Nr. 32/2017 - Álit
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 32/2017
Kostnaður vegna færslu á rafmagnstöflu. Samþykki húsfundar.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 31. mars 2017, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, C, D, E og F, hér eftir nefnd gagnaðilar.
Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, en þáðu það ekki.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 20. desember 2017.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Aðilar eru eigendur íbúða í G sem er fimm íbúða hús. Ágreiningur er um skyldu gagnaðila til að taka þátt í kostnaði við að álitsbeiðandi færði rafmagnstöflu úr íbúð sinni í sameign hússins.
Krafa álitsbeiðanda er:
Að viðurkennt verði að gagnaðilum beri að greiða hlutdeild í kostnaði við að færa aðalrafmagnstöflu úr íbúð hans í sameign.
Í álitsbeiðni kemur fram að húsið hafi verið byggt 1945. Álitsbeiðandi hafi farið í endurbætur á íbúð sinni í samræmi við teikningar sem samþykktar hafi verið á fundi byggingarnefndar 10. apríl 1974. Hann hafi fært aðaltöflu úr íbúð sinni yfir í sameign og þannig gert hana öllum aðgengilega. Hann hafi kannað hvort húsfélag væri starfrækt í húsinu og fékk þær upplýsingar að svo væri ekki. Því hafi hann gengið á allar íbúðir og fengið flutning töflunnar samþykktan af öllum eigendum í húsinu. Hann hafi leitað eftir tilboðum og hagstæðasta leiðin verið að fá rafvirkjameistara til að vinna verkið í tímavinnu. Eftir að reikningur rafvirkjameistara barst hafi álitsbeiðandi krafist þess að kostnaði yrði skipt eftir hlutfallstölum á alla eigendur hússins. Þá hafi verið kallað til húsfundar þar sem fram hafi komið að álitsbeiðendur hafi ekki talið sig eiga að greiða fyrir flutning töflunnar þrátt fyrir að þetta væri sameiginleg aðaltafla og mælar henni tilheyrandi. Engar endurbætur hafi verið gerðar á töflunni sem sé enda frekar nýleg.
Gagnaðilar skiluðu ekki greinargerð en sjónarmið þeirra koma fram í skjali sem álitsbeiðandi lagði fram. Byggja þau sjónarmið sín á því að ekki hafi verið sótt um leyfi til að færa rafmagnstöflu á kostnað allra eigenda í húsinu. Undirskriftalistar eins og þeir sem álitsbeiðandi hafi lagt fram hafi ekkert lagalegt gildi þar sem ákvörðun um framkvæmdir verði aðeins tekin á löglega boðuðum húsfundi, sbr. álit kærunefndar húsamála þar um. Eðlilegt hefði verið að hafa ferli um tilboð opið og að lokaákvörðun um hvaða tilboði skyldi taka hefði átt að vera tekin sameiginlega enda einn íbúðareigandi ekki haft umboð til að samþykkja eða hafna tilboði fyrir hönd annarra eigenda auk þess sem íbúðareigendur aðrir hefðu þurft að koma að ákvörðun um útlitsbreytingar í sameign. Undirskriftalistinn, sem þó hafi ekkert lagalegt gildi, hafi aðeins snúið að leyfi til að færa rafmagnstöfluna enda ekkert komið fram í því bréfi um kostnað eða skiptingu kostnaðar. Gagnaðilar hafi talið að álitsbeiðandi væri aðeins að óska eftir leyfi til að færa töfluna, sem hann myndi svo bera kostnað af sjálfur, eins og skilja megi af orðanna hljóðan. Flutningur töflunnar auki verðgildi íbúðar álitsbeiðanda og því eðlilegt að hann beri einn kostnað af þeirri framkvæmd. Staðsetning töflunnar hafi ekki truflað aðra íbúa hússins og ekki sé hægt að ganga að því vísu að gagnaðilar hefðu samþykkt flutning hennar vitandi að álitsbeiðandi myndi krefja þá um þátttöku í kostnaði við flutninginn. Auk þessa sé talað um færslu töflunnar í undirskriftabréfinu en ekki endurnýjun hennar sem sé mun kostnaðarsamari aðgerð.
III. Forsendur
Ákvæði 56. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, kveður á um að húsfélög séu til í öllum fjöleignarhúsum í krafti laganna og að ekki þurfi að stofna þau sérstaklega og formlega. Ákvæði 39. gr. kveður á um að allir eigendur eigi óskoraðan rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameign, bæði innan húss og utan, og sameiginleg málefni sem snerta hana beint og óbeint. Í 4. mgr. segir að sameiginlegar ákvarðanir skuli teknar á sameiginlegum fundi eigenda, húsfundi. Ágreiningslaust er að ákvörðun um að flytja sameiginlega rafmagnstöflu úr íbúð álitsbeiðanda í sameign hússins var ekki tekin á húsfundi. Gagnaðilar skrifuðu þó undir skjal þar sem sagði að þau samþykktu að taflan yrði flutt með þessum hætti. Ekki var þar getið um hvernig fara skyldi með kostnað vegna þessa en gagnaðilar töldu að álitsbeiðandi ætlaði einn að bera kostnaðinn. Kærunefnd hefur í fyrri málum talið undirskriftalista með samþykki eigenda ekki gilt samþykki í skilningi fjöleignarhúsalaga, sbr. til dæmis mál nr. 26/2005. Þegar af þeirri ástæðu telur kærunefnd að ekki liggi fyrir lögmæt ákvörðun húsfundar um að flytja rafmagnstöflu úr íbúð álitsbeiðanda þannig að hafna verður kröfu hans um skyldu gagnaðila til að taka þátt í kostnaði vegna þessa.
Kærunefnd telur rétt að benda á að skv. 4. mgr. 40. gr. fjöleinarhúsalaga sé húsfélagi skylt að bæta úr eða staðfesta á öðrum fundi, sem haldinn skal svo fljótt sem kostur er, ákvörðun sem ekki var gert í þessu tilviki. Sé það gert verður ákvörðunin bindandi fyrir viðkomandi eigendur og þeir þar með skyldugir til að taka þátt í kostnaði sem af verkinu hlýst.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar húsamála að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðilar taki þátt í kostnaði við flutning rafmagnstöflu úr íbúð hans í sameign hússins.
Reykjavík, 20. desember 2017
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson
Eyþór Rafn Þórhallsson