Hoppa yfir valmynd
23. júní 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 234/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. júní 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 234/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22040051

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Hinn 16. júní 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. mars 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...]og vera ríkisborgari Íran (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 21. júní 2021. Hinn 28. júní 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd 8. júlí 2021. Hinn 3. febrúar 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku og var þeirri beiðni synjað með úrskurði kærunefndar í máli nr. KNU22020010, dags. 3. mars 2022. Hinn 27. apríl 2022 barst kærunefnd endurupptökubeiðni kæranda að nýju ásamt fylgigögnum.

Beiðni kæranda um endurupptöku málsins byggir á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á því að nú sé komin upp ný málsástæða sem hafi verulegt vægi við mat á því hvort sérstakar ástæður séu til þess að taka mál hans til efnismeðferðar hér á landi. Þá vísar kærandi til samlegðaráhrifa erfiðra félagslegra aðstæðna og þeirra heilsufarskvilla sem hann glími við. Ný heilsufarsgögn varpi ljósi á heilsu og aðstæður kæranda en þar komi m.a. fram að hann sé í þörf fyrir […] vegna […] í smáliðum handa og bólgu í […] og […]. Kærandi vísar til þess að sú […] sem hann þurfi á að halda sé að öllum líkindum óaðgengileg í Grikklandi. Þá eigi kærandi enga möguleika á öryggi og stöðugleika verði honum gert að snúa aftur til Grikklands. Kærandi vísar til þess að hann hafi hvorki fengið fjárhagsaðstoð né húsnæði í Grikklandi eftir að hann hafi hlotið alþjóðlega vernd þar í landi auk þess sem hann hafi orðið fyrir fordómum þar sem hann sé kristinnar trúar. Þá hafi kærandi ekki haft aðgang að heilbrigðisþjónustu í Grikklandi. Í ljósi framangreinds sé ljóst að framlögð heilsufarsgögn feli í sér ný atriði sem hafi ekki legið fyrir þegar ákvörðun var tekin í máli kæranda á fyrri stigum. Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, hagsmunum þeim sem í húfi séu í málinu og hvernig þessar nýju upplýsingar kunni að breyta niðurstöðu málsins sé ljóst að fullt tilefni sé til að endurupptaka málið.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 16. júní 2021. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku á því að nú liggi fyrir ný heilsufarsgögn sem beri með sér að hann sé í þörf fyrir sérstaka l[…] vegna […] í […] og bólgu í […]. Kærandi telur að slík meðferð muni ekki standa honum til boða í Grikklandi.

Í úrskurði kærunefndar, dags. 16. júní 2021, kemur m.a. fram að kærandi hafi greint frá því að vera með […] og taki inn lyf vegna þess. Þá hafi kærandi greint frá því að hann taki inn lyf vegna gigtar. Þá lágu fyrir heilsufarsgögn frá heilsugæslunni Keflavík þar sem fram kom að hann hefði fengið ávísað lyfjum vegna […]. Jafnframt lá fyrir að kærandi ætti tíma hjá gigtarlækni hjá Læknasetrinu 28. október 2021. Þá lagði kærandi fram grísk heilsufarsgögn þar sem m.a. kom fram að kærandi væri greindur með […] sem hann tæki inn lyf við og væri í þörf fyrir meðferð.

Var það mat kærunefndar að gögn málsins bæru ekki með sér að heilsufar kæranda væri með þeim hætti að hann teldist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í úrskurði kærunefndar, dags. 16. júní 2021, er vísað til þess að í skýrslum um aðstæður í Grikklandi komi fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd eigi rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, m.a. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum. Það er mat kærunefndar að framangreind heilsufarsgögn hafi aðeins að geyma nýrri og ítarlegri upplýsingar um heilsufar kæranda og séu aðeins til fyllingar þeim upplýsingum sem lágu fyrir við meðferð máls hans hjá nefndinni. Kærunefnd telur að þrátt fyrir framangreind heilsufarsgögn, sem beri með sér að kærandi sé í þörf fyrir sérstaka […], geti þau ekki talist vera nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið. Kærunefnd áréttar að þær skýrslur sem nefndin hefur kynnt sér um viðtökuríki beri með sér að kærandi gæti fengið þá meðferð sem hann sé í þörf fyrir þar í landi og þá hefur kærandi, samkvæmt gögnum málsins, notið heilbrigðisþjónustu í Grikklandi, m.a. fengið […].

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að aðstæður kæranda hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 16. júní 2021, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                             Sandra Hlíf Ocares


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta