Formreglna verði gætt við breytingar á samþykktum
Í tilefni úrskurðar sem kveðinn hefur verið upp í máli er laut að heimild sveitarfélags til þess að breyta samþykktum sínum vill samgönguráðuneytið beina þeim tilmælum til sveitarfélaga að við slíkar breytingar sé gætt þeirra formreglna sem kveðið er um í sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998.
Niðurstaða ráðuneytisins í fyrrgreindu máli var sú að sveitarfélög geti á grundvelli 10. gr. sveitarstjórnarlaga sjálf ráðið innviðum stjórnsýslu sinnar og haft vald og svigrúm til þess að móta stjórnsýslu innan síns sveitarfélags, svo framarlega sem slík breyting brjóti ekki í bága við almenn ákvæði laga. Ráðuneytið taldi hins vegar að málsmeðferð sú sem viðhöfð var við breytinguna hafi verið haldin ákveðnum annmörkum, en ekki var gætt að því skilyrði sveitarstjórnarlaga að hafa a.m.k. viku milli umræðna um breytingatillöguna í sveitarstjórn. Þá fann ráðuneytið einnig að því að sveitarstjórn beitti hinu breytta ákvæði áður en breytingin á samþykktinni hafði hlotið staðfestingu ráðuneytisins.
Úrskurðinn er unnt að nálgast á vefsíðu ráðuneytisins.