Hoppa yfir valmynd
27. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 196/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 27. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 196/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. september 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 3. september 2010 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 4. júlí 2010 og skyldi upphaf greiðslu atvinnuleysistrygginga til hennar miðast við þann dag er hún skráði í umsókn sinni að hún væri reiðubúin að hefja störf, eða 9. ágúst 2010. Beiðni kæranda um að greiðsla atvinnuleysisbóta yrði miðuð við skráningardag þann 4. júlí 2010 var hafnað. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 15. október 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 4. júlí 2010. Í rafrænni umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur kemur fram að hún sé reiðubúin að hefja störf þann 9. ágúst 2010.

Þann 30. ágúst 2010 barst Vinnumálastofnun tölvupóstur frá kæranda þar sem hún færir fram skýringar á því að hafa skráð að hún hafi verið reiðubúin að hefja störf þann 9. ágúst 2010. Segir kærandi að skráning áðurnefndrar dagsetningar hafi verið mistök og það hafi ekki verið ætlun hennar að skrá þessa dagsetningu. Kærandi segist hafa verið virk í atvinnuleit og hafi verið reiðubúin að hefja störf frá skráningardegi, þann 4. júlí 2010.

Þann 3. september 2010 samþykkti Vinnumálastofnun umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, en það var mat stofnunarinnar að kærandi hafi fyrst uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þann 9. ágúst 2010 og því greiddi stofnunin kæranda atvinnuleysisbætur frá þeim degi.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. október 2010, segir kærandi að dagsetningin 9. ágúst 2010 sem hún skráði fyrir mistök hafi enga þýðingu fyrir sig og ekki hafi verið ætlunin að skrá þá dagsetningu. Kærandi segist hafa verið virk í atvinnuleit frá skráningu hjá Vinnumálastofnun og að hún hafi leitað samviskusamlega að starfi allt sumarið 2010. Kærandi segir að hún hafi enga ástæðu til þess að fara með rangt mál er varðar þessa dagsetningu, hún hafi skráð þessa dagsetningu fyrir slysni og kærandi óskar því eftir leiðréttingu og að henni verði greiddar atvinnuleysisbætur frá skráningardegi, 4. júlí 2010.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. maí 2011, bendir Vinnumálastofnun á að ágreiningur í máli þessu varði þá ákvörðun stofnunarinnar að greiða kæranda ekki atvinnuleysistryggingar frá móttöku umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur til þess tíma er hún tjáði stofnuninni að hún gæti hafið störf, eða fyrir tímabilið 4. júlí 2010 til 9. ágúst 2010. Vinnumálastofnun vísar til 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem segi að atvinnuleitandi geti átt rétt á greiðslum atvinnutrygginga í allt að þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af þeim lögum. Vinnumálastofnun vísar einnig til 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem gerð sé grein fyrir almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna þurfi launamaður meðal annars að vera virkur í atvinnuleit til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Í 14. gr. laganna sé svo frekari grein gerð fyrir því hvað felist í því að vera virkur í atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Sé meðal annars gert ráð fyrir því að atvinnuleitandi þurfi að vera fær til almennra starfa, hafi frumkvæði að starfsleit og hafi vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara.

Telji Vinnumálastofnun því skýrt af framangreindum skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar að atvinnuleitandi geti einungis átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga frá þeim tíma sem hann var reiðubúinn til starfa og uppfylli að öðru leyti almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun áréttar að berist stofnuninni upplýsingar frá umsækjanda um atvinnuleysisbætur þess efnis að hann geti ekki tekið störfum frá dagsetningu umsóknar, greiði stofnunin atvinnuleysisbætur til handa umsækjanda frá þeim degi sem hann telur sig reiðubúinn til starfa. Vinnumálastofnun telur ljóst af gögnum málsins að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni þann 4. júlí 2010. Í umsókn hennar um atvinnuleysisbætur komi fram að hún geti hafið störf þann 9. ágúst 2010. Kærandi segist ekki kannast við að hafa skráð í umsókn sína hjá stofnuninni að hún gæti fyrst hafið störf þann 9. ágúst 2010.

Vinnumálastofnun bendir á að þegar atvinnuleitandi sæki um atvinnuleysisbætur á heimasíðu Vinnumálastofnunar sé honum gert að skrá í umsókn sína hvenær hann teljist fyrst tilbúinn til almennra starfa. Þurfi að stimpla inn dagsetningu í umsókn ef viðkomandi sé ekki fær til starfa frá umsóknardegi. Telji Vinnumálastofnun að afar þýðingarmikið sé að réttar upplýsingar liggi fyrir, meðal annars svo að unnt sé að bjóða atvinnuleitanda vinnumarkaðsaðgerðir og starfstengd úrræði við hæfi. Vinnumálastofnun bendir á að ákvörðun stofnunarinnar um greiðslutímabil kæranda hafi verið byggð á gögnum sem hún sjálf hafi lagt fram. Samkvæmt umsókn kæranda hafi hún ekki verið fær til almennra starfa fyrr en 9. ágúst 2010. Vinnumálastofnun bendir á að þjónusta og ráðgjöf stofnunarinnar til kæranda með tilliti til vinnumiðlunar og þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum hafi tekið mið af þeirri dagsetningu, enda atvinnuleitendum ekki boðin úrræði á þeim tíma sem þeir teljist ekki tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bendir einnig á að kærandi hafi ekki staðfest atvinnuleit á tímabilinu milli 20. og 25. júlí 2010 eins og henni hafi borið. Atvinnuleit kæranda hafi fyrst verið staðfest þann 9. ágúst 2010 er hún hafi mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar er sú að kærandi eigi fyrst rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga frá þeim tíma er hún hafi talið sig geta hafið almenn störf og því eigi kærandi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga frá 4. júlí til 9. ágúst 2010.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar er kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna.

Í a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna segir að launamaður sem er tryggður samkvæmt lögunum verði að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Í c-lið 14. gr. kemur fram að með virkri atvinnuleit sé meðal annars átt við að hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara. Í h-lið sömu greinar er einnig kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að vera reiðubúinn að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 4. júlí 2010. Í rafrænni umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur kemur fram að hún sé reiðubúin að hefja störf þann 9. ágúst 2010. Kærandi hefur fært fram þau rök að skráningin hafi átt sér stað fyrir mistök. Í máli þessu liggur fyrir að þjónusta Vinnumálastofnunar við kæranda tók mið af því að kærandi væri fyrst reiðubúin að hefja störf þann 9. ágúst 2010, enda er atvinnuleitandi ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar fyrr en viðkomandi er reiðubúinn að hefja störf samkvæmt c-lið 14. gr. laganna. Ákvörðun um að greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda myndu hefjast fyrst þann 9. ágúst 2010 grundvallaðist því á upplýsingum sem kærandi sjálf veitti Vinnumálastofnun.

Þýðingarmikið er að réttar upplýsingar um hagi atvinnuleitanda liggi fyrir svo Vinnumálastofnun sé gert kleift að veita atvinnuleitanda viðeigandi aðstoð og þjónustu, en kveðið er á um upplýsingaskyldu atvinnuleitanda í h-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ber einnig að líta til þess að kærandi staðfesti ekki atvinnuleit á tímabilinu milli 20. og 25. júlí 2010 eins og henni bar skylda til skv. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Verður að telja af skýru orðalagi 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að atvinnuleitandi geti einungis átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga frá þeim tíma sem hann er reiðubúinn til starfa og uppfyllir að öðru leyti almenn skilyrði laganna. Vinnumálastofnun var því ekki heimilt að hefja greiðslur atvinnuleysistrygginga til handa kæranda fyrr en hún taldist tryggð samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var byggð á upplýsingum sem kærandi skráði sjálf og breytir þar engu um að skráningin hafi verið gerð fyrir mistök. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. september 2010 í máli A þess efnis að upphafsdagur greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda sé 9. ágúst 2010 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta