Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 23. febrúar 2010

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Eiríkur Jónsson tiln. af Kennarasambandi Íslands, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðrún Björk Bjarnadóttir, tiln. af Samtökum atvinnulífsins, Gissur Pétursson án tiln., Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson tiln. af Rauða krossi Íslands, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti, Matthías Halldórsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Stefán Stefánsson, tiln. af menntamálaráðuneyti, Guðrún Ögmundsdóttir frá menntamálaráðuneyti, Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti,  Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tiln., og Þorbjörn Guðmundsson, Ingibjörg Broddadóttir og Margrét Erlendsdóttir, starfsmenn.

Fundinn sat einnig Hanna Björnsdóttir nemi í félagsráðgjöf hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

1. Fundargerð 23. fundar

Fundargerðin var samþykkt.

2. Atvinnumál

Gissur Pétursson greindi frá stöðu og horfum í atvinnumálum landsmanna. Langtímaatvinnuleysi fer vaxandi og hefur líklega náð hámarki. Ekki er gert ráð fyrir að það fari yfir 10% á næstu misserum. Um það bil 13.500 manns eru á atvinnuleysisskrá, þar af eru 2.500 að hluta atvinnulaus. Mikið álag er á öllum starfsstöðvum Vinnumálastofnunar.

Hrafnhildur Tómasdóttir, deildarstjóri á Vinnumálastofnun, fjallaði um verkefnið ungt fólk til athafna,sem unnið er á vegum stofnunarinnar. Það snýst um að virkja unga atvinnuleitendur í fjölbreytileg verkefni. Markmiðið með verkefninu að enginn verði atvinnulaus lengur en þrjá mánuði án þess að bjóðast vinna eða virkniúrræði og að því markmiði verði náð gagnvart ungu fólki yngra en 25 ára fyrir 1. apríl 2010 og 1. september 2010 fyrir aðra. Á árinu 2010 er markmiðið að skapa:

  • 450 ný námskeið fyrir ungt atvinnulaust fólk í framhaldsskólum landsins,
  • allt að 700 ný námstækifæri fyrir atvinnulaust fólk í námi á vegum símenntunarstöðva og annarra fræðslustöðva,
  • allt að 450 ný starfsþjálfunarpláss og störf við átaksverkefni á vegum félagasamtaka, sveitarfélaga og annarra,
  • allt að 400 ný sjálfboðaliðastörf,
  • allt að 400 ný pláss á vinnustofum ásamt endurhæfingu og meðferðarúrræðum.

Verkefnið hefur farið mjög vel af stað og lítur út fyrir að markmiðið sem miðast við 1. apríl nk. náist.
Fundarmenn fá glærur Hrafnhildar sendar í netpósti.

2. Frá fundi um velferð og líðan barna á tímum efnahagsþrenginga

Velferðarvaktin boðaði til fundar 23. febrúar um velferð og líðan barna á tímum efnahagsþrenginga. Lykilfólki var boðið og mættu eftirtaldir: Ólafur Guðmundsson, yfirlæknir Barna- og unglingageðdeildar, Sjöfn Þórðardóttir, formaður Heimilis og skóla, Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, Ásta S. Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Hrefna Haraldsdóttir, foreldraráðgjafi Sjónarhóli, Jórunn Magnúsdóttir, frá Vímulausri æsku/Foreldrahúsum, Ragnheiður Sigurjónsdóttir, hjá Fjölskyldumiðstöðinni, Halldóra D. Gunnarsdóttir, Barnavernd Reykjavíkur, Stefán Hreiðarsson, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar, Geir Gunnlaugsson landlæknir, Margrét María Sigurðardóttir, Umboðsmaður barna, Guðrún Helga Sederholm, formaður fagdeildar fræðslu- og skólafélagsráðgjafa, Fríður Reynisdóttir, frá félagi náms- og starfsráðgjafa, Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri í Reykjanesbæ, Ragnheiður Thorlacius, félagsmálastjóri í Árborg og María Kristjánsdóttir, félagsmálastjóri í Hveragerði. Auk þess mættu Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Kristján Sturluson, formaður hóps velferðarvaktarinnar um ungt fólk og framkvæmdastjóri RKÍ, Valgerður Halldórsdóttir, formaður barnahóps velferðarvaktarinnar og fulltrúi BHM, Ingibjörg Broddadóttir, Þorbjörn Guðmundsson, starfsmenn vaktarinnar, og Margrét Erlendsdóttir, upplýsingafulltrúi félags- og tryggingamálaráðuneytis.

LB greindi frá því að ákveðinn samhljómur hafi komið fram í umræðunni á fundinum varðandi úrræði fyrir börn:

  1. að þjónustustofnanir verði að vinna miklu meira saman,
  2. mál hafi þyngst og bjargir séu minni/færri,
  3. einstakir hópar séu sérstaklega berskjaldaðir, þar með taldir innflytjendur, fátækar fjölskyldur og einstaklingar, og ungt fólk sem ekki er í skóla. Þeir sem hafi lítið eða slakt tengslanet séu í mikilli áhættu.

Munur virðist vera milli svæða og skera Suðurnesin sig úr þar sem greint var frá mjög alvarlegri stöðu. Á hinn bóginn virðist mun betra ástand á Selfossi, í Hveragerði og þar í grennd. Hugsanlega eru Suðurnesin á undan hinum svæðunum hvað þetta ástand varðar.

Rætt var sérstaklega um fjölskyldur í miklum vanda, ekki síst fjölskyldur þar sem barnaverndarmál hafa verið í frá einni kynslóð til annarrar.

Ráðgjafarstofnanir virðast fullnýttar og er víða boðið upp á opna ráðgjöf, svo sem hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Fjölskylduráðgjöfinni og Vímulausri æsku. Bent var á að gagnlegt hefði verið að bjóða almennum kennurum/leikskólakennurum til fundarins. Greint var frá því að skorið hefur verið niður í skólunum á sviði námsráðgjafar í skólunum og fjölgað hefur verið bekkjum.

Stýrihópurinn mun fá fundargerðina frá þessum fundi senda.

3. Önnur mál

LB upplýsti að félags- og tryggingamálaráðuneytinu hafi borist bréf, sem framsent hafi verið til velferðarvaktarinnar, frá einstaklingi sem greinir frá samskiptum sínum við Reykjavíkurborg vegna ógreiddra reikninga fyrir hádegisverð barns í skóla og vegna leikskólagjalda. Viðkomandi hefur að eigin sögn misst allar eigur sínar og hefur borgin látið innheimtufyrirtæki (Intrum og Lögheimtan) innheimta skuldirnar sem vaxa stöðugt í höndum innheimtumanna. Samþykkt að kanna málið hjá fræðslustjóranum í Reykjavík.

Næsti fundur verður haldinn þriðjudaginn 9. mars 2010 hjá BSRB kl. 14.00–16.00.
Fundargerð skráði Ingibjörg Broddadóttir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta