Hoppa yfir valmynd
12. maí 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 4/2009: Dómur frá 12. maí 2009

Ár, þriðjudaginn 12. maí, er í Félagsdómi kveðinn upp dómur í máli nr. 4/2009

Kennarasamband Íslands vegna

Félags framhaldsskólakennara

gegn

íslenska ríkinu

 

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R:

 

Mál þetta sem dómtekið var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 31. mars sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Inga Björg Hjaltadóttir og Sveinn Sveinsson.

 

Stefnandi er Kennarasambands Íslands, kt. 501299-3329, Laufásvegi 81, Reykjavík, vegna Félags framhaldsskólakennara, kt. 510200-2920, Laufásvegi 81, Reykjavík.

 

Stefndi er  Íslenska ríkið, kt. 550169-2989, Arnarhvoli, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda 

Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms, að félagsmenn Félags framhaldsskólakennara sem störfuðu við Iðnskólann í Hafnarfirði á tímabilinu frá upphafi skólaárs 2004 til loka vorannar 2008 hafi uppfyllt kennsluskyldu sína samkvæmt kjarasamningi að fullu þegar þeir, samkvæmt ákvörðun vinnuveitandans, unnu tilskilinn fjölda kennslustunda með því fyrirkomulagi að slegið var saman hverju sinni tveim 40 mínútna kennslustundum í eina sem stóð í 75 mínútur án frímínútna og að óheimilt hafi verið að skerða launagreiðslur til þeirra vegna þessa fyrirkomulags í skólastarfinu. 

Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að sú stytting kennslustunda sem lýst er í aðalkröfu hafi ekki haft í för með sér meiri skerðingu vinnutíma en nemur 1,61% og að óheimilt hafi verið að skerða laun viðkomandi félagsmanna stefnanda vegna þessara kennsluhátta umfram það.

Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. 

 

Dómkröfur stefnda 

Stefndi krefst þess hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

 

Málavextir

Stefnandi gerir grein fyrir málavöxtum sem hér segir:

Stefnandi er stéttarfélag sem gerir kjarasamninga fyrir félagsmenn sína samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Gildandi kjarasamningur félagsins við stefnda er um þau atriði sem hér um ræðir að stofni til frá 7. janúar 2001.  Aðilar sömdu 18. mars 2005 um framlengingu á þeim samningi og síðan aftur 16. júní 2008 um framlengingu til 31. mars 2009.  Þau ákvæði sem málið varðar hafa haldist óbreytt þennan tíma. 

 

Grein 2.1.1 er svohljóðandi:

Vinnuskylda starfsmanns í fullu starfi skal vera 40 stundir á viku til jafnaðar yfir árið. 

 

Grein 2.1.2 er svohljóðandi:

Heimilt er að haga vinnu með öðrum hætti en í kafla þessum greinir með samkomulagi starfsmanna og forráðamanna stofnunar.  Einnig er heimilt að semja við einstaka starfsmenn um rýmkun á dagvinnutímabili og um ákveðið frjálsræði um hvenær vinnuskyldu er gegnt.  Leita skal skriflegs samþykkis samningsaðila þegar heimilda þessara er neytt. 

 

Grein 2.1.5.1 – 3. mgr. er svohljóðandi

Ef einstakir skólar breyta starfstíma sínum að öllu leyti eða hluta skulu þeir semja um áhrif þess á starfsmenn eða hluta þeirra á grundvelli greinar 2.1.2.

 

Grein 2.3.1 er svohljóðandi:

Yfirvinna telst sú vinna sem fram fer utan tilskilins daglegs vinnutíma, svo og vinna sem innt er af hendi umfram vikulega vinnuskyldu þótt á dagvinnutímabili sé. 

 

Grein 2.6.1 er svohljóðandi:

Fjöldi kennslustunda kennara í fullu starfi skal vera tuttugu og fjórar 40 mínútna kennslustundir á viku.

Sbr. þó fylgiskjal 1.

 

Tilvísun til fylgiskjals 1 í síðastnefndu greininni skiptir ekki máli við úrlausn þessa máls.

 

Forsögu máls þessa má rekja til þess að skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði ritaði menntamálaráðuneytinu bréf 6. apríl 2001, þar sem hann fylgir eftir hugmyndum, sem hann mun áður hafa kynnt starfsmönnum ráðuneytisins, þess efnis að hann fái heimild til að gera tilraun með breytt stundatöflukerfi fyrir skólann næsta starfsár, þ. e. skólaárið 2001-2002.  Í bréfinu er þess getið að skólameistarinn hafi kynnt hugmyndir sínar um þetta mál á kennarafundi í skólanum og í skólanefnd, fyrir fyrirsvarsmönnum Félags framhaldsskólakennara og allmörgum fleirum, og „alls staðar fengið mjög jákvæðar undirtektir“.  Í þessu erindi segir skólameistarinn:

 

Þó svo að það líti út fyrir að verið sé að skerða þjónustu með því að kenna 225 mínútur á viku í stað 240 mínútna eins og nú er í þriggja eininga áfanga, þá fækkar hléum (frímínútum) um eitt, en þau vilja oft verða lengri en 5 mínútur, þannig að skerðingin verður óveruleg.  Annað sem þetta bætir er að það er mun auðveldara að koma 5 kennslustundum (einum þriggja eininga áfanga í heild) fyrir eða eftir hádegi, matartími verður á betri tíma kl. 12.20 til 13.00 (ekki 1.40 til 13.10 eins og nú er í mínum skóla) og einnig er 10 kennslustundum lokið kl. 17.15 í stað 17.40 með 12 kennslustunda dag.

 

Þarna voru lögð drög að breytingum sem fólu það í sér að hver kennslustund yrði lengd um 5 mínútur en kennslustundum hvers áfanga fækkað á móti.

 

Skólaárið 2003-2004 ákvað skólameistari að hverfa frá þessu kerfi og gera þess í stað annars konar breytingu á stundatöflukerfinu.  Sú breyting var í því fólgin að fella tvær kennslustundir saman í stundatöflu án þess að hafa frímínútur á milli og stytta um leið samanlagðan kennslutíma um 5 mínútur.  Þannig urðu tvær kennslustundir, sem annars hefðu verið samtals 80 mínútur með 5 mínútna hléi (frímínútum) eftir 40 mínútur, nú samfelldar 75 mínútur. 

Stefnandi telur að þetta fyrirkomulag hafi verið tekið upp í Iðnskólanum í Hafnarfirði með að minnsta kosti vitneskju yfirmanna í menntamálaráðuneytinu, en ljóst sé að ekki hafi verið óskað eftir samþykki Félags framhaldsskólakennara eða Kennarasambands Íslands þegar þeim var komið á.

Fram hefur komið að um leið og hið breytta stundatöflukerfi var tekið upp í skólanum hafi skólameistari litið svo á að starfshlutfall kennara sem ráðinn var til 100% vinnu við skólann hafi í reynd lækkað sem svaraði til þess tíma sem viðvera hans í kennslustofu styttist með hinu breytta stundatöflukerfi.  Stefnandi telur reyndar að útreikningur skólans á vinnutímastyttingunni hafi verið rangur og að kennararnir hafi verið hlunnfarnir í launum langt umfram það sem nam umræddri styttingu vinnutímans, en komið verður nánar að því síðar.  Engum kennara mun hins vegar hafa verið kynnt með neinum hætti að þetta kennslufyrirkomulag þýddi beina launaskerðingu fyrir þá, og þetta kom heldur ekki fram á launaseðlum þeirra með beinum hætti, en kennarar við skólann voru nánast allir með töluverða  yfirvinnu og hluti hennar var „notaður“ til að fylla upp í 40 stunda dagvinnuskyldu á viku.

 

Ágreiningur hafi verið um þessa framkvæmd á kjarasamningi um alllangt skeið.  Á fundi skólanefndar Iðnskólans í Hafnarfirði 5. nóvember 2003 hafi hann verið til umfjöllunar, en í fundargerð þess fundar er eftirfandi bókað:

Jóhannes [skólameistari] kynnir niðurstöður af fundi kennarafélagsins sem var haldinn nýlega en þar kom í ljós að einhverjar vangaveltur voru yfir því hvort kennarar hefðu tekið á sig kjaraskerðingu með því að samþykkja að kenna 75 mín. tíma í stað 80 mín.  Sagði Jóhannes að ef ekki væri hægt að ná samkomulagi um þetta þá væri ekkert til ráða nema fara aftur yfir í gamla kerfið þar sem kenndir væru 2 sinnum 40 mín. á skóladegi lyki þá ekki fyrr en kl. 18.00.  Vonuðust menn til að þetta mál leystist farsællega, en boðað hefur verið til almenns kennarafundar þann 12. nóvember til að fara yfir þessi mál. 

 

Viðleitni málsaðila til að leysa ágreining um þetta hafi ekki borið árangur, þó svo að allmargir fundir hafi verið haldnir.  Á grundvelli greinar 11.5.2 í kjarasamningi ákvað fjármálaráðuneytið að óska eftir því að fjallað yrði um ágreininginn í sáttanefnd aðila kjarasamningsins.  Ekki tókst að leysa hann á þeim vettvangi, og sé því málið lagt fyrir Félagsdóm til úrlausnar. 

Tekið er fram að sú vinnutilhögun sem lýst er í kröfum stefnanda hefur frá og með haustönn 2008 verið aflögð í Iðnskólanum í Hafnarfirði.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst leggja mál þetta fyrir Félagsdóm samkvæmt heimild í 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986. 

Stefnandi telur með vísan til þess sem að framan greinir nauðsynlegt að afla dóms um réttan skilning á hinum tilvitnuðu greinum í kjarasamningi málsaðila, þar sem ekki hafi tekist að leysa ágreining um hann í viðræðum aðila og stefnandi telur ýmsa félagsmenn sína hafa verið hlunnfarna í launagreiðslum um alllangt skeið vegna þessa. 

Stefnandi vísar um álitaefnin til reifunar hér að framan.  Stefnandi telur hafið yfir vafa að við gerð kjarasamninga fyrir framhaldsskólakennara hafi verið gengið út frá þeirri forsendu, sem skýrt sé orðuð í grein 2.6.1 í kjarasamningnum að í öllu skólastarfi sé hver kennslustund 40 mínútur og að eftir hverja kennslustund sé gert hlé, bæði vegna tillits til nemenda og kennara.  Frá þessari meginreglu verði ekki vikið nema í sérstökum undantekningartilvikum og þá að ströngum skilyrðum uppfylltum, sbr. grein 2.1.2.  Ekkert samkomulag hafi verið gert um slíkt við Iðnskólann í Hafnarfirði. 

Stefnandi telur augljóst að stjórnendur Iðnskólans í Hafnarfirði hafi gagnvart starfsmönnum sínum heimild til að stytta kennslustundir til að ná fram hagræðingu í skólastarfi.  Hins vegar geti þeir ekki einhliða gripið til slíkra „hagræðingaraðgerða“ ef þeim eigi að fylgja kjaraskerðing fyrir starfsmennina.  Iðnskólinn í Hafnarfirði hafi skert yfirvinnugreiðslur til kennara skólans sem nemi þeim mínútufjölda sem skólinn hafi „sparað“ með breytingunum.  Þetta þýðir með öðrum orðum að skólinn líti svo á að kennari sem ráðinn sé í 100% starf og vinni enga yfirvinnu eigi ekki að fá greitt nema u.þ.b. 93,75% af umsömdum mánaðarlaunum.  Sé óumdeilt að þannig hafi skólinn reiknað laun starfsmanna þann tíma sem dómkröfur stefnanda varða.  Á sama hátt hafi þessi túlkun skólans leitt til þess að kennarar fá ekki greitt yfirvinnukaup fyrir unnar stundir umfram vikulega vinnuskyldu fyrr en þeir séu búnir að „vinna upp“ þann tíma sem sparast hafi í hinu breytta stundatöflukerfi.  Úrlausn Félagsdóms um þennan ágreining hafi þess vegna grundvallarþýðingu varðandi kröfugerð einstakra félagsmanna stefnanda sem ekki hafi fengið laun sín réttilega uppgerð frá því að umrætt stundatöflukerfi var tekið upp.

Í aðalkröfu stefnanda sé gerð krafa um viðurkenningu á því að sú stytting viðveruskyldu kennara í kennslustofu sem ákveðin var af stjórnendum Iðnskólans í Hafnarfirði hafi ekki í för með sér launaskerðingu fyrir viðkomandi starfsmenn, heldur hafi þeir einskis átt að missa í launum við það eitt að skólinn ákvað að hafa fyrirkomulag kennslunnar með þeim hætti sem lýst sé í kröfugerðinni.

Í varakröfu stefnanda sé gerð krafa um að viðurkennt verði að umrædd vinnutímastytting hafi ekki verið meiri en 1,61%, en óumdeilt sé að skólinn hafi dregið af viðkomandi kennurum 6,25% af mánaðarlaunum vegna þessa.  Stefnandi hafi lagt fram við þingfestingu málsins samantekt um vinnutíma kennara sem hafi 24 stunda kennsluskyldu á viku.  Telur stefnandi ljóst að umrædd stytting vinnutímans sé samtals 29 klukkustundir á ári hjá hverjum kennara sem hafi 1800 klukkustunda árlega vinnuskyldu. Samkvæmt því nemi vinnutímastyttingin 1,61% heildar- vinnutímans.

Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök 

Stefndi byggir kröfur sínar á því að kafli 2 í kjarasamningi grein 2.6.1 kveði skýrt á um að full kennsluskylda án afsláttar skuli vera tuttugu og fjórar 40 mínútna kennslustundir, minni kennsla geti því ekki talist fullt starf.

Hæstiréttur hafi ítrekað dæmt að ekki yrði leitt af kjarasamningum kennara að samband námseininga og kennslustunda væru forsenda kjarasamninga og þar með ákvarðandi um laun kennara.

Stefndi gerir athugasemdir við það sem í stefnu segir:

„Skólaárið 2003-2004 ákvað skólameistari að hverfa frá þessu kerfi og gera þess í stað annars konar breytingu á stundatöflukerfinu. Sú breyting var í því fólgin að fella tvær kennslustundir saman í stundatöflu án þess að hafa frímínútur á milli og stytta um leið samanlagðan kennslutíma um 5 mínútur. Þannig urðu tvær kennslustundir, sem annars hefðu verið samtals 80 mínútur með 5 mínútna hléi (frímínútum) eftir 40 mínútur, nú samfelldar 75 mínútur.“ Réttara sé að þannig urðu tvær kennslustundir, sem annars hefðu verið samtals 85 mínútur með 5 mínútna hléi (frímínútum) eftir 40 mínútur, nú samfelldar 75 mínútur (40+5+40 = 85).

Stefndi mótmælir því sem í stefnu segir:

„Fram hefur komið að um leið og hið breytta stundatöflukerfi var tekið upp í skólanum hafi skólameistari litið svo á að starfshlutfall kennara sem ráðinn var til 100% vinnu við skólann hafi í reynd lækkað sem svaraði til þess tíma sem viðvera hans í kennslustofu styttist með hinu breytta stundatöflukerfi.“ Engum kennara sem ráðinn sé til 100% starfa og vilji vinna það hátt starfshlutfall hafi verið neitað um að vinna 100% eða meira. Eina undantekningin frá þessu séu leiðbeinendur sem ráðnir séu tímabundið en hjá þeim komi skýrt fram í ráðningarsamningi þeirra að endanlegt starfshlutfall ráðist af vinnuskýrslu, sbr. meðfylgjandi form gefið út af ráðuneytinu. Hafi þetta ávallt verið kynnt við ráðningu ásamt gildandi stundatöflukerfi þar sem tekið var fram að fjórir stokkar, þ.e. 12 x 75 mínútna kennslustundir væru tæplega 100% starfshlutfall.

Þá sé því einnig mótmælt sem fram komi í sömu málsgrein að kennarar hafi verið hlunnfarnir í launum þar sem segir:

„Stefnandi telur reyndar að útreikningur skólans á vinnutímastyttingunni hafi verið rangur og að kennararnir hafi verið hlunnfarnir í launum langt umfram það sem nam umræddri styttingu vinnutímans“.  Kennarar hafi fengið greitt samkvæmt kenndum mínútum, það sé hvergi bundið í lögum eða kjarasamningum að kennslustundir verði að vera 40 mínútna langar, enda sé allur gangur á lengd kennslustunda í framhaldsskólum landsins. Hitt sé hins vegar bundið í kjarasamningum að full vinna kennara með óskerta kennsluskyldu skuli vera 24 fjörutíu mínútna kennslustundir eða samtals 960 mínútur á viku. Með 75 mínútna stundatöflukerfinu var ýmist hægt að bjóða nemendum fleiri einingar eða taka inn fleiri nemendur sem í raun hækkuðu laun kennara með því að þeir áttu kost á að kenna meira en samt ljúka vinnudeginum í skólanum kl. 17.

Þá sé mótmælt þeirri fullyrðingu stefnanda í sömu málsgrein þar sem segir: „Engum kennara mun hins vegar hafa verið kynnt með neinum hætti að þetta kennslufyrirkomulag þýddi beina launaskerðingu fyrir þá, og þetta kom heldur ekki fram á launaseðlum þeirra með beinum hætti, en kennarar við skólann voru nánast allir með töluverða yfirvinnu og hluti hennar var „notaður“ til að fylla upp í 40 stunda dagvinnuskyldu á viku.“ Þegar kerfið var tekið upp var farið yfir vinnutímaútreikninga með öllum kennurum og síðan þá hafi kennarar ávallt fengið sínar stundatöflur og launaseðla sem sýni starfshlutfall og fjölda yfirvinnustunda sem greitt sé fyrir. Einnig hafi verið farið yfir þetta með öllum sem spurst hafi fyrir auk þess sem aldrei hafi staðið á skýringum af hálfu skólans vegna fyrirkomulagsins.

Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda í stefnu þar sem segir:

„Stefnandi telur hafið yfir vafa að við gerð kjarasamninga fyrir framhaldsskólakennara hafi verið gengið út frá þeirri  forsendu, sem skýrt er orðuð í grein 2.6.1 í kjarasamningnum, að í öllu skólastarfi sé hver kennslustund 40 mínútur og að eftir hverja kennslustund sé gert hlé, bæði vegna tillits til nemenda og kennara.“  Stefndi lítur svo á að í grein 2.6.1 felist aðeins viðmið um vinnutilhögun kennara. Ákvarðanir stjórnenda um kennslumagn og fyrirkomulag kennslustunda falli innan stjórnunarréttar þeirra að höfðu eðlilegu samráði við starfsmenn. Kennurum skólans hafi verið gerð grein fyrir ákvörðunum um breytingar. Nokkrum sinnum hafi skólameistari boðist til að breyta yfir í eldra skipulag en meirihluti kennara hafi hafnað því og hafi ánægja verið með fyrirkomulagið, sbr. niðurstöðu úr starfsánægjukönnun sem framkvæmd var haustið 2006 en þá vildi 61% kennara hafa 75 mínútna kerfið, 5% vildu hafa 45 mínútna kerfið en 7% vildu fara aftur í 40 mínútna kerfið, sbr. könnun „Kennslustundakerfi“ sem unnin var af HRM - Rannsóknir og ráðgjöf. Því mótmæli stefndi að ekkert samráð hafi verið haft við kennara IH. Kennarar hafi komið sjónarmiðum sínum ítarlega á framfæri er mál þessi hafi verið rædd. Engin nauðsyn hafi verið samkvæmt lögum eða kjarasamningi að leita samkomulags við stéttarfélag við gerð stundatöflu. Samráði við kennara um framkvæmd kennslunnar hverju sinni sé markaður farvegur í lögum, sbr. 8. gr. og 9. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla. Breytingar á kennslunni hafi verið óverulegar og ekki umfram það sem búast mátti við.

Þá mótmælir stefndi því sem fram kemur í stefnu að þar sem segir:

„Hins vegar geti þeir ekki einhliða gripið til slíkra „hagræðingaraðgerða“ ef þeim á að fylgja kjaraskerðing fyrir starfsmennina.“ Yfirvinna samkvæmt greinum 2.3 og 1.5 verði ekki greidd nema hún sé innt af hendi vegna fyrirmæla forstöðumanns á grundvelli 17. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það sé í fullu samræmi við stjórnunarrétt forstöðumanns, sbr. 15. gr. og 17. gr. laga nr. 70/1996, að mæla nánar fyrir um vinnutíma kennara. Ákvörðun skólameistara um breytingu á vinnutíma hafi verið í samræmi við lög og kjarasamninga og ekki gengið lengra en nauðsynlegt var. Ákvörðunin lúti að mati stefnda hvorki takmörkunum í kjarasamningi framhaldskólakennara né sé hún háð samþykki stefnanda. Skólameistari hafi því að mati stefnda ekki eins og fram komi í stefnu: „skert yfirvinnugreiðslur til kennara skólans sem nemur þeim mínútufjölda sem skólinn hefur „sparað“ með breytingunum.“

Stefndi mótmælir jafnframt þeirri fullyrðingu stefnanda í stefnu þar sem segir: „Á sama hátt hefur þessi túlkun skólans leitt til þess að kennarar fá ekki greitt yfirvinnukaup fyrir unnar stundir umfram vikulega vinnuskyldu fyrr en þeir eru búnir að „vinna upp“ þann tíma sem sparast hefur í hinu breytta stundatöflukerfi.“ Í kjarasamningi stefnanda séu engin ákvæði um sérstakt tilkall til lágmarksfjölda yfirvinnustunda.

Stefndi telur ekki standa nein efni til þess að fallast á kröfur stefnanda á grundvelli kjarasamninga, þar sem jafnan hafi verið litið svo á að skólar hafi visst frjálsræði um lengd kennslustunda. Ráðuneyti menntamála hafi og ekki gert athugasemdir við þessa framkvæmd IH þegar hún hafi verið borin undir það ráðuneyti.

Stefndi telur að ekki sé unnt að verða við kröfum um að greiða hærra starfshlutfall en leiði af vinnutíma starfsmanna. Það stríði beinlínis gegn þeim grundvelli vinnuréttarsambandsins að fyrir tiltekna vinnu komi tiltekin laun. Því sé ekki rétt sem komi fram í samantekt að áhrif styttingar kennslustunda sé um 2,5 mínútur á heildarvinnutíma. Eins og áður segi hafi kennarar fengið greitt samkvæmt kenndum mínútum, það sé hvergi bundið í lögum eða kjarasamningum að kennslustundir verði að vera 40 mínútna langar, enda sé allur gangur á lengd kennslustunda í framhaldsskólum landsins. Hitt sé hins vegar bundið í kjarasamningum að full vinna kennara með óskerta kennsluskyldu skuli vera 24 fjörtíu mínútna kennslustundir eða samtals 960 mínútur á viku. Þá telur stefndi að skólameistari hafi ekki umboð til að semja um aðrar hlutfallsgreiðslur fyrir vinnutíma en kjarasamningurinn kveði á um. 11. kafli kjarasamningsins heimili ekki að vinnutími sé ákveðinn í stofnanasamningi. 2. kafli tiltaki sérstök afbrigði vegna tilraunakennslu og öldungadeildar, sbr. gr. 2.6.2 og 2.6.3, en aðrar heimildir sé ekki þar að finna nema að heimildir séu í grein 2.1.2 um að semja megi við starfsmenn um að haga vinnutíma með öðrum hætti eða ákveðið frjálsræði um hvenær vinnu sé skilað. Sú heimild sé og háð samþykki samningsaðila.

Af framangreindu virtu sé það afstaða stefnda að ekki hafi verið brotið gegn kjarasamningi á nokkurn hátt eða að einhverjum forsendum kjarasamnings hafi verið raskað. Félagsmenn stefnanda hafi verið ráðnir sem kennarar við skólann í fullt starf og fyrir það hafi þeir fengið greitt í samræmi við fyrirmæli kjarasamnings, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 47. gr. laga nr. 70/1996. Engar skyldur hafi verið vanefndar af hálfu stefnda gagnvart félagsmönnum stefnanda, hvorki samkvæmt ráðningarsamningi né gildandi kjarasamningi.

Að öðru leyti sé málatilbúnaði, málsástæðum og lagarökum stefnanda mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Ágreiningsefni máls þessa snýst um það hvort sú ákvörðun skólameistara Iðnskólans í Hafnarfirði, sem tekin var frá og með skólaárinu 2003/2004, um sérstakar breytingar á stundatöflukerfinu, hafi verið brot á kjarasamningi aðila. Fyrir liggur að sú tilhögun kennslu, sem fólst í umræddum breytingum, var aflögð frá og með haustönn árið 2008. Greindar breytingar fólust í því að fella tvær kennslustundir saman í stundatöflu án þess að hafa frímínútur á milli og stytta um leið samanlagðan kennslutíma um fimm mínútur. Þannig urðu tvær kennslustundir, sem annars hefðu verið samtals 80 mínútur með fimm mínútna hléi (frímínútum) eftir 40 mínútur, samfelldar 75 mínútur. Stefnandi telur að þetta fyrirkomulag hafi leitt til kjaraskerðingar sem ekki hafi verið á valdi Iðnskólans í Hafnarfirði að ákveða einhliða, enda engu samkomulagi fyrir að fara við stefnanda um slíkt. Af hálfu stefnda er fyrst og fremst á því byggt að umræddar breytingar hafi fallið undir stjórnunarrétt vinnuveitanda, enda sé það í fullu samræmi við 15. og 17. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að forstöðumaður mæli nánar fyrir um vinnutíma kennara.

Ákvörðunarvald um framkvæmd vinnuskyldu innan umsamins vinnutíma, sem felur hvorttveggja í sér hvað vinna skal og hvenær, telst almennt til stjórnunarréttar vinnuveitanda, enda sé ekki um að ræða umsamin atriði varðandi vinnutilhögun og framkvæmd vinnu að öðru leyti. Félagsmenn stefnanda falla undir lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 17. gr. þeirra laga ákvarðar forstöðumaður vinnutíma þeirra starfsmanna sem starfa hjá stofnun, að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 94/1986 skal í kjarasamningi kveðið á um föst laun, vinnutíma, þar með talið vinnuvökur, laun fyrir yfirvinnu, orlof, ferðakostnað, fæðisaðstöðu, fæðiskostnað, tryggingar starfsmanna, starfsmenntun og önnur atriði sem aðilar verða sammála um.

Fram er komið að kjarasamningur aðila, sem á reynir í máli þessu, er að stofni til frá 7. janúar 2001. Gilti hann til 30. apríl 2004. Aðilar sömdu um framlengingu samningsins hinn 18. mars 2005 til 30. apríl 2008 og aftur hinn 16. júní 2008 til 31. mars 2009. Í 2. kafla kjarasamningsins eru ítarleg ákvæði um vinnutíma. Þau ákvæði um vinnutíma, sem máli skipta við úrlausn máls þessa, lúta að vinnuskyldu og kennsluskyldu. Í grein 2.1.1 í kjarasamningnum er mælt fyrir um vinnuskyldu og tekið fram að vinnuskylda starfsmanns í fullu starfi skuli vera 40 stundir á viku til jafnaðar yfir árið. Um kennsluskyldu er fjallað í grein 2.6.1 í kjarasamningnum. Þar segir að fjöldi kennslustunda kennara í fullu starfi skuli vera tuttugu og fjórar 40 mínútna kennslustundir á viku. Í grein 2.1.2 er ákvæði þess efnis að heimilt sé að haga vinnu með öðrum hætti en greinir í 2. kafla með samkomulagi starfsmanna og forráðamanna stofnunar. Einnig sé heimilt að semja við einstaka starfsmenn um rýmkun á dagvinnutímabili og um ákveðið frjálsræði um hvenær vinnuskyldu er gegnt. Leita skuli skriflegs samþykkis samningsaðila þegar heimildar þessarar er neytt. Þá er tekið fram í 3. mgr. greinar 2.1.5.1 að ef einstakir skólar breyta starfstíma sínum að öllu leyti eða hluta skuli þeir semja um áhrif þess á starfsmenn eða hluta þeirra á grundvelli greinar 2.1.2.

Af hálfu stefnanda er því borið við að ekkert samkomulag hafi legið fyrir við stéttarfélagið um þá tilhögun kennslu sem deilt er um í málinu svo sem áskilið er í grein 2.1.2 í kjarasamningi aðila. Fyrir dómi hefur Jóhannes Einarsson, skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði, skýrt svo frá að hann hafi kynnt breytingarnar fyrir tilgreindum starfsmönnum á skrifstofu stefnanda. Miðað við orðalag greinar 2.1.2 og gegn mótmælum stefnanda verður ekki talið að af hálfu stefnda hafi verið sýnt fram á að samkomulag hafi tekist með aðilum í samræmi við fyrrgreint ákvæði kjarasamningsins og verður raunar ekki séð að því sé haldið afdráttarlaust fram af hálfu stefnda. Þá verður ekki talið að stefnda hafi tekist að sýna fram á að samist hafi við starfsmenn um áhrif þeirrar framkvæmdar á launauppgjör þeirra sem stefndi viðhafði og er deiluefni málsins, sbr. greint ákvæði 3. mgr. greinar 2.1.5.1 kjarasamningsins. Að svo vöxnu máli verður að líta svo á að félagsmenn stefnanda, sem störfuðu samkvæmt greindu fyrirkomulagi við Iðnskólann í Hafnarfirði umræddan tíma, hafi með því uppfyllt kennsluskyldu sína að fullu samkvæmt grein 2.6.1 í kjarasamningnum. Samkvæmt þessu er aðalkrafa stefnanda í máli þessu tekin til greina.

Stefndi greiði stefnanda málskostnað, sem ákveðst 250.000 krónur.

 

D Ó M S O R Ð :

 

Viðurkennt er að félagsmenn Félags framhaldsskólakennara, sem störfuðu við Iðnskólann í Hafnarfirði á tímabilinu frá upphafi skólaárs 2004 til loka vorannar 2008, hafi uppfyllt kennsluskyldu sína samkvæmt kjarasamningi að fullu þegar þeir, samkvæmt ákvörðun vinnuveitandans, unnu tilskilinn fjölda kennslustunda með því fyrirkomulagi að slegið var saman hverju sinni tveim 40 mínútna kennslustundum í eina sem stóð í 75 mínútur án frímínútna og að óheimilt hafi verið að skerða launagreiðslur til þeirra vegna þessa fyrirkomulags í skólastarfinu.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Kennarasambandi Íslands vegna Félags framhaldsskólakennara, 250.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Inga Björg Hjaltadóttir

Sveinn Sveinsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta