Ísland gagnrýnir aðgerðir Tyrklandshers í Sýrlandi
Íslensk stjórnvöld gagnrýna harðlega hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi og hafa komið þeirri afstöðu sinni á framfæri við tyrknesk yfirvöld með formlegum hætti. Hernaðaraðgerðirnar samræmast ekki alþjóðalögum og er þess krafist að Tyrkir hætti aðgerðunum þegar í stað og fylgi alþjóðalögum í hvívetna. Hernaður sem beinist að almennum borgurum og veldur manntjóni, eins og fregnir herma, er fordæmdur.
Íslensk stjórnvöld hafa þungar áhyggjur af því að yfirstandandi hernaðaraðgerðir Tyrkja magni enn frekar ófriðarbálið á svæðinu og geri að engu þann árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sendi frá sér yfirlýsingu á Twitter í gær þar sem hann lýsti miklum áhyggjum af hernaðaraðgerðum Tyrklandsstjórnar gegn Kúrdum á sýrlensku yfirráðasvæði og kallaði eftir vopnahléi á svæðinu. Þá hefur afstaða ríkisstjórnarinnar til aðgerðanna komið fram á Alþingi og í fjölmiðlum undanfarna daga.
Deeply concerned about the #Turkey military offensive against #Kurds in #Syria, which could reinvigorate ISIS and bring further suffering to civilians. Ceasefire is needed in Syria, not further escalation.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) October 9, 2019
Tyrkir hafa sannarlega tekið á móti miklum fjölda flóttamanna frá Sýrlandi en það er skýr afstaða íslenskra stjórnvalda að aðgerðir sem þessar séu síst til þess fallnar að skapa aðstæður til að flóttafólk geti snúið aftur til síns heima, enda líklegt að þær stuðli fremur að áframhaldandi átökum en varanlegum friði.
Íslensk stjórnvöld munu fylgjast náið með framvindu málsins næstu daga og leggja áherslu á það ásamt öðrum ríkjum að hernaðaraðgerðum verði hætt.