Samningur um réttindi á sviði almannatrygginga undirritaður við Bretland
Ísland, Liechtenstein og Noregur skrifuðu í dag undir samning við Bretland um samræmingu almannatrygginga. Samningurinn er gerður þar sem reglur EES-samningsins gilda ekki lengur um Bretland og kveður á um framtíðarfyrirkomulag hvað varðar réttindi á sviði almannatrygginga, aðallega lífeyrisréttindi og sjúkratryggingar þeirra sem fara eða flytjast milli landanna.
Samningurinn tekur til allra sem falla undir löggjöf ríkjanna og eru þar löglega búsettir þegar þeir fara eða flytja á milli samningsríkjanna. Samningurinn mun einkum gilda um elli-, örorku, og eftirlifendalífeyri, bætur vegna meðgöngu eða fæðingar, atvinnuleysisbætur, dánarbætur, sjúkrabætur og bætur vegna vinnuslysa. Samkvæmt samningnum verður hægt að fá ellilífeyri sem ávinnst eftir gildistöku samningsins greiddan þótt búið sé í öðru samningsríki og nýta sér tryggingatímabil frá öðru samningsríki að ákveðnu marki til að komast fyrr inn í tryggingakerfi ríkjanna þegar flutt er á milli. Við gildistöku samningsins verða evrópsk sjúkratryggingakort sem gefin eru út á Íslandi tekin gild í Bretlandi á ný og munu háskólanemendur frá EES/EFTA-ríkjunum sem eru í námi í Bretlandi geta sótt um endurgreiðslu á heilbrigðisgjaldi, en það er gjald sem Bretland leggur á í tengslum við umsóknir um atvinnu- og dvalarleyfi.
Samningurinn byggist á fyrirliggjandi samningi Bretlands og ESB á þessu sviði. Stefnt er að því að hann taki gildi á Íslandi fyrir lok árs.