Hoppa yfir valmynd
23. júní 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kópavogur tekur á móti flóttafólki

Sigrún Þórarinsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs hjá Kópavogsbæ, Björg Baldursdóttir, formaður velferðarráðs Kópavogs, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, hafa undirritað samning um samræmda móttöku flóttafólks. Samkvæmt honum mun Kópavogur taka á móti allt að 101 flóttamanni. Þar með hafa níu fjölmennustu sveitarfélög landsins öll undirritað samninga um samræmda móttöku flóttafólks. Heildarfjöldi flóttafólks sem samningarnir ná yfir er orðinn ríflega 3.300.

Samræmd móttaka flóttafólks er hugsuð fyrir þau sem fengið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og þurfa stuðning við að ná rótfestu hér á landi. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að. Lögð er áhersla á nauðsynlega aðstoð við fólk til að vinna úr áföllum og að það fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem gegnum atvinnu, nám, samfélagsfræðslu og íslenskukennslu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, óskar nýjum bæjarbúum Kópavogs velfarnaðar. „Ég fagna því að Kópavogur hafi slegist í ört stækkandi hóp sveitarfélaga vítt og breitt um landið sem undirritað hafa samninga um samræmda móttöku flóttafólks,“ segir hann.

„Kópavogsbær fagnar því að gengið sé til samninga við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks. Kópavogsbær leggur ríka áherslu á að vel sé staðið að þjónustu við flóttafólk líkt og aðra íbúa sveitarfélagsins. Með þessum samningi sýnir Kópavogsbær ábyrgð enda nauðsynlegt að innviðir standi undir þeim fjölda sem um er samið. “ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Ítarefni: Vefur um móttöku flóttafólks

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta