Hoppa yfir valmynd
11. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 624/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 624/2020

Fimmtudaginn 11. mars 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. nóvember 2020, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. september 2020, um að synja beiðni fyrirtækisins um endurupptöku máls.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 5. maí 2020, sótti kærandi um greiðslur frá Vinnumálastofnun  á grundvelli laga nr. 24/2020, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, vegna starfsmanns fyrirtækisins sem sætti sóttkví. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. júlí 2020, var samþykkt að greiða kæranda 46.128 kr. vegna viðkomandi starfsmanns. Kærandi fór fram á endurupptöku málsins og með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 3. september 2020, var þeirri beiðni synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 1. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 3. febrúar 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. febrúar 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 16. febrúar 2021 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. febrúar 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að upphaflega hafi verið sótt um endurgreiðslu á launum í sóttkví í 14 daga fyrir starfmann félagsins sem hafi unnið 11 fjögurra tíma vaktir, samtals 44 tíma í mánuði þar sem starfshlutfall hans væri 39,44% af 171,15 tíma vinnuskyldu fyrir fullt starf. Vinnuskylda að meðaltali fyrir hvern dag miðað við 39,44% vinnuskyldu sé 3,12 tímar, sinnum 14 dagar (sem upphaflega hafi verið sótt um), eða samtals 44 tímar. Vinnumálastofnun hafi gert athugasemdir og umsókninni hafi verið breytt og færð niður í 5,5 daga. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir á þeim tíma, enda hafi fyrirtækið gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hefði sýnar leiðir til að reikna starfshlutfallið inn í endurgreiðsluna. Í kjölfar móttöku á endurgreiðslu á launum í sóttkví þann 9. júlí 2020, sem hafi reynst mun lægri en búist hafi verið við, hafi fyrirtækið sent fyrirspurnir á Vinnumálastofnun og fengið þau svör að reiknað væri út frá gögnum Ríkisskattstjóra sem sýni laun fyrir 39,44% starf starfsmannsins í mars, þ.e. það sé ekki tekið tillit til þess að starfsmaður hafi verið í minna en 100% starfshlutfalli. Í kjölfarið hafi átt sér stað skrýtin samskipti við Vinnumálastofnun og ekki hafi verið samræmi í svörum þeirra og aðgerðum. Sem dæmi hafi stofnunin viljað meina að lögin væru ekki að mismuna hlutastarfsfólki en samt hafi endurupptöku verið hafnað, reyndar á þeim forsendum að engin ný gögn hefðu komið fram, sem sé reyndar rétt, enda hafi allar forsendur legið fyrir en rökum fyrirtækisins hafi hins vegar aldrei verið svarað.

Í ljósi ofangreinds fer kærandi fram á að tekið verði tillit til starfshlutfalls við endurgreiðslu launa í sóttkví. Heildarlaun starfsmanns fyrir fullt starf sé 638.000 kr. eins og sjáist á meðfylgjandi launaseðlum, endurgreiðsla eigi því að nema 5,5 * 21.100 kr., eða samtals 116.050 kr. í stað 46.128 kr. Til vara sé sótt um 14,12 daga í sóttkví miðað við vinnuskyldu 3,12 tíma á dag og að notuð verði sömu viðmið og Vinnumálastofnun geri, þ.e. laun samkvæmt Ríkisskattstjóra fyrir 39,44% vinnu. Útkoman sé nákvæmlega sú sama.

Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að af svari Vinnumálastofnunar megi ráða að stofnunin hafi áttað sig á þeim mismun sem felist í því þegar greiðslur vegna starfsmanns í 39,44% starfi viðkomandi mánuð, eins og í tilviki kæranda, séu aðeins 39,44% af launakostnaði í sóttkví á meðan greiðslur fyrir starfsmann í 100% starfi sé 100% af launakostnaði í sóttkví, upp að lögbundnu hámarki. Að mati kæranda séu engin rök fyrir því að Vinnumálastofnun sættist á 11 daga í stað 5,5 daga samkvæmt fyrri ákvörðun sinni. Það viðmið passi einungis fyrir aðila í nákvæmlega 50% starfi og aðra ekki. Þetta þýði líka að ef starfsmaður hefði verið í 60% vinnu viðkomandi mánuð, eins og sé nær venju, og laun í samræmi við það en með sömu 44 tímana sem hafi átt að vinna á tímanum í sóttkví myndi endurgreiðslan reiknast mun hærri og enda í hámarksupphæð samkvæmt lögunum. Spurning hvort Vinnumálastofnun hefði þá komist að sömu niðurstöðu.

Kærandi bendir á að í verslunarrekstri hafi skapast sú venja að orlof af dagvinnu sé greitt jafn óðum og sumarfrí því launalaus. Starfsmaðurinn sem hafi fengið greidd laun í sóttkví hafi verið í sumarfríi í útlöndum hluta af mánuðinum sem sóttkvíin nái til en hafi að jafnaði verið í 55 til 60% starfi árið 2020. Það sé ekki verið að fara fram á að greitt sé fyrir daga sem ekki séu unnir eins og haldið sé fram í svari Vinnumálastofnunar heldur sé verið að fara fram á að greitt sé fyrir allan tímann sem starfsmaðurinn hafi átt að mæta í vinnu en ekki getað vegna sóttkvíar. Þar sem starfsmaðurinn hafi verið í 39,44% starfi í marsmánuði hafi vinnuskylda á dag verið 3,1 að jafnaði ((171,15/21,67)*0,3944). Starfsmaðurinn hafi því unnið vinnuskyldu sem samsvari 14,2 dögum á 11 dögum. Vinnumálastofnun hafi fallist á að greiða fyrir 11 daga eða 34 (11*3,1) tíma samtals. Ef um væri að ræða 60% starf væri vinnuskylda 4,7 tímar á dag sem þýði, miðað við bréf Vinnumálastofnunar, að fyrirtækið ætti að fá greitt fyrir 52 (11*4,7) tíma. Kærandi fái ekki séð að útreikningar og meðferð Vinnumálastofnunar í málinu geti samræmst nokkurri jafnræðisreglu. Kærandi krefjist þess að fá að fullu greitt fyrir þá 44 tíma sem starfmaðurinn hafi þurft að vera frá vinnu.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 24/2020, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, taki til greiðslna til atvinnurekanda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví. Markmið laga nr. 24/2020 sé að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eigi ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Mál þetta varði útreikning Vinnumálastofnunar á greiðslum til kæranda á grundvelli laganna. Starfsmaður kæranda sem um ræði hafi fengið greitt 251.621 kr. í þeim mánuði sem hann hafi sætt sóttkví. Útreikningur á greiðslum byggi á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020. Þar segi að greiðsla til atvinnurekanda skuli taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá hafi verið í sóttkví. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni hafi verið gert að vera í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skuli miða við 30 daga í mánuði. Á þessum grundvelli hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að greiðslur í sóttkví vegna starfsmanns sem hafi misst samtals 5,5 daga úr vinnu, þ.e. 44 klukkustundir/8=5,5 dagar vegna þess að starfsmaðurinn hafi sætt sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, skuli vera 46.128 kr. vegna viðkomandi starfsmanns, eða dagsgreiðslur = (laun mánaðar/30)=(251.621 kr./30)= 8387 kr. Heildargreiðslur = (Dagsgreiðslur * starfsdagar í sóttkví) = (8387 * 5,5) = 46.128 kr.

Vinnumálastofnun tekur fram að þann 15. desember 2020 hafi verið birtur úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 431/2020 er varði útreikning á greiðslum á grundvelli laga nr. 24/2020. Það hafi verið niðurstaða nefndarinnar að fella úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í úrskurði nefndarinnar hafi verið mælt fyrir um reiknireglu sem fæli í sér að reikna ætti endurgreiðslu til kæranda þannig að heildarlaunum starfsmanns væri deilt með 30 og sú upphæð margfölduð með tímalengd sóttkvíar. Ekki sé ljóst af úrskurði hversu fordæmisgefandi niðurstaða í málinu kunni að vera en ljóst sé að nefndin leggi að minnsta kosti til grundvallar að útreikningur á greiðslum vegna starfsmanns í hlutastarfi hafi ekki verið í samræmi við lög. Í ljósi úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 431/2020 telji Vinnumálastofnun rétt að byggja útreikning á greiðslum til kæranda á þeim dagafjölda sem starfsmaður hafi sannanlega átt að vera í vinnu en hafi ekki getað sinnt störfum sínum sökum þess að hann hafi verið í sóttkví, óháð þeim tímafjölda sem starfsmaður hafi átt að vera við vinnu. Stofnunin telji því rétt að greiða dagsgreiðslur til kæranda í þá ellefu daga sem starfsmaður hafi átt að mæta til vinnu, þ.e. 8387*11 eða samtals 92.257 kr.

Kærandi fari hins vegar aðallega fram á það að reikna beri greiðslur út frá heildarlaunum starfsmanns fyrir fullt starf, þ.e. 638.000 kr., og að endurgreiðsla til kæranda eigi því að nema 116.050 (5,5+21.000). Vinnumálastofnun fallist ekki kröfu kæranda, enda skuli greiðsla til atvinnurekanda taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá hafi verið í sóttkví, sbr. 6. gr. laganna. Af þeim sökum telji stofnunin sér ekki fært að leggja önnur laun til grundvallar en heildarlaun launamanns í þeim almanaksmánuði er hann sætti sóttkví, burtséð frá því hver laun starfsmannsins hefðu verið ef hann væri að sinna fullu starfi. Heildarlaun starfsmanns í þeim mánuði sem um ræði hafi verið, líkt og áður segi, 251.621 kr.

Til vara geri kærandi þá kröfu að miðað verði við 14,12 daga í sóttkví og að miðað sé við að vinnuskylda sé 3,12 tíma á dag og að notuð verði sömu viðmið og stofnunin geri, þ.e. heildarlaun fyrir 39,44% vinnu. Vinnumálastofnun bendir á að lög nr. 24/2020 geri ekki ráð fyrir sérstakri reiknireglu fyrir einstaklinga í hlutastarfi. Í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar í fyrrnefndu máli telji stofnunin þó ástæðu til að rökstyðja sérstaklega þann þátt sem snúi að þessari kröfu kæranda. Varakrafa kæranda byggi á því að greiðsla taki mið af þeim dögum sem launamanni hafi verið gert að sæta sóttkví óháð því hversu marga daga viðkomandi starfsmaður hafi átt að vinna á sóttkvíartímabili og óháð því vinnuframlagi sem hafi tapast sökum þess að hann hafi þurft að sæta sóttkví. Í 5. gr. laga nr. 24/2020 sé mælt fyrir um skilyrði fyrir greiðslum vegna launamanna. Samkvæmt því eigi atvinnurekandi ekki rétt á greiðslum á grundvelli laganna ef starfsmaður hans hafi getað sinnt vinnu sinni að minnsta kosti að hluta þaðan sem hann sætti sóttkví. Ekki heldur ef „önnur atvik stóðu í vegi fyrir því að hann hafi getað mætt til vinnu“.  Auk skilyrðis um að starfsmaður hafi sætt sóttkví sé því gerð krafa um skerðingu á vinnuframlagi sökum þess að starfsmaður hafi þurft að sæta sóttkví. Ekki verði séð að atvinnurekandi hafi orðið af vinnuframlagi starfsmanns þá daga sem starfsmaður hafi getað sinnt starfi sínu eða þá daga sem starfsmanni hafi yfirhöfuð ekki verið falið að vinna. 

Jafnframt sé í  9. gr. laga nr. 24/2020 fjallað um umsókn um greiðslur á grundvelli laganna. Í ákvæðinu segi meðal annars að í umsókn skuli tilgreina þá einstaklinga sem sótt sé um greiðslu fyrir og þá daga sem þeir hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta sökum þess að þeim hafi verið gert að vera í sóttkví eða þeir hafi annast barn í sóttkví. Ákvæðið vísi beint til skilyrða 5. gr. laganna fyrir greiðslum vegna launamanna en augljóslega hefði verið óþarft að óska eftir því að umsækjendur tilgreindu þá daga sem þeir hafi ekki getað sinnt vinnu ef ætlunin væri að greiða alla daga sem viðkomandi sætti sóttkví, óháð vinnuframlagi eða vinnuskyldu hans. Vinnumálastofnun bendir einnig á að í athugasemdum með 6. gr frumvarps þess er varð að lögum nr. 24/2020 varðandi útreikning á greiðslum sé tekið dæmi af launamanni sem hafi fengið greiddar 420.000 kr. í laun í þeim mánuði sem hann sætti sóttkví eða 14.000 kr. á dag (420.000/30). Atvinnurekandi fái því greiddar 14.000 kr. fyrir hvern dag sem launamaðurinn sé í sóttkví að uppfylltum öðrum skilyrðum. Ljóst sé af framangreindum athugasemdum að við útreikning á greiðslum samkvæmt ákvæðinu beri að taka tillit til skilyrða 5. gr. laganna. Ef fallist verði á kröfu kæranda um að hann eigi tilkall til endurgreiðslu fyrir alla þá daga sem starfsmaður hafi sætt sóttkví, óháð vinnuframlagi eða vinnuskyldu, séu almenn skilyrði laganna og ákvæði er lúti að umsókn um greiðslur virt að vettugi. Vinnumálastofnun bendir enn fremur á að skilyrði b. og c. liða 5. gr. um að „launamaður hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta þaðan sem hann sætti sóttkví“ fái nýja merkingu ef fallist sé á þá niðurstöðu að miða skuli við tímalengd sóttkvíar, óháð vinnuframlagi starfsmanns. Ljóst sé að ef greiðslur skuli alltaf taka mið af öllu tímabili sóttkvíar þá muni skilyrði 5. gr. ekki vera uppfyllt ef starfsmaður hafi getað sinnt starfi sínu „að hluta“ á því tímabili eða önnur atvik hafi staðið í vegi fyrir því að starfsmaður hafi getað unnið störf sín.

Að öllu framangreindu virtu telji Vinnumálastofnun að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að endurgreiða launakostnað atvinnurekanda vegna starfsmanna sem hafi getað unnið á meðan þeir hafi verið í sóttkví eða hafi ekki átt að vinna á meðan þeir hafi verið í sóttkví. Með vísan til þess sem að ofan greinir telji Vinnumálastofnun rétt að byggja útreikning á greiðslum til kæranda á þeim dagafjölda sem starfsmaður hafi sannanlega átt að vera í vinnu en ekki getað sinnt störfum sínum sökum þess að hann hafi verið í sóttkví, óháð þeim tímafjölda sem starfsmaður hafi átt að vera við vinnu. Stofnunin telji því rétt að greiða dagsgreiðslur til kæranda í þá ellefu daga sem starfsmaður hafi átt að mæta til vinnu, þ.e. 8387*11, eða samtals 92.257 kr. Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi rétt á greiðslum fyrir 11 daga í stað fimm líkt og hin kærða ákvörðun hafi byggt á, en að hafna beri kröfum kæranda að öðru leyti.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. september 2020, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 16. júlí 2020 um að greiða kæranda 46.128 kr. á grundvelli laga nr. 24/2020, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, vegna starfsmanns sem sætti sóttkví.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann stjórnvöldum að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna, til dæmis þegar fyrirliggjandi eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds.

Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 15. desember 2020 í máli nr. 431/2020 var leyst úr ágreiningi sem varðaði útreikning Vinnumálastofnunar vegna greiðslna á grundvelli laga nr. 24/2020, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, vegna starfsmanns sem sætti sóttkví. Í niðurstöðunni segir meðal annars svo:

„Líkt og að framan greinir lýtur ágreiningur málsins að útreikningi Vinnumálastofnunar vegna greiðslu til kæranda sem greiddi starfsmanni sínum laun á meðan hann sætti sóttkví. Sóttkví starfsmannsins stóð yfir í 14 daga á tímabilinu 3. til 17. mars 2020 en fyrir þann mánuð greiddi kærandi starfsmanninum laun að fjárhæð 85.324 kr., þar af 42.306 kr. vegna launa í sóttkví. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að starfsmaður kæranda hafi misst tvo daga úr vinnu á sóttkvíartímabilinu og því bæri einungis að greiða fyrir þá daga eða 2.844 kr. á dag líkt og reikniregla 6. gr. laga nr. 24/2020 geri ráð fyrir.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála á framangreind reikniregla Vinnumálastofnunar sér ekki stoð í lögum nr. 24/2020 og ljóst að hún er í andstöðu við markmið og tilgang laganna. Með framkvæmd Vinnumálastofnunar fær kærandi ekki greiðslu í réttu hlutfalli við þau mánaðarlaun sem hann greiddi starfsmanninum og þar með er útlagður launakostnaður ekki bættur nema að litlu leyti. Úrskurðarnefndin telur að reikna eigi endurgreiðslu til kæranda þannig að heildarlaunum starfsmannsins sé deilt með 30 og margfaldað með tímalengd sóttkvíarinnar. Sá skilningur er í samræmi við orðalag ákvæðis 6. gr. laga nr. 24/2020 og athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi til laganna.“

Úrskurðarnefndin telur ljóst að mál kæranda sé sambærilegt því máli er leyst var úr í framangreindum úrskurði nefndarinnar. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. júlí 2020 um greiðslu til handa kæranda sé haldin slíkum annmörkum að skilyrði til endurupptöku sé uppfyllt. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. september 2020, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta