Mál nr. 3/2006
Álit kærunefndar jafnréttismála
í máli nr. 3/2006
A
gegn
Reykjavíkurborg, vegna þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða.
Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 30. júní 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
I.
Inngangur
Með kæru móttekinni 14. febrúar sl. óskaði kærandi A eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Reykjavíkurborg, vegna þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ráðningu í starf þjónustufulltrúa hjá þjónustumiðstöðinni í febrúar 2006.
Kæran var kynnt Reykjavíkurborg vegna þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða með bréfi, dags. 15. mars 2006. Umsögn Reykjavíkurborgar vegna þjónustumiðstöðvarinnar barst með bréfi, dags. 28. apríl 2006, og var kæranda gefinn kostur á því að koma athugasemdum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 19. maí sl., og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar hinn 31. maí sl. Engar frekari athugasemdir bárust nefndinni.
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
II.
Málavextir
Málavextir eru þeir að Reykjavíkurborg vegna þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða auglýsti í janúar sl. stöðu þjónustufulltrúa lausa til umsóknar. Í auglýsingunni var helstu verkefnum lýst þannig að um væri að ræða almenna upplýsingagjöf og leiðbeiningar um starfsemi Reykjavíkurborgar, móttöku fólks og símsvörun ásamt skráningu og afgreiðslu umsókna. Hæfniskröfur voru að umsækjendur hefðu stúdentspróf eða aðra menntun er nýttist í starfinu, góða tölvu- og tungumálakunnáttu, ríka þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum ásamt nákvæmni og sjálfstæði í starfi. Sjö umsækjendur voru um starfið. Fjórir umsækjendur, þrjár konur og einn karlmaður, sem uppfylltu almennar hæfniskröfur voru boðaðir í starfsviðtal. Að loknum viðtölum var ákveðið að kona hlyti starfið.
III.
Sjónarmið kæranda
Af hálfu kæranda er á því byggt að hann hafi verið eini karlmaðurinn er sótt hafi um fyrrgreint starf þjónustufulltrúa við þjónustumiðstöðina. Hann hafi verið kallaður í viðtal sem hafi gengið mjög vel. Honum hafi verið tjáð í viðtalinu að verið væri að leita eftir karlmanni og jafnvel karlmanni af erlendum uppruna. Þetta væri gert vegna þess að konur væru í miklum meirihluta starfsmanna þjónustumiðstöðvarinnar, það væri því álitlegt að jafna út kynjamismuninn með ráðningu karlmanns. Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða væri jafnframt þekkingarmiðstöð fjölmenningar og því væri við hæfi að ráða mann af erlendum uppruna til starfa við þjónustumiðstöðina.
Kærandi hafi verið kallaður í starfsviðtal vegna þess að hann hafi uppfyllt hæfisskilyrði enda benti ferilskrá hans til þess.
Að mati kæranda hafi þær konur, sem séu í forsvari fyrir þjónustumiðstöðina, brotið jafnréttislög með því að ráða enn eina konu til starfa á vinnustað þar sem fyrir séu nær eingöngu konur.
Kærandi bendir enn fremur á að miðað við fjölmenningarstefnu Reykjavíkurborgar, þ.á m. þjónustumiðstöðvarinnar, hefði verið við hæfi að ráða umsækjanda af erlendum uppruna sem væri hæfur til þess að gegna starfinu, og þá sérstaklega í ljósi þess að staða þjónustufulltrúa endurspeglaði fjölmenningarstefnuna.
Kærandi tekur auk þess fram að þær konur sem tekið hafi viðtal við hann hafi lýst yfir áhyggjum af því hvaða áhrif uppruni hans gæti haft á þá aðila er sæktu þjónustu til þjónustumiðstöðvarinnar. Þetta sé að mati kæranda athugunarvert og að vert sé að rannsaka hvort ákvörðunin um hver hlyti stöðuna hafi tengst þessu. Á mörgum vinnustöðum á Íslandi sé ekki að finna fólk af erlendum uppruna þrátt fyrir að það sé einnig hæft til að gegna störfunum. Enn séu mjög „hvítar stofnanir og vinnustaðir“ í samfélaginu þrátt fyrir þær breytingar sem hafi orðið og ekki síst vegna fjölmenningarstefnu borgarinnar.
IV.
Sjónarmið Reykjavíkurborgar vegna þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða.
Reykjavíkurborg, f.h. þjónustumiðstöðvarinnar, byggir á því að sú kona er hlotið hafi framangreint starf þjónustufulltrúa hafi verið hæfari til að gegna starfinu þegar allar hæfiskröfur hafi verið vegnar. Umboðsmaður Alþingis hafi í álitum sínum staðfest rúmar heimildir atvinnurekanda til að skilgreina þær menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar séu við ráðningar í störf og til þess að ákvarða hvaða sjónarmið skuli lögð ráðningum til grundvallar, svo fremi sem þau teljist málefnaleg með hliðsjón af eðli og verkefnum þess starfs sem verið er að ráða í. Það teljist til góðra stjórnsýsluhátta og málsmeðferðar að gera grein fyrir þeim í auglýsingu. Þetta komi meðal annars fram í eftirfarandi álitum umboðsmanns Alþingis í málum nr. 2202/1997, 3680/2002 og 4469/2005.
Hæfniskröfum fyrir framangreint starf þjónustufulltrúa hafi verið lýst í fjórum liðum í auglýsingu. Í fyrsta lagi hafi verið krafist stúdentsprófs eða annarrar menntunar er nýttist í starfi, í öðru lagi góðrar tölvu- og tungumálakunnáttu, í þriðja lagi ríkrar þjónustulundar og lipurðar í mannlegum samskiptum og í fjórða lagi hafi verið gerð krafa um nákvæmni og sjálfstæði í starfi. Að mati þjónustumiðstöðvarinnar hafi þessar hæfniskröfur verið eðlilegar og málefnalegar með hliðsjón af eðli og verkefnum þess starfs sem verið var að ráða í. Sumar hæfiskröfurnar séu þess eðlis að ekki verði lagðir einhlítir hlutlægir mælikvarðar á þær, heldur hljóti þær að verða metnar í samhengi við hlutverk, menningu og hugmyndafræði þjónustumiðstöðvarinnar og eiginleika umsækjenda sem virtir séu í heild, m.a. á grundvelli frammistöðu í starfsviðtali. Þetta eigi sérstaklega við um síðari tvær kröfurnar sem tilgreindar hafi verið í auglýsingunni.
Í starfsviðtölum sem tekin hafi verið af deildarstjóra upplýsinga og ráðgjafar og deildarstjóra stuðnings og ráðgjafar hafi, auk eðlilegra spurninga um reynslu af þjónustustörfum, verið spurt um hæfileika umsækjenda til samskipta við einstaklinga er ættu við geðræn vandamál að stríða, langvarandi vímuefnaneyslu og fleira þess háttar. Einnig hafi verið spurt um styrkleika og veikleika og aðra persónulega eiginleika umsækjenda. Til dæmis hafi verið spurt hvernig umsækjendur teldu að þeir myndu bregðast við neikvæðum eða niðurlægjandi athugasemdum viðskiptavina þjónustumiðstöðvarinnar, en á þetta atriði reynir verulega í starfi þjónustufulltrúa.
Í viðtali við kæranda hafi hann kveðið veikleika sína fyrst og fremst vera þá að hann tali of mikið. Þetta hafi komið berlega í ljós í viðtalinu en þar hafi hann talað mjög mikið og stundum átt erfitt með að afmarka sig. Einnig hafi hann sýnt nokkra hvatvísi í samskiptum sínum við þá starfsmenn er tóku viðtalið, m.a. hafi hann gripið allmikið fram í fyrir þeim. Hann hafi átt erfitt með að hlusta og hafi gjarnan stöðvað upplýsingagjöf þeirra sem tóku viðtalið við hann með því að segjast vita hlutina. Í viðtalinu hafi einnig komið fram að kærandi hafi ekki virst átta sig nægilega á því að ekki væri um meðferðarvinnu að ræða, heldur móttöku fólks og upplýsingagjöf.
Í starfsviðtali við þá konu er hlaut starfið hafi komið fram upplýsingar um það sem máli skipti og var það talið falla vel að því starfi sem hér um ræðir.
Að loknum viðtölum hafi niðurstaða þjónustumiðstöðvarinnar verið sú að fyrrgreind kona væri hæfari en kærandi til þess að gegna starfi þjónustufulltrúa þjónustumiðstöðvarinnar þegar kröfur um menntun og reynslu ásamt öðrum hæfniskröfum hafi verið virtar í heild.
V.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.
Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar ráðið var í starf þjónustufulltrúa hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða í febrúar á þessu ári.
Staðan var auglýst laus til umsóknar í janúar 2006. Kom þar fram að auglýst væri laust til umsóknar starf þjónustufulltrúa, en í auglýsingunni var helstu verkefnum lýst þannig að um væri að ræða almenna upplýsingagjöf og leiðbeiningar um starfsemi Reykjavíkurborgar, móttöku fólks og símsvörun ásamt skráningu og afgreiðslu umsókna. Hæfniskröfur voru að umsækjendur hefðu stúdentspróf eða aðra menntun er nýttist í starfinu, góða tölvu- og tungumálakunnáttu, ríka þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum ásamt nákvæmni og sjálfstæði í starfi.
Við ráðningu í störf hjá opinberum aðilum hefur almennt verið gengið út frá því að sú stofnun sem ábyrgð ber á ráðningu í starf ákveði hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ráðning eigi að byggja, en almennt er miðað við að slík atriði komi fram í auglýsingu um viðkomandi starf. Leiði þau sjónarmið ekki til niðurstöðu um ráðningu verður enn fremur að líta svo á að það sé almennt komið undir mati viðkomandi ráðningaraðila á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli þá lögð. Í þessu felst þó ekki að viðkomandi hafi að öllu leyti frjálsar hendur um það hvernig staðið skuli að ráðningu. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verður niðurstaðan að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim persónulegu eiginleikum sem talið er að skipti máli við rækslu starfans. Geti ráðningaraðili ekki rökstutt niðurstöðu sína um ráðningu í starf með framangreindum hætti kann ráðning að fara gegn ákvæðum jafnréttislaga, sbr. 24. gr. laganna.
Í máli þessu hefur ekki annað komið fram en að bæði kærandi og sú sem ráðin var hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu og vörðuðu menntun og góða tölvu- og tungumálakunnáttu. Að því er varðar aðra kosti sem gerð var krafa um liggur ekki annað fyrir en umsögn Reykjavíkurborgar um það sem fram kom í starfsviðtölum. Í starfsviðtölum sem tekin munu hafa verið af deildarstjóra upplýsinga og ráðgjafar og deildarstjóra stuðnings og ráðgjafar hafi, auk eðlilegra spurninga um reynslu af þjónustustörfum, verið spurt um hæfileika umsækjenda til samskipta við einstaklinga er ættu við ýmis persónuleg vandamál að stríða. Ekki liggja fyrir í málinu sérstakar samantektir um framkvæmd starfsviðtalanna, en efnis þeirra er að nokkru getið í skriflegum athugasemdum til kærunefndarinnar. Í lýsingu kæranda á því sem fram kom í viðtali við hann kemur meðal annars fram sú skoðun kæranda að spurningar í viðtalinu hafi verið persónulegar og að í því hafi viðmælendur hans virst hafa áhyggjur af erlendum uppruna hans og áhrifum þess á þá sem sækja þjónustu miðstöðvarinnar. Í athugasemdum til nefndarinnar vegna umsagnar Reykjavíkurborgar gerir kærandi athugasemdir við að þá skýringu að hann hafi verið „hvatvís“ í starfsviðtalinu, en gerir ekki að öðru leyti athugasemdir við lýsingu Reykjavíkurborgar á því. Á hinn bóginn vísar kærandi á ný til þeirrar skoðunar sinnar varðandi ráðningar fólks af öðrum kynþáttum til vinnu hér á landi.
Þó svo að ekki liggi fyrir í máli þessu sérstakur samanburður einstakra umsækjenda um starf þjónustufulltrúa hjá þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða eða sérstök skráning á því sem fram fór í starfsviðtölum er það álit kærunefndar jafnréttismála, þegar tekið hefur verið tillit til fyrirliggjandi gagna og afstöðu kæranda til skýringa Reykjavíkurborgar, að ekki hafi verið leiddar líkur að því að kynferði kæranda hafi verið ákvörðunarástæða þess að hann var ekki ráðinn í umrætt starf, sbr. til hliðsjónar 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Með tilliti til þess sem fram er komið af hálfu Reykjavíkurborgar varðandi tildrög ráðningar konu í umrætt starf þjónustufulltrúa verður ekki talið að Reykjavíkurborg hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga í máli þessu.
Andri Árnason
Ragna Árnadóttir
Ása Ólafsdóttir