He Guoqiang fundar með utanríkisráðherra
He Guoqiang, flokksritari í stjórnmálanefnd miðstjórnar kínverska kommúnistaflokksins, sækir Ísland heim 9. og 10. júní, ásamt sendinefnd. He átti í dag fund með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra þar sem rædd voru samskipti ríkjanna, m.a. á sviði viðskipta, efnahagsmála og menningarmála. Einnig var fjallað um vaxandi samstarf ríkjanna á sviði orkumála og málefni norðurslóða.
Auk utanríkisráðherra hitti He Guoqiang að máli forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.
Þá voru undirritaður gjaldmiðilaskiptasamningur Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Kína, svo og viljayfirlýsing um samstarf á milli Landsvirkjunar og China International Water & Electric Corporation og Export-Import Bank of China og rammasamningur Enex Kína/Geysir Green Energy og Sinopec um samstarf um byggingu hitaveitna í Kína.
He Guoqiang og föruneyti munu ennfremur kynna sér orkunýtingu í Svartsengi og á Hellisheiði.