Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2006 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/2006

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 4/2006:

 

A

gegn

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 7. júlí 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 13. febrúar 2006, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ráðningu í starf umsjónarmanns sjúkraflutninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, en ráðið var í stöðuna frá og með 1. janúar 2006.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Heilbrigðisstofnun Suðurlands með bréfi, dags. 7. mars 2006. Umsögn Heilbrigðisstofnunarinnar barst með bréfi, dags. 21. apríl 2006, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 12. maí 2006. Voru síðastnefndar athugasemdir sendar Heilbrigðisstofnuninni til kynningar með bréfi, dags. 16. maí 2006. Frekari athugasemdir Heilbrigðisstofnunarinnar bárust með bréfi, dags. 6. júní 2006, og voru þær sendar kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda við síðastgreint erindi bárust með bréfi, dags. 24. júní 2006, og hafa þær verið sendar Heilbrigðisstofnun Suðurlands til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavextir

Málavextir eru þeir að Heilbrigðisstofnun Suðurlands auglýsti í ágústmánuði árið 2005 laus til umsóknar störf sjúkraflutningamanna og umsjónarmanns sjúkraflutninga. Í auglýsingunni kom meðal annars fram að Heilbrigðisstofnun Suðurlands myndi annast sjúkraflutninga í Árnessýslu frá og með 1. janúar 2006. Unnið væri að skipulagningu þjónustunnar, en gert væri ráð fyrir að ráðnir yrðu sjúkraflutningamenn til að vera á bundnum vöktum og bakvöktum. Gerð væri krafa um að sjúkraflutningamenn væru með réttindi sem slíkir eða myndu afla sér slíkra réttinda. Jafnframt væri gert ráð fyrir að sjúkraflutningamenn gegndu öðrum störfum á stofnuninni eftir því sem aðstæður leyfðu. Enn fremur kom fram að við mat á umsóknum yrði mikið lagt upp úr eiginleikum er lytu að samstarfi og sveigjanleika, skipulögðum og sjálfstæðum vinnubrögðum ásamt hæfni í samskiptum. Þrír umsækjendur voru boðaðir í viðtal vegna stöðu umsjónarmanns sjúkraflutninga við Heilbrigðisstofnunina. Eftir að viðtölum lauk var ákveðið að ráða karlmann í starfið og hlaut kærandi, sem er kona, því ekki starfið.

Með bréfi, dags. 6. október 2005, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Suðurlands um ráðningu í viðkomandi starf umsjónarmanns sjúkraflutninga og var sá rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 2. nóvember 2005.

Í kæru til nefndarinnar kemur fram að kærandi telji að hún hafi meiri og fjölbreyttari starfsreynslu og menntun er varði stjórnun og ábyrgð en sá sem hlaut starfið. Ekki hafi verið rökstudd nægjanlega þau sjónarmið sem legið hafi til grundvallar ráðningunni, auk þess sem skort hafi samanburð á kæranda og þeim sem var ráðinn. Enn fremur hafi ekki hafi verið leitað eftir umsögn um umsækjendur og því telji kærandi að sá sem var ráðinn hafi ekki verið hæfastur til starfans. Heilbrigðisstofnun Suðurlands mótmælir því að við ráðningu hafi verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 og á það lögð áhersla að til grundvallar ráðningu í starf umsjónarmanns sjúkraflutninga hafi legið lögmæt sjónarmið.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að hún hafi verið hæfari en sá sem ráðinn var í starf umsjónarmanns sjúkraflutninga. Á því er jafnframt byggt að Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafi ekki gætt réttra sjónarmiða við ráðninguna. Kærandi telur að ekki hafi verið framkvæmdur samanburður á kæranda og þeim sem ráðinn var, auk þess sem ekki hafi verið leitað eftir umsögn um umsækjendur.

Að mati kæranda hafi þurft að hafa í huga við ákvörðun um ráðninguna að um væri að ræða stöðu umsjónarmanns. Starfið hafi einnig verið skilgreint sem stjórnunarstaða í rökstuðningi Heilbrigðisstofnunarinnar og þar af leiði að það hljóti að teljast eðlilegt að leggja menntun umsækjenda til grundvallar. Kærandi hafi háskólamenntun á sviði viðskipta og rekstrar og stundi jafnframt meistaranám í hagnýtum hagvísindum sem teljist til þverfaglegs stjórnunarnáms. Það sé því mat kæranda að horft hafi verið framhjá menntun kæranda við mat á umsækjendum.

Meginmarkmið laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Heilbrigðisstofnuninni hafi því borið að leggja þetta til grundvallar við ákvörðun um ráðningu í umrædda stöðu. Kærandi tekur fram að konur séu í miklum minnihluta sem almennir sjúkraflutningamenn og hafi því verið mikilvægt að fjölga konum í faginu. Í kjölfar ráðningar umsjónarmanns sjúkraflutninga hafi einnig verið ráðið í stöður sjúkraflutningamanna. Átta konur hafi verið meðal umsækjenda og hafi engin þeirra verið ráðin. Kærandi telur þessar ráðningar styðja þá fullyrðingu sína að jafnréttissjónarmið hafi ekki legið til grundvallar ráðningu.

Að mati kæranda stóð hún framar þeim sem ráðinn var hvað varðar menntun, reynslu og þá eiginleika sem getið hafi verið um í auglýsingu um starfið. Kærandi hafi lokið grunnnámskeiði í sjúkraflutningum (EMT-Basic) frá Sjúkraflutningaskólanum 1998 með hæstu einkunn allra nemenda. Hún hafi einnig lokið neyðarflutninganámi (EMT-Intermediate) frá sama skóla 2001 með fyrstu einkunn. Kærandi hafi lokið diplómanámi í rekstrarfræðum 2004 og B.S.-gráðu í viðskiptafræðum frá Viðskiptaháskólanum 2005, með fyrstu einkunn. Kærandi hafi einnig stundað meistaranám í hagnýtum hagvísindum við sama skóla. Ekki hafi verið tekið fram í rökstuðningi fyrir ráðningu hver væri menntun þess karlmanns sem ráðinn var að öðru leyti en að tekið hafi verið fram að hann sé menntaður sjúkraflutningamaður. Kærandi viti hins vegar að sá sem var ráðinn sé einnig lögreglumaður að mennt. Kærandi taki því fram að þrátt fyrir að sá sem ráðinn var sé lögreglumaður að mennt þá hafi kærandi lengri starfsreynslu sem lögreglumaður. Kærandi hafi starfað hjá lögreglunni í Árnessýslu frá 1. júní 1997 til 30. ágúst 1997, 1. janúar 1998 til 31. desember 1998 og frá 15. maí 1999 til 31. desember 2000. Í starfi sínu sem lögreglumaður telur kærandi sig hafa fengið góða þjálfun og mikla reynslu. Frá janúar 2001 til júní 2001 hafi kærandi starfað sem neyðarsímavörður hjá Neyðarlínunni hf. Í því starfi hafi hún tekið á móti símtölum er vörðuðu neyðarástand, veikindi og slys. Starfsmenn hafi þar öðlast þekkingu og hæfni í því að eiga við þess konar aðstæður í gegnum síma. Neyðarsímaverðir hafi einnig þurft að eiga samskipti við meðal annars lögreglu, sjúkrahús og björgunarsveitir. Þetta verði að teljast góð reynsla umfram sjúkraflutningana sjálfa og geri viðkomandi hæfari sem stjórnanda við stjórnun á rekstri sjúkraflutninga, enda þurfi hann að eiga samskipti við ýmsa aðila við umsjón á sjúkraflutningum, svo sem lögreglu, sjúkrahús, björgunarsveitir og almenning í neyð. Kærandi hafi einnig öðlast hæfni í að taka skjótar ákvarðanir og meta aðstæður, þ.m.t. þegar neyðarástand ríkir.

Á árunum 2002–2005 hafi kærandi verið starfsmaður Viðskiptaháskólans á Bifröst og hafi haft það hlutverk að vera fyrsti maður á vettvang slysa og ef veikindi kæmu upp. Einnig hafi kærandi verið og sé enn starfandi sem héraðslögreglumaður hjá lögreglunni í Borgarnesi. Þeir eiginleikar er taldir hafi verið upp í auglýsingu hafi verið þess eðlis að eðlilegt hefði verið að leita eftir meðmælum um umsækjendur um starfið. Bæði kærandi og sá karlmaður er var ráðinn hafi unnið hjá lögreglunni í Árnessýslu og kærandi hafi vitneskju um að það hafi aldrei verið leitað eftir umsögn um umsækjendur þaðan. Embætti lögreglunnar í Árnessýslu hafi séð um rekstur sjúkraflutninganna undanfarna áratugi og þar af leiðandi hljóti það að teljast hæfasti umsagnaraðilinn. Að mati kæranda hefði hún þar fengið fyrsta flokks meðmæli.

Kærandi hafi gott orð á sér fyrir að vera sterkur stjórnandi á vettvangi sem ætti að teljast mikilvægur eiginleiki við umsjón á sjúkraflutningum. Einnig hafi kærandi fengið umsögn frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst er meðal annars hafi varðað þessa eiginleika. Að mati kæranda hefði verið eðlilegt að leita til þeirra um meðmæli en það hafi ekki verið gert. Í náminu við Viðskiptaháskólann á Bifröst hafi kærandi hlotið góða þekkingu og reynslu er varðaði stjórnun.

Kærandi mótmælir harðlega þeirri athugasemd er fram hafi komið í rökstuðningi atvinnurekandans að eðli og umfang starfs hafi komið fram í starfsviðtali. Svo hafi alls ekki verið og hafi það verið tilfinning kæranda í lok viðtals að umfang og eðli starfsins hafi á þeim tíma ekki verið fullmótað. Kærandi hafi verið spurð út í ýmsa þætti, svo sem hvort hún hefði áhuga á að ganga vaktir og hvernig hún sæi fyrir sér að starfið yrði. Hún hafi jafnframt verið spurð að því hvort hún hefði áhuga á að fara í sjúkraflutninga ef starfið væri á dagvinnutíma, hvort hún hefði áhuga á að ganga í önnur störf á sjúkrahúsinu og hvort hún hefði áhuga á að ganga í störf á skrifstofu Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Einnig hafi komið fram í starfsviðtali að Heilbrigðisstofnuninni væru takmörk sett í fjárráðum og því hafi verið óskað eftir launakröfum kæranda. Kærandi hafi tekið fram að hún hefði ekki áhuga á að ganga vaktir. Hún teldi mikilvægt að þar sem rekstur á sjúkraflutningum væri að hefjast á nýjum stað með nýju fólki, auk þess sem vitað væri að hluti af væntanlegum sjúkraflutningamönnum væru hvorki með menntun né reynslu, skipti miklu máli að stjórnandi væri til staðar. Kærandi hafi sagt að hún væri tilbúin að vera til taks allan sólarhringinn þannig að stjórnandi væri ávallt til staðar þegar þess þyrfti með. Kærandi hafi fengið jákvæð viðbrögð við þessum athugasemdum. Kærandi hafi einnig lýst því yfir að hún væri tilbúin að fara í flutninga sem og að ganga í önnur störf innan stofnunarinnar. Það hafi því verið langur vegur frá því að kæranda hafi verið tilkynnt um eðli og umfang starfs og að það væri krafa af hálfu stofnunarinnar að umsjónarmaður ætti að ganga vaktir.

Kærandi ítrekar að hún telji það gáleysi að hafa umsjónarmann á vöktum því þá gæti farið svo að óvanir og nýmenntaðir starfsmenn færu á vettvang. Ef skýrt hefði komið fram í upphafi að það væri krafa af hálfu Heilbrigðisstofnunarinnar að umsjónarmaður væri á vöktum hefði kærandi ekki sótt um starfið. Ef niðurstaðan í lok starfsviðtala við umsækjendur hefði verið sú að það að ganga vaktir hefði úrslitaáhrif varðandi ráðningu, þá hefði að mati kæranda verið eðlilegt að kalla aftur inn hæfasta umsækjandann og tjá honum að það væri algert skilyrði fyrir ráðningu að ganga vaktir. Þá hefði kærandi sjálf fengið tækifæri til þess að endurskoða ákvörðun sína og velja hvort hún hefði áhuga á að taka starfinu á þeim forsendum. Heilbrigðisstofnunin hafi tekið fram í rökstuðningi sínum fyrir ráðningu að í starfinu fælist stjórnun og til þess að hafa hæfi til stjórnunar þá hljóti menntun og víðtæk starfsreynsla í stjórnun að hafa úrslitaþýðingu við ráðningu í starf umsjónarmanns sjúkraflutninga en ekki að ganga vaktir.

Kærandi taki fram að í rökstuðningi Heilbrigðisstofnunarinnar fyrir ráðningu í starfið hafi komið fram að af fjárhags- og hagkvæmnisástæðum væri nauðsynlegt að ráða umsjónarmann sem tæki fullan þátt í vaktavinnu sjúkraflutningamanna. Þetta sýni að mati kæranda fram á nauðsyn þess að ráða stjórnanda með stjórnunar- og rekstrarkunnáttu. Kærandi hafi einmitt tekið fram í viðtali þegar hún hafi verið spurð „hvernig hún sæi fyrir sér að þetta starf gæti orðið“ að það þyrfti að undirbúa vel allt skipulag í kringum nýtt starf.

Kærandi áréttir að skilgreining á starfi umsjónarmanns er fram komi í greinargerð Heilbrigðisstofnunarinnar hafi ekki komið fram í auglýsingu, starfsviðtali eða í rökstuðningi og því telur kærandi ekki eðlilegt að slík skilgreining geti komið fram eftir á.

 

IV.

Sjónarmið Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Af hálfu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er á því byggt að sá karlmaður er ráðinn var í starf umsjónarmanns sjúkraflutninga hafi verið hæfastur allra umsækjenda. Áður en ákvörðun hafi verið tekin um ráðningu í starfið hafi allar umsóknir verið yfirfarnar og metnar, auk þess sem umsækjendur komu í starfsviðtöl.

Ekki hafi verið gerður sérstakur greinarmunur á störfum sjúkraflutningamanna og umsjónarmanns sjúkraflutninga enda hafi verið gengið út frá því af hálfu stofnunarinnar að starfssvið myndu skarast að verulegu leyti.

Í starfsviðtali hafi þegar verið á það bent að ljóst væri að starfsskyldur umsjónarmanns sjúkraflutninga væru einnig fólgnar í almennum störfum sjúkraflutningamanna. Þá hafi kærandi staðfest í kæru að umfjöllun um takmörkuð fjárráð stofnunarinnar hafi farið fram í starfsviðtali. Af hálfu Heilbrigðisstofnunarinnar sé byggt á því að ekki hafi verið fjárhagslegar forsendur til þess að ráða í starfið starfsmann sem einungis sinnti því starfi sem stjórnandi. Brýnar fjárhagslegar forsendur hafi staðið til þess að í starfið yrði ráðinn einstaklingur sem samhliða sinnti störfum sjúkraflutningamanna, þ.m.t. að ganga vaktir.

Kæranda hafi verið gerð grein fyrir umfangi og eðlis starfs og jafnframt hvers yrði krafist af umsjónarmanni sjúkraflutninga. Ljóst hafi verið að hugmyndir kæranda annars vegar og stofnunarinnar hins vegar um starfið hafi engan veginn farið saman. Kærandi hafi litið svo á að starfið fælist aðallega í stjórnun og að umsjónarmaður væri undanþeginn almennum skyldum sjúkraflutningamanna, þ.m.t. að ganga vaktir. Af hálfu Heilbrigðisstofnunarinnar hafi hins vegar verið talið að hvorki fjárhagslegar né starfslegar forsendur væru fyrir hendi til að ráða eingöngu stjórnanda. Heilbrigðisstofnuninni hafi borið að líta til þessara forsendna við ákvörðun um val á milli umsækjenda um starfið en í því sambandi sé á það bent að það hafi verið mat stofnunarinnar að sá sem var ráðinn hafi verið hæfasti umsækjandinn um starfið. Af hálfu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er sérstaklega vísað til þess að kærandi hafi í starfsviðtali lýst því yfir að hún hafi ekki haft áhuga á því að ganga vaktir eins og fram kemur í kæru.

Að auki bendir Heilbrigðisstofnun Suðurlands á að umsókn þess sem ráðinn var beri með sér að hann hafi búið yfir verulegri starfsreynslu og menntun á sviði sjúkraflutninga. Hann hafi verið starfandi lögreglu- og sjúkraflutningamaður hjá sýslumannsembættinu á Selfossi frá árinu 2002 og hafi jafnframt verið staðgengill varðstjóra og haft umsjón með sjúkrabifreiðum og rekstri tölvukerfis. Hann hafi starfað sem yfirkennari í fyrstu hjálp og verið verkefnisstjóri hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Frá árinu hafi hann 1999 starfað á björgunarskipinu Þór í Vestmannaeyjum, auk þess að taka virkan þátt í Björgunarfélagi Vestmannaeyja og meðal annars verið stjórnandi fjallabjörgunarhóps, leitarköfunarhóps og sjúkrahóps. Hann hafi meðal annars lokið prófi sjúkraflutningamanna árið 1999, fengið aukin ökuréttindi árið 2000, lokið neyðarflutninganámi árið 2003, lokið leiðbeiningarnámskeiði í fyrstu hjálp og skyndihjálp, björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar 2004, flokksstjóranámskeiði og leiðbeiningarnámskeiði í rústabjörgun. Á grundvelli þessara upplýsinga hafi sá sem var ráðinn verið talinn uppfylla öll skilyrði sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið.

Af hálfu Heilbrigðistofnunarinnar hafi farið fram heildstætt mat á umsækjendum með hliðsjón af því starfi er um ræddi. Við val á umsækjendum var litið til þeirrar menntunar og starfsreynslu er tengjast starfssviði sjúkraflutninga svo og annarra þátta er lúta að starfi umsjónarmanns sjúkraflutninga. Umsækjendur hafi verið upplýstir í starfsviðtali um eðli og umfang starfs svo og að umsjónarmaður sjúkraflutninga skyldi vinna á vöktum þar sem starfið væri fólgið í stjórnun sem og almennum störfum.

Starf umsjónarmanns sjúkraflutninga sé fólgið í að samhæfa starfsemina, skipuleggja vaktir, annast mönnun á vaktir, gæta að endurmenntun og símenntun starfsmanna, þjálfun þeirra, endurnýjun, viðhaldi búnaðar og þess háttar. Þegar svo beri undir geti umsjónarmaður sjúkraflutninga þurft að stjórna aðgerðum á vettvangi, til dæmis ef fjöldi manna slasast eða við náttúruhamfarir. Starf umsjónarmanns reyni því eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst á faglega hæfni, reynslu og þekkingu við eiginleg störf og þjálfun sjúkraflutningamanna. Við ráðningu í starf umsjónarmanns sjúkraflutninga hafi því einkum verið litið til þeirra þátta.

Heilbrigðisstofnunin skilgreini starf umsjónarmanns sjúkraflutninga ekki sem stjórnunarstarf á þann hátt sem kærandi kjósi að gera. Í auglýsingu vegna starfsins hafi ekki verið gerður greinarmunur á störfum sjúkraflutningamanna og umsjónarmanns sjúkraflutninga. Umsækjendum hafi verið gert þetta ljóst í starfsviðtali. Þá hafi einnig mátt vera ljóst að slíkt starf gæti á engan hátt að umfangi svarað til 100% starfs, enda stjórnun og rekstur, a.m.k. í þeim skilningi er kærandi leggi í þau hugtök, óverulegur þáttur í starfinu. Við úrlausn málsins verði að leggja til grundvallar skilgreiningu Heilbrigðisstofnunarinnar á eðli og umfangi starfs og jafnframt að starfið teljist ekki stjórnunarstarf í þeim skilningi sem kærandi byggi á. Kærandi hafi engar forsendur til að skilgreina starfið á annan hátt en stofnunin sjálf geri.

Heilbrigðisstofnunin tekur fram að í auglýsingu hafi ekki verið gerðar sérstakar kröfur um háskólamenntun. Sú afstaða byggðist á skilgreiningu stofnunarinnar á starfinu og að æskilegt væri að umsækjendur uppfylltu skilyrði um menntun og starfsreynslu við sjúkraflutninga og skyld störf. Kærandi dragi þá ályktun af auglýsingu um starf og framkomnum rökstuðningi Heilbrigðisstofnunarinnar að starf umsjónarmanns sjúkraflutninga sé nær einvörðungu stjórnunarstarf og því beri að leggja menntun umsækjenda til grundvallar vali. Kærandi byggi á því að háskólamenntun á sviði viðskipta og rekstrar, svo og meistaranám í hagnýtum hagvísindum, geri hana hæfasta allra umsækjenda. Heilbrigðisstofnunin viðurkenni að kærandi sé með meiri og lengri menntun en sá sem var ráðinn. Það hafi hins vegar verið mat stofnunarinnar að starfið væri þess eðlis að menntun og starfsreynsla, önnur en sú sem kærandi hafði, væri ákjósanlegust í þessu sambandi. Almenn stjórnun og rekstur séu einungis óverulegur hluti þess starfs sem um ræði. Meginþungi starfsins lúti að faglegum þáttum í starfsemi sjúkraflutninga. Ályktun kæranda annars efnis sé einfaldlega röng og algjörlega órökstudd.

Af hálfu Heilbrigðisstofnunarinnar er því enn fremur mótmælt er fram komi í rökstuðningi kæranda að skort hafi samanburð á þeim þáttum er skipti máli við mat á umsækjendum. Í því sambandi vísar Heilbrigðisstofnunin til framangreindra röksemda og bendir á að menntun, starfsreynsla og aðrir þættir hafi verið ólíkir milli umsækjenda. Sá einstaklingur sem ráðinn var hafi verið starfandi við sjúkraflutninga á þeim tíma er ráðning fór fram. Samhliða hafi hann verið starfandi lögreglumaður og staðgengill varðstjóra. Þá hafi hann víðtæka menntun og reynslu í fjölmörgum þáttum er lúta að faglegu starfi og endurmenntun sjúkraflutningamanna. Framangreindu til viðbótar hafi sá sem var ráðinn lokið öllum sömu námskeiðum og kærandi, þ.m.t. sjúkraflutninganámi, neyðarsímasvörun, o.s.frv.

Afstaða Heilbrigðisstofnunarinnar sé þannig sú að rökstuðningur og málatilbúnaður kæranda eigi í fæstum tilvikum við í máli þessu. Í því sambandi er bent á að sú menntun er kærandi hafi aflað sér og leggi nú stund á, hafi af hálfu stofnunarinnar hvorki verið talin nauðsynleg né eftirsóknarverð í það starf er hér um ræddi. Menntun kæranda myndi fremur teljast henni til framdráttar við önnur störf. Sá sem var ráðinn hafi verið starfandi við sjúkraflutninga þegar ráðning fór fram og hafði lengri og víðtækari reynslu af slíkum störfum en kærandi. Kærandi hafi hins vegar ekki starfað við sjúkraflutninga um árabil þegar starf umsjónarmanns hafi verið auglýst laust til umsóknar.

Kærandi haldi því fram að hún hafi verið starfsmaður Viðskiptaháskólans á Bifröst og hafi haft það hlutverk að vera fyrsti maður á vettvang slysa og veikinda. Í skjali undirrituðu af framkvæmdastjóra Nemendagarða Viðskiptaháskólans segi að kærandi hafi verið „á skrá sem fyrsti maður á vettvang til að veita fyrstu hjálp þegar slys hafi borið að höndum“. Í yfirlýsingunni hafi ekkert komið fram um að kærandi hafi verið starfsmaður. Að mati Heilbrigðisstofnunarinnar verði þessu hlutverki á engan hátt jafnað til starfsreynslu við sjúkraflutninga eða önnur störf og starfsreynslu þess sem ráðinn var.

 

V.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar ráðið var í starf umsjónarmanns sjúkraflutninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, en ráðið var í stöðuna frá og með 1. janúar 2006.

Í auglýsingu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands vegna umrædds starfs kemur meðal annars fram að lausar hafi verið til umsóknar stöður sjúkraflutningamanna og umsjónarmanns sjúkraflutninga vegna sjúkraflutninga í Árnessýslu, en að stofnunin myndi annast sjúkraflutninga frá og með 1. janúar 2006. Jafnframt kom fram að unnið væri að skipulagningu þjónustunnar, en að gert væri ráð fyrir að ráðnir yrðu sjúkraflutningamenn til að vera á bundnum vöktum og bakvöktum. Í umsögn Heilbrigðisstofnunarinnar til kærunefndar jafnréttismála er á því byggt að í auglýsingunni hafi ekki verið gerður sérstakur greinarmunur á störfum sjúkraflutningamanna og umsjónarmanns sjúkraflutninga, enda hafi verið gert ráð fyrir því af hálfu stofnunarinnar að starfssvið myndu skarast að verulegu leyti. Þá hafi komið fram í starfsviðtölum að gert hafi verið ráð fyrir því að umsjónarmaður sjúkraflutninga skyldi vinna á vöktum þar sem starfið væri fólgið hvort tveggja í stjórnun sem og almennum störfum. Framangreind sjónarmið koma einnig að nokkru fram í umsögn lækningaforstjóra stofnunarinnar til framkvæmdastjóra hennar, hinn 12. október 2005, en þá hafði kærandi leitað eftir rökstuðningi vegna ráðningarinnar.

Þótt framangreind aðgreining í starfi umsjónarmanns komi ekki skýrt fram í tilvísaðri auglýsingu verður ekki með vísan til gagna málsins að öðru leyti, talið efni til annars en að fallast á framangreindar skýringar stofnunarinnar, þar á meðal að stjórnunarhluta umrædds umsjónarmannsstarfs hafi verið ætlað að vera umfangsminni en kærandi byggir á í kæru sinni. Er þá einnig litið til þeirrar skýringar að stofnunin hafi ekki talið fjárhagslegar forsendur fyrir því að hafa umsjónarmann eingöngu í stjórnunarstöðu.

Í kæru sinni til kærunefndarinnar vísar kærandi meðal annars til starfsviðtals sem tekið var við hana, en þar hafi komið fram hjá kæranda að hún hafi ekki haft áhuga á að ganga vaktir. Kærandi lýsti því hins vegar yfir að hún gæti verið til taks allan sólarhringinn þannig að til staðar væri stjórnandi, en kærandi taldi það sérstaklega mikilvægt með tilliti til þess að verið væri að hefja rekstur sjúkraflutninga á nýjum stað með nýju fólki.

Viðurkennt er að atvinnurekendum er almennt játað frelsi til að ákveða fyrirkomulag starfsemi sinnar og skipulag hennar, m.a. varðandi fyrirkomulag einstakra starfa. Á þetta ekki hvað síst við í reynd þegar um mótun nýrrar starfsemi er að ræða, samanber og orðalag auglýsingar vegna umræddra starfa. Svo sem að framan er rakið var af hálfu Heilbrigðisstofnunarinnar byggt á því við ráðningu í starfið, þrátt fyrir óljóst orðalag auglýsingarinnar að þessu leyti til, að viðkomandi umsjónarmaður gengi einnig almennar vaktir sem sjúkraflutningamaður. Þá liggur fyrir að kærandi hafði ekki áhuga á að ganga slíkar vaktir. Þegar af þessum ástæðum, og með vísan til þess að telja má framangreindan rökstuðning Heilbrigðisstofnunarinnar málefnalegan, er ekki talið að leiddar hafi verið líkur að því að umdeild ákvörðun um ráðningu karlmanns hafi tengst kynferði kæranda sérstaklega. Rétt er að taka fram að kærandi hefur ekki tengt það kynferði sínu að hún hafði ekki haft áhuga á að ganga vaktir.

Með vísan til framanritaðs og þess sem fyrir liggur að öðru leyti um umrætt starf og um menntun og reynslu þess sem ráðinn var, er það álit kærunefndar jafnréttismála, að Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta