Hoppa yfir valmynd
27. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 212/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 27. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 212/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi dags. 25. júní 2010 tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 11. mars 2010 fjallað um umsókn hennar um atvinnuleysisbætur frá 18. janúar 2010. Umsókninni var synjað þar sem vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar náði ekki því lágmarki sem kveðið er á um skv. 2. mgr. 15. gr. sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. nóvember 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 11. september 2009. Þar sem vinna á vinnslutímabili bótaréttar samkvæmt framlögðum gögnum náði ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafnað. Ákvörðun Vinnumálastofnun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 5. janúar 2010. Hún hafði samband við Vinnumálastofnun í janúarmánuði 2010. Henni var bent á að sækja um greiðslur atvinnuleysistrygginga á ný þar sem ný lög nr. 134/2009, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, hefðu tekið gildi 1. janúar 2010. Með framangreindum lögum var þeim tíma sem námsmönnum er heimilt að geyma þegar áunnar atvinnuleysistryggingar lengdur. Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. apríl 2011, bendir Vinnumálastofnun á að í janúar 2010 er kæranda var bent á að sækja um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni á ný, hafi ekki legið fyrir upplýsingar um hvenær kærandi hefði hafið nám sitt erlendis.

Kærandi sótti á ný um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 18. janúar 2010. Stofnuninni barst staðfesting á skólavist kæranda frá UCD School of Biomolecular and Biomedical Science þann 4. mars 2010. Samkvæmt skólavottorði hafði kærandi stundað nám við skólann frá október 2004 til september 2009.

Vinnumálastofnun taldi að ekki væri heimilt að líta til ávinnslutíma kæranda áður en nám hennar hófst, sbr. bráðabirgðaákvæði IX. laga um atvinnuleysistryggingar. Var umsókn hennar um atvinnuleysisbætur því hafnað þar sem vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar náði ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var ekki tilkynnt kæranda fyrr en 25. júní 2010 og með bréfi, dags. 28. júní 2010, baðst Vinnumálastofnun velvirðingar á þeim töfum sem afgreiðsla á máli kæranda hafði tekið.

Með bréfi, dags. 1. júlí 2010, óskaði kærandi eftir því að Vinnumálastofnun rökstyddi nánar ákvörðun sína frá 25. júní 2010. Einnig óskaði hún eftir skýringum á þeim töfum sem urðu á meðferð málsins.

Með bréfi, dags. 19. ágúst 2010, barst kæranda rökstuðningur Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun vísar til 1. mgr. 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um sérreglu sem eigi við um þá sem hverfi af vinnumarkaði til að stunda nám, sbr. c-lið 3. gr. sömu laga. Framangreint ákvæði hafi verið sett með lögum nr. 37/2009 er tóku gildi þann 1. janúar 2010 og feli í sér að námsmönnum sé nú heimilt að geyma þegar áunnar atvinnuleysistryggingar í allt að sex ár, í stað þriggja ára frá því að hlutaðeigandi hætti störfum á vinnumarkaði, enda hafi hann sannanlega lokið náminu.

Í rökstuðningi sínum vísar Vinnumálastofnun jafnframt til bráðabirgðaákvæðis IX við lög um atvinnuleysistryggingar, þar sem segi að ákvæði 25. gr. laganna skuli einungis gilda um þá sem hætt hafi þátttöku á vinnumarkaði til að stunda nám eftir 1. júlí 2006. Vinnumálastofnun vísar til gagna í máli kæranda sem sýni fram á að kærandi hafi hafið nám sitt árið 2004 og því eigi sérregla 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ekki við og almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar taki þá við.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. nóvember 2010, vísar kærandi til rökstuðnings Vinnumálastofnunar frá 19. ágúst 2010 og þess sem þar kemur fram um sérreglu 1. mgr. 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi segir óskiljanlegt hvernig lög sem sett eru til að hjálpa fólki í hennar sporum, hafi að geyma þá undantekningu að ákvæði 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, gildi einungis ef nám hafi hafist eftir 1. júní 2006, sbr. bráðabirgðaákvæði IX. Bendir kærandi einnig á að þar sem lenging á geymslu bótaréttar námsmanna sem hafi hafið nám fyrir 1. júní 2006 hafi því aðeins verið færð úr þremur árum í fjögur en ekki sex ár eins og breytingin ætti að veita skv. 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. apríl 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 10. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 2. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en hún er svohljóðandi:

 Launamaður sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr.

Með lögum nr. 134/2009 til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar var sett sérregla um þá sem hverfa af vinnumarkaði til að stunda nám, sem er að finna í 1. mgr. 25. gr. núgildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Þar segir að sá sem hverfur af vinnumarkaði til að stunda nám sbr. c-lið 3. gr. laganna, geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 72 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum, hafi hann sannanlega lokið umræddu námi.

Í IX. bráðabirgðaákvæði laganna er kveðið á um að ákvæði 25. gr. skuli eingöngu gilda um þá sem töldust tryggðir samkvæmt lögunum, en sem hættu þátttöku á vinnumarkaði til að stunda nám eftir 1. júlí 2006. Nám kæranda hófst í októbermánuði árið 2004 og er því ljóst að sérregla 25. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á ekki við í máli kæranda.

Kærandi hefur fært fram þau rök að hún eigi rétt til atvinnuleysistrygginga þar sem hún hafi starfað á innlendum vinnumarkaði í sumarvinnu milli námsanna á árunum 2003 og 2004. Ekki verður fallist á þá kröfu, enda er ljóst að Vinnumálastofnun var ekki heimilt að líta til ávinnslutímabils kæranda áður en nám hennar hófst samkvæmt bráðabirgðaákvæði IX við lög um atvinnuleysistryggingar.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hafði ekki starfað í þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hún sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta skv. 2. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistrygginga og nær því ekki lágmarki laganna um ávinnslu réttinda.

Því verður ekki komist hjá því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 25. júní 2010 í máli A um synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta