Hoppa yfir valmynd
11. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Staða kvenna í Afganistan mikið áhyggjuefni

Sima Bahous framkvæmdastýra UN Women lýsir yfir áhyggjum af ákvörðun talíbanastjórnarinnar í Afganistan um að takmarka frelsi afganskra kvenna enn frekar. Á dögunum tilkynnti talíbanastjórnin að afganskar konur væru nú skyldugar til að hylja andlit sín á almannafæri.

Frá því talíbanar hrifsuðu völdin í Afganistan í ágúst í fyrra hafa grundvallarmannréttindi kvenna verið skert. Konum er að mestu meinað að stunda vinnu, ferðast einar, sækja skóla og búa við skert lagaleg- og fjárhagsleg réttindi. Nú hefur þeim líka verið skylt að hylja andlit sín á almannafæri. Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, lýsir yfir áhyggjum af ákvörðun talíbana.

„Rétturinn til að ferðast telst til grundvallarmannréttinda og er forsenda þess að konur geti nýtt til fullnustu önnur réttindi sín. Í samfélögum þar sem konur búa við skert réttindi, er samfélaginu sem heild settar skorður. Ekki er hægt að líta á nýjustu ákvörðun talíbana sem annað en enn eina árásina á réttindi kvenna og stúlkna,“ segir í yfirlýsingu Bahous.

„Þessi brot á mannréttindum kvenna og stúlkna kostar Afganistan ríkulega og aftrar efnahagslegri framþróun í landinu. Áætlað er að Afganistan verði af einum milljarði Bandaríkjadala, eða um fimm prósent af þjóðarframleiðslu, með núverandi hömlum á atvinnuþátttöku kvenna. Meirihluti þjóðarinnar býr við sárafátækt, meira en helmingur þarf á brýnni mannúðaraðstoð að halda og heil kynslóð mun alast upp við fæðuóöryggi og hungur. Frekari takmarkanir á réttindum kvenna mun aðeins aftra enduruppbyggingu landsins.“

UN Women tekur undir orð framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og hvetur talíbanastjórnina til að standa við gefin loforð hvað varðar réttindi afganskra kvenna. Við hvetjum stjórnina til að veita konum aftur ferðafrelsi sitt og réttinn til vinnu og náms.“

Nánar á vef UN Women.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta