Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2019

Ríkisskattstjóri hefur nú lokið álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2019. Álögð gjöld eru samtals 189,7 ma.kr. sem er lækkun um 4 ma.kr. á milli ára, en breytingar einstakra skatttegunda eru bæði til hækkunar og lækkunar. Fjármagnstekjuskattur og fjársýsluskattur breytast hlutfallslega mest milli ára en sökum þess hve þungt tekjuskattur lögaðila vegur í heildarálagningu munar mest um 4,2 ma.kr. lækkun hans frá fyrra ári. Rétt er þó að hafa í huga að hér er um að ræða svokallaða frumálagningu sem getur tekið ákveðnum breytingum síðar.

Gjaldskyldum félögum fjölgar um 1.160, eða 2,5% milli ára, og eru nú 48.330. Aftur á móti fækkar félögum sem greiða tekjuskatt um 970, eða 5,5% milli ára. Skil framtala voru mjög góð en fyrir lok álagningar höfðu borist um 86% framtala, samanborið við 82% árið áður. Góð skil framtala fyrir álagningu eru til þess fallin að fækka kærum og endurákvörðunum og skapa með því meiri vissu um að álagningin skili sér í ríkissjóð.
Endurgreiðsla ofgreiddra opinberra gjalda lögaðila nam um 20 mö.kr. í ár samanborið við 25 ma.kr. árið á undan og lækkaði því um 20% milli ára.

  Álögð gjöld   Fjöldi
M.kr.  2019 2020 Br. % br.   2019 2020 Br.
Tekjuskattur  72.392 68.201 -4.191 -5,8%   17.534 16.564 -970
Fjármagnstekjuskattur 1.776 1.956 180 10,2%   732 790 58
Útvarpsgjald 735 769 34 4,7%   41.976 42.957 981
Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki 10.625 10.923 297 2,8%   4 4 0
Fjársýsluskattur 3.276 3.248 -28 -0,9%   127 109 -18
Sérstakur fjársýsluskattur 2.780 2.390 -390 -14,0%   7 8 1
Önnur gjöld 46 48 1 2,4%        
Tryggingagjald* 102.124 102.208 84 0,1%   22.119 22.812 693
Alls 193.754 189.742 -4.012 -2,1%        
Fjöldi gjaldskyldra félaga           47.170 48.330 1.160

Tekjuskattur lögaðila

Álagður tekjuskattur er 68,2 ma.kr. og lækkar sem fyrr segir um 4,2 ma.kr. eða 5,8% milli ára ásamt því að gjaldendum fækkar um 970. Mest er lækkunin í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum en vægi þess af heildarálagningu á lögaðila lækkar milli ára úr 14,3% í 9,7%. Líkt og fyrri ár er fjármála- og vátryggingastarfsemi með hæstu álagninguna af einstökum atvinnugreinum eða 23,2%.

Tekjuskattur, hlutfall af heild 2018 2019
Fjármála- og vátryggingastarfsemi 22,5% 23,2%
Framleiðsla, m.a. vinnsla sjávarafurða og stóriðja 8,9% 11,8%
Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum 14,3% 9,7%
Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð 9,8% 9,6%
Rafmagns-, gas- og hitaveitur 6,6% 7,9%
Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi 6,7% 6,6%
Annað 31,3% 31,2%
Samtals 100,0% 100,0%

Fjármagnstekjuskattur

Lögaðilar bera almennt ekki fjármagnstekjuskatt. Þó skulu þeir lögaðilar sem eru undanþegnir almennri tekjuskattskyldu greiða fjármagnstekjuskatt, eins og sveitarfélög og ýmis sjálfseignarfélög. Álagður fjármagnstekjuskattur á þessa lögaðila nemur 1.956 m.kr. sem er 180 m.kr. hærri fjárhæð en á árinu 2019 og nemur hækkunin því 10,2% milli ára.

Útvarpsgjald

Álagt útvarpsgjald á lögaðila nemur 769 m.kr. sem er 4,7% hækkun milli rekstraráranna 2018 og 2019. Á hvern gjaldanda hækkaði það úr 17.500 kr. í 17.900 kr., eða um 2,3%. Þá fjölgaði gjaldendum þess um 981 sem er í góðu samræmi við fjölgun lögaðila á grunnskrá.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki („bankaskattur“)

Skatthlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki er 0,376% fyrir tekjuárið 2019 og er gjaldstofninn heildarskuldir viðkomandi lögaðila sem eru yfir 50 ma.kr. í lok hvers árs. Álagður bankaskattur nemur nú um 10,9 ma.kr. og hækkar um tæplega 0,3 ma.kr. á milli ára, eða um 2,8%. Fjórir lögaðilar greiða þennan skatt líkt og árið á undan.

Fjársýsluskattur

Álagning fjársýsluskatts, sem er innheimtur í staðgreiðslu nemur 3,2 ma.kr. og nær til 109 lögaðila. Skattstofninn er allar tegundir launa eða þóknana hjá fjármála- og tryggingafyrirtækjum, þar með talið bónusgreiðslur ef einhverjar eru. Skatthlutfallið var óbreytt frá fyrra ári, 5,5% og lækkar álagður skattur um 1% á milli ára.

Sérstakur fjársýsluskattur

Sérstakur 6% fjársýsluskattur leggst á hagnað fjármálafyrirtækja, þ.m.t. tryggingafélaga, sem er umfram 1 ma.kr. Samkvæmt álagningartölum ríkisskattstjóra nemur hann um 2,4 ma.kr. á þessu ári og lækkar um 0,4 ma.kr. frá fyrra ári eða um 14%. Átta fyrirtæki greiða þennan skatt í ár eins og árið 2018 en árið 2019 greiddu sjö fyrirtæki þennan skatt.

Tryggingargjald

Álagning tryggingagjalds á launagreiðslur ársins 2019 nemur 102,2 ma.kr. og er það nánast sama upphæð og árið áður. Gjaldendum tryggingagjalds fjölgaði um 693, eða 3,1%. Almennt tryggingagjald lækkaði 0,25 prósentustig milli áranna 2018 og 2019 og verður það til þess að tekjur af tryggingargjaldi standa í stað milli ára en hækka ekki samhliða auknum launagreiðslum.

Afsláttur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar

Heildarafsláttur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar nemur alls 5.186 m.kr. samkvæmt álagningunni í ár samanborið við 3.577 m.kr. í fyrra. Viðmið styrkhæfs kostnaðar fyrir rannsóknir og þróun innan fyrirtækis fyrir rekstrarárið 2019 var 600 m.kr. og vegna aðkeyptrar rannsókna- og þróunarvinnu 900 m.kr. Afslátturinn gengur upp í álagðan tekjuskatt, ef fyrirtækið er með hagnað en er annars útgreiðanlegur að fullu. Endurgreiðslan í ár er að upphæð 4.361 m.kr. og skuldajöfnunin að upphæð 824 m.kr. samanborið við 2.969 m.kr. endurgreiðslu í fyrra og 608 m.kr. skuldajöfnun. Alls á 201 lögaðili rétt á afslættinum í ár en þeir voru 160 fyrir ári síðan eins og fram kemur í eftirfarandi töflu.

  Álögð gjöld    Fjöldi
  2019 2020 % br.       2019   2020   Br.
Endurgreiðslur   2.969   4.361   46,9%   136 181 45
Skuldajöfnun á móti tekjuskatti 608 824 35,6%   41* 48* 7
Samtals 3.577 5.186 45,0%   160 201 41

* 28 lögaðilar fengu bæði skuldajöfnun og endurgreiðslu í álagningu ársins 2020 samanborið við 17 í álagningu ársins 2019

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta