Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 48/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. janúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 48/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23080089

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 29. ágúst 2023 barst kærunefnd útlendingamála sjálfkrafa kæra, samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, á ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Venesúela (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi og brottvísa honum frá landinu. Var kæranda gert að yfirgefa landið án tafar ellegar sæta endurkomubanni í tvö ár.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 6. apríl 2023. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi farið til Chile árið 2019 og haft atvinnuleyfi þar, en kvaðst ekki hafa gilt dvalarleyfi þar í landi. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, 8. maí 2023, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 28. ágúst 2023 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi brottvísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda samdægurs og barst kærunefnd greinargerð kæranda 10. september 2023. Frekari gögn bárust 27. september 2023. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd ásamt eiginkonu sinni sem er ríkisborgari Chile og sætir mál hennar því efnismeðferð hér á landi.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi slík tengsl við Chile að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. d-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Chile ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Chile. Kæranda var ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið og athygli hans vakin á því að yfirgæfi hann landið sjálfviljugur innan frests yrði endurkomubannið fellt niður.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til greinargerðar hans til Útlendingastofnunar hvað málsatvik varða. Kærandi fjallar þá um ákvæði d-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að hann hafi ekki slík tengsl við Chile að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað. Kærandi hafi engin fjölskyldutengsl við Chile fyrir utan það að eiginkona hans sé ríkisborgari Chile. Þá sé kærandi ekki með dvalarleyfi í Chile né hafi hann verið með það. Í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að kærandi hafi verið með dvalarleyfi þar í landi en kærandi telur ekki ljóst á hverju stofnunin byggi þá ályktun. Kærandi hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að hafa fengið tímabundið atvinnuleyfi í Chile. Kærandi telji sig ekki með fullnægjandi hætti geta óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður í Chile og fengið þar vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna, líkt og gert sé skilyrði í d-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til alþjóðlegrar skýrslu um möguleika venesúelskra flóttamanna á vernd í Chile. Í skýrslunni komi m.a. fram að Chile hafi ekki tekist að fullnægja skyldum sínum um að veita þeim vernd sem þess þurfi. Þá mæti venesúelskir ríkisborgarar hindrunum við kröfur um vegabréfsáritanir með skilyrðum sem erfitt sé að uppfylla. Kærandi byggir á því að forsendur séu til að álykta að hann muni mæta framangreindum hindrunum við að fá stöðu sína sem flóttamaður í Chile viðurkennda. Þær hindranir séu slíkar í eðli sínu og framkvæmd að hann teljist ekki geta óskað eftir að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna, sbr. skilyrði d-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá byggir kærandi á því að sérstakar ástæður mæli með því að taka beri umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í Chile vegna alvarlegrar mismununar og að kærandi geti vænst þess að staða hans verði verulega síðri en almennings þar í landi, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Þá séu aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Chile verulega síðri en staða almennings í landinu og séu sambærilegar við þau tilvik sem talin séu upp í athugasemdum við 36. gr. laga um útlendinga í frumvarpi til laganna og í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá vísar kærandi til umfjöllunar í alþjóðlegri skýrslu m.a. þegar komi að hindrunum við að fá löglega stöðu sem innflytjandi í Chile sem leiði til skorts á vernd og útiloki einstaklinga frá því að njóta grundvallarréttinda. Þá vísar kærandi til þess að þar sem hann hafi hvorki vegabréfsáritun né dvalarleyfi í Chile muni hann ekki njóta löglegrar stöðu sem innflytjandi þar í landi og skorta viðeigandi skilríki. Því muni hann mæta hindrunum við aðgang að löglegri atvinnu, heilbrigðisþjónustu, bankareikningum, húsnæði o.fl.

Þá vísar kærandi til þess að endursending hans til Chile muni leiða til þess að brotið sé gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga. Kærandi sé í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð þar í landi. Kærandi hafi m.a. verið útsettur fyrir hótunum af hálfu tiltekins glæpagengis í Chile. Þá hafi eiginkonu kæranda verið rænt og kærandi verið krafinn um greiðslu. Eftir það atvik hafi kærandi flúið heimili sitt með eiginkonu sinni og í kjölfarið komið hingað til lands. Kærandi byggir á því að raunhæf ástæða sé til að ætla að aðför glæpagengisins muni halda áfram gegn kæranda í Chile snúi hann þangað aftur. Þá fjallar kærandi um þetta tiltekna glæpagengi og vísar til heimilda máli sínu til stuðnings. Þá gerir kærandi athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar um að hann hafi ekki lagt fram gögn um að eiginkonu hans hafi verið rænt. Kærandi vísar til þess að ekki hafi verið tækt að afla beinna sönnunargagna í tengslum við þær hótanir sem hann hafi verið útsettur fyrir og mannrán það sem eiginkona hans hafi orðið fyrir. Kærandi hafi þó leitast við að leggja fram þau gögn sem honum hafi verið tiltæk. Kærandi vísar í þessu samhengi til umfjöllunar í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna þar sem fjallað sé um að leiða staðreyndir máls í ljós. Vísar kærandi til 196. gr. og 203. gr. handbókarinnar. Kærandi telur að frásögn hans hafi verið trúverðug og hann eigi að fá að njóta vafans hvað þennan þátt málsins varði. Þá hafi kærandi gert heiðarlega tilraun til að renna stoðum undir frásögn sína. Því telur kærandi að leggja beri frásögn hans til grundvallar mati á niðurstöðu um heimfærslu tilviks hans undir 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Telur kærandi að með endursendingu sinni til Chile sé ekki tryggt að hann yrði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greini í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 42. gr. sömu laga. Vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings þar sem m.a. komi fram að flóttamenn og innflytjendur mæti verulegum hindrunum við að halda dvöl sinni áfram í Chile. Þá neiti yfirvöld í Chile fólki um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd og yfirvöld hafið tafarlausa brottvísun erlendra ríkisborgara án þess að meta hvort viðkomandi aðilar séu í þörf fyrir alþjóðlega vernd. Kærandi telur að hann sé sérstaklega útsettur fyrir hættu á endursendingu frá Chile til heimaríkis en hann njóti hvorki vegabréfsáritunar né dvalarleyfis í Chile. Með vísan til framangreinds og framkvæmdar yfirvalda í Chile á brottvísunum og endursendingum, sé ekki tryggt að kærandi verði ekki sendur áfram til heimaríkis.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi karlmaður á [...]sem staddur er hér á landi ásamt eiginkonu sinni. Eiginkona kæranda er ríkisborgari Chile og sætir mál hennar efnismeðferð hér á landi. Kærandi greindi frá því að eiga[...]ára son sem búsettur sé í heimaríki hjá móður sinni. Kærandi greindi frá því að hafa farið frá heimaríki í lok árs 2018 og komið til Chile í júní eða júlí 2019. Kærandi óttist tiltekið glæpagengi frá heimaríki hans sem hafi hótað honum í Chile. Þetta tiltekna glæpagengi hafi m.a. rænt eiginkonu kæranda og í kjölfarið reynt að kúga af þeim fjármuni. Kærandi og eiginkona hans hafi í kjölfarið farið frá Chile og komið hingað til lands 6. apríl 2023. Kærandi hafi greint frá því að hafa komið til Chile sem ferðamaður en fengið tímabundið atvinnuleyfi þar í landi. Samkvæmt framburði kæranda hafi hann ekki fengið útgefið dvalarleyfi þar í landi. Þá hafi kærandi ekki lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Chile. Kærandi greindi frá því að hafa ekki þurft að nýta sér heilbrigðiskerfið í Chile en ef hann þyrfti á læknisaðstoð að halda myndi hann þurfa að leita til einkarekins sjúkrahúss. Kærandi greindi frá því að vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Kærandi hafi þó lent í atviki við mótmæli sem hafi haft áhrif á andlega heilsu hans. Þá hefur kærandi lagt fram gagn sem ber með sér að hann hafi verið þátttakandi í starfi stjórnmálaflokks í heimaríki.

Aðstæður í Chile

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Chile, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum. Þá hefur kærunefnd lagt mat á þær skýrslur sem kærandi vísar til í greinargerð hans.

  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices: Chile (United States Department of State, 20. mars 2023);
  • Amnesty International Report 2022/23: The State of the World‘s Human Rights (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • Cartagena Declaration on Refugees (UNHCR, ódagsett);
  • Chile 2020 Crime & Safety Report (OSAC, 3. október 2020);
  • Chile anti-migrant protesters destroy camps in tense north (reuters, 30. janúar 2022);
  • Chilean protests against Venezuelan migrants (bbc.com, 31. janúar 2022);
  • Fact Sheet: Chile (UNHCR, september 2023);
  • Fact Sheet: Chile (UNHCR, mars 2021);
  • Fact Sheet: Chile (UNHCR, ágúst 2019);
  • Freedom in the World 2023 – Chile (Freedom House, 26. september 2023);
  • Guidelines on International Protection No. 12: Claims for refugee status related to situations of armed conflict and violence undir Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relation to the Status of Refugees and the regional refugee definitions (UNHCR, 2. desember 2016);
  • Health in the Americas+. Summary: Regional Outlook and Country Profiles (Pan American Health Organization, uppfært 12. desember 2017);
  • International Migration Outlook 2023 (OECD, 23. október 2023);
  • Profile of the Health Service System: Chile (World Health Organization, ódagsett);
  • Rights and obligations of permanent residents; instances under which permanent residence is lost (Immigration and Refugee Board of Canada, 25. janúar 2017);
  • Social protection and Venezuelan migration (International Organization for Migration, ódagsett 2021);
  • Socioeconomic Integration of Venezuelan Migrants and Refugees (International Organization for Migration, júlí 2021);
  • Summary Conclusions on the interpretation of the extended refugee definition in the 1984 Cartagena Declaration (UNHCR, 7. júlí 2021);
  • „They yell ugly things“: Migrants in Chile‘s north fearful after fiery protests (reuters.com, 27. september 2021);
  • Upplýsingar af vefsíðu Mannréttindastofnunar Chile (www.indh.cl,);
  • Upplýsingar af vefsíðu ráðuneytis innflytjendamála í Chile (www.extranjeria.gob.cl.,);
  • World Report 2022 (Human Rights Watch, 16. desember 2021) og
  • World Report 2023 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Stjórnvöld í Chile eru aðilar að Cartagena yfirlýsingunni þar sem veitt er vernd gegn endursendingum einstaklinga til ríkis þar sem þeir eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi er ógnað (non-refoulement). Þá hafa stjórnvöld í Chile verið aðilar að mannréttindasáttmála Ameríku síðan 8. ágúst 1990 þar sem m.a. er mælt fyrir um bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá fullgilti Chile barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1990. Chile gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð 30. september 1988 og fullgilti samninga Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1972. Þá gerðist ríkið aðili að Flóttamannasamningnum árið 1972.

Á vefsíðu ráðuneytis innflytjendamála í Chile kemur fram að einstaklingar geti verið handhafar tímabundins eða ótímabundins dvalarleyfis þar í landi. Tímabundið dvalarleyfi gildi í eitt ár og að hægt sé að framlengja það einu sinni en að því loknu þurfi handhafi dvalarleyfis að óska eftir ótímabundnu dvalarleyfi hjá Innanríkis- og almannaöryggisráðuneyti Chile. Þá kemur fram að umsækjandi sem hafi fengið synjun á umsókn sinni geti beðið ráðuneytið um endurskoðun á ákvörðuninni auk þess sem að tryggt sé í lögum að hann geti borið lögmæti ákvörðunarinnar undir þar til bæra aðila. Einstaklingar sem séu með gilt dvalarleyfi í Chile og hafi haft búsetu þar í landi í fimm ár geti sótt um ríkisborgararétt þar í landi. Sé einstaklingur með ríkisborgararétt í Chile eða ótímabundið dvalarleyfi (s. Residencia Definitiva) geti sambúðar- eða hjúskaparmaki hans fengið tímabundið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Sama eigi við um ólögráða barn viðkomandi, barn sem sé með fötlun, ógift barn viðkomandi sem sé undir 24 ára aldri og sé í námi og foreldrar viðkomandi.

Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2022 er kveðið á um veitingu alþjóðlegrar verndar eða stöðu flóttamanns í lögum í Chile auk þess sem að stjórnvöld hafi komið á fót kerfi til að veita flóttamönnum vernd, þ. á m. aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Þá séu stjórnvöld í Chile í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og önnur mannréttindasamtök er varðar aðstoð við m.a. umsækjendur um alþjóðlega vernd. Chile sé aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og þá kemur fram í framangreindri samantekt og leiðbeiningum UN High Commissioner for Refugees (UNHCR) að Chile sé aðili að Cartagena yfirlýsingunni sem sé samkomulag milli ríkja í Suður-Ameríku sem varði málefni flóttamanna. Orðalag yfirlýsingarinnar bendi til þess að skilgreining hennar á flóttamannahugtakinu sé rýmri en t.a.m. í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og geti þannig tekið til einstaklinga sem séu í þörf fyrir alþjóðlega vernd en falli ef til vill ekki undir skilgreiningu flóttamannasamningsins á hugtakinu. Sú skilgreining á hugtakinu flóttamaður sem fyrirfinnst í Cartagena yfirlýsingunni hafi verið innleidd í löggjöf ýmissa ríkja Suður-Ameríku, þ. á m. Chile. Þá árétti yfirlýsingin m.a. grundvallarregluna um bann við endursendingum og rétt einstaklinga til alþjóðlegrar verndar.

Samkvæmt skýrslum World Health Organization og Pan American Health Organization er öllum tryggður réttur til heilbrigðisþjónustu í stjórnarskrá Chile óháð því hvort viðkomandi sé með ríkisborgararétt. Heilbrigðiskerfi Chile samanstandi af opinberu og einkareknu kerfi. Ríkisborgarar Chile og þeir sem hafi heimild til löglegrar dvalar þar í landi hafi aðgang að endurgjaldslausri og niðurgreiddri heilbrigðisþjónustu í gegnum ríkisrekið sjúkratryggingakerfi. Þá kemur fram í skýrslu International Organization for Migration (IOM) að allir innflytjendur og flóttamenn hafi aðgang að heilbrigðiskerfi Chile þótt þau geti mætt ákveðnum hindrunum við að nýta sér þá þjónustu.

Samkvæmt áðurnefndri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins er jafnræði og bann við mismunun verndað af stjórnarskrá Chile. Hafi verið dæmi þess að minnihlutahópar hafa orðið fyrir mismunun í heilbrigðis- og menntakerfinu en stjórnvöld hafi komið á fót þjálfunaráætlun fyrir opinbera starfsmenn í því skyni að aðstoða innflytjendur og auka aðgang að túlkaþjónustu hjá hinu opinbera. Í skýrslu IOM frá árinu 2021 um félagslega stöðu ríkisborgara Venesúela í völdum löndum Suður-Ameríku kemur fram að innflytjendur frá Venesúela hafi upplifað mismunun. Af skýrslunni má sjá að útlendingaandúð í Chile hafi lengst af beinst gegn einstaklingum frá Haítí. Samkvæmt rannsókn á efni á samfélagsmiðlinum Twitter hafi 63% af mismunun beinst gegn einstaklingum frá Haítí þrátt fyrir að hlutfall innflytjenda í Chile sem séu frá Venesúela sé mun hærra en þeirra sem séu frá Haítí. Þá sýni rannsókn frá árunum 2018-2019 að tveir þriðju íbúa Chile hafi talið að stjórnvöld ættu að veita innflytjendum og flóttamönnum frá Venesúela heilbrigðisaðstoð, menntun og húsnæði. Þá sýni rannsókn frá árinu 2021 að 84% íbúa Chile styðji það að innflytjendur og flóttamenn frá Chile hafi jafnan aðgang og landsmenn að menntun og heilbrigðisþjónustu. Þá sé starfrækt sjálfstæð mannréttindastofnun (s. Instituto Nacional De Derechos Humanos) sem hafi það að markmiði að efla og vernda mannréttindi allra þeirra sem séu búsettir í Chile. Samkvæmt þeim fréttum sem kærunefnd hefur kynnt sér, s.s. af fréttamiðlunum Reuters og BBC, hafi mótmæli gegn innflytjendum frá Venesúela aukist en sem dæmi megi nefna að í september 2021 og janúar 2022 hafi átt sér stað fjölmenn mótmæli í Iquique í Norður-Chile sem hafi beinst gegn innflytjendum frá Venesúela.

Samkvæmt framangreindum heimildum, s.s. skýrslum Freedom House, Human Rights Watch og Amnesty International, frá árinu 2023 hafa stjórnvöld í Chile verið gagnrýnd fyrir brottvísanir frá landinu og framkvæmd þeirra. Samkvæmt þeim upplýsingum sem kærunefnd hefur kynnt sér hafa stjórnvöld í Chile gefið út að þeir einstaklingar sem komi með ólöglegum hætti inn á yfirráðasvæði Chile eða hafi gerst sekir um lögbrot geti verið brottvísað frá landinu. Það sé þó ekki lögbrot að koma með ólöglegum hætti inn á yfirráðasvæði Chile. Brottvísunarmál hafi komið til kasta dómstóla í Chile um mitt ár 2021 þegar Hæstiréttur Chile og áfrýjunardómstólar þar í landi hafi stöðvað brottvísanir einstaklinga frá m.a. Venesúela. Niðurstöður dómstóla hafi leitt í ljós tilteknar brotalamir á réttlátri málsmeðferð við meðferð brottvísunarmála í Chile. Þá má sjá af fréttatilkynningu frá Inter-America Commission on Human Rights, dags. 29. nóvember 2021, að nefndin hafi lýst yfir áhyggjum af brottvísunum einstaklinga í Chile.

Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur m.a. fram að öryggislögreglan (s. Carabineros) ásamt rannsóknarlögreglunni beri ábyrgð á löggæslu, m.a. landamæraeftirliti og almannaöryggi. Þá hafi innanríkis- og almannaöryggisráðuneytið yfirumsjón með báðum stofnunum. Lög og stjórnarskrá í Chile leggi bann við mismunun en tilkynnt hafi verið um mismunun gagnvart ákveðnum minnihlutahópum og innflytjendum innan heilbrigðis- og menntakerfisins. Þá kemur fram að ákveðnir minnihlutahópar, þ. á m. fólk frá Venesúela hafi orðið fyrir fordómum vegna þjóðernis síns. Þá hafi ákveðin sveitarfélög innleitt áætlanir um að aðstoða innflytjendur við aðgang að opinberri þjónustu. Samkvæmt skýrslu OSAC sé öryggislögreglan ein fagmannlegasta og best þjálfaða lögreglusveit Rómönsku Ameríku ásamt því að vera sú sveit þar sem minnst sé um spillingu innanborðs. Þá kemur fram í skýrslu Freedom House frá árinu 2023 að friðsælum mótmælum hafi fjölgað í Chile árið 2019 þegar almenningur hafi mótmælt stjórnvöldum og samfélagslegum ójöfnuði. Enn eigi sér stað mótmæli en bæði borgaralegt ofbeldi og kúgun lögreglu hafi minnkað verulega frá árinu 2019. Þá kemur fram í skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2023 að mótmæli gegn innflytjendum og ofbeldi gegn útlendingum hafi enn átt sér stað árið 2022 í Chile auk þess sem innflytjendur hafi neyðst til að yfirgefið landið vegna þessa.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema:

d. umsækjandi hafi slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað enda þurfi hann ekki að sæta ofsóknum þar, geti óskað eftir að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Í frumvarpi að breytingarlögum nr. 14/2023, um breytingu á lögum um útlendinga kemur fram að d-liður 1. mgr. 36. gr. laganna mæli fyrir um regluna um fyrsta griðland, þ.e. að umsókn um alþjóðlega vernd skuli afgreidd í fyrsta ríki sem umsækjandi kemur til og getur veitt honum vernd. Ákvæðinu um fyrsta griðland hafi ekki verið beitt að fullu þar sem það hafi verið talið óskýrt. Með frumvarpi þessu sé því lagt til að ákvæðið mæli fyrir um þau tilvik þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur slík tengsl við annað ríki að sanngjarnt og eðlilegt geti talist að hann dvelji þar. Í orðalagi ákvæðisins komi fram skilyrði þess að ákvæðið eigi við, þar á meðal að stjórnvöld hafi gengið úr skugga um að verði umsækjandi sendur til ríkisins þurfi hann ekki að óttast ofsóknir eða að verða sendur áfram til heimalands síns í andstöðu við meginregluna um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kunni að vera í hættu. Við mat á því hvað telst sanngjarnt og eðlilegt skal m.a. líta til lengdar dvalar, fjölskyldutengsla og möguleika viðkomandi til að dveljast eða öðlast rétt til dvalar í ríkinu. Getur ákvæðið þannig einnig komið til skoðunar þegar umsækjandi hefur ekki dvalið í ríkinu en hefur náin fjölskyldutengsl við það, svo sem þegar maki umsækjandans er ríkisborgari þess ríkis og getur á þeim grundvelli fengið dvalarleyfi.

Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga um útlendinga skulu íslensk stjórnvöld við framkvæmd ákvæða III. og IV. kafla laganna eiga í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sbr. 35. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, um túlkun samningsins og laga um útlendinga. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur sett fram tiltekin viðmið er varðar beitingu reglunnar um fyrsta griðland. Að mati stofnunarinnar verður að líta til þess hvort grundvallarmannréttindi umsækjanda verði virt í þriðja ríki í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og hvort að raunhæf vernd sé veitt gegn því að einstaklingum sé brottvísað þangað sem lífi þeirra eða frelsi kunni að vera stefnt í hættu (non-refoulement) eða þar sem hætta er á ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá sé rétt að líta til aðstæðna í viðtökuríki, s.s. með hliðsjón af einstaklingsbundinni stöðu viðkomandi og möguleika hans á að sjá sér farborða. Þá er beiting reglunnar háð því skilyrði að þriðja ríki taki við umsækjanda.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins og framburði kæranda hefur hann dvalið í Chile frá árinu 2019. Kærandi hafi haft atvinnuleyfi í Chile auk þess sem eiginkona kæranda er ríkisborgari Chile. Samkvæmt framangreindum upplýsingum um aðstæður í Chile verður ekki annað ráðið en að kærandi hafi átt þess kost að óska eftir alþjóðlegri vernd í viðtökuríki og að hann hafi möguleika á því við endurkomu þangað. Þá bera framangreindar landaupplýsingar með sér að sambúðar- eða hjúskaparmaki ríkisborgara Chile eða einstaklings með ótímabundið dvalarleyfi þar í landi (s. Residencia Definitiva) geti fengið tímabundið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Að mati kærunefndar liggur fyrir fullnægjandi sönnun þess að kærandi hafi möguleika á að öðlast heimild til dvalar í viðtökuríki af þeim sökum. Þá er ljóst samkvæmt gögnum málsins og framangreindri umfjöllun um aðstæður í viðtökuríki að kærandi hafi ekki ástæðu til að óttast ofsóknir í Chile, sbr. 37. og 38. gr. laga um útlendinga, eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu að hann sé í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Kærunefnd hefur við framangreint mat m.a. litið til þess að stjórnvöld í Chile eru aðilar að Cartagena yfirlýsingunni þar sem veitt er vernd gegn endursendingum einstaklinga til ríkis þar sem þeir eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða lífi þeirra og frelsi ógnað (non-refoulement). Þá eru stjórnvöld í Chile aðilar að mannréttindasáttmála Ameríku þar sem m.a. er mælt fyrir um bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Jafnframt bendi framangreindar landaupplýsingar til þess að löggæsla í viðtökuríki sé skilvirk og að kærandi geti leitað til hennar telji hann þörf á því. Falla því aðstæður kæranda í viðtökuríki undir skilyrði d-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og verður umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi því ekki tekin til efnismeðferðar. Er einkum litið til þess að eiginkona hans er ríkisborgari Chile. Að mati kærunefndar telst kærandi hafa slík tengsl við viðtökuríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað í skilningi d-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. og 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir:

Ef svo stendur á sem greinir í 1. mgr. skal þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því. Þá skal einnig taka umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 12 mánaða frá því að umsókn var lögð fram, enda hafi umsækjandi sjálfur, maki eða sambúðarmaki hans eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd ekki átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.

Á grundvelli 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga setti ráðherra reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, en með henni bættust tvær greinar, 32. gr. a og 32. gr. b, við reglugerðina. Í 32. gr. a reglugerðarinnar kemur fram að með sérstökum ástæðum samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan. Þá eru í ákvæðinu jafnframt talin upp viðmið í dæmaskyni sem leggja skuli til grundvallar við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi en þau viðmið varða aðallega alvarlega mismunun eða alvarleg veikindi. Þar sem tilvikin eru talin upp í dæmaskyni geta aðrar aðstæður, sambærilegar í eðli sínu og af svipuðu alvarleikastigi, haft vægi við ákvörðun um hvort sérstakar ástæður séu til að taka mál umsækjanda til efnismeðferðar hér á landi, svo framarlega sem slíkar aðstæður séu ekki sérstaklega undanskildar, sbr. 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar skal líta til þess hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, svo sem ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Kærunefnd telur að orðalagið „muni eiga“ feli ekki í sér kröfu um afdráttarlausa sönnun þess að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun sem leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar. Orðalagið gerir þó kröfu um að tilteknar líkur verði að vera á alvarlegri mismunun, þ.e. að sýna verður fram á að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir mismunun af þeim toga, með þeim afleiðingum, og af því alvarleikastigi sem ákvæðið lýsir en að ekki sé nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri mismunun. Af því leiðir að þó svo að dæmi séu um að einstaklingar í sambærilegri stöðu og umsækjandi í viðtökuríki hafi orðið fyrir alvarlegri mismunun af þeim toga sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga mælir fyrir um telst umsækjandi ekki sjálfkrafa eiga slíkt á hættu heldur þarf að sýna fram á að verulegar ástæður séu til að ætla að umsækjandi, eða einstaklingur í sambærilegri stöðu og umsækjandi, verði fyrir slíkri meðferð.

Þá skal líta til þess hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Í reglugerðinni kemur fram að meðferð teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en umsækjanda muni ekki standa hún til boða. Við mat á því hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi lítur kærunefnd m.a. til heilsufarsgagna málsins og hlutlægra og trúverðugra gagna um hvort sú heilbrigðisþjónusta sem hann þarfnast sé honum aðgengileg í viðtökuríki.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar hefur heilsufar umsækjanda takmarkað vægi umfram það sem leiðir af 2. mgr. 32. gr. a, nema það teljist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið. Þá tekur 3. mgr. 32. gr. a af tvímæli um það að efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Slíkar aðstæður gætu þó fallið undir 3. mgr. 36. gr. nái þær því alvarleikastigi sem við á, sbr. umfjöllun hér í framhaldinu.

Kærandi er karlmaður á [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Kærandi hafi þó lent í atviki við mótmæli sem hafi haft áhrif á andlega heilsu hans. Í málinu liggur fyrir vottorð þar sem fram kemur að læknisskoðun hafi farið fram í samræmi við ákvæði sóttvarnarlaga.

Kærunefnd tekur fram að kæranda var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 8. maí 2023, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem kærandi teldi hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun. Þá var kæranda jafnframt leiðbeint með tölvubréfi kærunefndar, dags. 29. ágúst 2023, um framlagningu frekari gagna í málinu. Engin frekari heilsufarsgögn bárust kærunefnd. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu telur kærunefnd að mál kæranda sé nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar kæranda og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður hans. Þá er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar kæranda geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Kærunefnd telur að gögn málsins beri ekki með sér að heilsufar kæranda sé með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, svo sem áskilið er í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Í því sambandi er sérstaklega vísað til þess að meðferð telst að jafnaði ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Að mati kærunefndar er heilsufar kæranda ekki þess eðlis að ástæða sé til að víkja frá þessari meginreglu. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Chile verður ráðið að kærandi hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu þar í landi. Telur kærunefnd því að aðstæður kæranda tengdar heilsufari séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður kæranda geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þá hefur kærandi greint frá því að hafa ekki þurft að nýta sér heilbrigðiskerfið í viðtökuríki.

Kærandi hefur borið fyrir sig að óttast tiltekið glæpagengi sem hafi rænt eiginkonu hans í nokkra klukkutíma og hótað honum í Chile. Kærandi og eiginkona hans hafi í kjölfarið flúið Chile og komið hingað til lands. Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að óttist kærandi um öryggi sitt geti hann leitað til lögregluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda sökum þess. Telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða hann geti vænst þess að staða hans, í ljósi sömu ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að aðrar aðstæður hans í viðtökuríki séu slíkar að önnur viðmið tengd alvarlegri mismunun, sambærileg þeim sem 32. gr. a reglugerðarinnar lýsir, leiði til þess að taka beri umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi haft atvinnu um tíma og húsnæði á meðan hann dvaldi í Chile.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæla með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun 8. maí 2023 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að hann hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að 2. málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í málum kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að hann sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína 6. apríl 2023.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir:

Ef beiting 1. mgr. mundi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skal taka umsókn til efnismeðferðar.

Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Við túlkun 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga lítur kærunefnd til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun hans á 3. gr. sáttmálans. Þá hefur kærunefnd talið rétt að hafa hliðsjón af þeim meginreglum sem Evrópudómstóllinn setur fram í dómum sínum að því leyti sem þær eru til skýringar á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og eru samhljóma þeim, en með þeim skýra fyrirvara að dómar Evrópudómstólsins á þessu réttarsviði eru ekki bindandi fyrir íslenska ríkið.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er vísað til þeirrar meginreglu að með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar hafi ríki rétt til að stjórna hverjir ferðist yfir landamæri þeirra, hverjir dvelji á landsvæði þeirra og hvort útlendingi skuli vísað úr landi, sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli F.G. gegn Svíþjóð (nr. 43611/11) frá 23. mars 2016, 111. mgr., ákvörðun Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, 65. mgr., og dóm í máli Üner gegn Hollandi (nr. 46410/99) frá 18. október 2006, 54. mgr. Dómstóllinn hefur engu að síður talið að flutningur einstaklings til annars ríkis geti leitt til brots á 3. gr. mannréttindasáttmálans ef viðkomandi einstaklingur geti á viðhlítandi hátt sýnt fram á að veruleg ástæða sé til að ætla, verði hann fluttur úr landi, að hann sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé andstæð 3. gr. sáttmálans, sbr. m.a. F.G. gegn Svíþjóð, 111. - 113. mgr. Í dómaframkvæmd dómstólsins er jafnframt byggt á því að annmarkar á meðferð viðtökuríkis á umsækjanda og aðbúnaði hans þurfi að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi (e. „must attain a minimum level of severity“ sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011, 219. mgr.) til að ákvörðun um brottvísun eða frávísun hans verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 219. mgr.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið ómannlega meðferð vera m.a. þá sem beitt er að yfirlögðu ráði, í margar klukkustundir í senn og veldur annað hvort líkamlegu tjóni eða alvarlegum andlegum eða líkamlegum þjáningum, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Kudła gegn Póllandi (nr. 30210/96) frá 26. október 2000, 92. mgr. og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Þá hefur dómstóllinn talið meðferð vera vanvirðandi í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans þegar meðferðin niðurlægir eða lítillækkar einstakling, sýnir skort á virðingu fyrir eða gerir lítið úr mannlegri reisn hans, eða skapar ótta, angist eða vanmátt, sem er til þess fallinn að brjóta niður líkamlegt eða andlegt mótstöðuafl viðkomandi, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Pretty gegn Bretlandi (nr. 2346/02) frá 29. apríl 2002, 52. mgr. og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Dómurinn hefur talið að þó að líta verði til þess hvort meðferðin sé veitt af ásetningi sé það ekki að öllu leyti útilokað að hún teljist brot á 3. gr. þó svo hafi ekki verið, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Peers gegn Grikklandi (nr. 28524/95) frá 19. apríl 2001, 74. mgr.

Í ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, 70. mgr., kemur m.a. fram að það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni við frávísun eða brottvísun frá aðildarríki nái ekki því alvarleikastigi að teljast vanvirðandi meðferð og brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þá verði greinin ekki túlkuð þannig að í henni felist skylda aðildarríkja til að sjá einstaklingum sem njóti alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum. Dómstóllinn áréttaði jafnframt að einstaklingur sem standi til að vísa brott geti ekki gert kröfu um áframhaldandi dvöl í ríki í því skyni að njóta þar heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að teljast brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæli gegn endursendingu, sbr. 71. mgr. ákvörðunarinnar. Málið varðaði flutning einstæðrar móður með tvö ung börn sem voru með viðbótarvernd til Ítalíu og komst dómstóllinn einróma að þeirri niðurstöðu að málsástæður hennar um að flutningur til Ítalíu væri brot á 3., 8. og 13. gr. mannréttindasáttmálans væru bersýnilega tilhæfulausar og að mál hennar væri af þeim sökum ekki tækt til meðferðar. Um inntak „sérstaklega sannfærandi mannúðarástæðna“ vísast til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli N. gegn Bretlandi (nr. 26565/05), frá 27. maí 2008, 42. mgr., og Sufi og Elmi gegn Bretlandi (nr. 8319/07 og 11449/07) frá 28. nóvember 2011, 281.-292. mgr., en dómarnir setja háan þröskuld fyrir því að meðferð eða aðstæður teljist brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans.

Samkvæmt dómaframkvæmd Evrópudómstólsins eru lög Evrópusambandsins byggð á þeirri grundvallarforsendu að aðildarríki þess deila þeim sameiginlegu gildum sem Evrópusambandið byggist á. Sú forsenda leggur grunn að gagnkvæmu trausti um að þessi gildi séu viðurkennd, að lög Evrópusambandsins verði virt og að réttarkerfi aðildarríkjanna geti veitt sambærilega og virka vernd þeirra réttinda sem sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi mælir fyrir um, sbr. t.d. dóma Evrópudómstólsins í Jawo, C-163/17, frá 19. mars 2019, 80. mgr., Minister for Justice and Equality (Deficiencies in the system of justice), C-216/18 PPU, frá 25. júlí 2018, 35.-37. mgr., og Ibrahim o.fl. gegn Þýskalandi, C‑297/17, C‑318/17, C‑319/17 og C‑438/17, frá 30. apríl 2019, 83.-85. mgr.

Það er hins vegar ekki útilokað að viðtökuríki kunni að glíma við meiriháttar erfiðleika tengdum aðbúnaði flóttamanna sem gæti skapað verulega hættu á að umsækjandi sæti meðferð sem samrýmist ekki sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. t.d. dóm Evrópudómstólsins í máli N. S. o.fl., C-411/10 og C-493/1021, frá 21. desember 2011, 81. mgr. Af þeim sökum verður ekki byggt á því skilyrðislaust að aðildarríki Evrópusambandsins tryggi grundvallarmannréttindi, svo sem samkvæmt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. N. S. o.fl., 99., 100. og 105. mgr., og Ibrahim o.fl., 87. mgr. Evrópudómstóllinn hefur talið, m.a. í Jawo 85. mgr., að ekki megi flytja umsækjanda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis ef veigamikil rök standa til þess að raunveruleg hætta sé á að hann sæti þar eða við flutninginn ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi. Þeir annmarkar sem eru á meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd verða hins vegar að ná sérstaklega háu alvarleikastigi til að endursending teljist andstæð 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þessu alvarleikastigi er náð þegar sinnuleysi stjórnvalda viðtökuríkis hefur þær afleiðingar að einstaklingur sem að öllu leyti er háður stuðningi ríkisins, t.d. vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann geti ekki mætt grundvallarþörfum sínum, og sem grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 252.-263. mgr., og Jawo, 92. og 95. mgr., og Ibrahim o.fl., 90. mgr.

Til að endursending geti talist brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þarf að sýna fram á, með vísan til hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar, að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé ósamrýmanleg ákvæðinu, sbr. fyrri umfjöllun. Ekki er nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri meðferð, sbr. Vilvarajah o.fl. gegn Bretlandi (mál nr. 13163/87; 13164/87; 13165/87; 13447/87; 13448/87) frá 30. október 1991, 111. mgr., N. gegn Finnlandi (mál nr. 38885/02) frá 26. júlí 2005, 167. mgr. og NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008, 109.-110. mgr.

Líkt og fram hefur komið hefur kærandi borið fyrir sig að hann eigi á hættu ofbeldi og áreiti þar í landi frá tilteknu glæpagengi. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér eru lögregluyfirvöld í Chile skilvirk og veiti einstaklingum vernd gegn hvers konar afbrotum. Heildarmat á gögnum málsins bendir því ekki til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í Chile, sbr. 37. og 38. gr. laga um útlendinga. Þá er það mat kærunefndar að einstaklingsbundnar aðstæður kæranda séu ekki slíkar að vegna stöðu hans í viðtökuríki verði endursending hans þangað talin ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð. Framangreindar upplýsingar um aðstæður í Chile bera með sér að einstaklingar í ólögmætri dvöl kunni að vera brottvísað frá landinu. Eiginkona kæranda er sem fyrr segir ríkisborgari Chile og getur kærandi því fengið dvalarleyfi m.a. á grundvelli fjölskyldusameiningar. Það er því mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að verða endursendur til heimaríkis.

Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður í viðtökuríki og einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það niðurstaða kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi eigi á hættu meðferð sem gangi gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og flutningur hans til viðtökuríkis leiðir því ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærunefnd hefur við framangreint mat m.a. litið til þess að stjórnvöld í Chile eru aðilar að Cartagena yfirlýsingunni þar sem veitt er vernd gegn endursendingum einstaklinga til ríkis þar sem þeir eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi er ógnað (non-refoulement). Þá eru stjórnvöld í Chile aðilar að mannréttindasáttmála Ameríku þar sem m.a. er mælt fyrir um bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Samkvæmt framansögðu verður mál kæranda ekki tekið til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Brottvísun og endurkomubann

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Umræddar lagabreytingar voru m.a. gerðar til að tryggja að framkvæmd brottvísana hér á landi væri í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun og endursendingum ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna (brottvísunartilskipunin) sem Ísland er skuldbundið af vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 6. apríl 2023. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð. Hefur hann því ekki frekari heimild til dvalar. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kæranda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa kæranda úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi.

Kæranda var gefið færi á að andmæla mögulegri brottvísun og endurkomubanni frá Íslandi í viðtali hjá Útlendingastofnun. Kærandi greindi frá því vera ekki með tengsl innan Schengen-ríkjanna. Þá greindi kærandi frá því að vilja fá að sofa í friði og eiga gott líf. Kærandi vilji ekki snúa til baka og lifa í hræðslu. Kærandi sé þakklátur fyrir að vera hér á lífi og að hann hafi náð að flýja. Með vísan til framkominna gagna, athugasemda kæranda og umfjöllunar kærunefndar um aðstæður kæranda í Chile telst brottvísun hans frá Íslandi og endurkomubann ekki fela í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. Endurkomubann fellur niður yfirgefi kæranda landið sjálfviljugur innan þess frests. Ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann er staðfest.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta