Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 59/2008

Fimmtudaginn 29. janúar 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 30. september 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 22. september 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 9. september 2008 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. .

 

Í upplýsingum um kæruefni og rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Kæra varðar skerta fæðingarorlofsgreiðslur föður vegna launalauss leyfis frá og með ágúst 2007 til og með desember 2007. Áætlaður fæðingadagur barns er 24. október 2008. Tímabil til útreikninga á orlofsgreiðslur mun vera frá apríl 2007 til maí 2008, þar af eru 5 mánuðir launalausir.

Kærandi óskar eftir leiðréttingu þar sem aðrar forsendur voru fyrir greiðslum fæðingarorlofs á þeim tíma sem leyfið var tekið.

Frá lokum maí og fram í miðjan desember fór kærandi ásamt unnustu og nú verðandi barnsmóður sinni í ferðalag erlendis. Á þeim tíma voru uppi áætlanir um barneignir að ferð lokinni og þann 17. mars staðfesti læknir 8. vikna þungun. Í júní 2007 voru útreikningum á fæðingarorlofi breytt til hins betra fyrir flestar mæður og marga feður. Þar sem kærandi og unnusta hans höfðu gert ráð fyrir öðrum útreikningum og lagt í ferðalag kom þessi breyting sér einkar illa við þau, þannig að greiðslur úr fæðingarorlofssjóði eru langt undir reglulegum heildartekjum heimilisins og tæplega til að halda uppi heimili þegar barnið er komið í heiminn með þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem fyrir voru.

Núverandi mánaðarlaun kæranda eru rétt rúmar X kr og hafa farið hækkandi með kjarasamningum frá apríl 2007 eða úr ca. X kr. Útreiknaðar greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði eru X kr eða rétt rúm 56% launa í apríl 2007 og rétt tæp 40% af núverandi launum.

Kærandi gerir sér grein fyrir að skv. núverandi reglum um útreikning er þetta rétt upphæð orlofsgreiðslu sem fæðingarorlofssjóður hefur gefið út. Skv. upplýsingum frá þjónustudeild Fæðingarorlofssjóðs er heimilt að fella út tíma launalauss leyfis á sex mánaða starfshlutfalls tímabilinu en ekki launalaus leyfi sem tekin eru á tekjureiknings tímabilinu. Kærandi óskar þess að undantekning sé gerð á þessum reglum þar sem um svo miklar fjárhæðir er að ræða og þá staðreynd að breytingarnar voru ekki búnar að taka gildi þegar þungun hafði verið staðfest. “

 

Með bréfi, dagsettu 9. október 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 10. nóvember 2008. Í greinargerðinni segir:

 „Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 9. september 2008, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði kr. X á mánuði miðað við 100% orlof. Þann 30. október 2008 var kæranda send greiðsluáætlun.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a.

Í 2. mgr. 13. gr. segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. er síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda er Z. október 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans mánuðina apríl 2007 – mars 2008 enda taldist kærandi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafa verið á innlendum vinnumarkaði þann tíma, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í staðgreiðsluskránni kemur fram að kærandi hafi verið launalaus mánuðina ágúst – desember 2007. Samkvæmt gögnum málsins taldist kærandi hafa verið þátttakandi á vinnumarkaði þá mánuði, sbr. staðfestingu á launalausu leyfi dags. 10. september 2008. Aðra mánuði á viðmiðunartímabilinu var kærandi starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli og ber því líka að hafa þá með við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 9. september og 30. október 2008, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 24.nóvember 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari upplýsingar bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 9. september 2008.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einnig segir í 2. mgr. 13. gr. ffl. að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Í 1. mgr. 13. gr. a ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. a ffl. telst enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum

bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt

gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir

dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til

Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar,

eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum

störfum af heilsufarsástæðum.

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna

tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til

foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum

greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Barn kæranda er fætt Z. október 2008. Viðmiðunartími tekjuútreiknings samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. er því tímabilið apríl 2007 til mars 2008. Óumdeilt er að kærandi var í launalausu leyfi mánuðina ágúst til desember 2007.

Samkvæmt a-lið 2. mgr. 13. gr. a ffl. telst orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi til þátttöku á vinnumarkaði þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti. Samkvæmt því var kærandi á vinnumarkaði allt viðmiðunartímabilið í skilningi ffl. Verður því mánuðunum ágúst til desember 2007 þegar kærandi var í launalausu leyfi ekki sleppt við útreikning greiðslna til hans úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 4. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Í kæru óskar kærandi eftir því að undantekning sé gerð frá reglum laganna þar sem um miklar fjárhæðir sé að ræða og lagabreytingar ekki búnar að taka gildi þegar þungun hafi verið staðfest. Með lögum nr. 74/2008 urðu breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Samkvæmt 22. gr. þeirra laga eiga lögin við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur 1. júní 2008 eða síðar. Hvorki eru í gildandi ffl. né í reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks ákvæði sem heimila undantekningar vegna aðstæðna kæranda. Verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta