Nr. 668/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 3. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 668/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23100044
Endurtekin umsókn [...]
I. Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 299/2023, dags. 12. maí 2023, vísaði kærunefnd frá kæru [...], fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir kærandi), á ákvörðun Útlendingastofnunar, um að taka umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu, þar sem kæran var of seint fram komin. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 15. maí 2023.
Kærandi lagði fram endurtekna umsókn til Útlendingastofnunar 14. september 2023 á grundvelli þess að tólf mánuðir væru frá því að hann sótti um alþjóðlega vernd hér á landi. Með tölvubréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 25. september 2023, kom fram að endurtekinni umsókn hans skyldi beint til lögreglu þar sem um nýja umsókn væri að ræða og lögregla hefði sinnt móttöku umsókna um alþjóðlega vernd, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um útlendinga. Hinn 9. október 2023 barst kærunefnd kæra vegna frávísunar á endurtekinni umsókn kæranda ásamt athugasemdum.
II. Málsástæður og rök kæranda
Í athugasemdum kæranda er vísað til tölvubréfa frá Útlendingastofnun um að endurtekin umsókn hans verði ekki tekin til meðferðar hjá stofnuninni. Kærandi hafi lagt fram endurtekna umsókn í góðri trú enda hafi Útlendingastofnun nýlega tekið tvær slíkar umsóknir til meðferðar sem lagðar hafi verið fram á sama máta. Kærandi telur það ekki vera málefnalegt að gera þá kröfu að hann skuli fara aftur til lögreglu til að leggja fram endurtekna umsókn um alþjóðlega vernd. Slík krafa hafi enga stoð í lögum um útlendinga, en kærandi vísar til þess að endurtekin umsókn sé í eðli sínu frábrugðin fyrstu umsókn um alþjóðlega vernd. Ólíkt 1. mgr. 24. gr. laga um útlendinga, vísi 35. gr. a sömu laga ekki til lögreglu og þá segi berum orðum í 3. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga að endurtekinni umsókn skuli beint að því stjórnvaldi sem tók þá ákvörðun sem leitað sé endurskoðunar á. Kærandi telur að jafnvel þó Útlendingastofnun væri játað vald til að móta verklag þyrfti slíkt verklag að vera sett áður en endurtekin umsókn sé lögð fram. Kærandi telji það ótækt að stjórnvald breyti verklagi eftir hentugleika eftir að endurtekin umsókn hafi verið lögð fram. Kærandi hafi réttmætar væntingar um að fyrri framkvæmd eigi við vegna endurtekinnar umsóknar hans. Kærandi geri því þá kröfu að kærunefnd feli Útlendingastofnun að taka endurtekna umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til meðferðar í samræmi við 35. gr. a laga um útlendinga enda hafi umsókninni verið beint að því stjórnvaldi sem sé til þess bært að taka hana til meðferðar, samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins. Kærandi gagnrýni meðferð Útlendingastofnunar á máli hans.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Kærunefnd telur að leggja beri þann skilning í tölvubréf Útlendingastofnunar til kæranda frá 25. september 2023, að um sé að ræða leiðbeiningar stofnunarinnar til kæranda um að áður en Útlendingastofnun geti tekið endurtekna umsókn kæranda til meðferðar beri honum að gefa sig fram við lögreglu í móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, Domus, en ekki sé um að ræða eiginlega frávísun á endurtekinni umsókn hans.
Kærunefnd tekur undir athugasemdir kæranda þess efnis að Útlendingastofnun sé játað ákveðið vald til að móta verklag vegna endurtekinna umsókna. Slíkar umsóknir byggja á nýlegum breytingum á lögum um útlendinga og því eðlilegt að verklag sé ekki enn fastmótað. Kærunefnd telur að verklag sem feli í sér að kærandi gefi sig fram við lögreglu í móttökumiðstöð í tengslum við framlagningu endurtekinnar umsóknar sé í samræmi við framkvæmd um framlagningu umsókna um alþjóðlega vernd samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga um útlendinga, en lögreglan hefur sinnt móttöku umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi um langt skeið.
Þá telur kærunefnd að framangreint verklag geti ekki talist íþyngjandi gagnvart umsækjendum sem leggja fram endurtekna umsókn um alþjóðlega vernd og teljist eðlilegt í samræmi við þau skilyrði sem kveðið sé á um í 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga, þ. á m. að umsækjandi sé staddur á landinu.
Með vísan til framangreinds er kærunni vísað frá.
Úrskurðarorð:
Kæru kæranda er vísað frá.
The applicant‘s appeal is dismissed.
F.h. kærunefndar útlendingamála,
Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður.