Hoppa yfir valmynd
8. mars 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Áætlun í mannréttindamálum komin fram á Alþingi

Dreift hefur verið á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun í mannréttindamálum til fjögurra ára, 2013 til 2016. Markmið hennar er að styrkja innviði samfélagsins til þess að tryggja að mannréttindasjónarmið hafi aukin áhrif á stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku stjórnvalda og stuðla að aukinni mannréttindavernd.

Hér er um að ræða fyrstu áætlun í mannréttindamálum sem gerð hefur verið á Íslandi en fjölmörg ríki hafa farið þá leið til þess að tryggja gæði í vernd og framkvæmd mannréttinda. Hugmyndin á rætur að rekja til alþjóðaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi í Vínarborg árið 1993, en þar var mælst til þess að öll aðildarríki SÞ ynnu aðgerðaáætlanir í því skyni.

Tillagan er lögð fram í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Innanríkisráðherra mun mæla fyrir tillögunni en hún var unnin í nánu samstarfi fulltrúa allra ráðuneyta. Við undirbúninginn var meðal annars litið til norrænna fyrirmynda að áætlunum í mannréttindamálum, fjölda athugasemda frá alþjóðlegum aðilum sem sinna eftirliti með mannréttindaskuldbindingum Íslands og niðurstaðna úr opinni fundaröð um mannréttindamál sem innanríkisráðuneytið hefur staðið fyrir. Leitast var við að eiga víðtækt samráð við ólíka aðila innan stjórnarráðsins og undirstofnana, sem og við hagsmunaaðila, fræðasamfélagið og frjáls félagasamtök. Í þessu skyni voru tveir hópar skipaðir, annars vegar verkefnahópur fulltrúa allra ráðuneyta sem mótað hefur efnistök áætlunarinnar og hins vegar vettvangur sem leiðir saman fulltrúa frjálsra félagasamtaka, fræðasamfélagsins og stjórnvalda.

Innanríkisráðuneytið fól Mannréttindastofnun Háskóla Íslands að vinna úttekt á áætlunum í mannréttindum annars staðar á Norðurlöndum og stöðu þarlendra sjálfstæðra mannréttindastofnana. Áætlanir og undirbúningur þeirra voru greindar og dregnir fram meginþættir sem mikilvægt væri að líta til við undirbúning áætlunar af þessum toga fyrir Ísland. Umfjöllunin tók mið af handbók Sameinuðu þjóðanna um gerð landsáætlana í mannréttindum, auk þess sem stofnun sjálfstæðra mannréttindastofnana, aðdragandi stofnunar þeirra og hlutverk í stofnanakerfi ríkjanna voru greind. Að auki var sérstaklega litið til landsáætlunar Finnlands um grundvallarréttindi og mannréttindi sem samþykkt var af finnska þinginu í janúar 2012.

Við undirbúninginn var enn fremur stuðst við samantekt sem ríkisstjórnin fól Guðfríði Lilju Grétarsdóttur að vinna um mannréttindastarf stjórnvalda og greina lykilþætti úrlausnarefna sem stjórnvöld stæðu frammi fyrir. Niðurstöður hennar voru kynntar ríkisstjórninni í september 2012.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta