Hreint drykkjarvatn mannréttindi en ekki munaður
Fjórðungur jarðarbúa hefur enn ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni þótt tveir milljarðar hafi fengið slíkan aðgang á síðustu tveimur áratugum. Í nýrri skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, og Alþjóðabankanum er skorað á ríkisstjórnir að byggja upp örugg neysluvatnskerfi, bæði til að tryggja aukið aðgengi að auðlindinni og til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.
Samkvæmt sjötta heimsmarkmiðinu um sjálfbæra þróun á að tryggja aðgengi allra að hreinu vatni og salernisaðstöðu fyrir árið 2030. Í skýrslunni – State of the World´s Drinking Water – er minnt á að aðgengi að vatni og viðunandi salernisaðstöðu felur í sér grundvallarmannréttindi.
Í skýrslunni segir að loftslagsbreytingar valdi því að þurrkar og flóð verði tíðari og alvarlegri en áður með þeim afleiðingum að vatnsöryggi og vatnsforði raskast. Hröð borgarvæðing geri borgaryfirvöldum víða örðugt að flytja vatn til milljóna íbúa, einkum þar sem óskipulög samfélög hafa myndast, ekki síst í fátækrahverfum.
„Með því að auka aðgengi að hreinu drykkjarvatni hefur tekist að bjarga mörgum mannslífum, einkum börnum. En loftslagsbreytingar spilla þeim árangri,“ segir Maria Neira yfirmaður þeirrar deildar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem fer með umhverfismál, loftslagsbreytingar og heilsu. „Við verðum að spýta í lófana til að tryggja að sérhver einstaklingur hafi aðgengi að hreinu drykkjarvatni, eitthvað sem er mannréttindi en ekki munaður,“ bætir hún við.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir því hvernig vatn, heilsa og þróun samtvinnast og þar er að finna tillögur um aðgerðir fyrir stjórnvöld og samstarfsaðila um skipulag, samræmingu og stýringu vatnsveitna.
„Það skiptir miklu máli fyrir heilsu, hagvöxt og umhverfi að fjárfesta í vatni og hreinlætisaðstöðu. Heilbrigðari börn verða heilbrigðari á fullorðingsaldri og leggja þar af leiðandi meira af mörkum til efnahags og samfélags,“ segir Saroj Kumar Jha, yfirmaður verkefnisins Water Global Practice hjá Alþjóðabankanum.
Íslensk stjórnvöld hafa eins og kunnugt er í tvíhliða þróunarsamvinnu í samstarfsríkjum lagt mikið kapp á að koma hreinu drykkjarvatni til íbúa og bæta aðgengi að salernis- og hreinlætisaðstöðu.