Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 20. apríl 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 3/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni.

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. janúar 2009, var kæranda, A, tilkynnt að stofnunin hefði á fundi sínum þann 30. desember 2008 fjallað um umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Með vísan til starfsloka kæranda hjá X ehf. hefði réttur hennar til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils. Ákvörðunin var byggð á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi dagsettu 13. janúar 2009.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 24. nóvember 2008. Hún hafði starfað hjá fyrirtækinu X ehf. við ræstingar frá 8. maí 2007 til 29. ágúst 2008 og gegndi þar 75% starfi. Kæranda var sagt upp störfum þar sem hún mætti ekki til vinnu að loknu sumarleyfi sem hófst 24. júní 2008 og átti að standa í tvo mánuði. Í ferðinni veiktist dóttir hennar og þurfti að leggjast inn á sjúkrahús og fjölskyldan kom heim í byrjun nóvember 2008 í staðinn fyrir lok ágúst eins og áætlað hafði verið. Kærandi lét vinnuveitanda ekki vita af þessari seinkun og sagði ástæðu þess vera að tösku hennar hafi verið stolið og við það hafi hún misst bæði síma og vegabréf. Kærandi óskar eftir því að tillit verði tekið til þessara sérstöku aðstæðna og felldur úr gildi úrskurður um 40 daga bið. Vinnumálastofnun gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Meðal gagna málsins er læknisvottorð frá B barnalækni, dags. 15. janúar 2009, þar sem staðfest eru veikindi dóttur kæranda og innlögn hennar á sjúkrahús.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. febrúar 2009, kemur fram að í öllum samningssamböndum ríki ákveðnar trúnaðarskyldur milli samningsaðila. Í ljósi þessa sé eðlilegt að gera þær kröfur til starfsmanns sem sjái fram á að hann muni koma seinna til vinnu úr fríi en áætlað var að hann láti vinnuveitanda sinn vita með fyrirvara svo hann geti gert ráðstafanir til að tryggja óskerta starfsemi sína. Að mati Vinnumálastofnunar geti sú ástæða að kærandi hafi glatað síma sínum og upplýsingum um vinnuveitanda og að dóttir kæranda hafi veikst ekki réttlætt það að kærandi hafi ekki tilkynnt vinnuveitanda um svo mikla seinkun. Kærandi hafði unnið í rúmlega eitt ár hjá fyrirtækinu og ætti því með nútíma tækni að vera í lófa lagið að komast að nauðsynlegum upplýsingum, svo sem símanúmeri eða tölvupóstfangi vinnuveitanda. Jafnframt hefði kærandi mátt gera aðrar ráðstafanir til að láta vinnuveitanda sinn vita um seinkunina svo sem þær að koma skilaboðum í gegnum kunningja. Ótrúverðugt verður að telja að kæranda hafi ekki verið neinar leiðir færar til að tilkynna vinnuveitanda um töf sína.

 

2.

Niðurstaða.

Í 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir eftirfarandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Kærandi kom rúmum tveimur mánuðum seinna en um var samið úr sumarleyfi sínu. Að sögn kæranda hafði hún glatað vegabréfi og síma og hún gat því ekki haft samband við vinnuveitanda vegna tafarinnar auk þess sem dóttir hennar veiktist og lagðist á sjúkrahús. Kærandi hvorki mætti til vinnu né lét vita af ferðum sínum í rúma tvo mánuði eftir umsamdan tíma. Það verður að teljast ótrúverðugt að kærandi hafi ekki getað, þrátt fyrir tap á síma, haft samband við vinnuveitanda til þess að gera honum grein fyrir aðstæðum sínum og seinkun á heimkomu þannig að vinnuveitandi gæti gert viðeigandi ráðstafanir. Því er ekki hjá því komist að líta svo á að kærandi eigi sjálf sök á uppsögn sinni hjá X ehf., sbr. síðari ml. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. desember 2008 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta