Fjölbreytt íslensk nýsköpunarfyrirtæki njóta góðs af skattahvötum
Auk þekktra og rótgróinna nýsköpunarfyrirtækja sem fá stuðning í formi skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarverkefna eru ýmis ung nýsköpunarfyrirtæki áberandi á lista Skattsins yfir fyrirtæki sem njóta góðs af endurgreiðslu skatta sem nemur 75 milljónum króna eða meira. Sidekick Health, sem hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2022, er áberandi hástökkvari í þessu samhengi sem og EpiEndo Pharmaceuticals. Bæði fyrirtækin starfa á sviði heilbrigðisvísinda og -þjónustu og hafa náð eftirtektarverðum árangri á stuttum tíma.
Önnur lítil og meðalstór fyrirtæki sem njóta góðs af stuðningi stjórnvalda í formi skattaívilnana og færast ofar á listanum milli ára eru t.a.m. hátæknifyrirtækið VAXA Technologies Iceland, sem ræktar smáþörunga til manneldis í jarðhitagarði ON á Hellisheiði, og DT Equipment sem þróað hefur lausn sem greiðir fljótandi málmsýni í rauntíma, nokkuð sem á sér enga hliðstæðu í heiminum. Þá hljóta ýmis fyrirtæki stuðning sem nemur meira en 75 milljónum í ár sem ekki fengu í fyrra, t.d. Tern Systems, Sólfar Studios, ORF líftækni og Kerecis.
Stuðningur í formi skattfrádrátts mikilvægur drifkraftur í vexti margra fyrirtækja
Controlant, sem vaxið hefur hratt á síðustu árum og hlýtur í ár hæstu endurgreiðslu skatta vegna nýsköpunar fyrir eitt félag, hefur um nokkurra ára skeið notið góðs af þessum stuðningi og hefur það skipt sköpum við að ná þeim eftirtektarverða árangri sem fyrirtækið hefur náð í dag. Á móti hefur fyrirtækið, líkt og önnur sem njóta góðs af stuðningi stjórnvalda, skilað ríkissjóði upphæðina margfalt til baka í skatta á sama tíma.
Markmið skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarverkefna er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar og/eða endurgreiðslu vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni. Sífellt fleiri fyrirtæki hafi nýtt sér þennan stuðning og framlög til málaflokksins hafa aukist til muna. Ljóst er að þessi stuðningur hefur spilað lykilhlutverk í öflugum vexti nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og aukinni samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði.
Mesti ávinningurinn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki
CCP fær hæstu upphæðina í sérstakan skattfrádrátt vegna nýsköpunar á þessu ári, samtals 550 milljónir króna í gegnum tvö félög. Controlant fær hæstu einstöku upphæðina í gegnum eitt félag eða 385 milljónir.
Samtals nemur endurgreiðslan 10,89 milljörðum króna sem er 12,08% hækkun milli ára.
Heimiluð upphæð endurgreiðslu skatta fer eftir stærð fyrirtækja og eru það lítil og meðalstór fyrirtæki sem hlutfallslega njóta mests ágóða af skattfrádrættinum. Á þessu ári, líkt og síðustu tvö ár í kjölfar þess að endurgreiðsluhlutfall fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki var hækkað í tengslum við aðgerðir stjórnvalda gegn heimsfaraldri árið 2020, nemur skattfrádráttur 35% fyrir fyrirtæki af þeirri stærðargráðu. Í tilviki stórra fyrirtækja, sem skilgreind eru sem fyrirtæki með fleiri en 250 starfsmenn, er skattfrádráttur 25%. Þá getur skattfrádráttur mest numið 375 milljónum hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og 275 milljónum hjá stórum fyrirtækjum.