Opnaði nýja vefsíðu safetravel.is
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra opnaði nýja og uppfærða vefsíðu Safetravel.is. Safetravel verkefnið hefur skipt sköpum í því að stuðla að auknu öryggi ferðamanna með skilvirkri upplýsingamiðlun.
Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur undanfarna mánuði unnið að uppfærslu á vefnum Safetravel.is og samsvarandi smáforriti.
Ásamt útlitsbreytingu á síðunni hefur allur texti á vefnum verið gerður hnitmiðaðri og auðlesnari. Einfaldara verður fyrir ferðafólk að skrá ferðaáætlun sína á vefnum og reyna að standa við hana því ef aðstandendur heima telja að eitthvað hafi komið fyrir viðkomandi. Hægt er að grennslast fyrir á þeim stöðum sem viðkomandi sagðist ætla á, til dæmis gististöðum.
Þá gefur smáforritið upplýsingar um færð á vegum í rauntíma ásamt því að gera göngufólki kleift að senda GPS staðsetningu sína handvirkt til neyðarlínunnar með SMS-skilaboðum.
„Ég vil þakka Landsbjörgu sérstaklega fyrir árangursríkt samstarf í þessu verkefni. Ferðaþjónustan hefur einnig lagt mikið af mörkum í því að bæta öryggismálin og stuðla að aukinni öryggisvitund. Við viljum að allir geti notið ferðalagsins á Íslandi á öruggan hátt,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Þá heimsótti ráðherra einnig eldgosavaktina í Samhæfingarmiðstöð Almannavarna þar sem ríkislögreglustjóri fór yfir stöðu mála.
Sjá nánar: Vefur Safetravel.is