Hoppa yfir valmynd
16. október 2018 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 83/2018 Úrskurður 16. október 2018

Mál nr. 83/2018                    Eiginnafn:     Leah (kvk.)

 

 

Hinn 16. október 2018 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 83/2018 en erindið barst nefndinni 2. október.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  • Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.

  • Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.

  • Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

  • Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.

  • Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Mannanafnanefnd hefur áður fjallað um nafnið Leah (kvk.), sbr. úrskurð í máli nr. 87/2009. Í þeim úrskurði segir m.a.:

Endingin –h í nafninu Leah (kv.) á sér ekki hliðstæðu við aðrar endingar kvenkynsnafna í íslensku. Bókstafurinn h stendur fyrir allsérstakt hljóð og í íslensku málkerfi eru mikil takmörk á því hvar þetta hljóð, og stafurinn sem það táknar, geta komið fyrir, því það kemur hvergi fyrir nema í upphafi orðs eða orðhluta. Notkun bókstafsins h í enda nafnsins Leah er ekki sambærileg við notkun h í nöfnunum Agatha, Bertha, Martha, Ruth og Thelma. Bókstafurinn h í enda orðs breytir í grundvallaratriðum endingu þess og raskar þar með stöðu þess í málkerfinu sjálfu. Ritháttur, sem brýtur í bága við almennar ritreglur íslensks máls, t.d. í notkun bókstafsins h, telst ekki hafa unnið sér hefð í öllum nöfnum þótt svo vilji til að hann komi fyrir í einu nafni eða fleirum, sem reynst hafa svo algeng hér á landi að þau hafa unnið sér hefð skv. skilningi laganna.

Þar segir enn fremur:

Nafnorð, sem enda á sérhljóði í öllum föllum, taka veika beygingu. Dæmi: Anna, eignarfall Önnu og Lea, eignarfall Leu. Veik beyging í íslensku er aldrei rituð með –h í enda orðs, þ.e. stafsetningin –ah í nefnifalli og –uh í aukaföllum er ekki til í íslensku beygingarkerfi. Bókstafurinn og hljóðið h í endingu orðs eru því ekki í samræmi við íslenskt málkerfi.

Ekki er hægt að fallast á eiginnafnið Leah (kvk.) þar sem það brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

 

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Leah (kvk.) er hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta