Þjóðaröryggisráð fundaði í dag í þriðja sinn
Á fundi þjóðaröryggisráðs í dag voru kynnt og rædd málefni er varða þjóðaröryggi sem eru efst á baugi á þeim sviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til.
Ráðið samþykkti skýrslu til Alþingis um framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.
Þá samþykkti þjóðaröryggisráð að hefja undirbúning að því að ráðið leggi mat á ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og að slíkt mat komi út í árslok. Ráðið samþykkti einnig að hefja undirbúning að mótun þjóðaröryggisvísa í samvinnu við Hagstofu Íslands o.fl. Stefnt er að því að fram fari æfing á neyðarfundi ráðsins í tilefni af atburðum sem hafa orðið eða eru yfirvofandi, sem ætla má að hafi áhrif á þjóðaröryggi. Þá hafa verið lögð drög að opnu málþingi um þjóðaröryggismál síðar á árinu í tengslum við fullveldisafmælið og gert er ráð fyrir að haldið verði málþing í upphafi næsta árs um fjölþáttaógnir (e.hybrid threats).
Sérstök umræðuefni á fundinum voru núverandi hernaðarlegt ógnarmat á Norðurlöndum í heild og hugsanleg áhrif þess á stöðu og ógnarmat Íslands. Jafnframt var fjallað um stöðu Íslands í alþjóðasamstarfi um landamæraeftirlit eftir úttektarskýrslu Schengen.
Þjóðaröryggisráð er samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál og hefur eftirlit með að framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sé í samræmi við samþykkt Alþingis. Þjóðaröryggisráði er ætlað að leggja mat á ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og beita sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál og eflingu fræðslu og upplýsingagjöf um þau mál.
Í þjóðaröryggisráði eiga fast sæti forsætisráðherra, sem er formaður ráðsins, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjórar viðkomandi ráðuneyta. Enn fremur eiga sæti í ráðinu tveir alþingismenn, annar úr þingflokki sem skipar meiri hluta á Alþingi en hinn úr þingflokki minni hluta. Þá sitja í ráðinu forstjóri Landhelgisgæslunnar, ríkislögreglustjóri og fulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Núverandi skipan þjóðaröryggisráðs er þessi:
- Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, formaður
- Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra
- Guðlaugur Þ. Þórðarson, utanríkisráðherra
- Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis
- Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis
- Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.
- Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri
- Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands
- Smári Sigurðsson, fulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar
- Oddný Harðardóttir, alþingismaður
- Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.