Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 195/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 195/2024

Fimmtudaginn 22. ágúst 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. apríl 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2024, um að fella niður rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði og ákvörðun stofnunarinnar, dags. 11. apríl 2024, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 13. maí 2022 og var umsóknin samþykkt 3. júní 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2024, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna ótilkynntrar dvalar erlendis. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun í kjölfar skýringa hans og var honum tilkynnt með bréfi, dags 11. apríl 2024, að fyrri ákvörðun væri staðfest með þeim rökum að sú ákvörðun hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn í málinu. Kæranda var jafnframt tilkynnt að innheimta bæri ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að fjárhæð 563.554 kr., að meðtöldu 15% álagi, vegna þeirra daga sem kærandi hefði verið staddur erlendis á tímabilinu ágúst 2022 til mars 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. apríl 2024. Með bréfi, dags. 30. apríl 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 1. júlí 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. júlí 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að réttur hans til greiðslu atvinnuleysisbóta hafi verið felldur niður sökum þess að hann hafi neyðst til þess að ferðast til Austurríkis. Eiginkona hans hafi legið ein inni á spítala í Austurríki vegna erfiðrar fæðingar og hafi þurft á kæranda að halda.

Kærandi kveðst ekki hafa verið kunnugt um að honum bæri að tilkynna Vinnumálastofnun um ferð sína erlendis en hann hefði verið í virkri atvinnuleit á netinu. Kærandi sé nú tekjulaus og ófær um að borga leigu. Kærandi óskar eftir því að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 13. maí 2022. Með erindi, dags. 3. júní 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Vinnumálastofnun hafi borist ábending um tíðar ferðir kæranda erlendis á tímabilinu 12. ágúst 2022 til 20. mars 2024 en gögn hafi borið með sér að um 14 ferðir væri að ræða. Með bréfi, dags. 22. mars 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur til hans yrðu stöðvaðar þar til hann skilaði gögnum um ferðir sínar erlendis og skýringum á því hvers vegna tilkynning um ferðir hans hefði ekki borist stofnuninni. Þann 27. mars 2024 hafi kæranda verið birt ákvörðun stofnunarinnar um þriggja mánaða biðtíma vegna ótilkynntra ferða erlendis, en ítrekunarákvæði 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 hafi verið beitt vegna viðurlaga frá 17. ágúst 2023 hvar kærandi hefði ekki tilkynnt stofnuninni um tekjur og hefði verið gert að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum.

Kærandi hafi sent stofnuninni skýringar klukkan 03:43 þann 26. mars 2024 en þær skýringar hafi ekki verið skráðar í kerfi stofnunarinnar fyrr en klukkan 15:01 þann 27. mars 2024. Þær hafi því ekki legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda. Með tölvupóstinum, dags. 26. mars 2024, hafi kærandi kveðist hafa farið allnokkrar ferðir erlendis í atvinnuleit en síðasta ferðin hafi verið farin vegna veikinda eiginkonu hans sem búsett væri í Austurríki. Í skýringarbréfi sínu hafi kærandi meðal annars vísað til þess að hann hefði fengið útgefið U2 vottorð í október 2023. Kærandi hafi jafnframt sent inn farseðla vegna ferða á árinu 2024 en kveðist ekki hafa aðgang að gögnum vegna ferða erlendis á árunum 2022 og 2023.

Málið hafi verið tekið fyrir að nýju og kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 11. apríl 2024, að fyrri ákvörðun væri staðfest þrátt fyrir að ný gögn hefðu litið dagsins ljós. Þann 11. apríl 2024 hafi kæranda jafnframt verið tilkynnt um að innheimta bæri ofgreiddar atvinnuleysistryggingar vegna þeirra daga sem kærandi hefði verið staddur erlendis. Kæranda hafi verið tilkynnt að ofgreiðslan næmi 490.046 kr. en heildarskuld með álagi næmi 565.038 kr. og yrði ofgreiðslan innheimt með skuldajöfnuði í síðar tilkomnum greiðslum. Skuldastaða kæranda hafi á þeim degi verið samtals 565.038 kr. samkvæmt bréfinu.

Með bréfi, dags. 18. apríl 2024, hafi kæranda verið sent bréf að nýju með leiðréttingu á fjárhæð skuldarinnar og honum tilkynnt að krafan næmi 490.975 kr. án álags, 564.621 kr. með álagi og næmi heildarskuld við stofnunina 566.105 kr. en mismunur fjárhæða í bréfum sé rakinn til innsláttarvillu í fyrra bréfi. Þá hafi kærandi verið með eftirstöðvar vegna ofgreiðslu frá janúar 2024 sem næmi 1.484 kr.

Framangreind ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 29. apríl 2024. Efni kærunnar sé samhljóma því bréfi sem sent hafi verið stofnuninni þann 26. apríl 2024 en kærandi beri við veikindum eiginkonu sinnar og kveðist ekki hafa haft vitneskju um skyldu sína til að tilkynna um ferðir erlendis til stofnunarinnar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda vegna ótilkynntrar dvalar erlendis.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Í c. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum.

Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar. Þar segi:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Í athugasemdum með frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.“ Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu atvinnuleitanda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti.

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Fyrir liggi að kærandi hafi dvalið erlendis [á tímabilinu 12. ágúst 2022 til 20. mars 2024]. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjanda um greiðslur atvinnuleysistrygginga að vera í virkri atvinnuleit. Það sé jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c. lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um þessa utanlandsferð sína líkt og honum hafi borið samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi því verið beittur viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna.

Í skýringum til Vinnumálastofnunar og í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greini kærandi frá því að honum hafi ekki verið kunnugt um að honum bæri að tilkynna stofnuninni um ferðir sínar erlendis. Í því samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess að við móttöku umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur hafi kæranda verið greint frá því að ítarlegar upplýsingar um réttindi hans og skyldur væri að finna á heimasíðu stofnunarinnar. Þá hafi kæranda jafnframt verið bent á að tilkynna þyrfti Vinnumálastofnun fyrir fram um allar ferðir erlendis. Kærandi hafi einnig áður farið erlendis og tilkynnt um það, sbr. færslu í samskiptasögu frá 4. júlí 2022, en þar hafi kærandi tilkynnt um veikindi móður sinnar í Tyrklandi. Kæranda hafi því hlotið að vera ljóst að honum bæri að tilkynna stofnuninni um ferð sína erlendis á síðari tímum eftir það og því sé ekki hægt að fallast á skýringar hans um skort á vitneskju um skyldur atvinnuleitanda.

Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda séu ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að hann hafi ekki uppfyllt upplýsinga- og trúnaðarskyldu sína gagnvart stofnuninni, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú skylda atvinnuleitanda sem þiggi atvinnuleysisbætur að tilkynna fyrir fram um utanlandsferðir sínar sé fortakslaus, enda sé um að ræða upplýsingar um atvik sem hafi bein áhrif á rétt atvinnuleitanda til greiðslu atvinnuleysisbóta. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þar sem kærandi hafi áður sætt niðurfellingu bótaréttar beri stofnuninni að beita ítrekunaráhrifum í samræmi við 61. gr. laga um artvinnuleysistryggingar. 1. mgr. laganna fjalli um það þegar atvinnuleitandi sæti viðurlögum í annað sinn. Í ákvæðinu segi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Þar sem um hafi verið að ræða niðurfellingu bótaréttar til kæranda í annað sinn eigi regla 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar við í máli kæranda. Kærandi eigi því ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að liðnum þremur mánuðum frá ákvörðun stofnunarinnar.

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum við 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabila þeirra sem kærandi hafi verið erlendis, frá því í ágúst 2022 til loka mars 2024.

Heildarskuld kæranda sé að fjárhæð 490.975 kr. án álags. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til skuldamyndunar. Vinnumálastofnun hafi ekki séð tilefni í máli kæranda til þess að fella niður álagið og sé heildarskuld kæranda 566.105 kr. að meðtöldu álagi.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að fella skuli niður rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta sbr. 1. mgr. 59. gr. og 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði c. liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 þar sem fram kemur að launamaður sé tryggður samkvæmt lögunum sé hann búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi staddur erlendis í allnokkur skipti á tímabilinu ágúst 2022 til mars 2024 en tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrir fram um ferðir sínar. Kærandi hefur vísað til þess að honum hafi ekki verið kunnugt um að hann þyrfti að tilkynna stofnuninni um ferðir sínar erlendis.

Þann 13. maí 2022 var kæranda send staðfesting á móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur og sendur tengill á glærupakka með upplýsingum um réttindi hans og skyldur. Eitt af því sem þar kemur fram er að atvinnuleitanda beri að tilkynna um dvöl erlendis fyrir brottför á „Mínum síðum“. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gætti kærandi að þeirri skyldu sinni vegna ferðar hans í júlí 2022.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita af tilkynningarskyldu vegna ferða erlendis eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér upplýsinga um hvort slík skylda væri fyrir hendi. Verður því fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn upplýsingaskyldu sinni er hann tilkynnti ekki fyrir fram um ferðir sínar erlendis. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á um beitingu viðurlaga við slíku broti.

Í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Samkvæmt gögnum málsins var bótaréttur kæranda felldur niður í tvo mánuði þann 17. ágúst 2023 vegna ótilkynntra tekna. Þar sem um sama bótatímabil er að ræða, sbr. 29. gr. laganna, kom til ítrekunaráhrifa samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 61. laga nr. 54/2006, staðfest.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins sem kærandi var erlendis. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þegar kærandi var í tíðum ferðum erlendis á tímabilinu ágúst 2022 til mars 2024 uppfyllti hann ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera staddur hér á landi. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir sínar til útlanda og er því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. apríl 2024, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði, er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar, dags. 11. apríl 2024, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er einnig staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta