Hoppa yfir valmynd
28. desember 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland tók þátt í árlegri netvarnaræfingu Atlantshafsbandalagsins

Frá kynningu á framkvæmd netvarnaræfingarinnar. - mynd
Ísland tók á dögunum þátt í árlegri netvarnaræfingu Atlantshafsbandalagsins, Cyber Coalition 2023, ásamt 35 bandalags- og samstarfsríkjum. Þetta var í fyrsta skiptið sem Ísland tekur þátt í æfingunni. Markmið hennar var að láta reyna á sameiginlega varnargetu og samhæfingu netvarnasveita ríkjanna við meiriháttar netárás. 

Yfir 1300 netvarnarsérfræðingar sóttu æfinguna og CERT-IS, netöryggissveit íslenskra stjórnvalda, tók þátt fyrir hönd Íslands og stýrði undirbúningi verkefnisins í samstarfi við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Æfingin fór að hluta fram í netöryggissetri Atlantshafsbandalagsins í Tallinn í Eistlandi en netvarnarmiðstöðvar í ríkjunum sjálfum tóku einnig virkan þátt í henni. 

Þátttaka Ísland er mikilvægur liður í að styrkja innlendar netvarnir og er hluti af netaðgerðaáætlun stjórnvalda sem var samþykkt á síðasta ári samhliða netöryggisstefnu fyrir Ísland. Æfingar eru lykilþáttur í undirbúningi og þjálfun þeirra aðila sem verja íslenskt netumdæmi þegar til netárása kemur og hafa nú þegar skilað árangri og bættu samstarfi við vina- og bandalagsþjóðir. 

Ísland tók þátt í annarri netvarnaræfingu á vegum Atlantshafsbandalagsins í vor en þá bar sameiginlegt lið Íslands og Svíþjóðar sigur úr býtum í æfingunni Skjaldborg (e. Locked Shields). 
  • Úr netöryggissetri Atlantshafsbandalagsins í Tallinn í Eistlandi. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta