Þrír möguleikar í jarðgöngum milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar
Þrír kostir eru mögulegir varðandi jarðgöng milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar og tvo þeirra má útfæra á tvo vegu. Göng yrðu frá 2,4 km löng og uppí 6,3 km og gætu kostað frá 3,3 milljörðum króna uppí rúma 5,3 milljarða með vegskálum og tilheyrandi nýjum vegaköflum.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sérfræðinga Vegagerðarinnar. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur skýrsluna nú til athugunar. Ráðgert er að í samgönguáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi eftir áramót muni einn möguleiki verða kynntur.
Meginleiðirnar þrjár eru Tungudalsleið milli Bolungarvíkur og Tungudals í Skutulsfirði, Hnífsdalsleið sem er annars vegar milli Bolungarvíkur og Skarfaskers og hins vegar milli Bolungarvíkur og Hnífsdals og sömuleiðis tvær útfærslur á leið milli Bolungarvíkur og Seljadals. Tilgangur jarðgangagerðarinnar er að auka öryggi vegfarenda og að tryggja bestu samgöngur á leiðinni; að hún verði sjaldnar lokuð eða hálflokuð vegna hættuástands.
Í stýrihópi sem vann skýrsluna sátu Magnús V. Jóhannsson, Rögnvaldur Gunnarsson og Gísli Eiríksson sem jafnframt var verkefnisstjóri. Ýmsir aðilar og sérfræðingar lögðu síðan til efnivið til skýrslunnar. Fram kemur í skýrslunni að Vegagerðin hafi þegar árið 1981 athugað möguleika á jarðgöngum milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, fjallað hafi verið um það í jarðgangaáætlun árið 2000 og lausleg athugun gerð á nokkrum kostum ári síðar. Haustið 2005 ákvað ríkisstjórnin síðan að veita fjármunum til jarðgangagerðar í Óshlíð og var einkum miðað við stutt göng undir Óshyrnu. Á þessu ári var framangreindur stýrihópur skipaður og honum falið að kanna Óshyrnugöng en jafnframt falið að kanna aðra kosti.
Í skýrslunni er yfirlit um mögulegar leiðir, greint frá rannsóknum og forsendum, forhönnun hverrar leiðar og þær bornar saman hvað varðar snjóflóðahættu á vegarköflum við gangamunna, rekstrarkostnað og mögulegan sparnað eða arðsemi.
Skýrslan var kynnt á fundi með fulltrúum sveitarstjórna Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar og sátu fundinn einnig samgönguráðherra og vegamálastjóri. Kom fram ánægja hjá sveitarstjórnarmönnum með skýrsluna sem telja allar leiðirnar boðlegar þótt kostir þeirra geti verið mismunandi.
Skýrsluna má sjá á vef Vegagerðarinnar.