Ráðherrar standa vörð um forystuhlutverk Norðurlanda á sviði grænnar orku
Orkumálaráðherrar Norðurlanda skuldbinda sig til að efla forystuhlutverk Norðurlanda í heiminum á sviði loftslagsvænnar orku. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem ráðherrarnir samþykktu á fundi sínum í dag. Efni yfirlýsingarinnar tengist Clean Energy Ministerial og Mission Innovation alþjóðlegum samtökum ráðherra frá stærstu hagkerfum heims en þeir funda við Eyrarsundið þessa dagana.
Þar lýsa norrænu ráðherrarnir yfir eindregnum stuðningi við sjálfbæra þróun í orkuframleiðslu í samræmi við Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum frá 2015 og Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun. Ráðherrarnir heita því að haldið verði áfram að þróa Norðurlönd sem forystusvæði þegar kemur að samþættingu endurnýjanlegra orkugjafa, orkunýtni og loftslagsvænum orkulausnum. Tryggja á forskot landanna hvað varðar samþættar og snjallar orkulausnir.
Ráðherrarnir fagna þeim mikla áhuga sem norræn fyrirtæki og stofnanir hafa sýnt á að stuðla að grænum orkuskiptum og hvetja þeir til aukins samstarfs milli hins opinbera og einkageirans.
„Orka gegnir miðlægu hlutverki í starfinu að sjálfbærri þróun. Norðurlönd eru framarlega í alþjóðlegum samanburði og við viljum halda því forskoti. Við munum leitast við að efla forystuhlutverk Norðurlanda þegar kemur að nýsköpun á sviði hreinnar orku og útflutningi á sjálfbærum orkulausnum,“ segir Ibrahim Baylan, ráðherra stefnusamræmingar og orkumála í Svíþjóð en hann gegnir formennsku í norrænu ráðherranefndinni um orkumál á árinu 2018.
Í yfirlýsingunni er einnig minnst á orkurannsóknir. Ráðherrarnir vilja aukið norrænt samstarf um rannsóknir, þróun og nýsköpun á sviði loftslagsvænnar orku, orkunýtni og orkukerfa. Ráðherrarnir heita því að þeir muni sífellt minna á að minni losun koltvísýring og áframhaldandi hagvöxtur eigi samleið eins og Norðurlönd eru góð dæmi um.
Yfirlýsingin var samþykkt á fundi í Lundi í tengslum við alþjóðlega viku hreinnar orku í Kaupmannahöfn og Malmö þar sem fundir fóru fram í Clean Energy Ministerial 9 og Mission Innovation 3 í þeim tilgangi að greiða fyrir grænum umskiptum. Meðal fundargesta eru orkumálaráðherrar allra G20-landanna og Norðurlanda auk fulltrúa orkumálageirans hvaðanæva úr heiminum. Gefst því einstakt tækifæri til að kynna norrænnar loftslagsvænar orkulausnir.
Norðurlönd, Norræna ráðherranefndin og framkvæmdastjórn ESB standa saman að CEM9 og MI3. Samtímis er haldin vika hreinnar orku, Nordic Clean Energy Week, með fjölbreyttri dagskrá tengd orku alla vikuna frá 21. til 25. maí.
Yfirlýsingin í heild (á ensku)
Ráðherrar vilja að norræn fyrirtæki auki útflutning á orkutækni/ Norden.org