Nr. 63/2025 Úrskurður
Hinn 23. janúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 63/2025
í stjórnsýslumálum nr. KNU24070241 og KNU24070242
Kærur [...] og [...]
- 1Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 31. júlí 2024 barst kærunefnd útlendingamála sjálfkrafa kæra, samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, á ákvörðunum Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar hér á landi umsóknir karlmanns er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir M), og konu er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir K), um alþjóðlega vernd og brottvísa þeim frá landinu. Var kærendum gert að yfirgefa landið án tafar ellegar sæta endurkomubanni í tvö ár.
Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal nefndin meta að nýju alla þætti kærumáls og getur ýmist staðfest ákvörðun, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju til þeirrar stofnunar sem tók hina kærðu ákvörðun. Við meðferð kæru þessarar fer fram endurskoðun á ákvörðunum Útlendingastofnunar sem m.a. felur í sér sjálfstætt efnislegt mat á því hvort taka eigi mál kærenda til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 36. gr. laganna og hvort skilyrði fyrir brottvísun og endurkomubanni séu uppfyllt. Auk þess fer fram skoðun á því hvort formreglum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fullnægt.
Kærendur gera kröfu um að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að umsóknir þeirra verði teknar til efnismeðferðar samkvæmt ákvæðum 36. gr. laga um útlendinga.
- 2Málsmeðferð
Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi 8. maí 2024. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindu kærendur frá því að hafa verið með vegabréfsáritanir til Bandaríkjanna og að þau hafi dvalið þar í einn mánuð áður en þau komu hingað til lands. Vegabréfsáritun M er með gildistíma frá 9. apríl 2023 til 29. mars 2026 og áritun K með gildistíma frá 22. september til 20. september 2025. Kærendur komu til viðtals hjá Útlendingastofnun 29. maí 2024 og 11. júlí 2024, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 31. júlí 2024 að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að þeim skyldi brottvísað frá landinu. Útlendingastofnun taldi að kærendur hefðu slík tengsl við Bandaríkin að eðlilegt og sanngjarnt væri að þau dveldu þar, ferðuðust eða yrðu flutt þangað, sbr. d-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun taldi að kærendur hefðu ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsóknir kærenda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Það var mat stofnunarinnar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærendur yrðu send til Bandaríkjanna. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum 31. júlí 2024 og barst greinargerð kærenda 12. ágúst 2024.
- 3Greinargerð til kærunefndar
Farið hefur verið yfir greinargerð kærenda og mat lagt á öll sjónarmið er þar koma fram. Verða aðeins reifuð hér helstu atriði greinargerðarinnar.
Í greinargerð er aðstæðum kærenda lýst þannig að þau hafi flúið stríðsátök í heimaríki þar sem sonur þeirra hafi látið lífið og að þau séu við bága heilsu. Ferðaleið þeirra til Íslands hafi legið í gegnum Egyptaland, Bandaríkin og Frakkland. Ísland hafi orðið fyrir valinu þar sem þau eigi son hér á landi. Við komuna til Íslands hafi kærendur fargað vegabréfum sínum af ótta við að verða send úr landi en það skipti máli þar sem mál þeirra hafi verið fært úr efnismeðferð yfir í meðferð samkvæmt 36. gr. laga um útlendinga. Vegna stríðsástandsins á Gaza sé erfitt og jafnvel ómögulegt fyrir kærendur að fá ný vegabréf með vísan til greinargerðar kærenda til Útlendingastofnunar. Gagnrýnivert sé að í hinni kærðu ákvörðun sé hvergi minnst á að kærendur séu vegabréfslaus. Þannig hafi ekki verið fjallað um grundvallar málsástæðu kærenda sem sé verulegur annmarki á málsmeðferð Útlendingastofnunar. Einnig sé verulegur annmarki að Útlendingastofnun hafi látið undir höfuð leggjast að afla gagna sem staðfesti að kærendur séu vegabréfslausir, s.s. frá landamæravörðum.
Í greinargerð eru færð rök fyrir því að aðstæður kærenda falli ekki undir 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem þau hafi ekki slík tengsl við Bandaríkin að sanngjarnt og eðlilegt sé endursenda þau þangað, sbr. d-lið ákvæðisins, þó þau hafi ferðast þangað sem ferðamenn. Þau eigi syni í framangreindum löndum en einnig á Íslandi.
Í greinargerð eru færð rök fyrir því að aðstæður kærenda falli undir 2. mgr. 36. gr. laganna, sbr. jafnframt 32. gr. b reglugerðar um útlendinga, þar sem þau hafi sérstök tengsl við Ísland þar sem sonur þeirra búi hér á landi og sé með dvalarleyfi, en hann sé eina barn kærenda sem eigi ekki maka og það þýði að tengslin við hann séu sérstaklega rík. Umræddur sonur kærenda hafi búið með þeim á Gaza í 27 ár áður en hann flutti til Íslands fyrir fimm árum. Eftir að stríðið hófst á Gaza hafi sonur kærenda þurft að aðstoða þau fjárhagslega. Þá séu sérstakar ástæður fyrir hendi í málum kærenda þar sem þau þurfi á viðeigandi heilbrigðisþjónustu, lyfjum og sálfræðiþjónustu að halda sem þau muni ekki njóta verði þau send frá Íslandi.
Í greinargerð eru færð rök fyrir því að aðstæður kærenda falli undir 3. mgr. 36. gr. laganna þar sem þau séu vegabréfslaus. Ný vegabréf ásamt vegabréfsáritunum til Bandaríkjanna myndu ekki berast þeim á næstu árum og myndi beiting reglunnar um griðland því vera í andstöðu við 42. gr. laga um útlendinga. Ekki sé sjálfgefið að Bandaríkin veiti þeim nýja vegabréfsáritun. Einnig ættu kærendur á hættu að vera vísað aftur til heimaríkis síns þar sem geisar stríð. Kærendur muni ekki fá inngöngu í Bandaríkin þar sem þau séu vegabréfslaus og því yrðu þau áframsend þaðan til heimaríkis síns.
Í greinargerð eru færð rök fyrir því að ekki hafi verið farið að málsmeðferðarreglum þar sem engin rannsókn eða skoðun hafi farið fram á afdrifum kærenda verði þau send vegabréfslaus til Bandaríkjanna. Ákvörðunin sé eingöngu byggð á ályktun Útlendingastofnunar um að bandarísk yfirvöld muni leysa úr máli kærenda og sökum þess sé reglan um bann við endursendingu ekki virt. Ekki hafi verið miðað við sérstakar aðstæður kærenda. Til að mynda hafi Útlendingastofnun ekki vísað til fordæma sem sýni fram á að þessi ályktun eigi við rök að styðjast eða fjallað um það með beinum hætti.
- 4Umsóknir um alþjóðleg vernd
- Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda og reglugerða og tilskipana Evrópusambandsins er varða landamæraeftirlit og umsóknir um alþjóðlega vernd eftir því sem tilefni er til.
Ákvæði laga um útlendinga, reglugerðar um útlendinga sem og önnur ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem máli skipta við úrlausn umsókna kærenda um alþjóðlega vernd verða reifuð í viðeigandi köflum hér að neðan.
- Aðstæður kærenda
Kærendur eru hjón á [...]- og [...]aldri. Kærendur greindur frá því að eiga son sem sé búsettur hér á landi og handhafi dvalarleyfis. Við meðferð málsins hafa kærendur greint frá því að þau hafi lagt á flótta frá heimaríki 3. mars 2024 og farið til Egyptalands þar sem þau eigi þrjá syni. Þaðan hafi þau farið 30. mars 2024 til Bandaríkjanna til að heimsækja son sinn sem sé þar í námi og búi í Texas. Þaðan hafi þau farið til Frakklands 27. apríl 2024 þar sem þau hafi fengið brottvísun en komið þaðan til Íslands 8. maí 2024. Kærendur greindu frá því að þau hafi ekki getað lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Bandaríkjunum því þau væru þar með vegabréfsáritun ferðamanna. Engin aðstoð eða þjónusta hafi verið í boði þar í landi og þau farið úr landinu þegar áritunin rann út. Þar sem þau hafi eyðilagt vegabréf sín geti þau ekki farið aftur til Bandaríkjanna. Sonur þeirra í Bandaríkjunum sé í meistaranámi, vonist eftir að fá græna kortið og sé giftur bandarískri konu. Þá greindu kærendur frá því að eiga son í Frakklandi sem hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd þar. Framlögð heilsufarsgögn bera með sér að M sé með sykursýki 2, lungnabólgu og kvíða. Þá sé K með kláða í húð og kvíða.
- Landaupplýsingar
Lagt hefur verið mat á aðstæður í Bandaríkjunum, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
Bandaríki Norður-Ameríku mynda stjórnarskrárbundið sambandslýðveldi 50 ríkja. Bandaríkin hafa fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og samning Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þá er lagt bann við pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð í fimmta, áttunda og fjórtánda viðauka við stjórnarskrá Bandaríkjanna. Jafnframt er lagt bann við mismunun í fjórtánda viðauka við stjórnarskrána. Stjórnvöld í Bandaríkjunum veita samkvæmt landslögum vernd gegn endursendingum einstaklinga til ríkja þar sem þeir eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi sé ógnað (non-refoulement). Bandaríkin undirrituðu alþjóðasáttmála um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og fullgiltu hann árið 1994. Löggjöf um flóttamenn er byggð á Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1951 en Bandaríkin eru jafnframt aðilar að viðauka við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna frá 1967. Lög um flóttamenn voru sett í Bandaríkjunum árið 1980 og hefur löggjöfin þróast með dómafordæmum Hæstaréttar Bandaríkjanna. Heimavarnarráðuneytið (e. Department of Homeland Security) er æðsta stofnun innflytjendamála í Bandaríkjunum en undirstofnanir þess sinna mismunandi verkefnum innan málaflokksins. Stofnun ríkisborgararéttar og innflytjendamála (e. U.S. Citizenship and Immigration Services, USCIS) er sú stofnun sem einkum sinnir umsóknum um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd.
Á vefsíðu USCIS í Bandaríkjunum og vefsíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna kemur fram að einstaklingur geti lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd sé viðkomandi staddur innan yfirráðasvæðis Bandaríkjanna. Umsækjendur þurfi að fylla út svokallað I-589 eyðublað sem í flestum tilvikum sé hægt að gera rafrænt innan eins árs frá komu. USCIC tekur ákvörðun um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd. Fái umsækjendur neikvæða niðurstöðu sé hægt að kæra málið til dómara innflytjendamála. Þeirri niðurstöðu sé hægt að áfrýja til kærunefndar. Þá kemur fram á vefsíðunni að umsækjendur um alþjóðlega vernd séu sjaldnast settir í varðhald. Fái umsækjendur jákvæða niðurstöðu þurfi þeir að fylla út tiltekið eyðublað. Veiting alþjóðlegrar verndar í Bandaríkjunum nær til maka og ólögráða barna, hafi viðkomandi verið staddir í Bandaríkjunum meðan umsókn um alþjóðlega vernd var lögð fram. Einstaklingar sem hljóta alþjóðlega vernd í Bandaríkjunum fá jafnframt atvinnuleyfi, almannatryggingakort og græna kortið sem veitir heimild til fastrar búsetu. Yfirvöld í Bandaríkjunum bjóða ekki upp á gjaldfrjálsa lögfræðiþjónustu til umsækjenda um alþjóðlega vernd en til staðar séu hjálparsamtök sem bjóði upp á slíkt fyrir efnalitla einstaklinga. Umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa ekki atvinnuleyfi í Bandaríkjunum en hægt er að sækja um atvinnuleyfi 150 dögum eftir að umsókn um alþjóðlega vernd hefur verið lögð fram.
Á upplýsingasíðu fyrir innflytjendur í Bandaríkjunum kemur fram að ótryggðir einstaklingar geti leitað á bráðamóttöku en kunni að þurfa greiða fyrir slíka þjónustu. Ákveðin sjúkrahús bjóði þó upp á niðurgreidda eða eftir atvikum gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og læknishjálp, þ. á m. fyrir innflytjendur. Hægt er að leita til heilbrigðisstarfsfólks eða félagsráðgjafa til að sjá hvort viðkomandi uppfylli skilyrði fyrir gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu. Hafi umsækjendur um alþjóðlega vernd atvinnuleyfi bjóða vinnuveitendur yfirleitt upp á sjúkratryggingu. Þá séu mismunandi reglur eftir ríkjum Bandaríkjanna hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi aðgang að gjaldfrjálsri þjónustu, s.s. í gegnum Medicaid verkefnið. Jafnframt hafi verið sett á fót verkefnið Refugee Medical Assistance (RMA) sem veiti flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd tímabundna heilbrigðistryggingu falli þeir utan skilyrða fyrir Medicaid.
Í skýrslu Freedom House fyrir árið 2023 kemur fram að samkvæmt alríkislögreglunni hafi glæpatíðni í heild sinni lækkað í Bandaríkjunum síðan á tíunda áratugnum. Hins vegar sé glæpatíðni enn mikil í samanburði við önnur stöndug lýðræðisríki. Tíðni manndrápa hafi hækkað um þriðjung á árunum 2019-2021 í helstu stórborgum landsins. Stjórnvöld hafi unnið að endurbótum á réttarkerfinu á undanförnum árum, m.a. vegna aðgerða lögreglu sem hafi leitt til dauða óbreyttra borga. Þó hafi aðeins lítill hluti manndrápa lögreglu leitt til saksóknar og mörg mála endað með sýknudómi. Bandaríkin njóti góðs af öflugum verndarráðstöfunum gegn opinberri spillingu, m.a. þegar komi að löggæslu- og réttarkerfi auk fjölmiðla. Ýmsar reglugerðir og eftirlitsstofnanir á vegum stjórnvalda vinni að hagsmunaárekstrum. Jafnframt hafi ríkisstjórn landsins unnið að því að styrkja siðareglur innan framkvæmdavaldsins og sett á fót eftirlitsaðila með það að markmiði að takmarka hagsmunaárekstra. Jafnframt hafi verið settar á fót siðareglur fyrir Hæstarétt. Dómskerfið sé að mestu leyti sjálfstætt þó uppi hafi verið áhyggjur af skipunar- og staðfestingarferli dómara undanfarin ár.
- Niðurstaða um 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema:
d. umsækjandi hafi slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað enda þurfi hann ekki að sæta ofsóknum þar, geti óskað eftir að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.
Í frumvarpi til laga nr. 14/2023, um breytingu á lögum um útlendinga kemur fram að
nýr d-liður 1. mgr. 36. gr. laganna mæli fyrir um regluna um fyrsta griðland, þ.e. að umsókn um alþjóðlega vernd skuli afgreidd í fyrsta ríki sem umsækjandi kemur til og getur veitt honum vernd. Ákvæðinu um fyrsta griðland í gildandi lögum hefur ekki verið beitt að fullu þar sem það er talið óskýrt. Með frumvarpi þessu er því lagt til að ákvæðið mæli fyrir um þau tilvik þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur slík tengsl við annað ríki að sanngjarnt og eðlilegt geti talist að hann dvelji þar. Í orðalagi ákvæðisins koma fram skilyrði þess að ákvæðið eigi við, þar á meðal að stjórnvöld hafi gengið úr skugga um að verði umsækjandi sendur til ríkisins þurfi hann ekki að óttast ofsóknir eða að verða sendur áfram til heimalands síns í andstöðu við meginregluna um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. Við mat á því hvað telst sanngjarnt og eðlilegt skal m.a. líta til lengdar dvalar, fjölskyldutengsla og möguleika viðkomandi til að dveljast eða öðlast rétt til dvalar í ríkinu. Getur ákvæðið þannig einnig komið til skoðunar þegar umsækjandi hefur ekki dvalið í ríkinu en hefur náin fjölskyldutengsl við það, svo sem þegar maki umsækjandans er ríkisborgari þess ríkis og getur á þeim grundvelli fengið dvalarleyfi.
Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga um útlendinga skulu íslensk stjórnvöld við framkvæmd ákvæða III. og IV. kafla laganna eiga í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sbr. 35. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, um túlkun samningsins og laga um útlendinga. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur sett fram tiltekin viðmið um beitingu reglunnar um fyrsta griðland. Að mati stofnunarinnar verður að líta til þess hvort grundvallarmannréttindi umsækjanda verði virt í þriðja ríki í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og hvort að raunhæf vernd sé veitt gegn því að einstaklingum sé brottvísað þangað sem lífi þeirra eða frelsi kunni að vera stefnt í hættu (non-refoulement) eða þar sem hætta er á ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá sé rétt að líta til aðstæðna í viðtökuríki, s.s. með hliðsjón af einstaklingsbundinni stöðu viðkomandi og möguleika hans á að sjá sér farborða.
Við meðferð málsins hafa kærendur greint frá því að hafa ætlað að koma hingað lands í því skyni að leggja fram umsóknir um alþjóðlega vernd. Meðal gagna málsins eru kvittanir fyrir flugmiðakaupum kærenda, sendar kærendum með tölvubréfi, dags. 23. mars 2024, þar sem fram kemur að kærendur hafi keypt miða frá Egyptalandi til Bandaríkjanna 30. mars 2024, með millilendingu í Frakklandi og sömu leið til baka til Egyptalands 27. til 28. apríl 2024. Við komuna hingað til lands 8. maí 2024 greindu kærendur frá því að hafa ferðast með flugi frá Frakklandi þann sama dag, með öðru flugfélagi og frá öðrum flugvelli en þeim sem þau lentu á við komuna til Frakklands frá Bandaríkjunum. Kærendur hafa hvorki lagt fram flugmiðana sína til Íslands né kvittanir fyrir kaupum á þeim. Kærendur hafa greint frá því að á bakaleiðinni frá Bandaríkjunum, eftir komuna til Frakklands hafi þau verið í haldi franskrar lögreglu í sex daga. Þau hafi ekki viljað sækja um alþjóðlega vernd þar í landi og að lokum verið birtir pappírar þess efnis að þeim bæri að yfirgefa landið. K greindi frá því að í stað þess að yfirgefa Frakkland og fljúga til Egyptalands hafi þau farið í felur. M greindi frá því að þau hafi fengið umrædda pappíra 4. maí 2024. Kærendur greindu frá því að hafa afhent lögreglu á Íslandi umrædda pappíra en þeir eru ekki á meðal gagna málsins.
Við mat á fyrsta griðlandi ber að horfa til þess hve lengi viðkomandi tafðist á leiðinni hingað til lands og af hvaða völdum hann hafi tafist. Við þetta mat er haft til hliðsjónar ákvæði 1. mgr. 32. gr. laga um útlendinga en þar kemur m.a. fram að umsækjandi um alþjóðlega vernd sem kemur ólöglega hingað til lands eða dvelst hér á landi án heimildar verði, í samræmi við 31. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, ekki refsað geti hann sýnt fram á að hann komi beint frá landsvæði þar sem hann hafði ástæðu til þess að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr. laga um útlendinga, eða var án ríkisfangs og gat ekki öðlast slíkt, sbr. 39. gr. laganna, enda gefi hann sig fram við stjórnvöld eins fljótt og unnt sé. Í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur fram í athugasemdum við 32. gr. laganna, að útlendingur sem fengið hefur alþjóðlega vernd í öðru ríki, dvalist þar til lengri tíma eða gefið sig fram við stjórnvöld þar og óskað eftir alþjóðlegri vernd sé almennt ekki að koma beint úr hættu nema þær aðstæður hafi skapast þar í landi sem mynda grundvöll fyrir rétti til alþjóðlegrar verndar, sbr. 37., 38. eða 39. gr. laga um útlendinga. Á þetta m.a. við ef líkur voru til þess að hann yrði sendur til baka til upprunalands án fullnægjandi meðferðar máls síns. Líkt og að framan er rakið dvöldu kærendur í Bandaríkjunum í tæpan mánuð og höfðu færi á að leggja fram umsóknir um alþjóðlega vernd þar í landi. Af framburði kærenda má ráða að þau hafi ekki gert raunhæfar ráðstafanir til að komast til Íslands á meðan dvöl þeirra í Egyptalandi stóð og því verði að líta svo á að Bandaríkin séu þeirra fyrsta griðland.
K greindi frá því að hún hafi undanfarin ár heimsótt Bandaríkin sex sinnum í um 30 til 40 daga í senn í þeim tilgangi að heimsækja son sinn. Á meðan Covid-19 heimsfaraldurinn stóð yfir hafi hún dvalið í fimm mánuði í Bandaríkjunum þar sem ekkert flug úr landi hafi verið í boði. Meðal gagna málsins er ljósmynd af ferðamannavegabréfsáritun K til Bandaríkjanna með gildistíma frá 22. september 2022 til 20. september 2025. M kvað eiginkonu sína hafa farið sex sinnum til Bandaríkjanna en hann hafi farið fjórum sinnum til að heimsækja son sinn. M hafi farið í tvær vikur 2015, í tvær vikur 2017 og í um það bil einn mánuð árin 2023 og 2024. M hafi haft vegabréfsáritun frá 2015 til 2018 og svo aftur frá árinu 2023. Meðal gagna málsins er ljósmynd af ferðamannavegabréfsáritun M með gildistíma frá 9. apríl 2023 til 29. mars 2026. Kærendur greindu frá því að sonur þeirra væri námsmaður í Bandaríkjunum, byggi í Texas, væri kvæntur bandarískri konu og vonaðist eftir að fá græna kortið.
Kærendur greindu frá því að hafa fargað vegabréfum sínum á leið sinni hingað til lands. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 24. gr. laga um útlendinga ber umsækjanda um alþjóðlega vernd að afhenda vegabréf eða önnur ferðaskilríki sem hann hefur í fórum sínum. Þá kemur fram í 32. gr. laga um útlendinga að umsækjanda um alþjóðlega vernd skuli ekki refsað fyrir að koma ólöglega hingað til lands að uppfylltum nánari skilyrðum. Með þeirri háttsemi kærenda að farga vegabréfum sínum geta kærendur ekki öðlast ríkari rétt en þeir hefðu annars átt til efnismeðferðar hér á landi. Verður samkvæmt framangreindu ekki talið að um lögformlega hindrun sé að ræða hvað varðar endursendingu kærenda til Bandaríkjanna fyrr en þau hafa lagt fram áreiðanleg gögn um að þau hafi sótt um endurnýjun vegabréfa sinna og nýja vegabréfsáritun til Bandaríkjanna og fengið synjun. Kærendur hafa byggt á því að Útlendingastofnun hafi ekki fjallað um þessa málsástæðu þeirra í hinni kærðu ákvörðun. Fallist er á með kærendum að um annmarka á hinni kærðu ákvörðun sé að ræða en að bætt hefur verið úr honum á kærustigi. Kærendur byggja einnig á því að Útlendingastofnun hafi látið undir höfuð leggjast að afla gagna sem staðfesti að kærendur séu vegabréfslausir, s.s. frá landamæravörðum. Fram kemur í lögregluskýrslu vegna hælisbeiðni kærenda dags. 8. maí, að auðkenni kærenda sé ekki staðfest. Á meðal gagna málsins eru ljósmyndir af vegabréfum kærenda en ekki vegabréfin sjálf. Verður því ekki fallist á það með kærendum að Útlendingastofnun hafi átt að afla gagna sem staðfesti að kærendur hafi verið vegabréfslausir enda lá það fyrir samkvæmt framangreindri lögregluskýrslu og framburði kærenda sjálfra.
Kærendur greindu frá því að hafa heimsótt son sinn sem sé í námi í Bandaríkjunum í mörg skipti á undanförnum árum og þannig dvalist þar mánuðum saman á tímabilinu. Sonur þeirra hafi dvalarleyfi í Bandaríkjunum og sé kvæntur bandarískri konu. Þá hafa kærendur við meðferð málsins lagt fram gögn sem sýna fram á að þau séu handhafar gildra vegabréfsáritana til Bandaríkjanna. Kærendur geta óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamenn við komu til Bandaríkjanna samkvæmt vefsíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst hvorugt kærenda óttast nokkurn eða nokkuð í Bandaríkjunum. Í greinargerð kemur fram að kærendur óttist að bandarísk stjórnvöld muni vísa þeim aftur til heimaríkis þar sem geisi stríð. Samkvæmt gögnum málsins og framangreindri umfjöllun um aðstæður í viðtökuríki teljast kærendur ekki hafa ástæðu til að óttast ofsóknir í Bandaríkjunum, sbr. 37. og 38. gr. laga um útlendinga, eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu að þau séu í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við framangreint mat hefur m.a. verið litið til þess að landslög í Bandaríkjunum veita vernd gegn endursendingu einstaklinga til ríkis þar sem þeir eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða lífi þeirra og frelsi ógnað (non-refoulement). Þá hafa bandarísk stjórnvöld fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð, auk þess sem bann sé lagt við pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð í viðaukum við stjórnarskránna. Jafnframt benda framangreindar landaupplýsingar til þess að löggæsla í viðtökuríki sé skilvirk og að kærendur geti leitað til lögreglu telji þau þörf á því.
Falla því aðstæður kærenda í viðtökuríki undir skilyrði d-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og verða umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi því ekki teknar til efnismeðferðar. Teljast kærendur því hafa slík tengsl við viðtökuríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að þau dvelji þar, ferðist eða séu send þangað í skilningi d-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
- Niðurstaða um 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir gildistöku laga nr. 68/2024 til breytinga á lögum um útlendinga en samkvæmt 5. gr. breytingarlaganna var 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga felld úr gildi. Samkvæmt lagaskilum 14. gr. breytingarlaganna gildir umrædd breyting ekki um meðferð umsókna sem bárust fyrir gildistöku laganna og verður því tekin afstaða til ákvæðisins í þessum kafla. Hið sama á við um 32. gr., 32. gr. a, 32. gr. b, 32. gr. c og 32. gr. d reglugerðar um útlendinga sem felld voru úr gildi með breytingarreglugerð nr. 1069/2024. Í 1. málsl. þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir:
Ef svo stendur á sem greinir í 1. mgr. skal þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því.
Í 1. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur fram að með sérstökum ástæðum samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan. Þá eru í 2. og 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar talin upp viðmið í dæmaskyni sem leggja skuli til grundvallar við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi en þau viðmið varða aðallega alvarlega mismunun eða alvarleg veikindi. Þar segir:
Ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Meðferð telst, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en viðkomandi muni ekki standa hún til boða, eða ef umsækjanda, vegna þungunar, stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingaraðstoð í viðtökuríki.
Að öðru leyti en talið er upp hér að framan hefur heilsufar umsækjanda takmarkað vægi við mat á því hvort umsókn hans verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi nema ástæðan sé talin það einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði fram hjá henni litið. Efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna.
Orðalagið „muni eiga“ í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar felur ekki í sér kröfu um afdráttarlausa sönnun þess að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun sem leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar heldur að leitt sé í ljós að tilteknar líkur séu á að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun. Verður því að sýna fram á að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir mismunun af þeim toga, með þeim afleiðingum, og af því alvarleikastigi sem ákvæðið lýsir. Ekki nægir að aðeins sé til staðar möguleiki á að slíkri mismunun. Af því leiðir að þó svo að dæmi séu um að einstaklingar í sambærilegri stöðu og umsækjandi í viðtökuríki hafi orðið fyrir alvarlegri mismunun af þeim toga sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga mælir fyrir um telst umsækjandi ekki sjálfkrafa eiga slíkt á hættu heldur þarf að sýna fram á að verulegar ástæður séu til að ætla að umsækjandi, eða einstaklingur í sambærilegri stöðu og umsækjandi, verði fyrir slíkri meðferð.
Við mat á því hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi í skilningi 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar, verður m.a. litið til heilsufarsgagna málsins og hlutlægra og trúverðugra gagna um hvort sú heilbrigðisþjónusta sem umsækjandinn þarfnast sé honum aðgengileg í viðtökuríki.
M er karlmaður á [...]aldri. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi M frá því að hafa fengið sýkingu í lungu og fengið sýklalyf. Þá tæki hann lyf við sykursýki til að jafna blóðsykur. Andleg heilsa M væri slæm vegna stríðsátaka í heimaríki hans þar sem sonur hans hafi látið lífið. Þá sofi M ekki vel, sé með miklar áhyggjur og kvíða. Í málinu liggur fyrir vottorð, dags. 16. maí 2024, frá Göngudeild sóttvarna þar sem fram kemur að læknisskoðun hafi farið fram í samræmi við ákvæði sóttvarnalaga. Þá liggja fyrir gögn úr sjúkraskrá M á Íslandi í samræmi við framangreint.
K er kona á [...]aldri. Í viðtali greindi hún frá því að hafa farið í aðgerð á fótum í Egyptalandi vegna æðavandamála og hafa verið með ofnæmi. K kvað andlega heilsu sína vera í ólagi og að hún þurfi aðstoð. Hún sé haldin streitu, sé undir miklu andlegu álagi og sofi lítið. Í málinu liggur fyrir vottorð, dags. 16. maí 2024, frá Göngudeild sóttvarna þar sem fram kemur að læknisskoðun hafi farið fram í samræmi við ákvæði sóttvarnalaga. Þá liggja fyrir gögn úr sjúkraskrá K á Íslandi í samræmi við framangreint.
Kærendum var leiðbeint í viðtölum hjá Útlendingastofnun um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem þau teldu hafa þýðingu fyrir mál sín, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð málanna hjá Útlendingastofnun. Þá var kærendum jafnframt leiðbeint með tölvubréfi nefndarinnar 31. júlí 2024 um framlagningu frekari gagna í málinu. Engin frekari heilsufarsgögn bárust. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu er mál kærenda nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður þeirra. Þá er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar kærenda geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið að heilsufar kærenda sé með þeim hætti að þau teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Meðferð telst að jafnaði ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Heilsufar kærenda er ekki þess eðlis að ástæða sé til að víkja frá þessari meginreglu. Verður að líta svo á að aðstæður kærenda tengdar heilsufari séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá geta heilbrigðisaðstæður þeirra ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar.
Kærendur kváðust hvorki óttast nokkuð í Bandaríkjunum né hafa orðið fyrir fordómum persónulega. Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að óttist kærendur um öryggi sitt geti þau leitað til lögregluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda sökum þess. Gögn málsins bera ekki með sér að kærendur muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða að þau geti vænst þess að staða þeirra, í ljósi sömu ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Kærendur hafa ekki sýnt fram á að aðrar aðstæður þeirra í viðtökuríki séu slíkar að önnur viðmið tengd alvarlegri mismunun, sambærileg þeim sem 32. gr. a reglugerðarinnar lýsir, leiði til þess að taka beri umsóknir þeirra til efnismeðferðar hér á landi.
Kærendur kváðust í viðtölum sínum hjá Útlendingastofnun hafa sérstök tengsl við Ísland þar sem einn sona þeirra sé með dvalarleyfi hér á landi.
Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl skv. 2. mgr. 36. gr. skuli túlkað. Í athugasemdum sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríkið, svo sem vegna fyrri dvalar. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að með ákvæðinu sé stjórnvöldum eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar.
Í 4. mgr. 32. gr. b reglugerðar um útlendinga segir að umsækjandi teljist ekki hafa sérstök tengsl við Ísland nema aðstandandi hans sé búsettur hér á landi í lögmætri dvöl. Við mat á sérstökum tengslum skal m.a. líta til þess hvort umönnunarsjónarmið séu fyrir hendi, hvort umsækjandi og aðstandandi hans hafi deilt eða alist upp á sama heimili eða hafi á einhverjum tímapunkti haft uppeldisskyldu eða framfærsluskyldu sín á milli. Stjórnvöldum er heimilt að krefja umsækjanda um að sýna fram á umrædd tengsl, t.d. með framlagningu skilríkja eða vottorða. Þá er stjórnvöldum heimilt að óska eftir því að aðstandandi umsækjanda staðfesti umrædd tengsl. Þá segir í 5. mgr. ákvæðisins að við mat á sérstökum tengslum ber þó ávallt að hafa til hliðsjónar þau tengsl sem viðkomandi hefur í því ríki þar sem hann hefur heimild til dvalar í, m.a. lengd dvalar í ríkinu, fjölskyldutengsl og samfélagsleg tengsl sem umsækjandi hefur myndað við ríkið. Þá skal jafnframt hafa til hliðsjónar hvort viðkomandi eigi rétt á fjölskyldusameiningu skv. VIII. kafla laga um útlendinga.
Samkvæmt framansögðu verður að leggja til grundvallar að eigi umsækjandi um alþjóðlega vernd sannanlega ættingja hér á landi sem hafa heimild til dvalar hér og umsækjandi hefur raunveruleg og sérstök tengsl við hér en ekki í viðtökuríki, geti umsókn hans verið tekin til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið. Við mat á sérstökum tengslum í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, er stjórnvöldum heimilt að líta til skilgreiningarinnar um nánustu aðstandendur samkvæmt 17. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en hafa verður í huga að hugtakið er annað og þrengra en hugtakið ættingi sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga. Þannig geta önnur fjölskyldutengsl fallið undir 2. mgr. 36. gr., en í þeim tilvikum verður að gera ríkari kröfur til þess að sýnt sé fram á að þau tengsl séu sérstök og rík. Sonur kærenda sem býr hér á landi er fæddur [...] og telst ekki til nánustu aðstandenda kærenda samkvæmt orðalagi 17. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Meðal gagna málsins eru umsóknir kærenda um fjölskyldusameiningu fyrir þá foreldra sem eru 67 ára eða eldri og eiga uppkomið barn með dvalarleyfi á Íslandi. Umsóknirnar voru mótteknar af Útlendingastofnun 12. janúar 2024. Kærunefnd tekur ekki afstöðu til þeirrar umsóknar með úrskurði í máli þessu að öðru leyti en því að benda á að kærendur hafa hvorugt náð 67 ára aldri þegar úrskurður þessi er kveðinn upp. Tekið skal fram að kærendur hafi tök á að leggja fram slíka umsókn að nýju síðar.
Þegar málið er metið heildstætt hefur kærendum ekki tekist að sýna fram á að umönnunarsjónarmið séu fyrir hendi. Þá bera gögn málsins ekki með sér að framfærslu- eða uppeldisskylda ríki þeirra á milli í skilningi 4. mgr. 32. gr. b reglugerðar um útlendinga. Kærendur eiga son og tengdadóttur í Bandaríkjunum. Með vísan til heildarmats á aðstæðum kærenda og fyrirliggjandi gagna málsins teljast kærendur ekki hafa sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir:
Þá skal einnig taka umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 12 mánaða frá því að umsókn var lögð fram, enda hafi umsækjandi sjálfur, maki eða sambúðarmaki hans eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd ekki átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.
Kærendur lögðu fram umsóknir sínar um alþjóðlega vernd hér á landi 8. maí 2024 og eru því ekki liðnir 12 mánuðir samkvæmt framangreindu. Verða umsóknir kærenda ekki teknar til efnismeðferðar á þeim grundvelli.
- Niðurstaða um 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir:
Ef beiting 1. mgr. mundi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skal taka umsókn til efnismeðferðar.
Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga segir að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga er rétt að líta til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun, sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrárinnar.
Við túlkun 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skal líta til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun hans á 3. gr. sáttmálans. Þá skal hafa hliðsjón af þeim meginreglum sem Evrópudómstóllinn setur fram í dómum sínum að því leyti sem þær eru til skýringar á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og eru samhljóma þeim, en með þeim skýra fyrirvara að dómar Evrópudómstólsins á þessu réttarsviði eru ekki bindandi fyrir íslenska ríkið.
Gögn málsins bera með sér að við meðferð stjórnvalda í viðtökuríki sé lagt einstaklingsbundið mat á aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ekkert bendir til þess að endursending kærenda til viðtökuríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.
Þá benda öll gögn til þess að kærendur hafi raunhæf úrræði í viðtökuríki fyrir landsrétti sem tryggja að þau verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.
Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður í Bandaríkjunum og einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda hefur ekki verið sýnt fram á að þau eigi á hættu meðferð sem gangi gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Synjun á efnismeðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd og flutningur þeirra til viðtökuríkis leiðir því ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Samkvæmt framansögðu verða umsóknir kærenda ekki teknar til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
- 5Brottvísun og endurkomubann
- Lagagrundvöllur
Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.
Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar brottfarar sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Umræddar lagabreytingar voru m.a. gerðar til að tryggja að framkvæmd brottvísana hér á landi væri í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun og endursendingum ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna (brottvísunartilskipunin) sem Ísland er skuldbundið af vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu.
- Niðurstaða um brottvísun og endurkomubann
Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi 8. maí 2024. Eins og að framan greinir hefur umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð. Hafa þau því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinum kærðu ákvörðunum var réttilega bundinn endir á heimild kærenda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa þeim úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi.
Kærendum var gefið færi á að andmæla mögulegri brottvísun frá Íslandi og endurkomubanni í viðtali hjá Útlendingastofnun. M kvaðst eiga bróður með ríkisborgararétt í Belgíu. M kvaðst vona að hann fengi ekki ákvörðun um brottvísun og endurkomubann. K kvaðst eiga fjóra eða fimm frændur og mág í Belgíu. Ákvörðun um brottvísun og endurkomubann væri ósanngjörn vegna tengsla hennar við son sinn. Þá hafa kærendur greint frá því að eiga son í Frakklandi en nefndu hann þó ekki í tengslum við andmæli sín. Með vísan til framkominna gagna, athugasemda kærenda og framangreindrar umfjöllunar um aðstæður kærenda í Bandaríkjunum telst brottvísun kærenda frá Íslandi og endurkomubann ekki fela í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.
Með vísan til 1. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. Endurkomubann fellur niður yfirgefi kærendur landið sjálfviljug innan þess frests.
Ákvarðanir Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann eru staðfestar.
- 6Athugasemdir, samantekt og leiðbeiningar
- Freedom in the World 2024 – United States (Freedom House, febrúar 2024);
- World Report 2024 – United States (Human Rights Watch, 7. febrúar 2024);
- World Report 2025 – United States (Human Rights Watch, 16. janúar 2025);
- Stjórnarskrá Bandaríkjanna (https://billofrightsinstitute.org/);
- Vefsíða ACP – American College of Physicians (https://www.acponline.org/);
- Vefsíða Asylum Seeker Advocacy Project (https://help.asylumadvocacy.org/health-care/);
- Vefsíða Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (https://help.unhcr.org/usa/rights-and-duties/asylum-seekers/) og
- Vefsíða U.S. Citizenship and Immigration Services (https://www.uscis.gov/humanitarian/refugees-and-asylum/asylum/the-affirmative-asylum-process).
Kærendur greindu m.a. frá því að hafa fengið pappíra frá frönsku lögreglunni um að þeim bæri að yfirgefa Frakkland og því eru líkur á því að þau hafi komið ólöglega yfir frönsk landamæri, en umræddir pappírar eru ekki á meðal gagna málsins. Gera verður athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar og lögreglu á ferðaleið og öflun persónuupplýsinga um kærendur hingað til lands, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt frásögn kærenda komu þau inn á Schengen-svæðið um Frakkland. Engu að síður bera gögn málsins ekki með sér að sendar hafir verið beiðnir um upplýsingar til franskra yfirvalda né að fram hafi farið leit í VIS-upplýsingakerfinu. Frestur íslenskra stjórnvalda til að óska eftir því að annað ríki taki við kærendum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar er hins vegar liðinn og þá er ekki mælt fyrir um forgangsröðun viðmiða í 36. gr. laga um útlendinga. Engu að síður verður að teljast til vandaðra stjórnsýsluhátta að upplýsa um öll atvik máls eins og unnt er. Þeim tilmælum er beint til Útlendingastofnunar og lögreglu að gæta að þessu framvegis.
Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.
Athygli kærenda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur nefndin þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur nefndin tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.
The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.
Þorsteinn Gunnarsson Valgerður María Sigurðardóttir