Hoppa yfir valmynd
30. september 2015 Innviðaráðuneytið

Ráðstefna um stöðu og þróun sveitarstjórnarstigsins á Íslandi í norrænu ljósi

Sveitarstjórnarstigið á 21. öldinni er yfirskrift ráðstefnu á vegum innanríkisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Nordregio, stofnunar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, sem haldin verður í Reykjavík mánudaginn 26. október næstkomandi. Fjallað verður um stöðu og þróun sveitarstjórnarstigsins á Íslandi í norrænu ljósi og spurt hvað læra megi af norrænum umbótaverkefnum.

Frá síðustu aldamótum hefur verið hrint af stað víðtækum umbótaverkefnum á sveitarstjórnarstiginu í Danmörku og Finnlandi og nú eru í undirbúningi miklar breytingar á sveitarstjórnarstiginu í Noregi. Umbótaverkefnin eiga það sammerkt að markmið þeirra er að efla og styrkja sveitarfélög með sameiningum og fleiri aðgerðum til að sveitarfélögin geti tekist á við framtíðaráskoranir vegna öldrunar íbúa, þyngri velferðarþjónustu og tekjusamdráttar.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra setur ráðstefnuna með ávarpi og síðan munu norrænir fræðimenn og sveitarstjórnarmenn gefa yfirlit yfir þær breytingar sem hafa átt sér stað og eru í farvatninu: Hver eru markmiðin, hvernig hefur gengið að nálgast þau og hvernig er unnið að breytingum. Í kjölfarið munu íslenskir fræðimenn fjalla um hvaða lærdóm við getum dregið af þessum verkefnum og breytingum fyrir íslenska sveitarstjórnarstigið. Að lokum verða almennar umræður.

Aðstandendur ráðstefnunnar vonast til að sveitarstjórnarmenn, alþingismenn og aðrir áhugasamir um málefni sveitarstjórnarstigsins muni sækja ráðstefnuna sem fer fram á ensku og íslensku. Hún verður haldin á Grand hóteli Reykjavík og stendur frá klukkan 10 til 15.30.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta