Skýrsla um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma
Ekki eru lagðar til grundvallarbreytingar á varnarlínum vegna sauðfjársjúkdóma í skýrslu starfshóps sem falið var að kanna þessi mál. Starfshópurinn mælir með því að varnarlínur í Suðvestur-, Norðvestur-, Austur- og Suðurumdæmum haldist óbreyttar.
Í Vesturumdæmi leggur nefndin áherslu á að líflambasölusvæði í núverandi Vestfjarðarhólfi eystra verði varið þar sem hólfið sé eitt af mikilvægustu hólfum landsins sökum hreinleika þess. Þá sé mikilvægt að Kollafjarðarlínu verði breytt enda sé girðingin orðin hættuleg og gagnslaus sökum lítils viðhalds í langan tíma. Þá er leggur starfshópurinn til að í Norðausturumdæmi verði Eyjafjarðalína færð að Mjaðmá að Skjónafelli og að Miklafelli í Hofsjökli.
Nefndin ítrekar mikilvægi varnargirðinga og nauðsyn þess að fjármunir séu eyrnamerktir í viðhald á þeim þ.a. þær verði sá farartálmi eða fullkomna hindrun á samgangi dýra sem ætlast er til að þær séu. Ennfremur beri að fjarlægja þær girðingar með viðunandi hætti sem stjórnvöld hafa aflagt á síðustu árum.