Skóflustunga að nýju hjúkrunarheimili á Ísafirði
Fyrsta skóflustunga að nýja hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði var tekin í blíðskaparveðri í dag. Skóflustunguna tók Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og naut aðstoðar nærri fjörutíu barna úr leikskólunum Eyrarskjóli og Sólborg sem báðir standa við byggingarlóð nýja heimilis.
„Hálfnað er verk þá hafið er segir máltækið. Ég held reyndar að við séum komin lengra á veg en svo. Skóflustungan markar tímamót en strax á morgun hefjast framkvæmdir með stórvirkari vinnuvélum“ sagði velferðarráðherra á Ísafirði í dag. „Ég veit að þetta er langþráð stund hjá heimamönnum og raunar geta allir sem láta sig málefni aldraðra varða glaðst yfir þessum áfanga því þörfin fyrir hjúkrunarheimili hér sem uppfyllir allar nútímakröfur um skipulag og aðbúnað íbúa er orðin brýn.“
Á hjúkrunarheimili verður aðstaða fyrir 30 íbúa. Húsnæðið verður um 2.300 fermetrar að stærð og kostnaður við bygginguna er áætlaður um 850 milljónir króna. Lóðaframkvæmdir hefjast nú þegar en gert er ráð fyrir því að bygging hússins verði boðin út á haustmánuðum.
Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og formaður nefndar um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði sagði stórkostlegt að þetta gamla baráttumál heimamanna skuli nú komið svona langt: „Ég held að það þræti enginn fyrir það hversu nauðsynlegt er að hlúa vel að öldruðum, því það eru jú þeir sem hafa byggt upp það góða velferðarsamfélag sem við búum í. Það er þess vegna mjög ánægjulegt að bygging heimilisins sé komin af stað. Allir sem að þessu hafa unnið, hvort sem það er nú síðustu misserin eða þeir sem mörkuðu slóðina á undan okkur, vona og trúa því að tilkoma heimilisins verði heillaspor fyrir samfélagið allt, en þó fyrst og fremst fyrir það fólk sem þar á eftir að búa.“