Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Aukin jákvæðni og ferðavilji til Íslands​

Samkvæmt greiningu Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) er Ísland í hópi þeirra landa í Evrópu sem hafa orðið fyrir hvað mestum samdrætti í komum ferðamanna á árinu. Malta, Portúgal og Serbía eru með álíka fækkun en þau lönd sem hafa orðið hvað verst úti eru Kýpur, Svartfjallaland, Rúmenía og Tyrkland með um eða yfir 77% fækkun. Þá hefur samdráttur í ferðaþjónustu einnig mikil áhrif á afkomu og störf í fjölmörgum öðrum atvinnugreinum s.s. landbúnaði, verslun, samgöngum og byggingariðnaði. 

Í Jafnvægisás ferðamála, sem er stjórntæki til að meta reglulega áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins, eru sex mælikvarðar skilgreindir undir flokknum þjóðhagslegar stærðir. Á árinu 2017 var einn þeirra undir þolmörkum (hlutdeild í VLF), fjórir farnir að nálgast þolmörk (framlag til hagvaxtar, framleiðni vinnuafls, meðallaun, og afkoma greinarinnar), og einn yfir þolmörkum (hlutdeild í útflutningi). Staðan var þó heilt yfir metin sem svo að vera hvorki undir né yfir þolmörkum. Endurreisn ferðaþjónustunnar er ein helsta forsenda skjóts efnahagsbata eftir að faraldrinum linnir.

„Íslensk ferðaþjónusta stendur á styrkum stoðum. Við höfum sett tugi milljarða í innviðauppbyggingu undanfarin ár. Við eigum skýran stefnuramma fyrir greinina til ársins 2030 sem unnin var í samráði við greinina og sveitarstjórnarstigið. Sú stefna stendur óhögguð þegar  COVID-tímabilinu lýkur. Við byggjum á þeim grunni og sækjum fram um leið og færi gefst. Búast má við því að ferðamenn muni sækja í örugga áfangastaði þar sem góðir innviðir eru til staðar og nægt pláss til athafna. Ísland, sem strjálbýlasta land Evrópu með stórbrotna náttúru og víðerni, verður eftirsóknarverður áfangastaður þegar fólk fer að ferðast á ný eftir COVID-19 faraldurinn,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.  

Ísland hefur fengið töluverða athygli í erlendum fjölmiðlum fyrir viðbrögð við heimsfaraldrinum og samkvæmt nýlegri greiningu á vegum Íslandsstofu má greina aukna jákvæðni og ferðavilja á mörkuðum eftir að fréttir af bóluefni komu fram auk þess sem merkja má aukningu í leitarfyrirspurnum um Ísland sem áfangastað.

Mikill samdráttur

Ljóst er að COVID-19 faraldurinn hefur valdið gífurlegum samdrætti í alþjóðlegum ferðalögum um heim allan og á Íslandi. Nýjustu tölur Alþjóðaferðamálastofnunarinnar (UNWTO) sýna 70% samdrátt í fjölda ferðamanna á heimsvísu og 68% í Evrópu fyrir tímabilið janúar-ágúst 2020. Samkvæmt Ferðamálastofu var samdráttur í brottförum erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll fyrir sama tímabil 74.Nýjustu tölur sýna að 467.000 erlendir farþegar fóru frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll á tímabilinu janúar–október 2020 samanborið við 1,7 milljón farþega árið 2019, sem jafngildir 73% samdrætti milli ára.  

Enn ríkir mikil óvissa um viðsnúning ferðaþjónustu næstu mánuði og ár en fréttir af bóluefni og bólusetningum, sem sums staðar eru þegar hafnar, gefa tilefni til bjartsýni. Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, Seðlabanki Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar gera ráð fyrir því að ferðamenn verði á bilinu 750 – 950 þúsund árið 2021. Búast má við að viðsnúningur hefjist fyrir alvöru á þriðja ársfjórðungi, en að breytingar verði greinilegar frá og með apríl 2021

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta