Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Stefnt að sameiginlegri framkvæmd á Parísarmarkmiðum

Drög að samkomulagi liggja fyrir milli Íslands og Noregs annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar um sameiginlega framkvæmd á markmiðum Parísarsamningsins í loftslagsmálum til 2030. Vonast er til að hægt sé að ná saman á komandi vikum, en nokkur atriði standa út af varðandi lagalega og efnislega þætti. Ísland mun þurfa að ná 29% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda sem falla utan evrópsks viðskiptakerfis með losunarheimildir (ETS) árið 2030 miðað við 2005, en stjórnvöld munu eftir sem áður stefna að 40% samdrætti í losun líkt og kveðið er á um í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum.

Samkvæmt Parísarsamningnum frá 2015 eiga ríki að leggja fram töluleg markmið varðandi losun sína og er ríkjum heimilt að senda inn sameiginlegt markmið. Ísland er aðili að viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) á grundvelli EES-samningsins og tilkynnti til Parísarsamningsins árið 2015 að stefnt væri að sameiginlegri framkvæmd með ESB og aðildarríkjum þess, með fyrirvara um að samningar næðust um fyrirkomulag þess. Norðmenn sendu inn sambærilega tilkynningu.

Ísland og Noregur hafa átt í samningaviðræðum við ESB síðan í júní á þessu ári um hvernig hægt sé að standa að sameiginlegri framkvæmd. Með henni myndu 30 Evrópuríki skuldbinda sig til að draga sameiginlega úr losun um 40% til 2030, miðað við 1990, en hlutur hvers ríkis færi eftir innri reglum ríkjanna.

Í innri reglum ESB gildir þrenns konar regluverk um losun eftir uppsprettum, sem myndi þá líka gilda fyrir Ísland og Noreg. Losun frá stóriðju og flugi fellur undir viðskiptakerfi með losunarheimildir, ETS, þar sem ábyrgð er fyrst og fremst á hendi fyrirtækja; þessar reglur eru þegar innleiddar af Íslandi í gegnum EES-samninginn. Losun utan ETS (frá samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi o.fl. uppsprettum) er á ábyrgð ríkja, sem þurfa að ná tölulegum markmiðum um samdrátt. Sérstakar reglur gilda síðan um losun og kolefnisbindingu með skógrækt og annarri landnotkun.

Samkvæmt útreikningum sem nú liggja fyrir þarf Ísland að ná 29% samdrætti í losun utan ETS árið 2030 miðað við 2005. Krafa á Ísland væri hærri ef eingöngu væri litið til landsframleiðslu á mann, en Ísland telst hafa þrengri stöðu en mörg önnur ríki varðandi hagkvæma kosti til að minnka losun. Krafan á Ísland skv. þessum útreikningum er lægri en markmið stjórnvalda sem voru kynnt í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í september en skv. henni er stefnt að 40% samdrætti í losun utan ETS til 2030. Það markmið stjórnvalda mun sem fyrr segir halda sér þótt krafan á Ísland sé lægri. Aðgerðaáætlun stjórnvalda mun því miða við 40% losun, eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála, en ríkjum er frjálst að setja sér metnaðarfyllri markmið en regluverk ESB gerir ráð fyrir.

Þótt ekki hafi verið gengið frá öllum laga- og tæknilegum atriðum varðandi Ísland og Noreg falla skuldbindingar Íslands undir tveggja stoða kerfið. Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn myndu því sjá um framfylgd reglna gagnvart ríkjunum tveimur.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta