Hoppa yfir valmynd
24. mars 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Þjóðgarðsmiðstöð opnuð á Hellissandi

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, klippir á borða við opnun þjóðgarðsmiðstöðvarinnar ásamt þremur fyrrverandi umhverfisráðherrum, þeim Sigrúnu Magnúsdóttur, Sigríði Önnu Þórðardóttur og Guðmundi Inga Guðbrandssyni. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnaði í dag formlega nýja þjóðgarðsmiðstöð Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls á Hellissandi. Við þetta sama tækifæri var nafni þjóðgarðsins breytt í Snæfellsjökulsþjóðgarður, sem er styttra og þjálla heiti.

Gestum þjóðgarðsins hefur farið ört fjölgandi undanfarin ár og sækir hann nú heim um hálf milljón gesta árlega. Viðstödd opnuna voru auk ráðherra, fulltrúar ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar, bæjarstjóri, forseti bæjarstjórnar, formaður bæjarráðs og þrír fyrrverandi umhverfisráðherrar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Opnun þjóðgarðsmiðstöðvarinnar er mikilvægur áfangi í starfi Snæfellsjökulsþjóðgarðs. Mikil uppbygging hefur átt sér stað innan þjóðgarðsins á undanförnum árum og fyrir atbeina og væntumþykju Snæfellinga fyrir þjóðgarðinum og hans vexti hefur nú verið reist þessi glæsilegu þjóðgarðsmiðstöð.“

Framkvæmdir við þjóðgarðsmiðstöðina hófust árið 2019 og er hún um 700 m2 að flatarmáli og hýsir sýningu, skrifstofur og aðra aðstöðu Snæfellsjökulsþjóðgarðs. Kostnaður við gerð miðstöðvarinnar nemur ríflega 600 milljónum króna.

Þjóðgarðsmiðstöðin á Hellissandi er BREEAM vottuð og var hönnuð af Arkís arkitektum, sem unnu hönnunarsamkeppni árið 2006. Húsið skiptist í þrennt; til suðurs er Jökulhöfði, sem vísar í Snæfellsjökul sem trónir yfir húsinu, til norðurs er Fiskbeinið sem vísar til fengsælla fiskimiða á svæðinu og í gegnum húsið liggur svo Þjóðvegurinn, en hægt er að ganga þvert í gegnum húsið að innan sem utan.

Snæfellsjökulsþjóðgarður er staðsettur á utanverðu Snæfellsnesi. Hann var stofnaður árið 2001 í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar. Þá var hann fyrsti þjóðgarður landsins sem náði að sjó og hefur þá sérstöðu að geyma minjar frá útræði fyrri alda.


  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, flytur ávarp við opnun þjóðgarðsmiðstöðvar. - mynd
  • Fjöldi gesta var viðstaddur opnunina. - mynd
  • Frá vinstri: Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar, Haraldur Benediktsson alþingismaður, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Hákon Ásgeirsson þjóðgarðsvörður og Inga Dóra Hrólfsdóttir sviðsstjóri Umhverfisstofnun. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 15 Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta