugerð um kolefnishlutlausan tækniiðnað (e. Net-Zero Industry Act) sem ætlað er að hraða umtalsvert uppbyggingu nauðsynlegs tækniiðnaðar á innri markaðnum til að ná loftslagsmarkmiðum ESB.

Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 24. mars sl., sbr. einnig í Vaktinni 10. febrúar sl.,  þar sem fjallað er um framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans (e. Green Deal Industrial Plan for the Net-Zero Age).

Tillagan tengist einnig náið áherslum ESB sem kenndar eru við opið strategískt sjálfræði (e. Open Strategic Autonomy) og hafa að markmiði að tryggja samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar, dreifa áhættu í aðfangakeðjum og auka frelsi ESB til athafna á alþjóðavettvangi eins og nánar var fjallað um í Vaktinni 24. nóvember sl., sbr. einnig m.a. umfjöllun í Vaktinni 2. febrúar sl. þar sem fjallað er um tillögur að aðgerðum til að efla efnahagslegt öryggi ESB.

Afstaða EES/EFTA-ríkjanna

EES/EFTA-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein, komu á framfæri afstöðu sinni til tillögunnar í sameiginlegu EES/EFTA áliti þann 11. desember sl. Í álitinu var tillögunni fagnað og áhersla lögð á að hún yrði styrkt. Jafnframt var lögð áhersla á að Ísland og Noregur nytu sérstöðu sem forysturíki í þróun tæknilausna sem snúa að föngun, geymslu og förgun kolefnis. Sjá nánari umfjöllun um kolefnisföngun og -geymslu kolefnis hér að neðan í Vaktinni.

Meginatriði samkomulagsins

Samkomulag Evrópuþingsins og ráðherraráðsins styður við öll meginmarkmið tillögunnar auk þess sem hún er styrkt með einfaldari leyfisveitingarferlum, tilkomu iðnaðarsvæða sem tileinkuð verða kolefnishlutleysi og skýrari viðmiðum fyrir útboð og opinber innkaup.

Með samkomulaginu verður gefinn út listi yfir nauðsynlega tækni og viðmið við val á strategískum verkefnum sem stuðla muni að markmiðum um kolefnishlutleysi. Þannig er markmiðið að skapa vissu fyrir fjárfesta og fyrirtæki sem starfa í geiranum. Verkefnin sem verða fyrir valinu munu njóta hraðari leyfisveitinga og bætts aðgengis að lánsfé. 

Samkomulagið felur einnig í sér að tímarammi leyfisveitinga fyrir verkefni sem eru stærri en 1 gígavatt verður að hámarki 18 mánuðir. Að sama skapi verður tímaramminn fyrir smærri verkefni (undir 1 gígavatti) að hámarki 12 mánuðir. Styttri tímafrestir munu verða settir fyrir strategísk verkefni. Gætt verður að öryggi verkefnanna auk félagslegra og umhverfisáhrifa verkefna svo þau standist allar viðeigandi kröfur.

Reglugerðin mun styðja við þróun fyrirtækjaklasa á sérstökum iðnaðarsvæðum sem tileinkuð verða kolefnishlutlausri tækni. Svæðunum er ætlað að laða fyrirtæki að ESB og stuðla að enduriðnvæðingu.

Reglugerðin mun kveða á um ramma fyrir opinber innkaup á vörum og þjónustu sem tengist strategískri kolefnishlutlausri tækni. Séð verður til þess að ferlar séu gagnsæir, raunhæfir og samræmdir og stuðli að fjölbreyttu framboði slíkrar tækni á innri markaðnum ásamt því að tryggja viðeigandi sveigjanleika fyrir kaupendur. Reglunum er ætlað að hvetja til opinberra innkaupa á kolefnishlutlausri tækni auk þess sem gerðar eru kröfur um sjálfbærni og viðnámsþrótt.

Auk ofangreinds mun reglugerðin koma á útboðskerfi fyrir kolefnishlutlausa tækni. Unnt verður að gera ófjárhagslegar kröfur í útboðum á borð við sjálfbærni, nýsköpun eða samþættingu við fyrirliggjandi dreifikerfi orku. Slíkar kröfur munu eiga við að minnsta kosti 30% innkaupa á ársgrundvelli í aðildarríkjunum.

Tillagan gengur nú til formlegrar samþykktar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Kolefnisföngun og -geymsla – Ísland í framvarðasveit að mati ESB

Þann 6. febrúar sl. sendi framkvæmdastjórn ESB frá sér orðsendingu um kolefnisföngun (Industrial Carbon Management Communication) þar sem fjallað er um leiðir til að fanga, geyma og nota kolefni á sjálfbæran hátt með það að markmiði að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Í orðsendingunni er Ísland nefnt sem eitt af fjórum ríkjum í framvarðasveit Evrópu er kemur að geymslu kolefnis í jarðlögum á iðnaðarskala sem sýnir að íslenska fyrirtækið Carbfix og skyld verkefni hafa vakið mikla og verðskuldaða athygli.

Framangreind orðsending og sú stefnumótun sem í henni felst er sett fram í samhengi við NZIA reglugerð sem mælir fyrir um aðgerðir til að styrkja kolefnishlutlausan tækniiðnað (Net-Zero Industry Act), sbr. umfjöllunum þá reglugerð hér að framan í Vaktinni.

Eins og kunnugt er hefur ESB skuldbundið sig til að ná fram kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Enda þótt megin hluti viðleitni í þessa veru sé að draga úr losun kolefnis er einnig horft til þess með hvaða hætti sé unnt að fanga koldíoxíð og fjarlæga það úr andrúmsloftinu til geymslu eða nýtingar eftir atvikum. Er þetta sérlega mikilvægt á þeim sviðum þar sem erfitt og kostnaðarsamt er að draga úr losun.

Kolefnisföngun hefur verið mikið til umræðu á vettvangi ESB og EFTA að undanförnu. Meðal annars efndu Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-skrifstofan í Brussel til ráðstefnu um þróun kolefnisföngunar og geymslu (CCS – Carbon Capture and Storage) þann 30. janúar sl. Kadri Simson, orkumálastjóri ESB, Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, og Terje Aasland, orkumálaráðherra Noregs, fluttu ávörp á fundinum. Auk þess tóku Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar Jónína S. Lárusdóttir, forstöðumaður innri markaðs sviðs ESA, og Edda Sif Pind Aradóttir, forstjóri Carbfix, þátt í pallborðsumræðum. Sjá nánar um ráðstefnuna í fréttatilkynningu EFTA-skrifstofunnar.

Í NZIA er lagt upp með að ESB byggi upp geymslugetu fyrir a.m.k. 50 milljónir tonna af koldíoxíði fyrir árið 2030. Byggt á mati á áhrifum á ráðlögðum loftslagsmarkmiðum ESB fyrir árið 2040, mun þessi tala þurfa að hækka í um 280 milljónir tonna árið 2040. Í orðsendingunni er sett fram alhliða stefnumótun til að ná þessum markmiðum.

Í orðsendingunni er fjallað um aðgerðir sem grípa á til á vettvangi ESB og í aðildarríkjunum til að mögulegt verði að beita CCS-tækni (CCS – Carbon Capture and Storage) og til að byggja upp nauðsynlega innviði fyrir sameiginlegan kolefnismarkað í Evrópu á næstu áratugum.

Sjá í þessu samhengi skýrslu sem Sameiginlega rannsóknarmiðstöð framkvæmdastjórnar ESB (Joint Research Centre - JRC) gaf út nýverið um framtíð  flutningsinnviða og fjárfestingarþarfir.

Fyrirhugað er að framkvæmdastjórn ESB muni meta magn koldíoxíðs sem þarf að fanga til að mæta markmiðum ESB um samdrátt í losun. Mun þetta væntanlega jafnframt fela í sér mat á því hvernig hægt er að gera grein fyrir flutningi og varanlegri geymslu á kolefni á grundvelli viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (ETS), sbr. hér.

Sjá í samhengi við framangreint nýja orðsendingu framkvæmdastjórnar ESB um losunarmarkmið fyrir árið 2040, sem einnig var birt 6. febrúar sl., þar sem lagt er mat á mismunandi leiðir til að ná markmiðum í loftlagsmálum fyrir árið 2040 og kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. 

Tilskipun um áreiðanleikakannanir á sjálfbærni fyrirtækja

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði þann 23. febrúar 2022 fram tillögu að tilskipun um áreiðanleikakannanir á sjálfbærni fyrirtækja (e. Corporate Sustainability Due Diligence).

Með tillögunni er lagt til að settar verði skyldur á stórfyrirtæki um að forðast að starfsemi þeirra hafi raunveruleg eða möguleg slæm áhrif á umhverfið eða mannréttindi, m.t.t. viðskiptaaðila á fyrri stigum í aðfangakeðju (e. upstream business partners) og að hluta til m.t.t. viðskipaaðila í fráliggjandi starfsemi (e. downstream activities).

Í tillögunni er einnig lagt til að settar verði reglur um viðurlög og einkaréttarlega ábyrgð vegna brota á framangreindum skyldum. Þá er lagt til að stórfyrirtækjum verði gert að setja sér aðgerðaáætlun til að tryggja að viðskiptamódel og áætlanir þeirra séu í samræmi við Parísarsamkomulagið vegna loftslagsbreytinga.

Lagt er til að fyrirtækjum verði gert skylt að leitast við að greina og afstýra neikvæðum áhrifum af starfsemi þeirra á mannréttindi og umhverfi. Þar getur verið um að ræða mögulega barnaþrælkun, slæman aðbúnað verkamanna, mengandi starfsemi eða starfsemi sem hefur skaðleg áhrif á vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni. Gert er ráð fyrir að reglurnar, verði þær að veruleika, skýri réttarstöðu fyrirtækja á þessu sviði um leið og gagnsæi er aukið til hagsbóta fyrir fjárfesta og neytendur.

Samkomulag um efni málsins

Þann 14. desember 2023 náðist pólitískt samkomulag í þríhliða viðræðum milli ráðherraráðs ESB, Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögunnar.

Samkvæmt samkomulaginu mun gildissvið tillögunnar ekki taka miklum breytingum. Gert er ráð fyrir að tilskipunin muni að meginreglu ná til stórfyrirtækja, þ.e. fyrirtækja með 500 starfmenn eða fleiri að meðaltali og meira en 150 milljónir evra í ársveltu.

Tilskipunin mun þó einnig ná til fyrirtækja með 250 starfsmenn eða fleiri að meðaltali og meira en 40 milljónir evra í ársveltu ef 50% eða meira af ársveltunni má rekja til starfsemi í nánar tilteknum geirum atvinnulífsins sem taldir eru áhættusamir. Þar má sem dæmi nefna textíliðnað, landbúnað og námuvinnslu en einnig fiskveiðar og fiskeldi.

Fyrirtæki í þriðju ríkjum (utan EES-svæðisins) sem felld verða undir fyrirhugað regluverk eru þau sem hafa meira en 300 milljónir evra í ársveltu í ESB, samkvæmt mælingu sem gerð verður þremur árum eftir að gerðin öðlast gildi. Framkvæmdastjórn ESB mun birta lista yfir fyrirtæki í þriðju ríkjum sem felld verða undir gerðina.

Fjármálageirinn verður undanskilinn gildissviði gerðarinnar til bráðabirgða. Í tillögunni er hins vegar að finna ákvæði til bráðabirgða um endurmat á gildissviðinu að þessu leyti eftir að fullnægjandi mat á áhrifum hefur farið fram.

Þá felur samkomulagið í sér að ákvæði tillögunnar um skyldur stórfyrirtækja til að setja sér aðgerðaráætlun vegna loftslagsbreytinga verði styrkt.

Þá felst í samkomulaginu að stórfyrirtæki muni þurfa, sem þrautavaraúræði, að binda enda á viðskiptasamband við fyrirtæki sem hafa slæm áhrif á umhverfið eða mannréttindi ef ekki reynist unnt að knýja á um úrbætur til koma í veg fyrir áhrifin.

Málsóknarréttur er veittur þeim sem brot hefur áhrif á (einstaklingum, stéttarfélögum og borgaralegum samtökum) og fyrnist slíkur réttur á fimm árum. Þá er kveðið á um sektir, lögbann, o.fl. í tillögunum.

Lagt er til að unnt verði að tengja fylgni við gerðina við rétt til þess að taka þátt í opinberum útboðum innan ESB.

Óvissa um endanlega afgreiðslu málsins

Eins og alla jafna á við þegar samkomulag í þríhliða viðræðum er kynnt þá er enn eftir nokkur vinna við tæknilegan frágang og textagerð þar sem texti tillögu er færður til samræmis við hið efnislega samkomulag sem gert hefur verið, þannig að unnt sé að taka málið til formlegrar lokaafgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Eins og á við um fleiri mál nú í aðdraganda kosninga til Evrópuþingsins þá hafa verið blikur á lofti um lokaafgreiðslu þessa máls. Atkvæðagreiðslum um lokatexta gerðarinnar á vettvangi sendiherra innan ráðherraráðs ESB hefur ítrekað verið frestað. Á þessu stigi er því ekki fyllilega ljóst hvort málið nái fram að ganga á núverandi kjörtímabili Evrópuþingsins, þar sem tímaramminn til afgreiðslu mála fyrir þinghlé í lok apríl þrengist óðum. 

Sjálfbærni í fyrirtækjarekstri hefur verið í umræðunni á Íslandi að undanförnu líkt og víða annars staðar. Meðal annars komu framangreind málefni til umræðu á síðustu janúarráðstefnu  Festu, miðstöðvar um sjálfbærni, þar sem Róbert Spanó, fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, flutti m.a. erindi um löggjafarþróun á þessu sviði.

Ný reglugerð um för yfir landamæri

Líkt og fjallað var um í Vaktinni þann 23. desember 2021 lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að uppfærðri reglugerð um för yfir landamæri (e. Schengen Borders Code) þann 14. desember s.á. Hinn 6. febrúar sl. náðist loks pólitískt bráðabirgðasamkomulag um tillöguna í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB.

Frjáls för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins annars vegar og öryggi ytri landamæranna hins vegar eru hornsteinar Schengen-samstarfsins. Uppfærð reglugerð skýtur styrkari stoðum undir þá grundvallarþætti samstarfsins sem að þessu lúta og skýrir sérstaklega reglur um heimildir til að taka upp tímabundið eftirlit á innri landamærum, líkt og víða var gert í kórónuveirufaraldrinum, og er breytingunum ætlað að tryggja að slíkt sé einungis gert í algjörum undantekningartilvikum. Með reglugerðinni er einnig boðið upp á ákveðnar lausnir þegar umsækjendur um vernd eru misnotaðir í pólitískum tilgangi (e. instrumentalisation) og sömuleiðis er kveðið á um heimildir til að grípa til sameiginlegra ferðatakmarkana standi ríkin frammi fyrir heilbrigðisvá á borð við heimsfaraldur.   

Misnotkun umsækjenda um vernd í pólitískum tilgangi (e. instrumentalisation)

Uppfærð reglugerð veitir heimildir til handa aðildarríkjunum til að ná styrkari stjórn á ytri landamærum og tryggja öryggi þeirra ef talið er að verið sé að misnota umsækjendur um alþjóðlega vernd í pólitískum tilgangi, t.d. flytja þá að ytri landamærum Schengen-svæðisins til að ógna öryggi þess. Er aðildarríkjunum heimilt í þessum tilvikum að takmarka fjölda landamærastöðva sem eru opnar eða stytta opnunartíma þeirra. Þess má geta að Finnland hefur nýverið beitt aðgerðum af þessu tagi við ytri landamæri sín að Rússlandi.

Upptaka eftirlits á innri landamærum Schengen-svæðisins

Reglugerðin skýrir einnig heimildir aðildarríkja til upptöku eftirlits á innri landamærum svæðisins. Um er að ræða afar erfitt og flókið pólitískt úrlausnarefni fyrir aðildarríkin og Evrópuþingið og hefur gengið erfiðlega að ná saman um þessar reglur undanfarin ár. Aðildarríkjum verður áfram heimilt að grípa til þessa úrræðis en þó einungis ef allt annað þrýtur. Eins þurfa aðildarríkin að tryggja meðalhóf við slíka ákvarðanatöku og meta nauðsyn þess að grípa til eftirlits á innri landamærunum, þ.e. að tryggja að engar aðrar vægari aðgerðir dugi til. Samkvæmt nýju reglunum munu aðildarríkin geta gripið til eftirlits á innri landamærum tafarlaust, standi ríki frammi fyrir ófyrirséðri ógn við öryggi og allsherjarreglu. Tilkynna þarf framkvæmdastjórn ESB um eftirlitið, aðildarríkjunum og Evrópuþinginu samtímis. Þess konar eftirlit er einungis heimilt að tilkynna fyrir einn mánuð í upphafi og framlengja um að hámarki þrjá mánuði. Þegar kemur að upptöku eftirlits á innri landamærum vegna fyrirsjáanlegra ógna er heimilt að tilkynna það til 6 mánaða með heimild til framlengingar um sex mánuði í senn í að hámarki í tvö ár. Í algjörum undantekningartilvikum verður heimilt að framlengja tvisvar sinnum um sex mánuði til viðbótar.

Aðrar aðgerðir sem grípa má til

Í reglugerðinni er jafnframt að finna nýmæli um aðgerðir sem heimilt er að grípa til svo bregðast megi við ólögmætri för einstaklinga sem dvelja ólöglega innan Schengen-svæðisins. Verður aðildarríki heimilt að flytja einstakling, sem dvelur ólöglega innan Schengen-svæðisins, til þess aðildarríkis sem hann kom frá. Flutningar af þessu tagi verða framkvæmdir á grundvelli tvíhliða endurviðtökusamninga sem aðildarríkin munu gera sín á milli.

Valdheimildir ráðherraráðs ESB í ljósi reynslunnar af heimsfaraldri kórónuveiru

Samkvæmt nýrri reglugerð fær ráðheraráðið heimildir til að samþykkja bindandi ákvarðanir um tímabundnar ferðatakmarkanir á ytri landamærum ef um neyðarástand er að ræða. Meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð gat ráðherraráðið aðeins gefið út óbindandi tilmæli til aðildarríkjanna. Bindandi ákvarðanir ráðsins geta falið í sér  heilsutengdar ferðatakmarkanir eins og skyldu til að gangast undir sýnatöku eða sæta sóttkví og einangrun. Eins er heimilt að undanþiggja ákveðna einstaklinga frá framangreindu, s.s. ríkisborgara EES svæðisins sem njóta frjálsrar farar innan svæðisins, einstaklinga sem hafa langtíma dvalarleyfi innan svæðisins eða njóta alþjóðlegrar verndar. 

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag. Gert er ráð fyrir því að reglugerðin taki gildi 30 dögum eftir að hún birtist í stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Þar sem reglugerðin flokkast sem þróun á Schengen regluverkinu er hún skuldbindandi fyrir Ísland.  

Endurskoðun reglna um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Í framhaldi af aðgerðaáætlun sem kynnt var 7. maí 2020 lagði framkvæmdastjórn ESB fram sérstakan löggjafarpakka um aðgerðir gegn peningaþvætti í júlí 2021. Fjallað var um aðgerðaáætlunina í Vaktinni 30. október 2020 og löggjafarpakkann í Vaktinni 3. september 2021. Í pakkanum eru þrjár tillögur sem eiga að stuðla að meiri samþættingu í aðgerðum gegn peningaþvætti innan ESB. Tillögurnar eru tilskipun um aðgerðir gegn peningaþvætti (AMLD), reglugerð um aðgerðir gegn peningaþvætti (AMLR) og sérstök reglugerð um nýtt eftirlitsstjórnvald um aðgerðir gegn peningaþvætti, sem er þungamiðjan í nýja regluverkinu (AMLA reglugerð, e. anti-money laundering agency).

Hinn 17. janúar sl. var tilkynnt að þingið og ráðið hefðu komist að samkomulagi um efni reglugerðarinnar og tilskipunarinnar. Áður hafði náðst samkomulag milli þingsins og ráðsins um efni AMLA reglugerðarinnar.

Í tillögu framkvæmdastjórnarinnar var gert ráð fyrir að mengi eftirlitsskyldra aðila samkvæmt reglugerðinni yrði nokkuð víðfeðmt og að til þess teldust m.a. fjármálastofnanir, fasteignasalar, eignastýrendur og spilavíti. Samkomulagið sem náðist í síðasta mánuði felur í sér að mengið er víkkað enn frekar út þannig að það nái t.d. til þjónustuaðila sýndareigna, sbr. umfjöllun í Vaktinni 7. júlí 2023 um nýja reglugerð um markaði með slíkar eignir, og atvinnuknattspyrnufélög og – umboðsmenn þeirra. Samkomulagið felur einnig í sér að gera þarf ítarlegri áreiðanleikakönnun í skilgreindum áhættusömum tilvikum. Regluverkið felur í sér samræmdar reglur um raunverulegt eignarhald og setur hámark á leyfilegar greiðslur í reiðufé innan ESB, eða 10.000 evrur. Breytingarnar taka mið af tæknibreytingum sem orðið hafa í fjármálageiranum, svo sem um rafmyntir og sýndareignir, eins og áður segir, og um samtengingu skráa um bankareikninga. Markmið reglugerðarinnar er að samræma reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti í ESB til að minnka möguleika á sniðgöngu.

Tilskipunin kveður á um stofnanauppbyggingu eftirlits með peningaþvætti í aðildarríkjum ESB. Haldin verður sérstök samræmd skrá um raunverulegt eignarhald og aðilar sem sæta viðskiptaþvingunum verða merktir sérstaklega. Þá er að finna samræmdar heimildir fyrir rannsóknaraðila fjárhagsbrota í ríkjunum, á borð við skrifstofu fjármálagreininga lögreglu hjá embætti héraðssaksóknara á Íslandi (e. financial intelligence units), til aðgengis að upplýsingum, til dreifingar á upplýsingum og til að stöðva ákveðnar greiðslur meðan þær eru rannsakaðar.

Enn hefur ekki verið ákveðið hvar ný miðlæg ESB stofnun, AMLA, verður staðsett. Fulltrúar þeirra níu borga sem koma til greina, en það eru Róm, Vín, Vilníus, Ríga, Frankfurt, Dyflinn, Madríd, Brussel og París, komu nýverið fyrir Evrópuþingið til að kynna hvað þær hefðu fram að bjóða í því sambandi.

Hlutverk stofnunarinnar verður að hafa beint eftirlit með tilteknum fjármálastofnunum sem starfa í mörgum aðildarríkjum þar sem áhætta er metin mikil eða yfirvofandi. Þá mun hún starfa með eftirlitsstjórnvöldum í aðildarríkjunum og samræma aðgerðir þeirra eftir þörfum. 

Tillögurnar ganga nú til formlegrar afgreiðslu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Samkomulag um endurskoðun fjármálareglna ESB

Samkomulag náðist í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB 10. febrúar sl. um endurskoðun fjármálareglna ESB. Tillögur að breytingum á reglunum voru lagðar fram í apríl sl. og var fjallað um þær í Vaktinni 5. maí sl.

Fjármálareglunum var vikið til hliðar tímabundið til þess að hægt yrði að bregðast við efnahagslegum áskorunum í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru og miklum hækkunum orkuverðs víða í Evrópu í kjölfar innrásar Rússa inn í Úkraínu. Tilefni þótti til að endurskoða fjármálareglurnar áður en þær tækju gildi aftur til þess að taka á þekktum annmörkum þeirra. Aðildarríki ESB höfðu mismunandi skoðanir á þessari endurskoðun sem endurspeglaði að vissu leyti stöðu ríkisfjármála í hverju landi fyrir sig. Nýjar reglur fela í sér nokkuð sveigjanlegri ramma fyrir ríkisfjármál aðildarríkja ESB en áður gilti.

Samkomulagið sem nú liggur fyrir breytir ekki þeim meginmarkmiðum sem stefnt hefur verið að með endurskoðuninni sem er að lækka skuldahlutföll og halla í ríkisfjármálum aðildarríkjanna jafnt og þétt með raunhæfum, viðráðanlegum leiðum sem jafnframt styðja við vöxt og fjárfestingu í mikilvægum greinum s.s. stafrænni þróun, grænum verkefnum og varnarmálum.

Áfram verður stuðst við skuldaviðmið sem nemur 60% af VLF og 3% afkomuviðmið. Fari ríki umfram það mun framkvæmdastjórn ESB leggja línurnar um hvernig eigi að komast undir viðmiðin á ný á fjórum árum. Samkomulagið felur í sér að áður en að því kemur eigi sér stað viðræður milli framkvæmdastjórnarinnar og viðkomandi aðildarríkis sem um ræðir. Í samkomulaginu felst jafnframt að tekið verði upp sérstakt eftirlitsfyrirkomulag til að fylgjast með því hvort afkoma ríkisins er í samræmi við upplegg framkvæmdastjórnarinnar. 

Til að verja og efla samkeppnisstöðu ESB í breyttu alþjóðaskipulagi er talið mikilvægt að fjármálareglurnar hefti ekki óhóflega möguleika aðildarríkjanna til að fjárfesta í tilteknum mikilvægum greinum. Til að mynda verður hægt að óska eftir því að framangreindur fjögurra ára frestur verði framlengdur um þrjú ár ef ríkin ráðast í fjárfestingar og umbætur sem efla viðnámsþrótt, styðja við vaxtargetu, sjálfbærni ríkisfjármála og sameiginleg markmið ESB. Takist aðildarríki ekki að komast undir skuldamarkmið á sjö árum verður heimilt að líta svo á, að skilyrðum uppfylltum, að framgangur þess sé eftir sem áður í samræmi við reglurnar svo lengi sem skuldahlutafallið er á niðurleið. 

Tillögurnar ganga nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Fjármálareglur ESB falla vitaskuld ekki undir EES-samninginn. Íslensk stjórnvöld fylgjast þó ávallt náið með þróun mála og umræðu á þessu sviði innan ESB, með hliðsjón af hagsmunum Íslands á innri markaðinum og með hliðsjón sjónarmiðum við efnahagsstjórn á Íslandi og framkvæmd laga um opinber fjármál þar sem m.a. er kveðið á um opinberar fjármálareglur fyrir Ísland.

Ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi

Samkomulag náðist í þríhliða viðræðum 6. febrúar sl. um efni nýrrar tilskipunar um baráttuna gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Um er að ræða fyrstu ESB-löggjöfina á þessu sviði og markar tilskipunin því tímamót.

Fjallað var stuttlega um tillöguna í Vaktinni 18. mars 2022 en markmið hennar er að samræma meginreglur og auka forvarnir á þessu sviði meðal aðildaríkja ESB. Á þetta m.a. við um refsiréttarlega skilgreiningu á hugtakinu nauðgun en í tillögunni er m.a. lagt til að samþykki verði lykilþáttur í skilgreiningu á nauðgun. Fjölmargar aðrar mikilvægar breytingar eru lagar til, svo sem að limlesting á kynfærum kvenna (umskurður), nauðungarhjónabönd, miðlun myndefnis í nánum samböndum, neteinelti o.fl. verði lýst refsivert þvert á aðildaríkin. Sjá nánar um tillöguna í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB frá 8. mars 2022.

Framkvæmdastjórn ESB hefur með sérstakri fréttatilkynningu fagnað því samkomulagi sem nú liggur fyrir. Það varpar þó óneitanlega skugga á málið að ekki náðist samkomulag um framangreinda megintillögu um að samþykki verði samræmt skilgreiningaratriði á hugtakinu nauðgun í hegningarlögum aðildarríkjanna. Er það ennþá skilgreiningaratriði og skilyrði refsingar fyrir nauðgun í mörgum ríkjum sambandsins að ofbeldi í einhverri mynd hafi verið beitt.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Umrædd tilskipun fellur ekki undir EES-samninginn. Á hinn bóginn hefur verið unnið að endurskoðun þessara mála á Íslandi á umliðnum árum. Þannig var skilgreiningu á nauðgun í almennum hegningarlögum m.a. breytt árið 2018, sbr. lög nr. 16/2018, þannig að hver sá sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og er sérstaklega undirstrikað að samþykki er aðeins gilt ef það er tjáð af frjálsum vilja. Þá var limlesting á kynfærum kvenna sérstaklega lýst refsiverð með breytingu á almennum hegningarlögum á Íslandi árið 2005, sbr. lög nr. 83/2005. Á allra síðustu árum hafa að auki verið gerðar margvíslegar fleiri breytingar á almennum hegningarlögum sem varða þessi málefni, svo sem lög nr. 8/2021 um kynferðislega friðhelgi, lög nr. 5/2021, um umsáturseinelti, lög nr. 79/2021, um mansal og lög nr. 29/2022, um barnaníðsefni, hatursorðræðu, mismunun o.fl., sbr. einnig lög nr. 40/2022 um breytingu á hjúskaparlögum, um aldur hjónaefna, könnunarmenn o.fl. og lög nr. 43/2023, um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, um tilkynningar um heimilisofbeldi. Sjá nánar um aðgerðir íslenskra stjórnvalda á þessu sviði í nýrri samantektarskýrslu sem forsætisráðuneytið birti í janúar sl.

Samkomulag um neyðarregluverk fyrir innri markaðinn 

Þann 1. febrúar sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu að neyðarregluverki fyrir innri markaðinn (e. Single Market Emergency Instrument (SMEI)).

Fjallað var um tillöguna í Vaktinni þann 23. september sl. Tillagan var lögð fram í kjölfar áskorana sem innri markaðurinn hefur staðið frammi fyrir vegna kórónaveirufaraldursins, árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu og orkukreppunnar sem fylgt hefur í kjölfarið.

Samkvæmt samkomulaginu mun reglugerðin hljóta nýtt heiti: „Internal Market Emergency and Resilience Act (IMERA)“. Samkomulagið felur einnig í sér að gerðar verði breytingar á ýmissi tengdri löggjöf, m.a. á sviði vöruöryggis og staðla, sem styðja mun við markmið reglugerðarinnar (IMERA Omnibus). Löggjafarpakkanum er í heild sinni ætlað að gera ESB betur kleift að sjá fyrir, undirbúa og bregðast við hættuástandi á innri markaðnum. 

Gert er ráð fyrir að komið verði á fót viðvarandi viðbragðs- og viðvörunarkerfi vegna mögulegs hættuástands og þegar hættuástand er talið fyrir hendi sé neyðarregluverkið virkjað til þess að aðildarríkin geti samræmt viðbrögð sín á skilvirkan hátt. Einnig er gert ráð fyrir að komið verði á fót ráðgjafarráði sem ætlað er að aðstoða og styðja við starf framkvæmdastjórnar ESB og aðildarríkjanna á þessu sviði auk þess sem því er ætlað að miðla upplýsingum til Evrópuþingsins.

Skerpt er á því að gildissvið reglugerðarinnar er bundið við aðgerðir sem tengjast innri markaðnum í neyðaraðstæðum og að regluverkið takmarki ekki með neinum hætti sjálfstæðar valdheimildir aðildarríkjanna á sviði þjóðaröryggis.

Samkomulagið gerir einnig m.a. ráð fyrir því að framkvæmdastjórn ESB framkvæmi regluleg álagspróf til að mæla viðnámsþrótt og möguleg áhrif mismunandi aðstæðna á fjórfrelsið.

Auk framangreinds er mælt nánar fyrir um heimildir til að efna til sameiginlegra útboða til innkaupa á vörum og þjónustu sem teljast nauðsynlegar vegna hættuástands sem uppi er og eftir atvikum til samhæfingar við framkvæmd opinberra innkaupa einstaka aðildarríkja.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Samevrópsk öryrkjaskírteini og bílastæðakort

Þann 8. febrúar náðist pólitískt samkomulag milli ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins um tilskipun um evrópska öryrkjaskírteinið og evrópska bílastæðakortið.  Eins og greint var frá í Vaktinni 15. september sl. er tilgangur gerðanna að auðvelda fólki með fötlun frjálsa för, með því að tryggja að þeim standi til boða sami réttur til þjónustu og forgangs og fólki með fötlun stendur til boða í viðkomandi ríki. Tilskipunin er hluti af aðgerðaráætlun Evrópusambandsins fyrir árin 2021-2030 um réttindi fólks með fötlun sem á að tryggja framfylgd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í Evrópu og á einnig að styðja við markmið  félagslegu  réttindastoðarinnar.  Í fréttatilkynningu frá ráðherraráðinu kemur fram að samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir því að gildissvið tilskipunarinnar um öryrkjaskírteinin verði útvíkkað nokkuð frá því sem upphafleg tillaga gerði ráð fyrir. Þannig er nú gert ráð fyrir því að reglurnar gildi ekki eingöngu fyrir ferðamenn, eins og upphaflega var ætlunin heldur einnig fyrir þá einstaklinga með fötlun sem nýta einhverja af áætlunum ESB til að stunda nám eða störf í einhverju aðildarríkjanna utan heimalands síns. Einnig er gert ráð fyrir því að aðildarríkjunum sé frjálst að útvíkka gildissviðið enn frekar en rétt er að taka fram að tilskipunin nær ekki til lífeyrisgreiðslna eða félagslegrar aðstoðar sem fatlaðir kunna að eiga rétt á í sínu heimalandi. Þó má geta þess að samkvæmt fréttatilkynningu European Disability Forum, evrópskra regnhlífasamtaka öryrkjabandalaga, sem send var út í tilefni af samkomulaginu er greint frá því að framkvæmdastjórn ESB hafi lýst sig reiðubúna til þess að skoða möguleika á því að öryrkjaskilríkin geti tekið til flutnings á frekari réttindum öryrkja milli aðildarríkja. Aðildarríkin, hvert fyrir sig, munu standa straum af kostnaði við innleiðingu gerðarinnar og útgáfu kortanna sem verða bæði í föstu og stafrænu formi en gert er ráð fyrir að útgáfan verði endurgjaldslaus eða gegn mjög hóflegu gjaldi.

Hvað samræmdu evrópsku bílastæðakortin varðar þá er gert ráð fyrir að þau komi alfarið í stað þeirra korta sem ríkin gefa nú út til íbúa sinna og verða þau fyrst um sinn einvörðungu í föstu formi en aðildarríkin geta samhliða gefið þau út í stafrænu formi kjósi þau það. 

Sjá nánar um tilskipunina í fréttatilkynningu sem framkvæmdastjórn ESB sendi frá sér í tilefni af samkomulaginu.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Aksturs- og hvíldartímareglur fyrir ökumenn hópferðabíla

Evrópuþingið og ráðherraráð ESB náðu þann 29. janúar sl. samkomulagi um efni tillögu að breytingum á aksturs- og hvíldartímareglum ökumanna í fólksflutningum. Breytingarnar miða m.a. að því að bæta umferðaröryggi og vinnuaðstæður ökumanna með auknum sveigjanleika og betri þjónustu við ferðamenn með því að heimila frávik frá reglunum þegar bílstjórar sinna tilfallandi hópferðaflutningum. Hámarks vinnutími og lágmarks hvíldartími helst þó óbreyttur.

Breytingarnar fela í sér að heimilt verður að:

  • skipta lágmarkshvíldartíma í tvær 45 mín lotur yfir 4,5 tíma aksturstíma.
  • fresta daglegum hvíldartíma um eina klukkustund að því gefnu að heildaraksturstími fari ekki yfir 7 klst. Leyfilegt er að nýta þennan sveigjanleika einu sinni í ferðum sem taka 6 daga og tvisvar ef ferðin tekur að minnsta kosti 8 daga.
  • fresta vikulegum hvíldartíma í allt að 12 samliggjandi daga eftir vikulegan hvíldartíma.

Kveðið er á um þróun stafræns viðmóts fyrir skrásetningar á viðeigandi upplýsingum vegna eftirfylgni og eftirlits með framkvæmd reglnanna. Þar til undirbúningi vegna stafrænnar skráningar er lokið þurfa bílstjórar að skrá niður upplýsingar án tengingar við miðlæga ökuritakerfið og hafa þær aðgengilegar fyrir eftirlitsaðila. Í samkomulaginu felst einnig að kveðið er skýrar á um eftirlit og viðurlagaheimildir ef á reynir, m.a. að því ríki þar sem brot á sér stað sé heimilt að refsa fyrir það þó svo að starfsstöð ökumanns sé í öðru aðildarríki.  

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Samkomulag um breytingar á reglum um rannsóknir sjóslysa

Evrópuþingið og ráðherraráð ESB komust þann 13. febrúar sl. að samkomulagi um efni tillögu að breytingum á reglugerð um rannsókn sjóslysa. Tillagan er hluti af tillögupakka framkvæmdastjórnar ESB um aukið siglingaöryggi sem fjallað var um í Vaktinni 9. júní sl.

Markmið tillögunnar er að einfalda og skýra núverandi reglur um rannsókn sjóslysa. Gildissvið rannsókna er víkkað út auk annarra breytinga sem samræmir gerðina við fánaríkis- og hafnarríkiseftirlit með fiskiskipum.

Nánar tiltekið eru helstu markmið breytinganna eftirfarandi:

  • Að auka öryggi fiskiskipa, áhafna og umhverfisins með samræmdri kerfisbundinni rannsókn á dauðaslysum og skipssköðum.
  • Að skýra gildissvið gerðarinnar.
  • Að auka getu rannsóknanefnda til að rannsaka og gefa út vandaðar óháðar skýrslur tímanlega.
  • Að uppfæra ýmsar skilgreiningar til samræmis við tengda löggjöf ESB og IMO (Alþjóðasiglingamálastofnunin) og tilvísanir í aðra löggjöf ESB og IMO til að auka skýrleika gerðarinnar.

Aðrar breytingar miða að því að styrkja sjálfstæði rannsóknanefnda, tryggja trúnað aðila við skýrslugerð og einfalda regluverkið sem þær starfa eftir.   

Nánar tiltekið snúa breytingarnar að því að:

  • færa reglurnar til samræmis við reglur IMO um tilkynningarskyldu þegar grunsemdir vakna um að brot hafi verið framið.
  • samræma reglurnar við aðra löggjöf ESB svo sem við tilskipun um öryggisbúnað skipa.
  • innleiða valkvætt ákvæði um gæðakerfi fyrir rannsóknir og leiðbeiningar um notkun þess.
  • innleiða samræmdan tveggja mánaða frest til að gera bráðabirgðarannsókn á slysum minni fiskiskipa.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Samkomulag um að hætta notkun kvikasilfurs

Þann 8. febrúar sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni reglugerðartillögu um að fasa út kvikasilfur í ESB. Tillagan felst í því að hætta notkun tannsilfurs (amalgams) í áföngum og banna framleiðslu, innflutning og útflutning á fjölda kvikasilfursbættra vara, þ. á m. tiltekinna lampa og ljósapera með það að lokamarkmiði að notkun kvikasilfurs verði alfarið hætt í ESB.

Í Vaktinni 18. mars 2022 var sagt frá því að ráðherraráð ESB hefði samþykkt tvær ákvarðanir sem tengjast afstöðu ESB til Minamata samningsins um kvikasilfur. Ísland er aðili að samningnum og eru ákvæði hans innleidd á EES-svæðinu með reglugerð Evrópuþingsins og ráðráðherraráðs ESB um kvikasilfur. Minamata samningurinn var undirritaður árið 2013 til að vernda heilsu manna og umhverfið gegn skaðlegum áhrifum kvikasilfurs. Reglugerð ESB um kvikasilfur, (ESB) 2017/852, gegnir lykilhlutverki við að ná markmiðum samningsins og stuðla að markmiði ESB um að takmarka og hætta notkun, framleiðslu og útflutningi á kvikasilfri og vörum sem innihalda kvikasilfur.

Í júlí 2023 lagði framkvæmdastjórn ESB til markvissa endurskoðun á reglugerðinni til að takast á við þá notkun á kvikasilfri sem enn er til staðar í ESB í samræmi við aðgerðaráætlun ESB um núllmengun (e. Zero pollution action plan). Kvikasilfur er hættulegt umhverfi og heilsu. Hingað til hefur stefna ESB átt stóran þátt í að draga verulega úr notkun kvikasilfurs og útsetningu fólks og umhverfis fyrir þessu mjög svo eitraða efni. Nú er eins og áður segir stefnt að því að hætta notkun þess alfarið.

Helstu atriði samkomulagsins eru:

  • Gildandi reglur banna notkun tannsilfur við tannviðgerðir barna yngri en 15 ára, barnshafandi kvenna og kvenna með barn á brjósti. Samkomulagið sem náðst hefur miðar við að bannið nái til allra sjúklinga frá og með 1. janúar 2025, með tilteknum tímabundnum undantekningum þó.
  • Enn fremur var samþykkt að frá og með 1. janúar 2025 verði bannað að flytja út tannsilfur og jafnframt að framleiðsla og innflutningur þess verði óheimil frá 30. júní 2026, með tilteknum tímabundnum undantekningum þó. 
  • Auk þess fela breytingarnar í sér áform um leiðir til að takmarka losun kvikasilfurs út í andrúmsloftið frá líkbrennsluofnum og mun framkvæmdastjórnin, eigi síðar en 31. desember 2029, endurskoða framkvæmdina og áhrif leiðbeininga í aðildarríkjum um hvernig megi draga úr losun frá líkbrennsluofnum
  • Frá og með 31. desember 2025 og 31. desember 2026, verður sett bann á framleiðslu og inn- og útflutningi á tilteknum tegundum ljósapera sem innihalda kvikasilfur.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Samkomulag um umbætur á reglum um stöðustofnun

Samkomulag náðist í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um endurskoðun á reglugerð og tilskipun um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár (e. The European market infrastructure regulation and directive, EMIR) 7. febrúar sl. Tillaga að endurskoðun reglugerðarinnar var lögð fram í desember 2022 og er hluti af aðgerðaráætlun til að styrkja fjármálamarkaði í ESB (e. Capital markets Union).

Endurskoðun á EMIR er ætlað að gera stöðustofnun (e. clearing) í ESB meira aðlaðandi og auka viðnámsþrótt. Stöðustofnun er hugtak sem er notað í afleiðuviðskiptum og merkir ferlið við að stofna stöður, þ.m.t. útreikning á hreinni skuldbindingu, og við að tryggja að fjármálagerningar, reiðufé, eða hvort tveggja, sé til staðar í viðskiptum til að tryggja áhættuskuldbindingar sem leiða af þeim stöðum. Gildandi reglur um stöðustofnun hafa fælt fjárfesta frá ESB til annarra landa og er það liður í efnahagsáætlun ESB að laða viðskiptin til sambandsins.

Í samkomulaginu felast breytingar sem eiga að gera það raunhæft fyrir eftirlitsaðila að beita einfaldari eftirlitsaðgerðum. Jafnframt er markmiðið að styrkja samvinnu, samræmingu og upplýsingaskipti milli eftirlitsaðila og Evrópsku verðbréfaeftirlitsstofnunarinnar (ESMA). ESMA fær ýmis ný hlutverk, t.d. hlutverk samræmingaraðila þegar upp koma neyðartilvik en ákvarðanataka liggur áfram hjá eftirlitsstjórnvaldi í hverju ríki. Þá er kveðið á um eins konar greiðslureikning (e. active account requirement) þar sem ákveðnir mótaðilar verða skyldugir til þess að halda reikning hjá miðlægum mótaðila innan ESB, t.d. svo hægt sé að eiga viðskipti fyrir hans hönd með stuttum fyrirvara. Sett verður upp sérstakt sameiginlegt eftirlitskerfi (e. joint monitoring mechanism) með þessum greiðslureikningum.

Tillögurnar ganga nú til formlegrar afgreiðslu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Samkomulag um reglur til að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum aðgengi að fjármagni í ESB

Í september 2020 birti framkvæmdastjórnin aðgerðaráætlun til þess að styrkja fjármagnsmarkaði í Evrópusambandinu (e. Capital markets Union). Í áætluninni eru 16 aðgerðir tilgreindar og miðar ein þeirra að því að auka aðgengi fyrirtækja að fjármagni á fjármálamörkuðum (e. Listing Act package). Samkomulag hefur nú náðst, 1. febrúar sl., í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB, um tvær gerðir í þessum pakka.

Annars vegar er um að ræða tillögu að tilskipun um skráningu verðbréfa á fjármagnsmarkaði. Markmið tillögunnar er að draga úr aðgangshindrunum og kostnaði og fjölga þannig mögulegum leiðum fyrir fyrirtæki innan ESB til að sækja sér fjármagn. Tilskipunin nær til fyrirtækja af öllum stærðum en sérstök áhersla er lögð á að bæta aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni. Þetta er gert t.d. með því að draga úr kröfum um upplýsingagjöf, einfalda útboðslýsingar og slaka á reglum um hvernig upplýsingar um fjárfestingakosti eru veittar og af hverjum.

Hins vegar er um að ræða tillögu að tilskipun um mismunandi atkvæðafjölda hluthafa í litlum og meðalstórum fyrirtækjum (e. directive on multiple vote share structures). Miða breytingar samkvæmt tillögunni fyrst og fremst að því að stofnendur fyrirtækja geti haft aukinn atkvæðisrétt umfram nýja fjárfesta eftir skráningu á markað. Þetta fyrirkomulag er talið hvetjandi fyrir eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja til skráningar fyrirtækjanna á markað svo þeir missi ekki yfirráð yfir fyrirtæki sínu við skráninguna. Eftir sem áður er sérstaklega hugað að réttindum nýrra fjárfesta og aðgengi þeirra að upplýsingum í tengslum við beitingu á umræddum auknum atkvæðarétti. Í samkomulaginu felst að gildissvið reglnanna verði útvíkkað þannig að reglurnar munu gilda á fleiri fjármagnsmörkuðum en skilgreindum vaxtarmörkuðum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Evrópsku verðbréfastofnuninni verður falið að setja tæknistaðla um hvernig best sé að merkja og tilgreina hlutabréf með mismunandi atkvæðavægi.

Tillögurnar ganga nú til formlegrar afgreiðslu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Evrópsk hagskýrslugerð

Þann 1. febrúar sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillögu um breytingar á reglugerð um evrópska hagskýrslugerð.

Núgildandi regluverk er frá árinu 2009 og er megin markmið breytinganna nú að uppfæra það til samræmis við þau umfangsmiklu stafrænu umskipti sem nú eiga sér stað og hafa mikil áhrif á opinbera hagskýrslugerð eins og aðra þætti opinberrar stjórnsýslu.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Óformlegur fundur ráðherra ESB ríkja um samkeppnishæfni og framtíð innri markaðarins

Dagana 8. - 9. febrúar sl. blés belgíska formennskan í ráðherraráði ESB til óformlegs ráðherrafundar um framtíð innri markaðarins og samkeppnishæfni ESB á alþjóðavettvangi. Fundurinn var haldinn í tækni- og nýsköpunarklasanum Thor Park í Genk í Belgíu. Fundurinn var sóttur af ráðherrum aðildarríkja ESB sem bera ábyrgð á samkeppnishæfni auk fulltrúa frá öllum EFTA ríkjunum. Kristján Andri Stefánsson sendiherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

Á fundinum var meðal annars rætt um viðnámsþrótt evrópsks iðnaðar og hlutverk ríkisaðstoðar í því samhengi og hvernig tryggja megi betur opið strategískt sjálfræði ESB. Þá var rætt um nýsköpunarmál, bætt viðskiptaumhverfi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, einföldun regluverks, grænu og stafrænu umskiptin og bætta reglusetningu ESB. 

Skýrsla Enrico Letta um framtíð innri markaðarins.

Meðal dagskrárliða á fundinum í Genk var vinnufundur með Enrico Letta, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, en hann vinnur nú að beiðni leiðtogaráðs ESB að gerð skýrslu um framtíð innri markaðarins sem von er á nú í vor. 

Kveikjan að skýrsluskrifunum er breytt heimsmynd í kjölfar Covid-19 faraldursins, árásarstríðs Rússlands í Úkraínu og aukinnar spennu í alþjóðasamskiptum sem hefur haft í för með sér ýmsar áskoranir á innri markaðnum. Áhrif þessa má m.a. sjá í aukinni áherslu ESB á opið strategískt sjálfræði og eflingu efnahagslegs öryggis ESB, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 24. nóvember sl. um strategískt sjálfræði ESB og þróun innri markaðarins. Þá hafa grænu og stafrænu umskiptin hafa talsverð áhrif á innri markaðinn.

Á fundinum ræddi Kristján Andri Stefánsson sendiherra við Enrico Letta um skýrslugerðina og lagði meðal annars áherslu á mikilvægi EES-samningsins fyrir Ísland og þátttöku Íslands í innri markaði ESB.

Uppfærður listi yfir forgangsmál Íslands í hagsmunagæslu gagnvart ESB

Ríkisstjórnin samþykkti hinn 9. febrúar sl. uppfærðan lista yfir forgangsmál í hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu (ESB).

Þar sem kosningar til Evrópuþingsins fara fram í júní nk. og ný framkvæmdastjórn ESB verður skipuð í kjölfarið var tekin ákvörðun um að uppfæra og framlengja gildistíma forgangslista 2022-2023 fram á mitt ár 2024, eða til loka skipunartímabils núverandi framkvæmdastjórnar. Næsta heildarendurskoðun á forgangslistanum mun þannig fara fram við upphaf skipunartímabils nýrrar framkvæmdastjórnar þegar helstu línur liggja fyrir um stefnu hennar.

Drög að uppfærðum forgangslista voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 29. nóvember sl. Umsagnir bárust frá Landsvirkjun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum iðnaðarins ásamt sameiginlegri umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, Viðskiptaráði Íslands og Samtökum ferðaþjónustunnar. Tekið hefur verið tillit til þeirra sjónarmiða sem koma fram í umsögnunum við uppfærslu listans eða verða þau höfð til hliðsjónar í hagsmunagæslunni. Þá var listinn kynntur utanríkismálanefnd Alþingis 31. janúar sl. og hann loks samþykktur í ríkisstjórn eins og áður segir.

Ný mál hafa verið sett á listann og stöðu annarra breytt í samræmi við stöðu þeirra í lagasetningarferli ESB eða upptökuferli EES. Af málum sem eru ný á listanum má nefna tillögu að reglugerð um þróun valfrjáls vottunarramma sambandsins fyrir fjarlægingu kolefnis, tillögu að reglugerð sem mælir fyrir um aðgerðir til að styrkja kolefnishlutlausan tækniiðnað (e. Net Zero Industry Act), sbr. umfjöllun um þá gerð hér að framan í Vaktinni, tillögu að reglugerð um mikilvæg hráefni (e. Critical Raw Materials Act) og tillögu sem varðar fráveitur og hreinsun á skólpi frá þéttbýli.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta